Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 579  —  363. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2021.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Veturliða Þór Stefánsson frá utanríkisráðuneyti og Þorstein Sigurðsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu árið 2021 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 9. og 23. nóvember 2020.
    Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2021. Hann gerir ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2021. Samkvæmt samningnum eru íslenskum skipum heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl innan færeyskrar lögsögu á árinu 2021.
    Samningurinn tók gildi til bráðabirgða 23. nóvember 2020 og mun öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt.
    Nefndin fagnar því að aðilar hyggist halda áfram vinnu við að breyta fyrirkomulagi samningaviðræðna um gagnkvæma fiskveiðikvóta þannig að gerður verði rammasamningur til lengri tíma. Þannig verður hægt að breyta ýmsum þáttum samningsins, svo sem kvóta og aðgangi, miðað við ástand stofna og aðstæður hverju sinni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Smári McCarthy sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið.


Alþingi, 14. desember 2020.

Sigríður Á. Andersen,
form.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, frsm. Ari Trausti Guðmundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Bragi Sveinsson. Logi Einarsson.
Njáll Trausti Friðbertsson.