Ferill 793. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1437  —  793. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (þagnarskylda fyrir dómi eða lögreglu).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


1. gr.

    2. málsl. 5. mgr. 43. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er flutt af stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að beiðni forsætisráðuneytisins og í samráði við Seðlabanka Íslands. Með því eru lagðar til breytingar á 43. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Með samþykkt laga nr. 71/2019 var nýjum kafla bætt við stjórnsýslulög um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Kaflinn byggðist á tillögum dr. jur. Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins, en nefnd á vegum forsætisráðuneytisins um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis annaðist lokafrágang og samráð um efni frumvarps sem varð að lögum nr. 71/2019. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í tilefni af umsögn Seðlabanka Íslands um málið hafi m.a. verið gerð sú breyting á 43. gr. að þagnarskylda falli niður komi til þess að dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu.
    Páll Hreinsson hefur bent á að litið sé svo á að þagnarskylda haldist enda þótt vitni sé skyldað með dómsúrskurði til að bera vitni fyrir dómi eða veita lögreglu upplýsingar. Þegar slíkar upplýsingar eru veittar fyrir dómi sé dómþing almennt lokað og þeir sem fá að sitja þinghaldið séu bundnir þagnarskyldu og varði brot á henni réttarfarssekt. Í úrskurði dómara felist síðan fyrst og fremst niðurstaða um það hvort það sé viðeigandi að nota þagnarskyldar upplýsingar sem orðið hafa til í allt öðrum tilgangi en við meðferð sakamáls. Í úrskurðinum felist hins vegar ekki að þagnarskyldu verði létt af upplýsingunum. Í fræðum og framkvæmd hafi þannig verið litið á að þegar einstaklingur er knúinn til að veita upplýsingar sem þagnarskylda ríkir um, annaðhvort samkvæmt fyrirmælum laga eða dómsúrskurði, haldist þagnarskyldan áfram eigi að síður.
    Framangreint fær m.a. stoð í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 3. júní 2014 (329/2014) þar sem félag krafðist þess að fá afhenta nánar tiltekna hluta úr skýrslum sem átta starfsmenn Seðlabanka Íslands höfðu gefið fyrir rannsóknarnefnd Alþingis samkvæmt lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, nr. 142/2008. Í dómi Hæstaréttar var fallist á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að félagið ætti ekki rétt til aðgangs að skýrslunum umfram það sem umræddum starfsmönnum væri skylt að upplýsa um á grundvelli ákvæða um vitnaskyldu við skýrslugjöf fyrir dómi og byggðist niðurstaðan á því að skylda starfsmannanna til að veita upplýsingar samkvæmt lögum nr. 142/2008 gæti ekki breytt þeirri staðreynd að upplýsingarnar væru háðar þagnarskyldu skv. 1. mgr. 35. gr. þágildandi laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001.
    Samkvæmt framangreindu er ljóst að það er meginregla íslensks réttar að niðurstaða dómsúrskurðar um að tilteknar upplýsingar skuli veita fyrir dómi eða til lögreglu hafi ekki áhrif á það hvort upplýsingarnar teljist háðar þagnarskyldu í kjölfarið. Er því lagt til að 2. málsl. 5. gr. 43. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, falli brott þar sem efni hans fer skýrlega í bága við þessa meginreglu.