Ferill 769. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1413  —  769. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (framlenging úrræða, viðbætur).

(Eftir 2. umræðu, 11. maí.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020.

1. gr.

    Í stað „120 millj. kr.“ í 1. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna kemur: 260 millj. kr., að meðtöldum stuðningi samkvæmt lögum þessum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 og lögum um ferðagjöf, viðspyrnustyrkjum samkvæmt lögum um viðspyrnustyrki og tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufallsstyrki.

2. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. júní 2021“ í lokamálslið 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: 30. september 2021.

3. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. júní 2021“ í 2. málsl. 26. gr. laganna kemur: 30. september 2021.

II. KAFLI

Breyting á lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað „maí 2021“ í 1. málsl. kemur: nóvember 2021.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar „60%“ í 1. málsl. 1. tölul. kemur: 40%.
     c.      Á eftir orðunum „í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar“ í lokamálslið 1. tölul. kemur: eða viðspyrnustyrkur fyrir aðra mánuði.

5. gr.

    Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður, sem verður a-liður, svohljóðandi: 300 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi hjá rekstraraðila í mánuðinum eða í sama mánuði 2019 og ekki hærri en 1,5 millj. kr. enda sé tekjufall rekstraraðila skv. 1. tölul. 4. gr. á bilinu 40–60%.

6. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „30. júní 2021“ í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: 31. desember 2021.

7. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „120 millj. kr.“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 260 millj. kr.

III. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Auk barnabóta skv. A-lið 68. gr. skal við álagningu 2021 greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur til framfærenda.
    Sérstakur barnabótaauki samkvæmt ákvæði þessu telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna.
    Sérstökum barnabótaauka verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd ákvæðisins.

IV. KAFLI
Breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978.
9. gr.

    Í stað „16. maí“ í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum kemur: 31. desember.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. gilda 1. og 7. gr. afturvirkt frá 1. febrúar 2021.
    Þrátt fyrir 1. mgr. gilda b- og c-liður 4. gr. og 5. gr. afturvirkt frá gildistöku laga um viðspyrnustyrki 6. janúar 2021.