Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 353  —  151. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um barna- og unglingageðdeild Landspítalans.


     1.      Hver er í einstökum atriðum verkaskipting milli göngudeildar og legudeildar barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL)? Hvert er hlutverk þessara deilda og hvaða starfsemi og þjónustu annast hvor deild um sig?
    Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) sinnir börnum og unglingum af öllu landinu með flókinn og samsettan geðrænan vanda eða alvarleg geðræn einkenni. Frá árinu 2009 hefur BUGL starfað innan kvenna- og barnasviðs Landspítala en var áður hluti af geðsviði hans. Fagfólk BUGL sérhæfir sig í greiningu og meðferð geðraskana og veitir skjólstæðingum sínum og fjölskyldum þeirra þverfaglega þjónustu í samræmi við þarfir þeirra og aðstæður. Á BUGL er lögð áhersla á samstarf og samvinnu við aðra þjónustuaðila sem sinna geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og jafnframt er BUGL í góðu samstarfi við heilsugæslu, félagsþjónustu, skólaþjónustu og barnavernd í nærumhverfi barna. Sem hluti af háskólasjúkrahúsi tekur BUGL einnig þátt í grunn- og framhaldsmenntun heilbrigðisstétta.
    Á BUGL er veitt tvenns konar þjónusta, það er annars vegar göngudeildarþjónusta og hins vegar innlagnir á legudeild. Á göngudeild starfa þverfagleg teymi. Teymin vinna bæði að greiningu og meðferð þeirra skjólstæðinga sem glíma við fjölþættan og flókinn vanda sem þarfnast aðkomu margra fagaðila og ýmissa meðferðarúrræða, svo sem fjölskyldu-, hóp- og einstaklingsmeðferða. Gerð er meðferðaráætlun fyrir hvert barn í almennri göngudeildarþjónustu í samráði við forsjáraðila og barn. Auk þess eru starfrækt nokkur sérhæfð teymi innan göngudeildar, svo sem átröskunarteymi og taugateymi.
    Allar tilvísanir á BUGL eru metnar af inntökuteymi sem tekur ákvörðun um hvort þörf sé á þjónustu göngudeildar. Í október 2020 voru 107 börn á biðlista eftir þjónustunni og meðalbiðtími um 6,6 mánuðir. Fjöldi barna sem fengu þjónustu göngudeildar árið 2019 var 845 og komur á deildina það árið voru samtals 8193. Á göngudeild starfar jafnframt bráðateymi sem sinnir bráðaþjónustu fyrir börn með bráðan geðrænan vanda. Bráðateymi BUGL metur hvort mál krefjist tafarlausrar íhlutunar og tekur afstöðu til þess hvort þörf sé á bráðainnlögn á legudeild. Árið 2019 voru 264 nýkomur í bráðateymi. Legudeild BUGL tekur á móti bráðatilfellum allan sólarhringinn. Þar geta að hámarki dvalið 17 börn annaðhvort daglangt eða allan sólarhringinn. Á legudeild er veitt meðferð sem einungis er mögulegt að veita á lokaðri deild. Börn sem eru í þjónustu göngudeildar geta lagst inn af biðlista á legudeild BUGL. Ástæða þess er þá sú að fjölskyldan þarfnast viðameiri þjónustu en hægt er að veita í göngudeildarþjónustu. Í tengslum við innskrift barns af biðlista eiga tengiliðir barna á göngudeild náið samstarf við teymi barns á legudeild BUGL. Gerð er einstaklingsmiðuð meðferðaráætlun fyrir hvert barn og lögð áhersla á virka þátttöku foreldra. Þau börn sem dvelja á legudeild geta stundað nám í Brúarskóla sem rekur starfsstöð á lóð BUGL. Miðað er við að innlögn á deildinni geti varað í allt að tvo mánuði. Meðallegutími barna á legudeild BUGL í janúar– júní 2020 var 19 dagar.

     2.      Hafa verið gerðar úttektir á starfsemi göngudeildar og legudeildar á BUGL og ef svo er, hverjar? Telur ráðherra, í ljósi slíkra úttekta, að skipan mála á BUGL sé heppileg eins og henni er háttað nú?
    BUGL er í samstarfi við breska stofnun QNCC/QNIC sem hefur gert reglubundnar úttektir á gæðum faglegrar þjónustu á BUGL. Á árabilinu 2013–2016 voru eftirfarandi úttektir gerðar á vegum þeirrar stofnunar auk þess sem embætti landlæknis og Ríkisendurskoðun gerðu úttekt á þjónustunni:
     *      2013. QNCC/QNIC ( Quality Network for Community CAMHS/Quality Network for Inpatient CAMHS).
     *      2015, apríl. Embætti landlæknis gerði úttekt á gæðum og öryggi þjónustu á barna- og unglingageðdeild Landspítala. Að auki gerir embættið reglulegar athuganir á biðlista- og starfsemistölum BUGL.
     *      2016, febrúar. Úttekt Ríkisendurskoðunar: Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga. Annað og þriðja þjónustustig.
     *      2016. QNCC (Quality Network for Community CAMHS).
    Til viðbótar framangreindum úttektum þá eru á legudeild BUGL reglulega gerðar ópersónugreinanlegar þjónustukannanir þar sem bæði börn eldri en 12 ára og foreldrar þeirra eru m.a. spurð út í viðmót starfsfólks og gagnsemi þjónustunnar. Einnig er árangur flestra meðferðarúrræða göngudeildar BUGL metinn fyrir og eftir meðferð með könnun. Stjórnendur BUGL fylgjast síðan náið með lykilmælikvörðum starfseminnar, svo sem komutölum, fjölda í meðferð, fjölda á biðlista, meðalbiðtíma, meðalmeðferðartíma á göngudeild og meðallegulengd ásamt endurinnlögnum á legudeild. Að lokum má geta þess að mannauðssvið Landspítala fylgist með lykilmælikvörðum mannauðs, svo sem veikindatíðni, starfsánægju og gæðum stjórnunar, auk þess sem Landspítali er árlega þátttakandi í könnuninni „Stofnun ársins“.
    Þegar spurt er um mat ráðherra á skipan mála í ljósi slíkra úttekta er rétt að benda á að skipulag heilbrigðisþjónustu er í sífelldri þróun. Það á einnig við um skipulag þjónustu BUGL og stjórnskipulag þar. Heilbrigðisvísindum fleygir stöðugt fram og mikilvægt er að skipulag heilbrigðisþjónustu taki mið af þeim framförum. Hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu barna er aukin áhersla á geðrækt, forvarnir og snemmtækar íhlutanir í nærumhverfi, sbr. svar við 5. tölul. fyrirspurnarinnar. Vonir standa til þess að þeir áhersluþættir dragi úr þörfum fyrir innlagnir í framtíðinni. Úttektir á þjónustunni eru liður í því að draga fram hvort rétt skref eru stigin og leiðbeina um frekari mótun þjónustunnar.

     3.      Hvernig er háttað bráðaþjónustu við einstaklinga sem falla innan aldurstakmarkana BUGL? Hvar fer sú þjónusta fram?
    Markmið bráðaþjónustu er að tryggja öryggi barns og meta hvort þörf sé á bráðainnlögn. Bráðateymi göngudeildar BUGL sinnir bráðatilvikum allan sólarhringinn, allan ársins hring. Bráðaþjónusta fer fram í göngudeild BUGL á dagvinnutíma en utan dagvinnutíma fer bráðaþjónustan fram á bráðamóttökum Landspítala. Forvakt, sem samanstendur af fagfólki bráðateymis og sérnámslæknum, ásamt sérfræðingi í barna- og unglingageðlækningum, sinnir þeirri ráðgjöf. Bráðatilvik telst m.a. meint yfirvofandi sjálfsvígshætta, sjálfsvígstilraun eða ef grunur er um geðrof eða oflæti.
    Legudeild BUGL er bráðadeild og er alltaf opin. Innskriftir geta átt sér stað hvenær sem er sólarhrings og bráðainnlagnir eru 85% af innskriftum á legudeild BUGL. Þarfnist barn bráðrar innlagnar vegna geðræns vanda er biðtími enginn, barnið fær þjónustu strax. Endurmat á þörf fyrir innlögn er gert eftir 1–3 sólarhringa en fyrr ef nauðsyn krefur. Í bráðainnlögn er megintilgangur að tryggja öryggi barns. Auk þess er alltaf veitt umhverfismeðferð og fjölskyldustuðningur byggður á tengslamiðaðri nálgun. Sálfræðingur, sérfræðilæknir og hjúkrunarfræðingar koma að mati á útskriftarhæfni barns. Sé geðrænn vandi barns þess eðlis að þörf er á áframhaldandi innlögn er lega framlengd og meðferðaráætlun sem tekur mið af þörfum barna og fjölskyldna gerð í samráði við þau.

     4.      Telur ráðherra æskilegt að sett verði á laggirnar bráðadeild á vettvangi BUGL?
    Legudeild BUGL er bráðadeild, sbr. svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.

     5.      Hvaða þjónusta er veitt af hálfu BUGL utan Landspítalans, t.d. í formi heimaþjónustu?
    Leitast er við að þjónusta legudeildar BUGL taki mið af þörfum hverrar fjölskyldu og því er meðferðaráhersla og útfærsla á þjónustu við hverja fjölskyldu mismunandi þar sem hún er aðlöguð að þörfum hverrar fjölskyldu fyrir sig. Framangreint leiðir m.a. af sér að viðvera innskrifaðra barna, að framkvæmdu áhættumati, er ólík. Sum börn dvelja yfir daginn, önnur yfir nótt, sum koma jafnvel ekki sjálf á deildina heldur eingöngu foreldrar þeirra. Á sama tíma fær fjölskyldan þjónustu frá starfsfólki deildarinnar í nærumhverfi, svo sem á heimili og í skóla. Að auki er lagt upp úr því að sem minnst rask verði á lífi barns og fjölskyldu þrátt fyrir þörf þeirra fyrir þjónustu deildarinnar. Það felur í sér að reynt er að viðhalda jákvæðum þáttum daglegs lífs, svo sem samvistum við foreldra og skólasókn, þegar það er gerlegt, en einnig varna því að deildin hafi af barninu þroskatækifæri með dvöl á deild. Svokölluð vettvangsþjónusta hefur reynst vel sem þjónustuform í átt að því markmiði.
    Sérstök samráðsteymi lúta að samvinnu heilsugæslu, BUGL, félags- og skólaþjónustu og barnavernd í nærumhverfi, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsvísu. BUGL á samvinnu við alls 19 samráðsteymi. BUGL tók þátt í 164 samráðsfundum með heilsugæslu og aðilum frá nærumhverfi á árinu 2019 þar sem tekin voru upp 1095 mál í þverfaglegu samráði. Í samráðsteymunum er veittur stuðningur og ráðgjöf við nærumhverfi með leyfi eða upplýstu samþykki foreldra. Markmið með samráðinu er að auka gæði þjónustunnar með snemmtækri íhlutun, betri eftirfylgd skjólstæðinga BUGL og mögulega koma í veg fyrir tilvísanir og innlagnir á BUGL. Þetta fyrirkomulag er talið jákvætt og leiða til þess að börnin fái „réttari“ þjónustu fyrr, ásamt því að það skapar góð tengsl og samvinnu við nærumhverfi þvert á kerfi sem skilar sér í betri gæðum þjónustu til lengri og skemmri tíma.
    Ýmis ráðgjöf er veitt af fagfólki BUGL, bæði símleiðis, með tölvupósti eða með viðtali við skjólstæðinga eftir því sem við á. Síðastliðin tíu ár hefur töluverð starfsemisþróun átt sér stað á BUGL. Þessi þróun hefur orðið samhliða aukinni þekkingu og þróun í faginu á heimsvísu. Ýmis úrræði hafa orðið til sem BUGL hefur átt frumkvæði að eða hefur tekið þátt í að þróa, svo sem samráðsteymi við heilsugæslu, barnavernd, félags- og skólaþjónustu, í nærumhverfi, bæði á höfuðborgarsvæði og á landsvísu.

     6.      Hvaða þjónusta er veitt af hálfu BUGL á landsbyggðinni?
    BUGL veitir þjónustu á landsvísu. Barna- og unglingageðteymi (BUG-teymi) var stofnað á Sjúkrahúsinu á Akureyri í samvinnu við BUGL. BUG-teymið sinnir göngudeildarþjónustu á Norðurlandi og á Austurlandi að hluta en börn frá þessum svæðum koma jafnframt á BUGL þegar þörf er á. Síðastliðin ár hefur BUGL í vaxandi mæli tekið upp samráð við heilbrigðisstofnanir úti á landi í gegnum fjarfundi og hefur það samstarf gengið vel, sbr. svar við 5. tölul. fyrirspurnarinnar.