Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1954, 150. löggjafarþing 721. mál: ársreikningar og endurskoðendur og endurskoðun (gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra félaga).
Lög nr. 102 9. júlí 2020.

Lög um breytingu á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur og endurskoðun (gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra félaga).


I. KAFLI
Breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 9. tölul. 2. gr. laganna bætast fimm nýir stafliðir, e–i-liður, svohljóðandi:
 1. lögaðili sem á fiskiskip með aflahlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul., sem og lögaðili sem hefur rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul.,
 2. stórnotandi, dreifiveita eða flutningsfyrirtæki samkvæmt skilgreiningum raforkulaga, sem telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul., sem og lögaðili sem starfrækir raforkuver/virkjun samkvæmt skilgreiningu raforkulaga, eða hitaveitu samkvæmt skilgreiningu orkulaga, og telst vera stórt félag í skilningi laganna,
 3. lögaðili sem hefur flugrekstrarleyfi samkvæmt lögum um loftferðir og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul.,
 4. lögaðili sem hefur leyfi til rekstrar fjarskiptanets samkvæmt lögum um fjarskipti og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul.,
 5. lögaðili sem sinnir farmflutningum samkvæmt siglingalögum og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul.


2. gr.

     66. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Viðbótarupplýsingar um árangur, áhættu og óvissuþætti.
     Í skýrslu stjórnar félaga skv. 9. tölul. 2. gr. og félaga skv. c- og d-lið 11. tölul. 2. gr. skal til viðbótar við upplýsingar skv. 65. gr. veita glöggt yfirlit yfir árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og þróun ásamt lýsingu á megináhættu og óvissuþáttum sem það stendur frammi fyrir. Þá skal skýrsla stjórnar, eftir því sem við á, hafa að geyma tilvísanir til fjárhæða sem settar eru fram í ársreikningi og frekari skýringar á þeim.
     Í viðbótarupplýsingum skv. 1. mgr. skal enn fremur fjallað um, eftir því sem við á:
 1. áhrif ytra umhverfis á félagið og ráðstafanir sem hindra, draga úr eða bæta tjón sem það verður fyrir,
 2. mikilvægar vísbendingar um ófjárhagslegan árangur, þ.m.t. upplýsingar um umhverfis- og starfsmannamál og þekkingarforða félagsins ef hann skiptir verulegu máli fyrir tekjuöflun í framtíðinni,
 3. tilvist útibúa félagsins erlendis,
 4. rannsóknar- og þróunarstarfsemi þegar slík starfsemi skiptir verulegu máli fyrir rekstur félagsins,
 5. meginmarkmið og stefnu við áhættustýringu þar sem eignarhald eða notkun fjármálagerninga skiptir verulegu máli við mat á eignum, skuldum, fjárhagsstöðu, hagnaði eða tapi; upplýsa skal hvernig mat á einstökum liðum í reikningsskilum byggist á slíkri markmiðssetningu í áhættustýringu og þeim áhættuþáttum sem máli geta skipt við mat á eignum og skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu; gera skal grein fyrir markaðsáhættu, þ.e. vaxta-, gjaldeyris- og hlutabréfaáhættu, sem og útlána-, fjármögnunar- og lausafjáráhættu í rekstri félagsins.

     Heimilt er að veita upplýsingar skv. 3.–5. tölul. 2. mgr. í skýringum með ársreikningi í stað skýrslu stjórnar enda sé tilgreint í skýrslu stjórnar hvaða þættir í 3.–5. tölul. 2. mgr. sæti umfjöllun í skýringum með ársreikningi ásamt vísunum til viðeigandi skýringarliða.
     Í skýrslu stjórna félaga skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal enn fremur gera grein fyrir samanburði á raunverulegri afkomu félagsins og rekstraráætlun þess hafi hún verið birt opinberlega ásamt skýringum á helstu frávikum.

3. gr.

     1. málsl. 66. gr. b laganna orðast svo: Í félögum skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr., félögum skv. 9. tölul. 2. gr. og félögum sem falla undir d-lið 11. tölul. 2. gr. og í móðurfélögum stórra samstæðna skal hver og einn stjórnarmaður undirrita yfirlýsingu þar sem fram kemur nafn hans og verksvið innan stjórnar félagsins.

4. gr.

     1. mgr. 66. gr. c laganna orðast svo:
     Félög skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr., félög skv. 9. tölul. 2. gr. og félög sem falla undir d-lið 11. tölul. 2. gr. og móðurfélög stórra samstæðna skulu árlega birta yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í sérstökum kafla í skýrslu stjórnar.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. d laganna:
 1. 1. og 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Félög skv. 9. tölul. 2. gr. og félög sem falla undir d-lið 11. tölul. 2. gr. og móðurfélög stórra samstæðna skulu láta fylgja í yfirliti með skýrslu stjórnar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif félagsins. Að lágmarki skal fjalla um umhverfis-, samfélags- og starfsmannamál og gera grein fyrir stefnu félagsins í mannréttindamálum og hvernig félagið spornar við spillingar- og mútumálum.
 2. Í stað orðsins „stutta“ í a-lið 1. mgr. kemur: hnitmiðaða.
 3. Við 5. mgr. bætist: enda komi þessar upplýsingar fram í skýrslu stjórnar í samstæðureikningi móðurfélags og dótturfélaga þess.


6. gr.

     4. mgr. 109. gr. laganna orðast svo:
     Ársreikningaskrá skal birta gögn sem skilaskyld eru samkvæmt þessari grein á opinberu vefsvæði. Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um gjaldtöku fyrir annars konar afhendingu gagna.

II. KAFLI
Breyting á lögum um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019.

7. gr.

     Við 3. tölul. 2. gr. laganna bætast fimm nýir stafliðir, e–i-liður, svohljóðandi:
 1. Lögaðili sem á fiskiskip með aflahlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga. Einnig lögaðili sem hefur rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
 2. Stórnotandi, dreifiveita eða flutningsfyrirtæki samkvæmt skilgreiningum raforkulaga sem telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga. Einnig lögaðili sem starfrækir raforkuver/virkjun samkvæmt skilgreiningu raforkulaga, eða hitaveitu samkvæmt skilgreiningu orkulaga, og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
 3. Lögaðili sem hefur flugrekstrarleyfi samkvæmt lögum um loftferðir og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
 4. Lögaðili sem hefur leyfi til rekstrar fjarskiptanets samkvæmt lögum um fjarskipti og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.
 5. Lögaðili sem sinnir farmflutningum samkvæmt siglingalögum og telst vera stórt félag í skilningi d-liðar 11. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga.


8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2020 eða síðar. Þó öðlast ákvæði 6. gr. gildi 1. janúar 2021 og ákvæði 1. og 7. gr. öðlast gildi og koma til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2021 eða síðar.

Samþykkt á Alþingi 29. júní 2020.