Ferill 522. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1983  —  522. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni um aðgreiningu á afkomu ÁTVR af sölu áfengis og sölu tóbaks.


     1.      Hver er heildarafkoma ÁTVR af sölu áfengis annars vegar og heildsölu tóbaks hins vegar? Óskað er eftir sundurliðun fyrir árin 2013–2018.
    ÁTVR greinir ekki í sundur rekstrarkostnað eftir áfengi annars vegar og tóbaki hins vegar. Árið 1961 voru Áfengisverslun ríkisins og Tóbaksverslun ríkisins sameinaðar í eina stofnun Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR. Nú er verslunin rekin sem ein heild og rekstrarkostnaði ekki haldið aðskildum enda ekki gerð krafa um slíkt, hvorki í lögum né af hálfu eiganda. Samlegðaráhrif við sameininguna voru mikil og allur rekstur, svo sem yfirstjórn, húsnæði, starfsfólk, tæki, búnaður, tölvukerfi o.s.frv., sameinaður. Framlegð af áfengissölu annars vegar og tóbakssölu hins vegar er haldið sér og birt í ársskýrslu. Frá stofnun hefur ÁTVR aldrei verið rekin með tapi. Áhersla er lögð á að reksturinn sé hagkvæmur og skili eiganda sínum hæfilegum arði.
    Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með rekstri ÁTVR og endurskoðar reikningana. Það fyrirkomulag hefur verið við lýði í áratugi. Eftirfarandi er bein tilvitnun í áritun Ríkisendurskoðunar í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2019: „Það er álit ríkisendurskoðanda að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu ÁTVR 31. desember 2019, afkomu þess og breytingu á handbæru fé á árinu 2019, í samræmi við lög um ársreikninga.“
    Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir heildartekjur, vörunotkun og framlegð af áfengi og tóbaki fyrir árin 2013–2019:

Millj. kr. 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019
Heildartekjur
Tekjur – áfengi 18.267 19.135 19.844 23.723 25.019 25.849 27.275
Tekjur – tóbak 9.133 9.510 9.530 9.335 9.252 9.442 9.594
Tekjur samtals 27.400 28.645 29.374 33.058 34.271 35.291 36.869
Vörunotkun
Vörunotkun – áfengi 15.604 16.361 16.966 20.131 21.396 22.031 23.342
Vörunotkun – tóbak 7.717 8.018 8.061 7.906 7.669 7.793 7.909
Vörunotkun samtals 23.321 24.379 25.027 28.037 29.065 29.824 31.251
Framlegð
Framlegð – áfengi 2.663 2.774 2.878 3.592 3.622 3.818 3.933
Framlegð – tóbak 1.416 1.492 1.469 1.429 1.583 1.649 1.685
Framlegð samtals 4.079 4.266 4.347 5.021 5.205 5.467 5.618

    Álagning ÁTVR var lögfest árið 2009 með lögum nr. 149/2008. Fram að þeim tíma var álagningin í höndum fjármálaráðherra, sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 883/2005. Fyrirkomulaginu var breytt í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis, nr. 5035/2007. Nú er það í höndum Alþingis að ákvarða álagningu ÁTVR og hvernig hún skiptist á milli áfengis og tóbaks.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ÁTVR gefi framvegis gleggri mynd af afkomu fyrirtækisins í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, með því að greina á milli afkomu þess af sölu tóbaks annars vegar og áfengis hins vegar?
    Í ársreikningi ÁTVR árið 2019 kemur fram það álit ríkisendurskoðanda að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu ÁTVR og sé í samræmi við lög um ársreikninga. Ráðuneytið hefur því ekki uppi áform um að skylda ÁTVR til að leggja fram ársreikninga sína með öðrum hætti en nú er gert. Hins vegar hefur ráðuneytið til skoðunar hvort hægt væri að auka gagnsæi m.a. með því að tilgreina sérstaklega afkomu hverrar rekstrareiningar, þ.e. þeirra verslana sem ÁTVR rekur.