Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 382  —  246.
mál.Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um viðbrögð við aðgerðum bandarískra stjórnvalda gegn meðafla sjávarspendýra.


     1.      Hver eru viðbrögð ráðherra við reglum bandarískra stjórnvalda um vernd sjávarspendýra við veiðar (Marine Mammal Protection Act), sem taka gildi í ársbyrjun 2022, og hvaða vinna hefur farið fram innan ráðuneytisins í tengslum við þær?
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ásamt utanríkisráðuneytinu og hagsmunaaðilum hafa fylgst náið með framvindu málsins. Fulltrúar ráðuneytanna hafa átt fundi og verið í sambandi við stjórnvöld í Bandaríkjunum ásamt því að samráð hefur verið við fulltrúa sjávarútvegsráðuneyta í næstu nágrannalöndum okkar.
    Ráðherra skipaði í maí 2020 samráðshóp um málið undir forystu starfsmanns atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þar eiga einnig sæti fulltrúar frá utanríkisráðuneyti, Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssambandi smábátaeigenda og Samtökum smærri útgerða. Samráðshópnum er ætlað er að vera til ráðgjafar um samskipti íslenskra stjórnvalda við Bandaríkin vegna málsins. Hópurinn hefur að auki það hlutverk að vera vettvangur til skoðanaskipta og mótunar viðbragða sem og að miðla upplýsingum til greinarinnar um kröfur Bandaríkjanna um aðgerðir til að lágmarka áhrif fiskveiða og fiskeldis á sjávarspendýr.
    Meðal aðgerða sem ráðist hefur verið í til að stuðla að frekari verndun sjávarspendýra vegna áhrifa fiskveiða eru þær sem hér segir:
    Með lögum nr. 36/2019 um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði og í framhaldi reglugerð nr. 1100/2019 hafa beinar veiðar á sel verið bannaðar. Frá þessu er að vísu undantekning, en hún nær aðeins til leyfisveitinga til veiða bænda í netlögum sjávarjarða til eigin nota. Með þessu er t.d. bannað að skjóta sel til að fæla frá fiskeldiskvíum.
    Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa tekið þátt í alþjóðlegum fundum og vísindasamstarfi varðandi meðafla sjávarspendýra, rannsóknir og aðferðir til lágmörkunar meðafla þeirra, svo sem notkun hljóðfælna á veiðarfæri.
    Síðastliðið haust skipaði ráðherra vinnuhóp um aðgerðir til að bregðast við meðafla sjófugla og sjávarspendýra við veiðar á grásleppu. Í skýrslu vinnuhópsins til ráðherra er m.a. lagt til aukið eftirlit með grásleppuveiðum og að grásleppusjómenn verði hvattir til bættrar skráningar meðafla.
    Í reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2020 var gerð sú breyting frá eldri reglum að 14 veiðisvæðum, frá Faxaflóa til Skagafjarðar, var lokað fyrir veiðum til að draga úr líkum á meðafla sjávarspendýra.

     2.      Að hvaða leyti gætu þessar reglur snert notkun á einstökum gerðum veiðarfæra og veiðar á einstökum fisktegundum?
    Samkvæmt áætluðum tölum Hafrannsóknastofnunar um meðafla sjávarspendýra íslenska fiskiskipaflotans eru aðeins landselur og útselur yfir meðaflamarki samkvæmt reglum Bandaríkjanna. Þessar selategundir koma sem meðafli við veiðar í botnvörpu og net, þ.m.t. þorskanet og grásleppunet. Mestur hluti meðaflans kemur í grásleppunet.

     3.      Hvert er mat ráðuneytisins á því hvernig þessar reglur geti haft áhrif á útflutning sjávarafurða frá Íslandi til Bandaríkjanna?
    Viðbúið er að sjávarafurðir úr veiðum þar sem meðafli er yfir mörkum þeim sem Bandaríkin reikna fyrir einstaka stofna sjávarspendýra fái ekki innflutningsleyfi á markað þar í landi eftir að reglurnar taka gildi. Verði sótt um leyfi til innflutnings á grásleppuafurðum til Bandaríkjanna eru einhverjar líkur á að afurðir úr öllum veiðum sem samanlagt fara yfir meðaflamark lendi í sömu takmörkunum, þ.e. allar veiðar þar sem land- eða útselur kemur í veiðarfæri. Ekki liggur þó fyrir endanleg afgreiðsla bandarískra yfirvalda á því hvernig verður farið með afurðir úr mismunandi veiðum frá einstökum löndum.

     4.      Hvaða viðbrögð eru fyrirhuguð í ljósi þess að fyrir 28. febrúar 2021 þarf að skila til bandarískra stjórnvalda upplýsingum um meðafla og aðgerðir stjórnvalda til að lágmarka hann, auk þess að uppfylla kröfur sem gerðar verða til veiða?
    Upplýst skal að 2. nóvember 2020 sendu bandarísk stjórnvöld frá sér tilkynningu um að innleiðingu umræddra reglna hefði verið frestað til 1. nóvember 2021 og taka aðgerðir samkvæmt þeim gildi 1. janúar 2023, eða ári síðar en upphaflega hafði verið boðað.
    Íslensk stjórnvöld hafa nú þegar ýtt af stokkunum aðgerðum til að bregðast við kröfum Bandaríkjanna eins og að framan er rakið. Þeim aðgerðum er ætlað að minnka meðafla við fiskveiðar, einkum grásleppuveiðar, sem og að bregðast við bágri stöðu selastofna við Ísland.
    Áhersla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að byggja allar aðgerðir á traustum vísindalegum grunni og taka þátt í tvíhliða, alþjóðlegu sem og svæðisbundnu samstarfi um þróun aðferða til að lágmarka meðafla sjávarspendýra.