Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 430  —  5. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Guðrúnu Ingu Torfadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Maríu Jónu Magnúsdóttur og Jón Trausta Ólafsson frá Bílgreinasambandinu, Bergþór Karlsson, Gunnar Val Sveinsson, Sævar Sævarsson, Hendrik Berndsen, Þráin Lárusson, Jakob E. Jakobsson og Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá BSRB, Eyþór Mána Steinarsson frá Hopp Mobility, Þóreyju S. Þórðardóttur og Gylfa Jónasson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Ólaf K. Ólafs, Snædísi Ögn Flosadóttur, Ólaf Pál Gunnarsson og Jón L. Árnason f.h. ellefu minni og meðalstórra lífeyrissjóða (Brú – lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Lífsverk lífeyrissjóður, Íslenski lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður bankamanna, Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Eftirlaunasjóður FÍA, Lífeyrissjóður bænda, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, Lífeyrissjóður Rangæinga og Lífeyrissjóður tannlæknafélags Íslands), Guðmund Þór Guðmundsson frá þjóðkirkjunni, Steindór Haraldsson, Óskar Magnússon og Valgerði Sverrisdóttur frá Sóknasambandi Íslands, Auði Önnu Magnúsdóttur frá Landvernd og Önnu Maríu Allawawi Sonde og Sögu Maríu Sæþórsdóttur.
    Umsagnir bárust frá Önnu Maríu Allawawi Sonde og Sögu Maríu Sæþórsdóttur, Bílgreinasambandinu og Samtökum ferðaþjónustunnar, BSRB, Gísla Jónassyni, Hopp Mobility ehf., Landssamtökum Lífeyrissjóða, Landvernd, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Ólafi K. Ólafs f.h. ellefu minni og meðalstórra lífeyrissjóða, Samtökum ferðaþjónustunnar, Seljakirkju, Seðlabanka Íslands, Sóknasambandi Íslands og þjóðkirkjunni.

Umfjöllun nefndarinnar.
Eftirlitsgjald með lífeyrissjóðum.
    Í 15. gr. frumvarpsins eru lagðar til ýmsar breytingar á 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, m.a. er lögð til hækkun á því fastagjaldi sem lífeyrissjóðirnir greiða til að standa straum af eftirliti. Hlutfall fastagjaldsins af heildarálagningu lífeyrissjóða verður því hærra samhliða lækkun á hlutfalli breytilega gjaldsins.
    Í umsögn Ólafs K. Ólafs f.h. ellefu minni og meðalstórra lífeyrissjóða kemur fram það sjónarmið að ójafnræðis gæti um skiptingu eftirlitsgjalds milli lífeyrissjóðanna ef horft er til stærðarmunar þeirra. Minni lífeyrissjóðir greiði hærra hlutfall af hreinni eign í formi eftirlitsgjalds en þeir stóru. Í umsögninni er lagt til að gjaldið verði alfarið innheimt sem hlutfall af hreinni eign sjóðanna en nemi þó að lágmarki 1.200.000 kr. Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða kemur einnig fram sú afstaða að mikilvægt sé að lagaákvæðið fái „heildstæða yfirferð þar sem leitast verður við að ná sanngjarnri skiptingu gjaldsins milli ólíkra sjóða.“
    Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands þar sem fram kæmi afstaða til umsagnar minni og meðalstóru lífeyrissjóðanna. Í minnisblaðinu kemur fram að breytingartillagan endurspegli almennt þann kostnað sem felist í beinu eftirliti með hverjum lífeyrissjóði fyrir sig. Þá segir: „Aftur á móti er verulegur hluti kostnaðar við starfsemi Fjármálaeftirlitsins sem lýtur að lífeyriskerfinu almenns eðlis, svo sem við greiningar, áhættumat, lagaþróun og reglusetningar. Vegna þeirra verkefna, auk kostnaðar við yfirstjórn, er óeðlilegt að minni sjóðirnir greiði hlutfallslega meira en þeir stóru. Að öllu þessu sögðu mælir Fjármálaeftirlitið með því að fyrirkomulag skattheimtu til að standa straum af eftirliti og tengdum verkefnum verði tekið til gagngerrar endurskoðunar.“
    Skipting eftirlitsgjaldsins í fastagjald og breytilegt gjald veldur því að hlutfall fastagjaldsins af heildarálagningu er hærra hjá minni lífeyrissjóðum en hjá þeim eignarmeiri. Við ákvörðun um tilhögun eftirlitsgjalds vegast því á ólíkir hagsmunir lífeyrissjóðanna. Meiri hlutinn tekur því undir með Fjármálaeftirlitinu um mikilvægi endurskoðunar á fyrirkomulagi eftirlitsgjalds með tilliti til þess að tryggja frekara jafnræði milli sjóðanna.

Skattlagning tíðavara.
    Nefndinni barst umsögn þar sem skorað var á stjórnvöld að fella niður virðisaukaskatt af tíðavörum og tryggja að tíðavörur yrðu aðgengilegar í grunn- og framhaldsskólum. Var bent á að stúlkur þyrftu á vörunum að halda frá ungum aldri, áður en þær hæfu að afla sér eigin tekna. Þyrftu þær því í mörgum tilvikum að leita aðstoðar forráðamanna eða annarra til kaupa á slíkum vörum sem gæti reynst mörgum erfitt þar sem ennþá væri um feimnismál að ræða.
    Meiri hlutinn hefur ríkan skilning á þeim sjónarmiðum sem koma fram í umsögninni og hvetur til þess að þau verði höfð til hliðsjónar, m.a. við gerð rekstraráætlana grunn- og framhaldsskóla, þannig að nemendur sem á þurfa að halda hafi greitt aðgengi að tíðavörum þar sem þeir sækja nám. Varðandi niðurfellingu virðisaukaskatts af tíðavörum bendir meiri hlutinn á að með lögum nr. 67/2019, sem samþykkt voru á Alþingi 11. júní 2019, voru tíðavörur og getnaðarvarnir færðar í lægra þrep virðisaukaskatts. Í nefndaráliti um frumvarpið sem varð að lögunum, sbr. 52. mál á 149. löggjafarþingi, tók meiri hluti nefndarinnar fram: „Til umræðu kom hvort tilefni væri til að fella virðisaukaskatt af þeim vörum sem frumvarpið varðar niður með öllu. Þar sem ekki hefur tíðkast að undanþiggja neysluvörur virðisaukaskatti með öllu telur nefndin að slík breyting krefðist ítarlegri skoðunar.“

Breytingartillögur meiri hlutans.
Sóknargjöld (26. gr.).
    Í 26. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að föst krónutala sóknargjalda verði 980 kr. á mánuði árið 2021 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Samkvæmt sambærilegu bráðabirgðaákvæði sem er í gildi í lögunum nam gjaldið 975 kr. á mánuði árið 2020. Um er að ræða undanþágur frá meginreglu laganna að fjárhæð sóknargjalda breytist í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Í umsögnum sem bárust nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að hækkun sóknargjalda væri umtalsvert lægri samkvæmt frumvarpinu en ef byggt væri á meginreglu 2. gr. laga um sóknargjöld.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að sóknargjöld verði 1.080 kr. á mánuði árið 2021 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Áætlað er að með breytingunni hækki framlög til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á um 280 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu, sbr. 1. mál á yfirstandandi þingi.

Skattaleg ívilnun tengiltvinnbíla (ný 39. gr.).
    Í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt er kveðið á um skattalegar ívilnanir við innflutning og skattskylda sölu vistvænna bifreiða. Samkvæmt ákvæðinu lækkar sú ívilnun hvað varðar tengiltvinnbifreiðar í skrefum frá og með komandi áramótum. Nefndinni hafa borist ábendingar um að í samræmi við stefnu stjórnvalda í orkuskiptum standi rök til þess að fresta gildistöku þeirrar lækkunar. Meiri hlutinn leggur til að ívilnanir við innflutning og skattskylda sölu tengiltvinnbifreiða samkvæmt ákvæðinu verði óbreyttar á árinu 2021 þannig að lækkun komi fyrst til framkvæmdar á árinu 2022.

Niðurfelling virðisaukaskatts við endursölu vistvænna ökutækja (ný 39. gr.).
    Í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt er heimild til að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að tilteknu hámarki við innflutning og skattskylda sölu nýrrar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar. Ákvæðið gildir einnig um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning og fyrstu sölu notaðrar bifreiðar af þessum toga enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu. Í umsögn Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar við frumvarpið er athygli vakin á því að engin sambærileg heimild gildi um sölu bifreiða á eftirmarkaði. Rekstraraðila sem hefur nýtt sér heimildina ber því að leggja virðisaukaskatt á við endursölu bifreiðar. Með því móti eru hvatar bílaleiga til að endurnýja vistvænar bifreiðar með endursölu notaðra vistvænna bifreiða takmarkaðir sem og samkeppnishæfi þeirrar sölu gagnvart sölu annarra ökutækja sem falla undir ákvæðið.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að ákvæði til bráðabirgða XXIV taki einnig til endursölu vistvænna bifreiða enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á söludegi miðað við fyrstu skráningu.

Tekjufallsstyrkir (ný 37. gr.).
    Eftir samþykkt frumvarps til laga um tekjufallsstyrki, sbr. 212. mál á yfirstandandi þingi, bárust nefndinni ábendingar um að regla 1. mgr. 5. gr. laganna um að hámark styrks miðaðist við fjölda stöðugilda á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 útilokaði í mörgum tilvikum aðila sem ætlunin hefði verið að veita aðstoð frá tekjufallsstyrk. Þetta ætti til dæmis við um einyrkja sem lagt hefði niður störf á tímabilinu vegna verkefnaskorts og lítil fjölskyldufyrirtæki þar sem eigendur hefðu hætt að reikna sér endurgjald eða lækkað það umtalsvert vegna þess að umfang rekstrar hafði minnkað verulega og þar með vinnuframlag. Í þess háttar tilfellum væru stöðugildi hjá rekstraraðila á tímabilinu annaðhvort engin eða mun færri en ella og því reiknaðist tekjufallsstyrkur að óbreyttu sem margfeldi af núll eða yrði umtalsvert lægri en ef miðað væri við stöðugildi sem gæfu rétta mynd af rekstrinum.
    Meiri hlutinn telur ljóst að tekjufallsstyrkjum hafi m.a. verið ætlað að styðja við aðila sem svo er ástatt um sem að framan greinir og var ákvæði 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins m.a. ætlað að koma til móts við þess háttar tilvik. Í greinargerð með frumvarpinu sagði um þetta atriði: „Ýmis rekstur sem frumvarp þetta tekur til byggist fyrst og fremst á vinnuframlagi eiganda, og eftir atvikum fjölskyldu hans, og því er reiknað endurgjald stór hluti rekstrarkostnaðar. Hafi verulegt tekjufall orðið í rekstri má gera ráð fyrir að úr vinnuframlagi hafi dregið að sama skapi og þar með reiknuðu endurgjaldi. Til að styðja við rekstraraðila sem þannig er ástatt hjá er lagt til í 2. mgr. að í stað reiknaðs endurgjalds fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september 2020 verði rekstraraðila heimilt, en ekki skylt, að telja til rekstrarkostnaðar á því tímabili sömu fjárhæð og hann gjaldfærði vegna reiknaðs endurgjalds fyrir sömu mánuði á árinu 2019 …“. Í þinglegri meðferð frumvarpsins var heimildinni breytt á þá leið að reikna mætti til rekstrarkostnaðar á tímabilinu fjárhæð sem næmi 7/12 af gjaldfærðu reiknuðu endurgjaldi í skattframtali 2020.
    Í samráði við ráðuneytið og Skattinn leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar bætist kafli um breytingu á lögum um tekjufallsstyrki, nr. 118/2020, þar sem kveðið verði á um breytingu á 2. mgr. 5. gr. laganna. Leggur meiri hlutinn til að aðilum sem nýti heimildina sem þar kemur fram verði jafnframt heimilt, í þeim tilvikum þar sem það er hagstæðara, að miða mánaðarleg stöðugildi skv. 1. mgr. 5. gr. við stöðugildi þeirra sem reiknað var endurgjald fyrir í rekstrinum hlutfallslega miðað við starfstíma rekstrarins á árinu 2019. Hafi rekstur staðið allt árið 2019 og endurgjald verið reiknað vegna þriggja stöðugilda að meðaltali á mánuði getur rekstraraðili þannig átt rétt á tekjufallsstyrk að upphæð allt að 1.500.000 kr. á mánuði á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 að öðrum skilyrðum uppfylltum. Hafi rekstur hafist 1. júlí 2019 og stöðugildi þeirra sem reiknað var endurgjald fyrir í rekstrinum verið eitt í júlí, ágúst og september og þrjú í október, nóvember og desember teljast stöðugildi sem miða má við í stað mánaðarlegra stöðugilda skv. 1. mgr. 5. gr. vera tvö. Rekstraraðili í því dæmi getur því átt rétt á tekjufallsstyrk að upphæð allt að 1.000.000 kr. á mánuði á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Samkvæmt lögum um tekjuskatt ber að reikna endurgjald fyrir vinnu sjálfstætt starfandi einstaklinga við rekstur, vinnu maka eða nákominna ættingja við reksturinn og fyrir vinnu einstaklings hjá lögaðila þar sem einstaklingurinn hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Við framkvæmd úrræðisins verður þess gætt að tæknilegir ágallar á færslu reiknaðs endurgjalds í persónuframtal komi ekki einir og sér í veg fyrir að viðkomandi geti nýtt heimildina.
    Lagt er til að atvinnuleysisbætur sem einstaklingar á bak við stöðugildi sem tekjufallsstyrkur miðast við, sé heimild þessi nýtt, hafa fengið greiddar á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 dragist frá því sem rekstraraðila er heimilt að telja til rekstrarkostnaðar samkvæmt heimild 2. mgr. 5. gr. laganna.
    Meiri hlutinn vekur athygli á að framangreint veldur einhverjum töfum á því að tekjufallsstyrkjaúrræðið komist til framkvæmdar enda þarf framkvæmdaraðili svigrúm til að sníða eyðublöð og umsóknarkerfi að þeim breytingum sem lagðar eru til.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 24. nóvember 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Willum Þór Þórsson.