Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 996  —  587. mál.

Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um þjóðkirkjuna.

Frá dómsmálaráðherra.1. gr.

Skilgreining.

    Þjóðkirkjan á Íslandi er evangeliskt lúterskt trúfélag.

2. gr.

Réttarstaða.

    Um stöðu þjóðkirkjunnar fer samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 62. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944.
    Um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins fer samkvæmt þeim lögum og samningum sem eru í gildi hverju sinni er varða samskipti þjóðkirkjunnar og ríkisins, sbr. og 1. mgr. þessarar greinar og 3. mgr. 3. gr.
    Þjóðkirkjan ræður starfi sínu og skipulagi innan lögmæltra marka.

3. gr.

Þjónusta.

    Þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Prestar og djáknar gegna vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni.
    Þá heldur þjóðkirkjan úti ýmiss konar fræðslu og kærleiksþjónustu, eftir því sem við verður komið.
    Stjórnvöld geta leitað til þjóðkirkjunnar í störfum sínum telji þau þess þörf.

4. gr.

Jafnræði og lýðræði.

    Þjóðkirkjan skal í starfsháttum sínum halda í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis.

5. gr.

Innganga og úrsögn úr þjóðkirkjunni.

    Um inngöngu í þjóðkirkjuna og úrsögn úr henni fer skv. 8. og 9. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, eftir því sem við getur átt.

6. gr.

Söfnuðir og sóknir.

    Söfnuður er félagsleg og fjárhagsleg grunneining þjóðkirkjunnar.
    Söfnuður á tilteknu landsvæði myndar sókn. Ein eða fleiri sóknir mynda prestakall.
    Sóknarbörn eru öll þau sem lögheimili eiga í sókn og eru skráð í þjóðkirkjuna.
    Þjóðskrá Íslands skal árlega, miðað við 1. desember, standa þjóðkirkjunni skil á skrá yfir nöfn, kennitölur og fjölda sóknarbarna sem lögheimili eiga í hverri sókn fyrir sig. Um greiðslur fyrir skrána fer eftir gjaldskrá skráarhaldara. Sama gildir um greiðslur óski þjóðkirkjan tíðari upplýsinga og fyllri um sóknarbörn sín.

7. gr.

Kirkjuþing.

    Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög kveði á um annað. Kirkjuþing markar stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar.
    Kosið skal til kirkjuþings leynilegri kosningu til fjögurra ára í senn. Á kirkjuþingi skulu leikmenn vera fleiri en vígðir. Kirkjuþing kýs þingforseta úr röðum leikmanna þingsins og tvo varaforseta með sama hætti. Saman mynda þeir forsætisnefnd kirkjuþings. Forseti kirkjuþings boðar til þingsins.
    Við afgreiðslu mála á kirkjuþingi er varða fjárstjórnarvald skulu þeir þingfulltrúar, sem hagsmuna hafa að gæta í tilteknu máli, víkja sæti. Um sérstakt hæfi þingfulltrúa fer eftir starfsreglum kirkjuþings, sbr. 1. mgr. 8. gr. Má í þeim reglum kveða svo á um að þingið sé ályktunarhæft, óháð fjölda fulltrúa, við afgreiðslu þeirra. Rísi ágreiningur um túlkun þessarar málsgreinar sker forseti þingsins úr.

8. gr.

Verkefni kirkjuþings.

    Kirkjuþing setur starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar, þar á meðal um skipulag kirkjuþings, svo sem kjör til þess, kjördæmaskipan, fjölda kirkjuþingsmanna, þingsköp og verkefni þingsins. Enn fremur samþykkir kirkjuþing ályktanir og samþykktir um málefni þjóðkirkjunnar.
    Forseti kirkjuþings skal birta starfsreglur, samþykktir og ályktanir kirkjuþings á opnum vef kirkjunnar innan fjögurra vikna frá samþykkt þeirra.

9. gr.

Frumvörp um kirkjuleg málefni.

    Kirkjuþing hefur að jafnaði frumkvæði að frumvörpum til laga um málefni þjóðkirkjunnar og leggur til við ráðherra kirkjumála að þau verði flutt á Alþingi.
    Ráðherra kirkjumála leitar umsagnar og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni sem hann hyggst flytja á Alþingi.

10. gr.

Biskupsdæmið.

    Ísland er eitt biskupsdæmi. Um biskupskjör fer samkvæmt starfsreglum kirkjuþings, sbr. 1. mgr. 8. gr.
    Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um.
    Biskup Íslands gætir einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.

11. gr.

Samningar milli þjóðkirkjunnar og ríkisins.

    Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlega gagngreiðslu á grundvelli samninga milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar.
    Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.

12. gr.

Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021.
    Frá sama tíma falla úr gildi lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.
    Um mál sem við gildistöku laga þessara eru til meðferðar hjá úrskurðar- og áfrýjunarnefnd sem starfar á grundvelli 12. og 13. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, og mál til meðferðar hjá ráðuneytinu á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga fer samkvæmt ákvæðum þeirra laga.

13. gr.

Brottfall laga og réttarreglna.

    Við gildistöku laga þessara falla eftirfarandi lög og réttarreglur úr gildi:
     1.      Lög um leysing á sóknarbandi, nr. 9/1882.
     2.      Lög um innheimtu og meðferð á kirknafé, nr. 20/1890.
     3.      Lög um umsjón og fjárhald kirkna, nr. 22/1907.
     4.      Lög um sölu á prestsmötu, nr. 54/1921.
     5.      Lög um Strandarkirkju og sandgræðslu í Strandarlandi, nr. 50/1928.
     6.      Lög um bókasöfn prestakalla, nr. 17/1931.
     7.      Lög um utanfararstyrk presta, nr. 18/1931.
     8.      Lög um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), nr. 3/1945.
     9.      Lög um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað, nr. 32/1963.
     10.      Lög um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, nr. 12/1982.
     11.      Lög um Skálholtsskóla, nr. 22/1993.
     12.      Tilskipun, er nákvæmar tiltekur það sem fyrir er mælt í reglugerð fyrir Ísland 17. júlí 1782, um tekjur presta og kirkna o.fl., frá 27. janúar 1847.
     13.      Tilskipun um fardaga presta á Íslandi og um réttindi þau, er prestur sá, sem frá brauði fer, eður erfingjar hans og einkum ekkjan eiga heimting á, frá 6. janúar 1847.
     14.      Bréf kansellíisins um tilhögun á kirkjuhurðum, frá 28. október 1828.
     15.      Tilskipun um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum, frá 23. mars 1827.
     16.      Tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi, og því, sem þeim fylgir, frá 24. júlí 1789.
     17.      Tilskipun um heimaskírn barna, frá 27. júlí 1771.
     18.      Prestastefnusamþykkt um sjúkravitjanir presta og aukatekjur, frá júlí 1764.
     19.      Tilskipun um ferminguna, frá 25. maí 1759.
     20.      Erindisbréf handa biskupum, frá 1. júlí 1746.
     21.      Tilskipun um húsvitjanir, frá 27. maí 1746.
     22.      Tilskipun um tilhlýðilegt helgihald sabbatsins og annarra helgra daga á Íslandi, frá 29. maí 1744.
     23.      Konungsbréf (til biskupanna) um confirmation, frá 29. maí 1744.
     24.      Forordning áhrærandi uppvaxandi ungdómsins confirmation og staðfesting í hans skírnarnáð, frá 13. janúar 1736.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Starfsfólk þjóðkirkjunnar sem var skipað í embætti samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, við gildistöku 2. mgr. 19. gr. laga um breytingu á lögum um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 153/2019, heldur þeim réttindum og skyldum sem af skipuninni leiðir út skipunartíma sinn, en að öðru leyti fer um réttindi þess og skyldur samkvæmt starfsreglum settum af kirkjuþingi.
    Starfsreglur og samþykktir, sem kirkjuþing hefur sett eða samþykkt í gildistíð laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, halda gildi sínu, eftir því sem við á, þar til kirkjuþing hefur fellt þær niður, breytt þeim eða sett eða samþykkt nýjar, þó eigi síðar en 31. desember 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta til laga um þjóðkirkjuna er lagt fram af dómsmálaráðherra. Frumvarpið var unnið af nefnd sem forsætisnefnd kirkjuþings skipaði til að vinna að frumvarpi til þjóðkirkjulaga og starfaði hún í samvinnu við dómsmálaráðuneytið (ráðuneyti kirkjumála). Nefndina skipuðu kirkjuþingsfulltrúarnir Anný Ingimarsdóttir, Bryndís Malla Elídóttir og Stefán Magnússon og með nefndinni störfuðu lögfræðingarnir Ragnhildur Benediktsdóttir og Skúli Guðmundsson. Með frumvarpinu er stefnt að því að einfalda regluverk þjóðkirkjunnar og auka mjög sjálfstæði hennar með því að fela kirkjuþingi ákvörðunarvald í mun meira mæli með setningu starfsreglna um helstu málefni hennar.
    Forsaga þessa frumvarps er sú að á kirkjuþingi 2007 var samþykkt ályktun um að fela kirkjuráði að skipa fimm manna nefnd til að endurskoða lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, í ljósi tíu ára reynslu sem komin var þá af lögunum og aukins sjálfstæðis kirkjunnar um málefni hennar, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna. Nefndin skyldi jafnframt huga að því hver nauðsyn væri að breyta ákvæðum annarra laga í kjölfar breytinga á þjóðkirkjulögum og vegna breyttra aðstæðna. Í greinargerð með tillögunni kom fram að með lögum nr. 78/1997 hefði sjálfstæði kirkjunnar aukist verulega og sú þróun hefði haldið áfram við breytingar sem síðan hefðu orðið á lögunum. Með rammalöggjöf um þjóðkirkjuna hefði ákvörðunarvald um skipan mála í kirkjunni verið fært til kirkjuþings í ríkari mæli en verið hefði. Sú þróun hefði haldið áfram og hefði kirkjuþing sett starfsreglur um ýmis atriði í stjórnskipan kirkjunnar sem áður voru bundin í lög. Töluverð reynsla hefði þannig verið byggð upp í starfi kirkjuþings og innri stjórnsýsla kirkjunnar hefði verið að breytast og eflast á þessum tíma. Í greinargerðinni var því meðal annars beint til nefndarinnar að huga sérstaklega að ákvæðum sem leitt gætu til enn meira sjálfstæðis þjóðkirkjunnar og hvernig færa mætti fleiri ákvæði úr lögum í starfsreglur frá kirkjuþingi.
    Ekki varð af framlagningu frumvarps til nýrra þjóðkirkjulaga á Alþingi vegna hins sérstæða ástands í landinu frá hruni bankakerfisins haustið 2008. Frumvarpið var svo að nýju lagt fyrir kirkjuþing 2010 í lítið breyttri mynd. Að tillögu löggjafarnefndar kirkjuþings var málið að því sinni afgreitt með ályktun þingsins um að kjósa fimm manna nefnd til að fara yfir frumvarpið og skila niðurstöðum sínum til kirkjuráðs eigi síðar en 1. ágúst 2011. Þessi fimm manna nefnd lauk störfum á kirkjuþinginu 2012 og skilaði þá drögum að frumvarpi. Í framhaldi af því var kosin önnur nefnd með kirkjuþingsmönnum til að endurskoða þessi drög.
    Á árabilinu 2013 til 2016 var unnið við ýmsar tillögur sem lauk með frumvarpi sem löggjafarnefnd lagði fram á kirkjuþingi 2016. Frumvarp þetta byggðist að miklu leyti á frumvörpum þeim sem lögð voru fram á kirkjuþingi á árunum 2013 og 2014. Löggjafarnefnd vann áfram að málinu og á kirkjuþingi 2017 var samþykkt þingsályktunartillaga um ný þjóðkirkjulög sem send var ráðherra kirkjumála. Vegna vinnu við endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi sem þá stóð yfir var talið rétt að bíða með frekari vinnu við frumvarp að þjóðkirkjulögum, sjá nánar 2. kafla um tilefni og nauðsyn lagasetningar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með frumvarpi þessu er fram haldið sömu þróun og hrundið var af stað við gildistöku gildandi laga árið 1997. Gengið er út frá þeirri stöðu sem þjóðkirkjunni var þá veitt sem sjálfstæðu trúfélagi í stað þess að líta á hana sem opinbera stofnun eins og talið var eðlilegt að gera fyrir þann tíma. Í þeim anda er lagt til að kirkjuþing setji starfsreglur um ýmis ákvæði sem nú er kveðið á um í lögum nr. 78/1997.
    Á aukakirkjuþingi, sem haldið var 28. ágúst og 4. september 2019, var samþykktur viðbótarsamningur um endurskoðun á samkomulagi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 (kirkjujarðasamkomulagið) og samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998. Fulltrúar íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar undirrituðu viðbótarsamninginn hinn 6. september 2019. Með viðbótarsamningnum féll síðarnefndi samningurinn frá 4. september 1998 úr gildi en samkomulagið frá 1997 verður áfram í gildi, sbr. þó þær breytingar sem felast í hinum nýja viðbótarsamningi. Í viðbótarsamningnum felast nýjar viðmiðanir og breytt fyrirkomulag á ýmsum þeim atriðum sem fjallað er um í fyrri samningum aðila. Markmið viðbótarsamningsins er að einfalda framkvæmd fjárhagslegra samskipta ríkisins við þjóðkirkjuna á grundvelli framangreindra samninga. Með viðbótarsamningnum er einnig stefnt að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. Þá fylgdi með samningnum viljayfirlýsing, undirrituð af sömu aðilum, þar sem stefnt er að ákveðnum lagabreytingum í þeim tilgangi að einfalda allt lagaumhverfi um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju að því er varðar gagngreiðslur sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði.
    Í samræmi við 7. gr. viðbótarsamningsins lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp til laga á 150. löggjafarþingi 2019–2020 (þskj. 625, 449. mál), sem fól í sér breytingu á V. kafla laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, á 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi, með smávægilegum breytingum (þskj. 817, 449. mál), og öðluðust þau gildi 1. janúar 2020, sbr. A-deild Stjórnartíðinda, nr. 153/2019.
    Með þeim breytingum sem urðu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, sbr. 19. gr. laga nr. 153/2019, hættu þeir sem undir ákvæðin féllu að vera opinberir starfsmenn en urðu þessi í stað starfsfólk þjóðkirkjunnar. Vegna þessara breytinga hefur þjóðkirkjan ákveðið að ofangreind ákvæði um réttindi og skyldur þessa starfsfólks þjóðkirkjunnar muni verða tekin inn í nýja kjarasamninga um laun og önnur starfskjör þess. Þá er það eitt af verkefnum kirkjuþings að setja nýjar starfsreglur og gjaldskrá í stað ýmissa lagaákvæða sem féllu brott samkvæmt þessum nýju lögum og breyta öðrum starfsreglum.
    Til að ná þeim markmiðum sem viðbótarsamningurinn felur í sér og varða árlega gagngreiðslu ríkisins til þjóðkirkjunnar, í stað þeirra framlaga sem runnið hafa til sjóða kirkjunnar samkvæmt fjárlögum, lagði dómsmálaráðherra fram annað frumvarp á 150. löggjafarþingi 2019–2020 (þskj. 1216, 708. mál), sem samþykkt var með nokkrum breytingum sem lög frá Alþingi (þskj. 1978, 708. mál) og öðluðust þau gildi 23. júlí 2020, sbr. A-deild Stjórnartíðinda, nr. 95 /2020.
    Í lokamálsgrein viljayfirlýsingarinnar sem fylgdi viðbótarsamningnum var stefnt að því að fulltrúar þjóðkirkjunnar og ríkisins ynnu saman að yfirferð yfir gildandi lög er varða þjóðkirkjuna með það að markmiði að einfalda regluverkið. Við þá vinnu yrði meðal annars byggt á þeim tillögum sem þjóðkirkjan hefði þegar fjallað um og sent ríkinu. Við vinnslu þessa frumvarps hafa þau markmið sem fram koma í viljayfirlýsingunni verið höfð að leiðarljósi. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, og miðar að því að einfalda til muna löggjöf um þjóðkirkjuna og færa ákvörðunarvald um skipan kirkjunnar, sem kveðið er á um í löggjöf í dag, til kirkjuþings. Þar sem lagðar eru til víðtækar breytingar á löggjöf um þjóðkirkjuna var við þessa endurskoðun farin sú leið að leggja til ný heildarlög um þjóðkirkjuna sem komi í stað laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarp þetta felur í sér verulega einföldun regluverks frá gildandi lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Verði frumvarpið að lögum mun sjálfstæði þjóðkirkjunnar aukast stórlega og ákvörðunarvald hennar að mestu leyti vera á verksviði kirkjuþings. Í frumvarpinu er fjallað um grundvöll þjóðkirkjunnar og skilgreiningu. Ákvæði er um vígða þjóna kirkjunnar (presta og djákna) og fjallað er almennt um þjóðkirkjuna, meðal annars um réttarstöðu hennar og að vígð þjónusta þjóðkirkjunnar sé um allt land. Þá eru ákvæði um að stjórnvöld geti haft samstarf við þjóðkirkjuna við ákveðnar aðstæður í samfélaginu og um að kirkjan skuli í starfsháttum sínum halda í heiðri grundvallarreglur lýðræðis og jafnréttis. Einnig er þar að finna ákvæði um inngöngu og úrsögn úr þjóðkirkjunni. Fjallað er um söfnuði þjóðkirkjunnar og um skil Þjóðskrár Íslands á skrá eða lista með ákveðnum upplýsingum um sóknarbörn og fjölda þeirra. Ákvæði eru um kirkjuþing og biskupsdæmið og valdmörk þessara eininga innan kirkjunnar og fjallað er um samskipti kirkjunnar og stjórnvalda við samningu frumvarpa um kirkjuleg málefni. Gerð er grein fyrir biskupsdæminu, ákvæði um að biskupskjör fari samkvæmt starfsreglum kirkjuþings og valdsvið biskups Íslands er skilgreint. Tilgreindir eru samningar um eignarrétt milli þjóðkirkjunnar og ríkisins í tengslum við fjármál þjóðkirkjunnar, þ.e. árlegt framlag vegna samninga og gagngjald vegna viðbótarsamnings ríkis og kirkju. Þá er fjallað um að kirkjuþing setji eða samþykki starfsreglur, samþykktir og ályktanir um málefni þjóðkirkjunnar og um birtingu þeirra á vef þjóðkirkjunnar. Ákvæði um gildistöku frumvarpsins og ákvæði til bráðabirgða sem helgast af viðbótarsamningi ríkis og kirkju sem samþykktur var 6. september 2019 eru síðan í lokagrein frumvarpsins. Í síðari málsgrein ákvæðisins er fjallað um hvernig skil verði milli starfsreglna og samþykkta sem settar voru eða samþykktar í tíð gildandi laga við komandi löggjöf. Að lokum er lagt til að brott falli tiltekin lög og réttarreglur um þjóðkirkjuna, sem talin eru úrelt, runnið hafa í annan farveg eða gerningar sem þau vísa til hafa verið efndir.

3.1. Helstu nýmæli og breytingar.
     1.      Lagt er til að heiti nýrra heildarlaga um þjóðkirkjuna verði lög um þjóðkirkjuna. Er það til samræmis við þá málvenju sem skapast hefur um gildandi lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar á síðastliðnum árum.
     2.      Þá er lagt til að tekið verði upp orðalag úr 1. mgr. 62. gr. stjórnarskrárinnar um heiti þjóðkirkjunnar og sagt að hún sé þjóðkirkja á Íslandi í stað þess að segja að hún sé íslenska þjóðkirkjan eins og stendur í 1. mgr. 1. gr. gildandi laga. Ekki verði lengur kveðið á um í lögum að þjóðkirkjan sé „sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni“ heldur sagt að hún sé evangeliskt lúterskt trúfélag eins og stendur í stjórnarskránni, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
     3.      Lagt er til í frumvarpinu, þar sem fjallað er um réttarstöðu þjóðkirkjunnar, að hún ráði málefnum sínum um skipulag sitt og starfsemi innan lögmæltra marka og enn fremur að henni beri að tryggja að allir landsmenn eigi kost á vígðri þjónustu, sbr. 2. og 3. gr.
     4.      Þá er þjónusta kirkjunnar tilgreind frekar en verið hefur í lögum og fjallað um ýmsa nærþjónustu kirkjunnar í samfélaginu meðal annars hvað varðar kærleiksþjónustu.
     5.      Lagt er til að kirkjuþing fari með æðsta vald í fjármálum þjóðkirkjunnar nema lög kveði á um annað, sbr. 1. mgr. 7. gr.
     6.      Lagt er til að flest ákvæði í gildandi lögum er varða starfsemi þjóðkirkjunnar og skipulag hennar falli brott og verði því einungis fjallað um þau mál á kirkjuþingi og hjá öðrum kirkjulegum stjórnvöldum.
    Ákvæði í gildandi lögum sem lagt er til að falli brott:
     1.      Að ráðuneyti kirkjumála hafi með höndum tengsl við þjóðkirkjuna af hálfu ríkisvaldsins að því er varðar fjárlagagerð og yfirumsjón þess ráðuneytis.
     2.      Að forseti Íslands skipi biskup Íslands og vígslubiskupa.
     3.      Um biskupsþjónustuna.
     4.      Um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd.
     5.      Um ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni.
     6.      Um kirkjuráð og um skipan og störf kirkjuþings önnur en um kosningu til þings og þingforseta og skiptingu þingmanna í lærða og vígða.
     7.      Um prestastefnu, prófasta og vígslubiskupa.
     8.      Um héraðsnefndir og héraðsfundi.
     9.      Um þjónustu presta og djákna og um val á prestum.
     10.      Um skipun, störf og starfsemi sókna, safnaðarfundi og leikmannastefnu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Á grundvelli 62. gr. stjórnarskrárinnar ber Alþingi að kveða á um að meginreglur og hefðbundið skipulag sé til þess sé fallið að gera kirkjunni kleift að rækja í hvívetna veigamiklar skyldur sínar sem þjóðkirkja á Íslandi.
    Í greinargerð með frumvarpi því sem lagt var fram á 121. löggjafarþingi (301. mál) og varð að lögum nr. 78/1997 var fjallað ítarlega um tengsl ríkis og kirkju og tildrög þess að veita þjóðkirkjunni meira sjálfstæði í innri málum kirkjunnar. Þar sagði meðal annars: „Í 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands frá 1944 segir að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Ákvæði þetta hefur staðið í stjórnarskránni allt frá 1874, en upphaflega var þó notað orðalagið „hið opinbera“ í staðinn fyrir „ríkisvaldið“. Í stjórnarskránni, sem er hin æðsta réttarheimild, eru ekki gefin nánari fyrirmæli um þetta efni, t.d. um það hvernig ríkisvaldið skuli styðja þjóðkirkjuna og vernda. Með „ríkisvaldinu“ er vafalaust átt við alla þætti þess, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald og þær stofnanir sem með þessi málefni fara – einkum þá að sjálfsögðu tvo fyrri þættina. Nánari framkvæmd þessa stjórnarskrárákvæðis er því í höndum ríkisvaldsins og ber Alþingi fyrst og fremst ábyrgð á því að með almennum lögum sé tryggt að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt.
    Það sem mestu máli skiptir varðandi það efni sem hér er til meðferðar er það að af þessari stjórnarskrárgrein verður sú ályktun dregin, svo að tvímælalaust er, að ríki og þjóðkirkja eru ekki eitt – þ.e. tiltekinn aðili, ríkið, á að styðja og vernda annan aðila, þjóðkirkjuna. Skilyrði þess að vera íslenskur ríkisborgari annars vegar og þjóðkirkjuþegn hins vegar þurfa heldur ekki að fara saman, svo sem kunnugt er. Það breytir ekki þessari niðurstöðu að mjög náin tengsl eru milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar. Hún er eftir sem áður sjálfstæð stofnun, sjálfstæður réttaraðili sem getur borið, og ber réttindi og skyldur að lögum. Þjóðkirkjan og stofnanir hennar geta því m.a. átt eignir sem njóta m.a. fullrar verndar 67. gr. [svo - ætti að vera 72. gr.] stjórnarskrárinnar og verða eigi af þeim teknar nema ströngum skilyrðum þeirrar greinar sé fullnægt, enda komi þá ætíð fullt verð fyrir eins og þar er mælt fyrir um.
    Þegar talað er um íslensku þjóðkirkjuna sem stofnun er hafi a.m.k. nokkurt sjálfstæði eftir lögum og venju og verði eigi talin sem hver annar angi ríkisvaldsins verður að minnast þess að hugtakið þjóðkirkja verður ekki til hér á landi fyrr en með tilkomu stjórnarskrárinnar frá 1874, en fyrirmynd viðkomandi ákvæðis var hliðstætt ákvæði í grundvallarlögunum dönsku.“
    Með breyttu lagaumhverfi þykir rétt að hætt verði almennt að nefna þjóðkirkjuna stofnun en í stað þess ræða um þjóðkirkjuna sem trúfélag. Undir það sem hér var rakið úr athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 78/1997 má að flestu leyti taka. Því var bætt við 62. gr. stjórnarskrárinnar 1915 að breyta mætti kirkjuskipaninni með lögum og 1920 var því enn aukið við að slíka breytingu skuli bera undir þjóðina í almennri leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar, sbr. 2. mgr. 79. gr. Ákvæði 62. gr. á rætur að rekja til 3. gr. dönsku grundvallarlaganna frá 1849. Með því var slegið föstu að evangelisk lúterska kirkjan væri aðgreinanleg frá ríkisvaldinu og þar með sjálfstæðari gagnvart því en ríkiskirkja fyrri alda hafði verið.
    Í 80. gr. dönsku stjórnarskrárinnar (Grundloven) frá 5. júní 1849 var ákvæði um að setja skyldi lög um stjórn þjóðkirkjunnar (d. Folkekirkens Forfatning ordnes ved Lov) en samfelld lög um það efni hafa þó ekki verið sett í Danmörku og þjóðkirkjan þar lýtur enn stjórn ríkisvaldsins sem ríkiskirkja. Hliðstætt ákvæði 80. gr. dönsku grundvallarlaganna var ekki tekið upp í íslensku stjórnarskrána þótt framkvæmdin hér á landi hafi orðið á þann veg sem fyrirhuguð var í dönsku grundvallarlögunum. Líta má á lög nr. 78/1997 sem slíka stjórnskipan fyrir þjóðkirkjuna.
    Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er ekki skilgreint með hvaða hætti ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna heldur er það eftirlátið löggjafarvaldinu að ákvarða um það. Líta má svo á að setning laga á borð við lög nr. 78/1997 sé hluti þess stuðnings enda skýra þau stöðu kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu og setja ramma um starfsemi hennar.
    Með lögum nr. 78/1997 var haldið áfram á þeirri braut sem farið var á með setningu dönsku og síðar íslensku stjórnarskrárinnar, þ.e. að aðgreina þjóðkirkjuna frá ríkinu. Skv. 1. gr. laganna er þjóðkirkjan skilgreind sem „sjálfstætt trúfélag“ og í 2. gr. segir að þjóðkirkjan njóti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka, njóti sjálfstæðrar eignhelgi og komi fram sem sjálfstæður aðili gagnvart almannavaldinu eftir því sem við geti átt. Með þessu verður ekki litið svo á að slit hafi orðið á sambandi ríkis og kirkju enda getur löggjafarvaldið breytt téðum ákvæðum og aukið þar með eða dregið úr því sjálfstæði sem þjóðkirkjunni er veitt. Þessi staðhæfing um að ekki hafi orðið slit á sambandi ríkis og kirkju breytist ekki með frumvarpi þessu.
    Hvað varðar alþjóðlegar skuldbindingar, verði frumvarpið óbreytt að lögum, mun ekki verða breyting á tengslum þjóðkirkjunnar við þær alþjóðlegu stofnanir sem hún er aðili að en það eru Lúterska heimssambandið og Alkirkjuráðið (World Council of Churches). Þá er þjóðkirkjan einnig í samtökum evangeliskra kirkna í Evrópu, Community of Protestant Churches in Europe, CPCE, og í kirknaráði Evrópu, Conference of European Churches, KEK.
    Þjóðkirkjan hefur gert samning um játningar með samþykkt sem undirrituð var í Porvoo í Finnlandi 1995. Í samþykktinni er útlistuð guðfræði sem lútersku kirkjurnar hafa sameinast um.
    Að öðru leyti vekur frumvarpið ekki upp spurningar er varða stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta er unnið í samstarfi ráðherra kirkjumála (dómsmálaráðuneytis) og nefndar sem forsætisnefnd kirkjuþings skipaði til að vinna að frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga. Byggist það á lokamálsgrein viljayfirlýsingar þeirrar sem fylgdi fyrrgreindum viðbótarsamningi ríkis og kirkju þar sem fram kemur að fulltrúar þjóðkirkjunnar og ríkisins skuli vinna saman að yfirferð yfir gildandi lög er varða þjóðkirkjuna með það að markmiði að einfalda regluverkið. Við þá vinnu skyldi meðal annars byggt á þeim tillögum sem þjóðkirkjan hefur þegar fjallað um og sent ríkinu.
    Enn fremur felst samráð í því að á kirkjuþingi situr fólk úr sóknum þjóðkirkjunnar, 29 kirkjuþingsfulltrúar. Leikmenn á kirkjuþingi eru 17 en vígðir fulltrúar 12, þ.e. þjónandi prestar eða djáknar íslensku þjóðkirkjunnar eða hjá íslenskum söfnuðum þjóðkirkjunnar erlendis. Einnig sitja kirkjuþingið, með málfrelsi og tillögurétt, biskup Íslands, vígslubiskuparnir í Skálholti og á Hólum, kirkjuráðsmenn sem ekki eru þingfulltrúar, ráðherra sá er fer með málefni þjóðkirkjunnar eða fulltrúi hans, fulltrúi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands og fulltrúi kirkjuþings unga fólksins. Frumvarp það sem hér liggur fyrir var lagt fram á kirkjuþingi 2020–2021 og samþykkt einróma 15. september 2020. Á framhaldskirkjuþingi sem haldið var 7. nóvember 2020 var samþykkt tillaga til þingsályktunar um brottfall ýmissa laga og réttarreglna er varða málefni þjóðkirkjunnar og í samræmi við það hefur sú tillaga verið tekin upp í frumvarp þetta. Þar sem Þjóðskrá Íslands gegnir margvíslegum hlutverkum sem tengjast þjóðkirkjunni og skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum var frumvarpið sérstaklega kynnt fyrir stofnuninni og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum um frumvarpið. Í umsögn Þjóðskrár Íslands kemur fram að stofnunin teldi að ekki væri til staðar skýr lagaheimild sem skyldaði hana til að skrá og miðla upplýsingum um sóknir einstaklinga í þjóðskrá. Við almannaskráningu væri nauðsynlegt að gæta fyllsta öryggis þeirra gagna sem um ræðir enda í mörgum tilvikum um að ræða afar viðkvæmar persónuupplýsingar. Við mat á því hvaða þjóðskrárgögnum sé miðlað hverju sinni hafi Þjóðskrá Íslands ávallt í huga að miðla ekki meiri upplýsingum úr þjóðskrá en tilefni sé til og skrái ekki fleiri upplýsingar en henni beri skylda til samkvæmt lögum eða reglum. Unnt verði að uppfylla kröfur laga um greiðslur sóknargjalda þegar þjóðskrá hafi borist upplýsingar um landfræðileg þekjumörk sókna. Þá benti Þjóðskrá Íslands á að ef stofnunin ætti að skila þjóðkirkjunni árlega, án endurgjalds, skrá yfir nöfn, kennitölur og fjölda sóknarbarna sem lögheimili eiga í hverri sókn fyrir sig þá yrði um mismunun að ræða gagnvart skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum sem þyrftu á sambærilegri sérvinnslu að halda.
    Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-206/2020) frá 2. til 14. október 2020 og bárust um það fjórar umsagnir. Umsagnirnar voru að hluta til jákvæðar eða athugasemdir voru gerðar um að í frumvarpinu væri ýmist gengið of langt hvað varðar sjálfstæði þjóðkirkjunnar eða of skammt. Samband íslenskra sveitarfélaga gerði ekki athugasemdir við frumvarpið en vakti athygli á ákvæði sem eftir stæði í lögum um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970, þar sem segir meðal annars að sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjöldum. Er mælst til þess að vinna við endurskoðun ákvæðisins verði hafin sem fyrst, enda sé það í samræmi við stefnumörkun sambandsins og samkomulag þess við ríkið um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga árin 2021–2025. Í umsögn Vantrúar var lagt til að rammalög um þjóðkirkjuna yrðu afnumin og þjóðkirkjunni sjálfri leyft að ákveða hvernig hún starfar. Taldi félagið að þannig mætti sleppa flestum ákvæðum frumvarpsins. Félagið studdi þó frumvarpið að því er varðar einföldun á tengslum ríkis og kirkju. Tvær umsagnir frá einstaklingum bárust um frumvarpið. Í annarri þeirra var lögð áhersla á að þjóðkirkjan skyldi boða og þjóna samkvæmt þeim trúarlegu játningum sem hún væri grundvölluð á. Í hinni umsögninni var meðal annars bent á mikilvægi þess að hafa í lögunum ákvæði um lagaskil vegna brottfalls ákvæða um úrskurðar- og áfrýjunarnefndir og ákvæðis í 4. gr. gildandi laga um að ráðuneytið hefði umsjón með því að þjóðkirkjan og stofnanir hennar færu að lögum. Nauðsynlegt væri því að heimila fyrrgreindum nefndum og ráðuneytinu að ljúka málum sem kynnu að vera til meðferðar hjá þeim á grundvelli gildandi laga. Vegna áframhaldandi tengsla ríkis og kirkju og ákvæðis í stjórnarskrá um þjóðkirkjuna, er jafnframt mælst til að ákvæði 4. gr. haldist óbreytt í lögum. Þá voru gerðar athugasemdir við aðgreiningu á „innri“ og „ytri“ málefnum þjóðkirkjunnar í frumvarpinu. Var meðal annars bent á skýringu við 8. gr. í frumvarpsdrögunum þar sem segir að ástæða þess að ekki sé getið um kirkjuráð í frumvarpstexta sé sú að starfsemi kirkjuráðs heyri til innri málefna kirkjunnar. Taldi umsagnaraðili að starfsemi kirkjuráðs lyti ekki síður að ytri málefnum kirkjunnar en þeim innri. Þá var bent á óskýrt orðalag 2. mgr. 13. gr. frumvarpsdraganna og skýringa við hana sem fjallaði um starfsreglur, samþykktir og ályktanir kirkjuþings. Svo virtist sem ákvæðið lyti að áframhaldandi gildi starfsreglna eftir gildistöku nýrra laga og þar með væri ekki rétt að tala um „samþykktir“ og „ályktanir“ í því samhengi.
    Ráðuneytið hefur farið yfir þær umsagnir og ábendingar sem bárust um frumvarpsdrögin, þar á meðal frá Þjóðskrá Íslands. Að höfðu samráði við stofnunina hefur verið gerð breyting á frumvarpinu um afhendingu til þjóðkirkjunnar á skrá yfir nöfn, kennitölur og fjölda sóknarbarna sem lögheimili eiga í hverri sókn þess efnis að hún verði gegn gjaldi samkvæmt gjaldskrá Þjóðskrár Íslands (skráarhaldara). Þá hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu vegna athugasemda um tiltekin lagaskil og orðalag sem var í 2. mgr. 13. gr. frumvarpsdraganna lagfært, sbr. nú 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Í athugasemdum um 7. gr. frumvarpsins, sem fjallar um kirkjuþing, er vikið að því hvers vegna ekki er talin ástæða til að hafa sérstök ákvæði um kirkjuráð í frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið er meðal annars liður í að uppfylla viljayfirlýsingu sem fylgdi viðbótarsamningi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar sem undirritaður var 6. september 2019. Með frumvarpinu er lögð fram ný heildarlöggjöf um þjóðkirkjuna sem ráðgert er að komi í stað gildandi laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Stefnt er að því að einfalda mjög allt regluverk þjóðkirkjunnar og lagt til að kirkjuþing fjalli enn frekar en verið hefur um skipulag og starf kirkjunnar og fari með fjárstjórnvarvald hennar að því marki sem því eru ekki sett takmörk með lögum. Með samþykkt frumvarps þessa verður þjóðkirkjan sjálfstæðari en áður í öllum sínum verkum. Gert er ráð fyrir að þjóðkirkjulögin verði einföld rammalöggjöf en kirkjuþing muni setja eða samþykkja starfsreglur, samþykktir og ályktanir um alla starfsemi kirkjunnar eftir því sem þurfa þykir. Með viðbótarsamningnum var stefnt að stórauknu fjárhagslegu sjálfstæði þjóðkirkjunnar og einföldun alls lagaumhverfis og fyrirkomulags á þeim gagngreiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði. Í því skyni að ná fram þeim markmiðum samningsins samþykkti Alþingi tvö frumvörp á 150. löggjafarþingi, sbr. lög nr. 153/2019 og lög nr. 95/2020. Samkvæmt viðbótarsamningnum greiðir íslenska ríkið þjóðkirkjunni árlega gagngreiðslu á grundvelli samninga milli þjóðkirkjunnar og ríkisins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki að sjá að lögfesting þess hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð né sveitarfélög svo nokkru nemi.
    Í 4. gr. frumvarpsins og skýringu við hana kemur fram að þjóðkirkjan skuli í störfum sínum hafa í heiðri grundvallarreglur jafnræðis, sem samræmist skýrri stefnu þjóðkirkjunnar í jafnréttismálum sem byggist á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Að öðru leyti gerir frumvarpið ekki greinarmun á kynjum eða tekur kyn til athugunar og því hvorki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Kveðið er á um trúfræðilega stöðu þjóðkirkjunnar, að hún sé hin evangelisk lúterska þjóðkirkja á Íslandi eins og mælt hefur verið fyrir í stjórnarskrá frá árinu 1874.
    Kenningar þjóðkirkjunnar á Íslandi, sem evangelisk lúterskrar kirkju, eru reistar á grundvelli eftirtalinna játningarrita:
     1.      Postullegu trúarjátningunni.
     2.      Níkeujátningunni.
     3.      Aþanasíusarjátningunni.
     4.      Hinni óbreyttu Ágsborgarjátningu frá 1530.
     5.      Fræðum Lúters hinum minni.
    Lagt er til að heiti þjóðkirkjunnar, sem í gildandi lögum er íslenska þjóðkirkjan, verði breytt í þjóðkirkjan á Íslandi eins og kveðið er á um í stjórnarskránni. Samkvæmt stjórnarskránni er hin evangelisk lúterska kirkja þjóðkirkja á Íslandi. Það skilur hana frá öðrum kristnum kirkjudeildum. Sífellt fjölgar kristnum trúfélögum á Íslandi og þess vegna þarf að skilgreina að það sé einmitt hin evangelisk lúterska kirkja sem er þjóðkirkja á Íslandi. Orðalagið á evangelísk-lúterskum grunni í gildandi lögum er ekki í samræmi við stjórnarskrárákvæðið né heldur heimssamtök lúterskra kirkna, sem þjóðkirkjan er aðili að. Þar að auki getur orðalagið leitt til þeirrar mistúlkunar að þessi grunnur beri með sér eitthvað annað en það sem gerir þjóðkirkjuna að evangelisk lúterskri kirkju, sem eru hinar fyrrnefndu sameiginlegu játningar og grundvallarrit evangelisk lútersku kirknanna í heiminum, en þær eru ráðandi í kirkjuskipaninni allri. Þá er enn fremur lagt til að hugtakið sjálfstætt trúfélag verði fellt brott. Litið er svo á að óþarft sé að taka það fram vegna þess að réttur þjóðkirkjunnar á Íslandi til sjálfstæðis telst vera nægjanlega varinn í stjórnarskránni, sbr. VI. og VII. kafla hennar.
    Í 3. mgr. 1. gr. gildandi laga er ákvæði um að skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veiti aðild að þjóðkirkjunni. Líta verður svo á að óþarft sé að taka fram í lögum um þjóðkirkjuna að skírn í nafni heilagrar þrenningar veiti aðild að henni því skírnin er óhjákvæmilegt skilyrði þess að geta talist vera í evangelisku lútersku trúfélagi, enda er skírnin annað af tveimur sakramentum þjóðkirkjunnar og því hluti af innra starfi hennar.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er vísað til þeirra greina stjórnarskrárinnar sem varða sérstaklega þjóðkirkjuna. Í 2. mgr. 1. gr. gildandi laga segir að ríkisvaldinu beri að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Með því að vísa í þessari málsgrein til ákvæða stjórnarskrárinnar er lúta að þjóðkirkjunni, nánar tiltekið 1. mgr. 62. gr. og 2. mgr. 79. gr., er ekki nauðsyn að nefna sérstaklega að ríkisvaldinu beri að styðja og vernda þjóðkirkjuna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins og vísað í ákvæðinu almennt til þeirra laga og samninga sem í gildi eru milli þessara aðila hverju sinni. Kirkjujarðasamkomulagið frá 10. janúar 1997 og nánari útfærsla þess í samningi ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998 eru að hluta grundvöllur þeirra gagngreiðslna sem árlega renna úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar, svo og viðbótarsamningurinn milli ríkis og kirkju frá 6. september 2019, sjá frekari umfjöllun í skýringu við 11. gr. frumvarpsins. Um þessar greiðslur og skuldbindingar skal kveða á um í fjárlögum hvers árs. Þá kveða lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, á um greiðslur sóknargjalda til sókna þjóðkirkjunnar. Enn fremur gerir þjóðkirkjan ýmsa samninga við stofnanir ríkisins vegna sérþjónustu presta.
    Í 3. mgr. er tekið fram að þjóðkirkjan ráði skipulagi sínu innan lögmæltra marka. Ákvæðið er svipað ákvæði 5. gr. gildandi laga en þar segir að þjóðkirkjan ráði starfi sínu innan lögmæltra marka. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 78/1997 (121. löggjafarþing, 301. mál), kemur fram um þá grein að ákvæðinu sé ætlað að hafa almennt gildi um starfsvettvang íslensku þjóðkirkjunnar og að þar sé „áréttuð sú meginstefna höfunda frumvarpsins, sem þegar birtist með öðru orðalagi í 1. mgr. 2. gr., að þjóðkirkjan ráði sjálf starfi sínu og starfsháttum innan þess ramma sem löggjafinn hefur markað.“ Með þessu frumvarpi, sem miðar að enn frekara sjálfstæði þjóðkirkjunnar, má segja að ábyrgð þjóðkirkjunnar til þess að mæta breyttum aðstæðum og laga skipulag hennar, án atbeina ríkisvaldsins, að kröfum og aðstæðum sem skapast á hverjum tíma, verði enn ríkari. Um þetta er meðal annars fjallað í skýrslu Feneyjanefndarinnar um drög að áliti um frumvarp að nýrri stjórnarskrá Íslands frá 11. febrúar 2013, álit 702/2013, bls. 11–12, í tölul. 55–58.

Um 3. gr.

    Í ákvæðum 1. og 2. mgr. eru nýmæli. Mikilvægt er að leggja áherslu á að með auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar fylgir ábyrgð á því að allir landsmenn geti átt aðgang að þjónustu hennar eftir því sem þeir kjósa og aðstæður leyfa á hverjum stað og tíma.
    Í 1. mgr. er lagt til að þjóðkirkjunni beri að tryggja öllum landsmönnum vígða þjónustu. Meginþættir vígðrar þjónustu eru helgihald, þ.e. guðsþjónustur, skírnir, fermingar, hjónavígslur og útfarir, sem prestar og djáknar sinna. Þjónusta þessi nær hins vegar yfir fleiri atriði en hægt er að lýsa í lagatexta eða greinargerð og má þar meðal annars nefna ýmsar helgiathafnir, trúfræðslu og kærleiksþjónustu. Hluti kærleiksþjónustu er til að mynda fagleg sálgæsla, ráðgjöf við fjölskyldur og hjálparstarf og getur hún bæði heyrt undir vígða og aðra þjónustu, sbr. frekari umfjöllun um 2. mgr. Þá felst hluti þjónustu kirkjunnar í áralöngu samstarfi þjóðkirkjunnar um allt land við þar til bær stjórnvöld þegar stórslys verða í samfélaginu og þegar almannavarnaástand skapast. Í því sambandi hefur kirkjan skipað hópslysanefnd þjóðkirkjunnar sem er tengiliður hennar við stjórnvöld, svo sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, embætti landlæknis og Rauða kross Íslands. Hópslysanefnd kirkjunnar hefur, samkvæmt samþykkt kirkjuþings 2004, yfirumsjón með skipulagi á viðbrögðum kirkjunnar vegna stórslysa og þegar almannavarnaástand ríkir. Viðbragðsáætlun þjóðkirkjunnar er ætlað að samræma viðbrögð kirkjunnar við stórslysum og almannavarnaástandi, enda er kirkjan hluti stærri heildar sem starfar náið saman við slíkar aðstæður. Í desember 2018 gerðu biskupsstofa, embætti landlæknis, Landspítalinn, Rauði krossinn á Íslandi, ríkislögreglustjóri og Samband íslenskra sveitarfélaga með sér samkomulag um áfallahjálp í skipulagi almannavarna á Íslandi. Samkomulagið um áfallahjálp var endurnýjað í mars 2019 til næstu fimm ára.
    Prestar og djáknar, sem annast hina vígðu þjónustu, starfa á grundvelli köllunar og vígslu og eru þeir þjónar kirkjunnar sem vígjast til embættis. Þeir vinna biskupi heit um að inna þjónustu sína af hendi á grundvelli játninga og skipana kirkjunnar. Á grundvelli þess er hinum vígða þjóni veitt ábyrgð á grundvallarþáttum í þjónustu þjóðkirkjunnar og hann sendur með það umboð. Vígsla biskups er lykillinn að því að geta gegnt þjónustu í kirkjulegri merkingu. Prestar sem gegna föstu prestsstarfi í þjóðkirkjunni lúta tilsjón biskups Íslands. Þá lúta enn fremur þeir prestar, sem gegna launuðu starfi hjá öðrum en þjóðkirkjunni, svo sem á sjúkrastofnunum og hjúkrunarheimilum, tilsjón biskupsins.
    Jafnframt því sem þjóðkirkjunni ber að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að landsmenn geti átt kost á henni, sbr. 1. mgr., segir í 2. mgr. að þjóðkirkjan haldi úti ýmiss konar fræðslu og kærleiksþjónustu. Með fræðslu þjóðkirkjunnar er til dæmis átt við fyrirlestra og námskeiðahald um ýmis málefni er varða þjóðkirkjuna. Með kærleiksþjónustu er meðal annars átt við sálgæslu, fjölskylduþjónustu og hjálparstarf og er gert ráð fyrir að hún nái til þeirra landsmanna sem eftir henni leita og eftir því sem við verður komið. Með þessari þjónustu er meðal annars átt við þjónustu sem prestar, djáknar og annað starfsfólk kirkjunnar veitir við andlát og önnur áföll í nærsamfélaginu. Sem dæmi má nefna að sálgæsla, til dæmis í nánasta umhverfi, felur í sér áfallahjálp þegar óvæntir og alvarlegir atburðir eiga sér stað t.d. í fyrirtækjum, skólum og stofnunum sem hafa áhrif á alla í nærsamfélaginu. Þá sinna djáknar þjónustu, t.d. á dvalar- og hjúkrunarheimilum þar sem ekki eru prestar og stundum starfa þeir við hlið presta þar. Í öllu sínu starfi leitast þjóðkirkjan við að veita kærleiksþjónustu og er hún einn af grundvallarþáttum í starfsemi hennar.
    Prests- og djáknaþjónusta í sérstökum aðstæðum (sérþjónusta) tekur til þeirra sem ekki geta notið hefðbundinnar vígðrar þjónustu ýmist um lengri eða skemmri tíma. Í sérþjónustu kirkjunnar felst t.d. fagleg þjónusta á sjúkrastofnunum, í fangelsum, við heyrnarskerta, innflytjendur og fatlað fólk.
    Í 29.–32. gr. gildandi laga er kveðið á um hlutverk prófasta en þar segir að biskup Íslands útnefni prófasta úr hópi presta og að þeir séu fulltrúar biskups Íslands í prófastsdæmum og trúnaðarmenn hans og hafi í umboði hans almenna tilsjón með kirkjulegu starfi þar. Þar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir að draga úr lagaákvæðum sem lúta að stjórn kirkjunnar, en þess í stað verði lögð enn meiri áhersla á að kirkjuþing setji starfsreglur um helstu þætti í starfsemi þjóðkirkjunnar, eru störf prófasta ekki tilgreind í frumvarpsgreinum.
    Í 38. gr. gildandi laga eru tilgreind almenn skilyrði til tímabundinnar eða ótímabundinnar ráðningar í prestsstarf og skv. 47. gr. sömu laga eru djáknar ráðnir af sóknarnefnd til þess að gegna sérstaklega tilgreindum störfum á sviði líknar- og fræðslumála innan safnaða. Þá er heimilt að ráða djákna til starfa á sjúkrastofnun. Af sömu ástæðu og að framan greinir um prófasta eru ekki í frumvarpinu ákvæði um ráðningu presta og djákna. Með samþykkt þessa frumvarps þarf kirkjuþing að taka afstöðu til þess hvort sömu skilyrði og tilgreind eru í gildandi lögum verði áfram við ráðningar í störf presta og djákna þjóðkirkjunnar.
    Við ýmsa af þjónustu kirkjunnar, sbr. 3. mgr., hefur þjóðkirkjan árum saman átt í samstarfi við sveitarfélög og ríkisvaldið, þegar eftir því er óskað, og talið það skyldu sína að sinna því kalli, t.d. hvað varðar þátttöku kirkjunnar í aðgerðum stjórnvalda þegar almannavarnaástand skapast í samfélaginu, en einnig við aðrar aðstæður svo sem við setningu Alþingis sem áratugalöng hefð er fyrir.

Um 4. gr.

    Þjóðkirkjunni, líkt og öðrum, ber að sjálfsögðu að fara að jafnréttislögum og persónuverndarlögum í starfsháttum sínum. Hér er sérstaklega undirstrikað mikilvægi þess að starfsfólk þjóðkirkjunnar skuli í öllum sínum störfum leggja veigamikla áherslu á að halda í heiðri grundvallarreglur jafnræðis og lýðræðis. Þannig skuli starfsfólk þjóðkirkjunnar í störfum sínum meðal annars hafa hliðsjón af meginreglum almennrar stjórnsýslu þó að málsmeðferð á kirkjulegum vettvangi lúti ekki lengur reglum stjórnsýslulaga, þar sem hvorki prestar né starfsfólk biskupsstofu eru lengur starfsmenn ríkisins eftir breytingu sem gerð var á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, sbr. ákvæði til bráðabirgða XII, sbr. 19. gr. laga nr. 153/2019. Þá var með 1. gr. laga nr. 95/2020 jafnframt fellt brott ákvæði 4. mgr. 26. gr. laga nr. 78/1997, þar sem kveðið var á um að stjórnsýslulög giltu um málsmeðferð á kirkjulegum vettvangi eftir því sem við gæti átt, sbr. nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um að það samrýmist ekki markmiðum viðbótarsamnings ríkis og kirkju frá 6. september 2019, að málsmeðferð á kirkjulegum vettvangi lúti reglum stjórnsýslulaga (150. löggjafarþing 2019–2020, þskj. 1924, 708. mál). Þjóðkirkjan hefur sett sér jafnréttisstefnu sem var síðast samþykkt á kirkjuþingi 6. nóvember 2019 og tekur hún mið af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Á sama kirkjuþingi var persónuverndarstefna þjóðkirkjunnar enn fremur samþykkt og er hún í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Þá setti kirkjan sér stefnu og starfsreglur árið 2019 (nr. 330/2019) um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar, ásamt verklagsreglum um úrvinnslu mála. Er hún í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, nr. 1009/2015. Þá ber þjóðkirkjunni í störfum sínum að halda í heiðri jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Þetta ákvæði var skrifað í stjórnarskrána árið 1995, en hafa ber í huga að skilgreiningar á kyni hafa tekið breytingum síðan.

Um 5. gr.

    Vísað er til ákvæða 8. og 9. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, sem kveða meðal annars á um aðild að skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum, inngöngu í þau og úrsögn úr þeim og eiga einnig við um þjóðkirkjuna hvað þetta varðar. Rétt þykir að vísa til þessara tveggja lagagreina þar sem aðrar greinar laganna eiga ekki beint við um þjóðkirkjuna því um hana gilda sérstök lög. Áður en lögin um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, tóku gildi voru í gildi lög um trúfélög, nr. 18/1975. Í I. kafla þeirra voru almenn ákvæði um trúfélög en í II. kafla laganna var fjallað um skráð trúfélög utan þjóðkirkjunnar. Í lögum nr. 108/1999 eru hliðstæð ákvæði og voru í lögunum frá 1975 um inngöngu og úrsögn úr skráðum trúfélögum en síðan bættust við lögin skráð lífsskoðunarfélög með lögum nr. 6/2013. Í 8. gr. laganna frá 1975 var gert ráð fyrir því að meginreglan við inngöngu í trúfélag gerðist fyrir atbeina prests eða forstöðumanns og sama gilti um úrsagnir. Þá sagði í fyrri málsl. 4. mgr. greinarinnar: „Að því leyti sem tilkynning til þjóðskrár um inngöngu og úrsögn úr trúfélagi ræður skráningu vegna sérstakra atriða í sambandi við aðild að félagi, svo sem álagningar opinberra gjalda, ræðst gildistími í þeim atriðum af lögmætri tilkynningu til þjóðskrár.“ Þessi ákvæði 8. gr. eru efnislega eins í 9. gr. laganna frá 1999. Í reynd hafa þessi skráningarmál um inngöngu og úrsögn færst alfarið yfir á hvern og einn einstakling án atbeina presta eða forstöðumanna viðkomandi félaga. Þjóðskráin hefur áratugum saman haft sérstök eyðublöð vegna þessara skráninga (tilkynninga), sem uppfærðar voru í þjóðskrá 1. desember ár hvert, sbr. 8. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, en í mars 1986 var farið að skrá slíkar tilkynningar jafnóðum. Með lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, féllu lög um þjóðskrá og almannaskráningu úr gildi. Í dag tekur Þjóðskrá Íslands að jafnaði við þessum tilkynningum rafrænt en einnig er hægt að tilkynna um breytingu í afgreiðslu Þjóðskrár Ísland.
    Í lögum nr. 108/1999 eru ákvæði um hvernig skráningu nýfæddra barna í trúfélag skuli háttað. Skráning barna ræðst af skráningu foreldra. Hjá skráðum trúfélögum og nú einnig skráðum lífsskoðunarfélögum er ekki skilyrði að hafa tilkynnt skráningu í tiltekið félag til Þjóðskrár Íslands til þess að geta verið í ákveðnu félagi heldur ræðst það af samþykktum eða lögum viðkomandi félags. Skráning í trúfélag eða lífsskoðunarfélag í þjóðskrá hefur nú fyrst og fremst þýðingu við 16 ára aldur því við það aldursbil hefjast greiðslur sóknargjalda frá ríkissjóði til þjóðkirkjunnar og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga. Hins vegar skiptir skráning í þjóðkirkjuna í þjóðskrá máli vegna fjölda sóknarbarna í tilteknum sóknum þjóðkirkjunnar. Meðal annars hvað varðar ráðstöfun sóknargjalda til hverrar og einnar sóknar, sbr. lög um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um söfnuði þjóðkirkjunnar og skilgreiningu þeirra. Að lúterskum skilningi er hinn staðbundni söfnuður (sókn) grunneining kirkjunnar. Hann safnast til sameiginlegrar guðsþjónustu og ástundar saman trúfræðslu, kærleiksþjónustu og annað kirkjulegt starf á starfssvæði sínu og í samvinnu við aðra söfnuði, samtök og stofnanir utan þess, t.d. á vettvangi alþjóðlegs hjálparstarfs, sbr. samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar, sem aðgengilegar eru á vef hennar. Sóknarmörk eru ákveðin með starfsreglum kirkjuþings samkvæmt tillögu biskupafundar en hann sitja biskup Ísland og báðir vígslubiskupar. Samkvæmt starfsreglum um biskupafund endurskoða þeir árlega hvort þörf sé á breytingum á skipan sókna með hliðsjón af hagkvæmni, breytingum á mannfjölda í sóknum, samgöngum, staðháttum eða aðstæðum að öðru leyti. Við mat á skipan sókna skal líta til þjónustuþarfa, sögulegra og menningarlegra verðmæta. Af þessum ástæðum þykir rétt að ganga út frá sókninni sem félagslegri og fjárhagslegri grunneiningu kirkjunnar eins og í gildandi lögum. Kirkjusókn er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem býr innan sóknarmarka en á sókn og söfnuði er sá munur að sókn er landfræðileg eining en söfnuðir vísa til sóknarbarna á tilteknum landsvæðum. Sóknarbörn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni eftir því sem nánar er kveðið á um í starfsreglum og ákvörðunum kirkjuþings. Árið 2019 var Sóknasamband Íslands stofnað en tilgangur sambandsins er að standa vörð um hagsmuni sókna í íslensku þjóðkirkjunni, efla og styrkja sóknir hennar bæði félagslega og fjárhagslega og vera samnefnari og talsmaður sókna út á við.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að sóknin sé félagsleg og fjárhagsleg grunneining þjóðkirkjunnar og í 2. mgr. er skilgreining á sókn, þ.e. að söfnuður á tilteknu landsvæði myndi sókn. Í 3. mgr. segir að sóknarbörn séu öll þau sem lögheimili eigi í sókn og eru skráð í þjóðkirkjuna í þjóðskrá. Heitið sóknarbörn nær hér yfir alla í söfnuði, óháð aldri. Fellt er brott það skilyrði núgildandi laga að sóknarbörn þurfi að hafa átt lögheimili í sókninni 1. desember næstliðinn og eru því réttindi sóknarbarna, svo sem til kjörs í sóknarnefnd, ekki lengur bundin því tímamarki. Aðgreining sókna hefur enn fremur ýmsa þýðingu í starfi þjóðkirkjunnar. T.d. getur hún haft áhrif á fjölda presta og samstarf milli sókna og á sóknarskiptingu getur reynt í ýmsum kosningum í kirkjunni og í ýmiss konar tölfræði kirkjunnar.
    Í 4. mgr. er lagt til að Þjóðskrá Íslands skuli árlega standa þjóðkirkjunni skil á skrá yfir nöfn, kennitölur og fjölda sóknarbarna sem lögheimili eiga í hverri sókn fyrir sig. Slík afhending skrár, sem síðari ár hefur verið hýst hjá Þjóðskrá Íslands, hefur frá upphafi skráningar tíðkast að miða við 1. desember ár hvert, enda eru greiðslur ríkissjóðs á sóknargjöldum miðaðar við þá dagsetningu, deilt út á tólf mánuði. Með nýjum lögum um þjóðskrá, sbr. lög um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, hefur vaknað spurning hjá Þjóðskrá Íslands hvort til staðar sé nægilega skýr lagaheimild sem skyldar stofnunina til að skrá og miðla upplýsingum um sóknir í þjóðskrá. Með þessu ákvæði frumvarpsins má segja að þeim vafa hafi verið eytt hvað varðar miðlun upplýsinga. Af þessu tilefni mun þjóðkirkjan veita Þjóðskrá Íslands þær upplýsingar sem hún þarfnast til þess að unnt verði að skrá áfram sóknarbörn í tilteknar sóknir, meðal annars svo Fjársýsla ríkisins geti skilað sóknargjöldum á sama hátt og verið hefur. Þjóðkirkjan er eina trúfélagið þar sem greidd sóknargjöld eru tilgreind á hverja sókn; þar sem sóknir eru fjárhagslega sjálfstæðar einingar, en önnur félög hafa fengið sóknargjöldin ótilgreind og þar af leiðandi óháð lögheimilisskráningu í tilteknu sveitarfélagi. Hafa verður í huga bein ákvæði laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987. Í 1. gr. þeirra laga segir meðal annars að þjóðkirkjusöfnuðir skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt lögum um tekjuskatt. Í 1. mgr. 2. gr. kemur fram að ríkissjóður skuli af óskiptum tekjuskatti skila fjárhæð er rennur til þjóðkirkjusafnaða. Í 1. mgr. 3. gr. segir meðal annars að gjald skv. 2. gr. sé miðað við einstakling, sem skráður er í þjóðkirkjuna, og skuli greiðast til þess safnaðar sem hann tilheyrir og í 4. gr. kemur fram að Fjársýsla ríkisins annist skiptingu gjaldsins. Til að Fjársýsla ríkisins geti sinnt þessu lögbundna hlutverki sínu er nauðsynlegt að Þjóðskrá Íslands skrái þá sem tilheyra þjóðkirkjunni í tiltekna sókn samkvæmt lögheimili. Áratugum saman hefur þótt rétt að slíkar upplýsingar séu sóttar í skráningarkerfi ríkisins og er ekki að sjá að breyting hafi orðið á lögum hvað það varðar, en til þessa hafa verið nýttar skrár Þjóðskrár Íslands (undir ýmsum heitum þjóðskrárinnar) frá upphafi almannaskráningar hér á landi 1. janúar 1953. Fyrir liggur að Þjóðskrá Íslands gerir ekki athugasemdir við orðalag 4. mgr. Þá má benda á að Persónuvernd hefur hinn. 20. desember 2019, í máli nr. 2019/25, veitt álit um heimild til afhendingar persónuupplýsinga um meðlimi trú- og lífsskoðunarfélaga frá Þjóðskrá Íslands til félaganna sjálfra. Kemur þar fram að Þjóðskrá Íslands sé heimilt að veita skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum aðgang að upplýsingum um hverjir eru skráðir meðlimir í þeim samkvæmt tilkynningu einstaklinga sjálfra til stofnunarinnar. Komi beiðni um fyllri upplýsingar, svo sem upplýsingar um hjúskaparstöðu, metur Þjóðskrá Íslands hvort rétt sé að veita þær.

Um 7. gr.

    Kirkjuþing hefur samkvæmt gildandi lögum æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka og þar með talið það hlutverk að setja starfsreglur um starf og starfshætti kirkjunnar. Kirkjuþing markar enn fremur stefnu í sameiginlegum málefnum þjóðkirkjunnar öðrum en kenningarlegum, en þau málefni heyra undir verkefni biskups, sbr. 3. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 20. gr. gildandi laga. Með sameiginlegum málefnum þjóðkirkjunnar er einkum átt við þau málefni sem varða kirkjuna í heild, en t.d. ekki sérhvert málefni og ákvarðanir sókna eða safnaðarfunda sem er á þeirra valdi að ákveða. Samkvæmt gildandi lögum fer kirkjuráð með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing setur starfsreglur um kirkjuráð, sbr. nú reglur nr. 817/2000, með síðari breytingum. Í ljósi þess að frumvarp þetta miðar að því að einfalda regluverk þjóðkirkjunnar og snýr fyrst og fremst að grunnþáttum kirkjunnar þykir ekki ástæða til að hafa ákvæði um kirkjuráð í texta frumvarpsins þar sem verkefni þess snúa fyrst og fremst að framkvæmd ýmissa málefna og verkefna þjóðkirkjunnar.
    Hér er áréttað sérstaklega í 1. mgr., að auk þess að fara með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar og marka stefnu hennar í sameiginlegum málefnum öðrum en kenningarlegum, hafi kirkjuþing fjárstjórnarvald hennar. Með ákvæði þessu er ætlunin að styrkja stöðu og vald kirkjuþings innan þjóðkirkjunnar. Fjárstjórnarvaldi kirkjuþings geta þó verið sett þau takmörk að bundið verði í lögum að fjárstjórn geti verið í höndum og á ábyrgð annarra innan þjóðkirkjunnar. Kirkjuþing hefur hingað til haft aðkomu að fjármálum þjóðkirkjunnar svo sem með ákvörðunum sínum um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma og með ákvörðunum um kaup og sölu fasteigna og um eftirlit með fjárfrekum verkefnum, sbr. viðeigandi starfsreglur. Í samræmi við viðbótarsamning íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, sem samþykktur var 6. september 2019, hefur þjóðkirkjan nú fengið aukið sjálfstæði í fjármálum og starfsmannamálum sínum. Meðal annars hefur hún tekið yfir öll sín launamál, þar á meðal launamál presta og tiltekinna starfsmanna biskupsstofu, sem áður voru á hendi ríkisins. Mikilvægt er að höfð sé hliðsjón af þessu nýja verkefni við ákvarðanir kirkjuþings er snúa að fjárstjórnarvaldi þjóðkirkjunnar, svo sem við ákvarðanir um launamál tiltekinna starfsmanna hennar, sem geta valdið vanhæfi þeirra séu þeir fulltrúar á kirkjuþingi, sbr. nánar um 3. mgr. Skv. 2. gr. laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, renna sóknargjöld til þess safnaðar þjóðkirkjunnar þar sem sóknarbarn á lögheimili. Í þessu felast ákveðin takmörk á fjárstjórnarvaldi kirkjuþings, þar sem söfnuðir hafa fjárstjórn þeirra fjármuna sem til þeirra renna samkvæmt þessu ákvæði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um kosningu til kirkjuþings og kosningu þingforseta og eru þau ákvæði sama efnis og 1. og 5. mgr. 21. gr. gildandi laga. Þá er lagt til að lögfest verði að tveir varaforsetar skuli kosnir úr röðum leikmanna og að saman myndi þeir með þingforseta forsætisnefnd þingsins. Enn fremur er lagt til, eins og er í gildandi lögum, að á kirkjuþingi skuli leikmenn vera fleiri en vígðir, sbr. nú 3. mgr. 21. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, með síðari breytingum. Samkvæmt gildandi starfsreglum kirkjuþings eru 12 þeirra vígðir (prestar eða djáknar) en 17 eru leikmenn úr röðum sóknarnefndarfólks. Leikmaður telst vera sá sem ekki hefur tekið vígslu til prests eða djákna. Þar sem frumvarpið snýr að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar er ekki talin ástæða til að lögfesta fjölda kjörinna fulltrúa á kirkjuþingi að því undanskildu að leikmenn skuli vera fleiri en vígðir eins og nú er. Að öðru leyti setji kirkjuþing starfsreglur um skipan þingsins.
    3. mgr. er nýmæli en þar er lagt til að þegar til afgreiðslu eru á kirkjuþingi tillögur um fjármál sem geta varðað tiltekna þingfulltrúa, svo sem ef fjallað er um launamál þeirra, aukatekjur eða önnur fjármál sem þá snerta, skuli þeir víkja sæti. Tekið er fram að við slíka afgreiðslu verði ekki gerð krafa um að tiltekinn fjöldi þingfulltrúa taki þátt í afgreiðslu máls, eins og er um afgreiðslu annarra mála. Ákvæðið er talið nauðsynlegt, meðal annars þar sem sjálfstæði kirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum hefur aukist mikið frá gerð fyrrgreinds viðbótarsamkomulags milli ríkis og kirkju. Í samkomulaginu segir að þjóðkirkjan hafi sjálfstæðan fjárhag, beri fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveði sjálf fjölda starfsmanna sinna. Þá segir að þjóðkirkjan skuli sjálf annast alla launavinnslu, bókhald og launagreiðslur til starfsmanna sinna frá 1. janúar 2020. Endurskoðun reikninga kirkjunnar verði ríkinu óviðkomandi frá sama tímamarki. Þessari tilhögun og fyrirkomulagi var svo komið á með lögum nr. 153/2019. Þetta þýðir að lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, eiga ekki lengur við um starfsemi þjóðkirkjunnar. Ársreikningar þjóðkirkjunnar verða því frá 1. janúar 2020 endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem kirkjuþing kýs sjálft eða staðfestir kjör þess sem fyrir er, á framhaldskirkjuþingi ár hvert, en ekki af Ríkisendurskoðun. Kirkjan hefur þannig frá 1. janúar 2020 haft yfirstjórn allra launamála sinna, en fram til þess tíma voru prestar og nokkrir starfsmenn kirkjunnar opinberir starfsmenn og þáðu laun sín úr ríkissjóði. Mikilvægt er að kirkjuþing setji nánari starfsreglur um hvernig standa skuli að ákvörðunum um fjárstjórn kirkjunnar hvað þetta varðar.

Um 8. gr.

    Um starfsreglur kirkjuþings er fjallað í 2. mgr. 59. gr. gildandi laga. Í athugasemdum með þeirri grein var sagt að þessum reglum væri ætlað að hafa bindandi gildi innan þjóðkirkjunnar. Ætlast væri til þess að reglur af þessu tagi yrðu settar um kirkjuleg málefni og gætu þær e.t.v. smám saman tekið að nokkru leyti við hlutverki settra laga svo sem verið hefur um starfsemi þjóðkirkjunnar. Gildandi ákvæði um starfsreglur kirkjuþings þykir mega vera skýrara en þar er meðal annars kveðið á um að kirkjuþing setji starfsreglur um tiltekna þætti kirkjustarfsins. Því er hér lagt til að lögfesta víðtækara ákvæði sem felur í sér ótvíræða og almenna heimild kirkjuþings til að setja bindandi starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar enda verði þess gætt að þær séu ekki í andstöðu við sett lög, sbr. 3. mgr. 2. gr. Slík víðtæk heimild er auk þess í samræmi við þann megintilgang frumvarpsins að einfalda löggjöf frá Alþingi um málefni þjóðkirkjunnar, auka sjálfstæði hennar og færa fulla ábyrgð og ákvarðanatöku í málefnum þjóðkirkjunnar í enn ríkari mæli til kirkjuþings en nú er.
    Í 2. mgr. er kveðið á um birtingu ákvarðana kirkjuþings. Í tíð gildandi laga hafa starfsreglur kirkjuþings verið birtar í Stjórnartíðindum. Með brottfalli þeirra laga mun þjóðkirkjan birta starfsreglur, samþykktir og ályktanir kirkjuþings á opnum vef kirkjunnar innan fjögurra vikna frá samþykkt þeirra.

Um 9. gr.

    Í gildandi lögum er heimildarákvæði til handa kirkjuþingi um að hafa frumkvæði að frumvörpum um kirkjuleg málefni. Í frumvarpi þessu er lagt til að kirkjuþing hafi almennt frumkvæði að frumvörpum til laga um málefni þjóðkirkjunnar, sbr. 1. mgr. Í þessu felst þó ekki að verið sé að útiloka frumkvæði ráðherra eða biskups Íslands. Þá hefur kirkjuþing að jafnaði ekki frumkvæði að málum um kirkjuleg málefni nema þau tengist þjóðkirkjunni á einhvern hátt.
    Í 2. mgr. er áfram gert ráð fyrir því að ráðherra kirkjumála leiti umsagnar og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni sem hann hyggst flytja á Alþingi. Rétt þykir að kirkjuþing, sem hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, geti komið að sjónarmiðum sínum varðandi löggjöf er varðar kirkjuleg málefni, einkum í ljósi þess sjálfstæðis sem kirkjunni hefur verið markað frá árinu 1997.

Um 10. gr.

    Lagt er til í frumvarpinu að áfram verði tilgreint í löggjöf um þjóðkirkjuna að Ísland sé eitt biskupsdæmi eins og kveðið er á um í 1. mgr. 6. gr. gildandi laga.
    Frá öndverðu voru biskupsstólar tveir hér á landi, annar í Skálholti en hinn á Hólum í Hjaltadal. Með konungsúrskurði og svo konungsbréfi árið 1785 var ákveðið að flytja biskupssetrið í Skálholti til Reykjavíkur og með konungsbréfi 1801 var Hólastóll lagður niður. Á þennan hátt varð landið eitt biskupsdæmi og hefur svo verið æ síðan.
    Frá ofanverðri 19. öld og nær alla 20. öld hafa verið uppi hugmyndir á Alþingi og innan kirkjunnar sjálfrar um breytingar á biskupsembættinu. Ýmist lutu hugmyndirnar að því að leggja embættið hreinlega niður eða fjölga biskupum og þá langoftast að biskupsdæmin yrðu þrjú. Árið 1909 var lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp um stofnun embættis varabiskups. Meginrökin fyrir þessu embætti þá voru þau að mönnum þótti óviðeigandi að íslenskur biskup þyrfti að sækja vígslu til annarra landa. Þingmönnum þótti embættisheitið varabiskup ótækt og hugnaðist betur heitið vígslubiskup. Á þessu þingi var þá borið fram nýtt frumvarp um endurreisn Hólabiskupsdæmis og um tvo vígslubiskupa. Ákvæðið um biskup á Hólum var fellt en ákvæði um tvo vígslubiskupa samþykkt, sbr. lög nr. 38/1909, og er svo enn.
    Með stjórnarfrumvarpi frá árinu 1990 um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands var lagt til að landið yrði áfram eitt biskupsdæmi. Jafnframt var lagt til að embætti vígslubiskupa yrðu efld verulega. Með því að efla embætti vígslubiskupa var talið að komið væri að verulegu leyti til móts við sjónarmið þeirra sem töldu þörf á að styrkja biskupsembættið í landinu. Jafnframt var með þessum tillögum talið að komið væri til móts við sjónarmið þeirra sem töldu að það að skipta landinu í þrjú biskupsdæmi gæti skapað vissa óeiningu innan kirkjunnar. Þá var bent á að þessi tilhögun hefði lítinn aukakostnað í för með sér.
    Samkvæmt gildandi lögum skipar forseti Íslands biskup Íslands og vígslubiskupa og voru þeir því embættismenn ríkisins. Vegna viðbótarsamkomulagsins og lagabreytinga í kjölfar þess eru biskuparnir ekki lengur embættismenn ríkisins og þar af leiðandi getur forseti Íslands ekki skipað þá samkvæmt lögum, sbr. 20. gr. laga nr. 153/2019 og 1. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar.
    Eins og áður hefur komið fram er meginmarkmið þessa frumvarps að draga sem mest úr afskiptum ríkisvaldsins af málefnum þjóðkirkjunnar. Í ljósi þess er að framan segir um þessa grein er lagt til í frumvarpinu að biskupsdæmið verði áfram eitt og að biskups Íslands sé getið í lögunum og að um kjör hans fari samkvæmt starfsreglum kirkjuþings um það efni. Hvað varðar vígslubiskupa er litið svo á að störf þeirra heyri til innri málefna kirkjunnar og verði þeirra því ekki getið í frumvarpsgreinum, sbr. það sem fram kemur um prófasta í athugasemdum um 3. gr. Segja má að starf biskups Íslands falli með sama hætti undir innra starf kirkjunnar og starf vígslubiskupa, en þar sem biskup Íslands er í forsvari fyrir þjóðkirkjuna þykir rétt að tilgreina starf hans í lögum eins og gert er um alla aðra forstöðumenn í lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að biskup Íslands fari með yfirstjórn þjóðkirkjunnar eftir því sem kirkjuþing mælir nánar fyrir um. Biskup hefur í starfi sínu sér til fulltingis við framkvæmd stjórnunar þjóðkirkjunnar, fyrir utan kirkjuþing, meðal annars forstöðumenn kirkjulegrar starfsemi, stjórnir kirkjumiðstöðva, sóknarnefndir, kirkjugarðsstjórnir, Kirkjugarðaráð og stjórnir ýmissa sjóða. Biskup Íslands er æðsti yfirmaður stærsta trúfélags þjóðarinnar og eru verkefni biskups margþætt. Í gildandi lögum eru sérstök ákvæði um verkefni og stöðu biskups, þ.m.t. um sérstöðu biskups í kirkjustjórninni. Í samræmi við meginstefnu frumvarpsins þar sem áhersla er lögð á að regluverk kirkjunnar verði mótað af kirkjuþingi í stað löggjafar mun það verða verkefni kirkjuþings að kveða á um stöðu og verksvið biskups Íslands.
    Í 3. mgr. er tiltekið að eitt af hlutverkum biskups Íslands sé að gæta einingar kirkjunnar en það er nú tilgreint til viðbótar þeim hlutverkum sem tilgreind eru í gildandi lögum, þ.e. að hafa tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu hennar í landinu. Með einingu kirkjunnar er átt við að biskup gæti kenningarinnar og boðskapar fagnaðarerindisins. Um einingu þjóðkirkjunnar er fjallað í samþykktum um innri málefni hennar. Hér má vísa til Porvoo-samþykktarinnar, en þar segir m.a.: „Við trúum að þjónusta hirðis og tilsjónarmanns (episkope) sem starfar á persónulegan, samábyrgan og félagslegan hátt, sé nauðsynleg til að vitna um og varðveita einingu og postullegt einkenni kirkjunnar ... tryggja undir stjórn Guðs samfellt líf kirkjunnar í postullegu lífi og vitnisburði.“ (Porvoo-yfirlýsingin, bls. 21).

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um árlega gagngreiðslu vegna viðbótarsamnings þjóðkirkjunnar og ríkisins frá 6. september 2019 en með samningi þessum skuldbatt ríkið sig til að greiða þjóðkirkjunni, til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar lögbundnum sem ólögbundnum, árlegt endurgjald á grundvelli samningsins. Viðbótarsamningurinn er endurskoðun á samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 og samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998. Markmið viðbótarsamningsins var að einfalda framkvæmd fjárhagslegra samskipta ríkisins við þjóðkirkjuna og auka sjálfstæði hennar í fjármálum og starfsmannamálum. Samningurinn felur í sér nýjar viðmiðanir og breytt fyrirkomulag á ýmsum þeim atriðum sem fjallað er um í áðurnefndum fyrri samningum aðila. Áður en viðbótarsamningurinn var undirritaður af fulltrúum ríkisins og þjóðkirkjunnar var hann samþykktur á aukakirkjuþingi sem haldið var 28. ágúst og 4. september 2019. Með viðbótarsamningnum fellur samningurinn frá 1998 úr gildi en samkomulagið frá 1997 verður áfram í gildi, sbr. þó þær breytingar sem felast í hinum nýja viðbótarsamningi. Með viðbótarsamningnum fylgdi viljayfirlýsing, undirrituð af sömu aðilum, þar sem stefnt er að ákveðnum lagabreytingum í þeim tilgangi að einfalda allt lagaumhverfi um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju á þeim gagngreiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði.
    Ákvæði 2. mgr. er efnislega eins og ákvæði 2. mgr. 62. gr. gildandi laga, eins og henni var breytt með 6. gr. laga nr. 82/2007. Hún var sett til samræmis við samkomulag íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur til presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar 10. janúar 1997, sbr. nánari útfærslu í samningi 4. september 1998, og síðar samkomulag 20. október 2006 af hálfu biskups Íslands, dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra um að íslenska ríkið afhendi þjóðkirkjunni til eignar prestssetur eins og nánar greinir í samkomulaginu. Fyrir liggur lokasamkomulag milli ríkissjóðs og þjóðkirkjunnar um úrvinnslu og yfirfærslu á tilteknum eignum í samræmi við samkomulag frá árinu 2006 við þjóðkirkjuna um prestssetur og afhendingu þeirra til kirkjunnar, dags. 4. mars 2019. Að þessu óbreyttu eru engin efni til breytinga á þessu ákvæði.

Um 12. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2021, svo kirkjuþingi veitist ráðrúm til þess að aðlaga regluverk sitt nýrri löggjöf, en ráðgert er að reglulegt kirkjuþing komi saman haustið 2021.
    Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Í 3. mgr. er ákvæði um lagaskil vegna mála sem kunna að vera til meðferðar hjá úrskurðar- eða áfrýjunarnefnd sem starfa skv. 12. og 13. gr. laga nr. 78/1997, eða til meðferðar hjá ráðuneytinu skv. 4. gr. þeirra laga. Er gert ráð fyrir að meðferð þeirra mála verði fram haldið hjá nefndunum eða ráðuneytinu í samræmi við gildandi lög þegar þau hófust.

Um 13. gr.

    Í viljayfirlýsingu þeirri sem fylgdi viðbótarsamningi ríkis og þjóðkirkjunnar kom meðal annars fram að fulltrúar þjóðkirkjunnar og ríkisins skyldu vinna saman að yfirferð yfir gildandi lög er vörðuðu þjóðkirkjuna með það að markmiði að einfalda regluverkið. Af því tilefni, og fyrir hönd þjóðkirkjunnar fór sú nefnd sem forsætisnefnd kirkjuþings skipaði til að vinna að frumvarpi til þjóðkirkjulaga, ásamt þeim sem með nefndinni unnu, yfir lög og réttarreglur er vörðuðu málefni þjóðkirkjunnar í lagasafninu. Af hálfu ríkisins kom dómsmálaráðuneytið (ráðuneyti kirkjumála) að málinu.
    Afrakstur vinnu nefndarinnar var til umræðu á kirkjuþingi í september 2020 sem tillaga til þingsályktunar um brottfall ýmissa laga og réttarreglna er varða málefni þjóðkirkjunnar og var hún samþykkt einróma. Í framhaldi af því sendi forseti kirkjuþings ráðuneytinu þingsályktunina með greinargerð, ásamt nefndaráliti löggjafarnefndar þingsins. Þingsályktunin er í samræmi við fyrri samskipti ráðuneytisins við þjóðkirkjuna hvað þetta varðar.
    Við könnun nefndarinnar á eldri lögum um þjóðkirkjuna í lagasafninu varð deginum ljósara að mörg ákvæðanna eru löngu úrelt, hafa runnið í annan farveg eða þá að gerningar sem vísað er til í þeim hafa fyrir löngu verið efndir. Margt í þeim er nú þegar komið fram í starfsreglum kirkjuþings. Ef kirkjuþingsfulltrúar telja að eitthvað sé enn í þeim lagaákvæðum sem lagt er til að falli brott sem eigi heima í regluverki kirkjunnar, þá ætti það að vera verkefni fyrir forseta þingsins og fastanefndir þess að koma slíku fyrir í starfsreglum. Í þessu sambandi skal sérstaklega tekið fram að við brottfall laga um kirkju- og manntalsbækur (sálnaregistur), nr. 3/1945, er nauðsynlegt að kirkjuþing, frekar en nú þegar er tilgreint í starfsreglum þess, setji nýjar starfsreglur um færslu kirkjubóka (prestþjónustubóka), til samræmis við það sem tíðkast hefur, meðal annars um löggildingu þeirra (af hálfu biskups Íslands), varðveislu og skil, sbr. nú lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014 (sjá meðal annars 3. tölul. 1. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 26. gr.). Á fundum nefndarinnar varð sérstök umræða um lög er varða Skálholtsstað. Annars vegar lög um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað, nr. 32/1963, og hins vegar lög um Skálholtsskóla, nr. 22/1993. Fyrri lögin, um afhendingu ríkisins á Skálholtsstað, eru efnd fyrir áratugum og öll eignarráð hafa því verið færð til þjóðkirkjunnar. Lögin eru því vitnisburður um veglyndi í anda stjórnarskrárinnar um að ríkisvaldið eigi að styðja og vernda þjóðkirkjuna, en eiga ekki lengur heima í lagasafni. Hvað varðar seinni lögin, um Skálholtsskóla, þá liggur fyrir að skólahald í skilningi laganna hefur verið lagt af og enginn rektor starfar þar lengur. Kirkjuráð hefur ekki um nokkurt skeið sett Skálholtsskóla samþykktir um starf og rekstur hans eins og lögin áskilja og sama gildir um gerð samninga um þátttöku ríkisins í rekstri skólans. Segja má að með fyrrnefndum viðbótarsamningi þjóðkirkjunnar og ríkisins séu þau samningsmál leyst.
    Allar réttarreglur sem lagt er til að falli brott úr lagasafninu eru frá átjándu öld og fyrri hluta nítjándu aldar. Vissulega er að sumu leyti sjónarsviptir að þessum gömlu réttarreglum og þær eru sumar hverjar lýsandi um samspil ríkis (konungs) og kirkju fyrr á tímum. En ákvæðin hafa, og það fyrir löngu, runnið sitt skeið og eru nú eftir nýjasta samning ríkis og kirkju, frá 6. september 2019, og viljayfirlýsingu, beinlínis í hrópandi andstöðu við sjálfstæði þjóðkirkjunnar.
    Þær réttarreglur sem í þessari tillögu kirkjuþings til þingsályktunar er lagt til að falli brott voru allar settar í tíð einvaldskonunga sem ríktu í Danmörku á árabilinu frá 1660 til og með 5. júní 1849, þegar Danir fengu sína fyrstu stjórnarskrá (d. Grundloven). Réttarreglurnar voru í tímans rás settar fram undir ýmsum heitum og fór það eftir því hvort kóngur beindi þeim almennt til borgaranna (d. anordning eða forordning, sem á íslensku var þýtt sem tilskipanir) eða lægra setts stjórnvalds eða til einstakra manna eða einsleits hóps (erindis- og konungsbréf handa biskupum eða til biskupa).
    Við störf nefndarinnar taldi hún þó að ein lög ættu að halda gildi sínu (lög um kirkjuítök og sölu þeirra, nr. 13/1956) og eitt lagaákvæði í öðrum lögum sem að öðru leyti eru fallin úr gildi (5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970). Margt í lögum nr. 13/1956 er í fullu gildi og gæti reynt á í dómsmálum. Með lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62/1990, var heiti laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um Kristnisjóð, nr. 35/1970, breytt í lög um Kristnisjóð o.fl. Með 4. gr. laga nr. 95/2020 var II. kafli laga um Kristnisjóð o.fl. felldur úr gildi. Lög nr. 62/1990 voru síðan að mestu lögð niður með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Einungis 5. gr. laga nr. 35/1970 stendur eftir en þar segir að sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Ef presti er skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni sé sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans ef um lögboðið prestssetur er að ræða.
    Nefnd kirkjunnar telur að fyrri málsliður greinarinnar eigi efnislega að standa áfram í lögum en síðari málsliðurinn eigi ekki lengur við. Sama kom fram hjá löggjafarnefnd kirkjuþings við umfjöllun hennar um þingsályktun um brottfall eldri laga og réttarreglna er varða málefni þjóðkirkjunnar. Nefnd kirkjunnar segir að með viðbótarsamningnum frá september 2019 hafi orðið að samkomulagi milli ríkis og þjóðkirkju að fella úr gildi lög um Kristnisjóð o.fl. Aftur á móti hafi 5. gr. orðið eftir við lagabreytinguna enda er hún allsendis óskyld öðrum ákvæðum þeirra laga. Telur nefnd kirkjunnar að rétt væri að löggjafinn breytti heiti laganna og umorðaði fyrri málsliðinn til samræmis við gildandi löggjöf sveitarfélaga.
    Þá taldi nefndin að tvö konungsbréf frá átjándu öld ættu að standa áfram í löggjöf því á þau gæti reynt enn í dómsmálum. Fyrra bréfið er konungsbréf (til stiftamtmanns og biskups) um eignaskipti að bændakirkjum, frá 5. mars 1751, og síðara bréfið er konungsbréf (til biskups) er löggildir máldagabók Gísla biskups Jónssonar frá 5. apríl 1749. Þá taldi nefndin enn fremur að Kristinréttur Árna biskups Þorlákssonar frá 1275 ætti að standa áfram í lagasafni. Hann væri minning um kristnihald í landinu um aldir og úr því að þessi réttarregla hefði staðið af sér siðaskiptin þá ætti hún að geta lifað enn um sinn. Í þessu sambandi má þess geta að í bók Sigurðar Líndals, fyrrverandi prófessors í lögfræði við Háskóla Íslands, Um lög og lögfræði, frá 2002, segir að kristinn réttur hafi verið lögtekinn á Alþingi fyrir Skálholtsbiskupsdæmi 1275, en á ýmsu hafi oltið um gildi hans þar til í upphafi 14. aldar. Hann hafi svo verið lögtekinn í Hólabiskupsdæmi árið 1354. Sigurður segir svo að lokum að enn séu talin í gildi tvö ákvæði úr honum (bls. 109). Sérstaklega má benda á síðari greinina, nr. 12 um kirkjuvígslu, sem enn er haldin í heiðri innan þjóðkirkjunnar.
    Fyrir rúmum þrjátíu árum var fjöldi eldri laga og réttarreglna felldur brott úr lagasafninu, sbr. 49. gr. laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62/1990. Það voru meðal annars réttarreglur sem settar voru áður en einveldiskonungar tóku völd í Danmörku og svo réttarreglur frá 18. og 19. öld. Flest lögin sem féllu brott voru frá 19. og byrjun 20. aldar, þar á meðal lögin um vígslubiskupa frá árinu 1909, en með þeim lögum varð heitið vígslubiskup til af brýnni nauðsyn, því áður þurftu prestar að fara utan til biskupsvígslu.
    Til fróðleiks fylgir með hér að neðan listi yfir þau lög og réttarreglur sem féllu úr gildi 1. júlí 1990:
     1.      Konungsbréf 16. febr. 1621, um aldur presta.
     2.      Alþingissamþykkt 30. júní 1629, um legorð presta.
     3.      Alþingissamþykkt 1. júlí 1629, um prestmötu.
     4.      Konungsbréf 10. desember 1646, um legorð presta.
     5.      Dönsku lög Kristjáns V. frá 15. apríl 1683, 2. bók 2. kap. 5. gr. og 2. bók 11. kap. 13. gr.
     6.      Konungsbréf 9. maí 1738, um legorð andlegrar stéttar manna.
     7.      Konungsbréf 6. maí 1740, um portionsreikninga bændakirkna.
     8.      Tilskipun 29. maí 1744, áhrærandi ungdómsins catechisation á Íslandi.
     9.      Konungsbréf 19. maí 1747, um gegnumdregnar bækur.
     10.      Konungsbréf 27. febrúar 1756, um uppreist presta er vikið hefur verið frá embætti.
     11.      Konungsbréf 11. mars 1796, um prestsverk prófasta innan prófastsdæmis.
     12.      Lög nr. 4 27. febrúar 1880, um eftirlaun presta.
     13.      Lög nr. 13 3. okt. 1884, um eftirlaun prestsekkna.
     14.      Lög nr. 21 22. maí 1890, viðaukalög við lög nr. 5 27. febr. 1880, um stjórn safnaðarmála og skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda.
     15.      Lög nr. 47 16. nóv. 1907, um laun prófasta, 3. gr.
     16.      Lög nr. 48 16. nóv. 1907, um ellistyrk presta og eftirlaun.
     17.      Lög nr. 49 16. nóv. 1907, um skyldu presta til að kaupa ekkjum sínum lífeyri.
     18.      Lög nr. 38 30. júlí 1909, um vígslubiskupa.
     19.      Lög nr. 26 16. febr. 1953, um heimild fyrir kirkjumálaráðherra til að taka leigunámi og byggja á erfðaleigu hluta af prestssetursjörðum.
     20.      Lög nr. 35 9. maí 1970, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um Kristnisjóð, 1.–4., 6.–10. og 14.–17. gr. Heiti þeirra laga breytist jafnframt og verður Lög um Kristnisjóð o.fl.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Starfsfólk þjóðkirkjunnar sem talið var upp í 1. mgr. 60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, sem felld var niður með lögum nr. 153/2019, telst ekki til embættismanna eða starfsmanna ríkisins eftir setningu þeirra laga, heldur starfar það hjá þjóðkirkjunni. Með lögunum var 4. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, felldur brott, en þar sagði að biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar teldust vera embættismenn. Í samræmi við það voru gerðar orðalagsbreytingar á þeim ákvæðum laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, þar sem vísað var til orðsins embættis eða tengdra orða. Var meðal annars gerð sú breyting að nota þess í stað orðin starf og þjónusta. Einnig var lagt til að hverfa frá orðalaginu um að setja eða skipa í embætti og taka í staðinn upp orðalagið að ráða til starfa. Þá var gerð sú breyting að ákvæði laganna sem vísuðu til launagreiðslna til starfandi presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar frá ríkinu féllu brott, sbr. ákvæði 2. mgr. 3. gr. og V. kafla þeirra, enda greiðir ríkið ekki lengur árleg laun tiltekins fjölda starfsfólks og tiltekið framlag í sjóði kirkjunnar heldur greiðir það þess í stað eina fjárhæð árlega, gagngreiðslu, til þjóðkirkjunnar vegna skuldbindinga á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins, sbr. viðbótarsamninginn.
    Meginverkefni kirkjuþings á næstu missirum er að setja nýjar starfsreglur í stað þeirra lagaákvæða sem brott falla samkvæmt lögunum, og breyta ýmsum starfsreglum og samþykktum eða fella niður. Breytingar felast meðal annars í nýjum reglum um málsmeðferð varðandi gerð árlegra fjárlaga kirkjuþings og setningu gjaldskrár kirkjuþings um greiðslur fyrir prestsþjónustu þjóðkirkjunnar. Gjaldskráin kemur í stað gjaldskrár um greiðslur fyrir aukaverk presta þjóðkirkjunnar, nr. 729/2014, sem sett var með heimild í 3. gr. laga um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931, með síðari breytingum, en þau lög voru felld brott með lögum nr. 153/2019. Á kirkjuþingi 2020 – 2021 sem haldið var í september 2020, samþykkti þingið nýja gjaldskrá um greiðslur fyrir prestsþjónustu þjóðkirkjunnar. Hún var birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. september 2020 og er nr. 933/2020. Gjaldskráin kom í stað gjaldskrár kirkjuráðs, nr. 753/2020, sem sett hafði verið um sama efni á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XIII, við lög nr. 78/1997, sbr. 3. gr. laga nr. 95/2020.