Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1709  —  537. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um gjaldeyrismál.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Tinnu Finnbogadóttur og Sigurð Pál Ólafsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Konráð S. Guðjónsson frá Viðskiptaráði Íslands, Árnínu Steinunni Kristjánsdóttur, Magnús Harðarson og Baldur Thorlacius frá Kauphöll Íslands og Stefaníu Kolbrúnu Ásbjörnsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust erindi um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Kauphöll Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, Viðskiptaráði Íslands og Jóhanni Þorvarðarsyni.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um gjaldeyrismál öðlist gildi og að gildandi lög um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, og lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, falli brott.

Breytingartillaga meiri hlutans.
Verndunarráðstafanir við sérstakar aðstæður (7. gr.).
    Í III. kafla frumvarpsins er Seðlabanka Íslands veitt heimild, að fengnu samþykki ráðherra, til að setja reglur sem takmarka eða stöðva fjármagnshreyfingar milli landa og gjaldeyrisviðskipti, sem og til að veita undanþágur frá slíkum reglum, eins og nánar er tilgreint í 7. og 8. gr. Sambærilega heimild er að finna í 3. gr. gildandi laga um gjaldeyrismál.
    Í rammagrein 3 í Peningamálum Seðlabankans (2/2021) er bent á hægt hafi á vexti framleiðni í öllum helstu iðnríkjum á undanförnum áratugum og að líklegt sé að svo verði áfram á næstu árum. Þetta eigi einnig við um Ísland þar sem árlegur vöxtur framleiðni vinnuafls hafi verið um einu prósenti minni á undanförnum tíu árum en áratugina tvo þar á undan. Auka megi framleiðni með því að „flytja inn þekkingu frá öðrum löndum, hvort sem það er í formi nýrrar tækni eða nýrra aðferða í stjórnun og framleiðslu“.
    Flæði alþjóðlegrar þekkingar og tækni á sér fyrst og fremst stað með alþjóðaviðskiptum og erlendri fjárfestingu í innlendum atvinnurekstri. Í Peningamálum segir: „Ekki er heldur að sjá að Ísland hafi forskot á önnur þróuð ríki hvað þetta varðar. Umfang alþjóðaviðskipta er lítillega minna en að meðaltali í öðrum iðnríkjum og töluvert minna en í þeim fimm ríkjum þar sem alþjóðaviðskipti vega hvað þyngst. Bein erlend fjárfesting inn í landið er jafnframt minni hér á landi en í öðrum iðnríkjum enda sætir hún víðtækari hindrunum en almennt þekkist á meðal þeirra. Opnanleiki íslensks þjóðarbúskapar fyrir viðskiptum og beinni erlendri fjárfestingu virðist því ekki gefa tilefni til að vænta þess að framleiðniþróun hér á landi verði mjög frábrugðin þróuninni hjá öðrum iðnríkjum.“
    Í umsögn Samtaka atvinnulífsins til nefndarinnar segir að erlend fjárfesting geti styrkt efnahagslegar stoðir með því að stuðla að lægra vaxtastigi og veita aukin tækifæri til uppbyggingar. Þá sé nauðsynlegt að erlendir aðilar hafi áhuga á að fjárfesta hér á landi til þess að íslenskir lífeyrissjóðir geti fjárfest erlendis án þess að slíkar hreyfingar ógni gengisstöðugleika. Í umsögninni segir einnig: „Jafnframt dreifir erlend fjárfesting áhættu og eflir innlendan mannauð, og getur þannig ýtt undir bæði öflugra og fjölbreyttara hagkerfi. Ætti því heldur að leita leiða til að bæta orðspor Íslands, styrkja umgjörð og stoðir; hvetja til fjárfestingar í stað þess að letja.“
    Meiri hlutinn telur að sú víðtæka heimild sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu geti að óbreyttu haft aukna óvissu í för með sér fyrir erlenda fjárfestingu og þar með neikvæð áhrif á traust erlendra fjárfesta á íslenskum fjárfestingarkostum. Telur meiri hlutinn því nauðsynlegt að leggja til nokkrar breytingar á 7. gr. frumvarpsins.
     Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að í 1. mgr. ákvæðisins komi skýrt fram að einungis verði gripið til reglusetningar samkvæmt því í neyðaraðstæðum sem hafa í för með sér verulega hættu á að fjármálastöðugleika verði raskað af völdum óheftra fjármagnshreyfinga, og ekki er unnt að bregðast við með öðrum úrræðum.
     Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til að reglur samkvæmt ákvæðinu geti í hæsta lagi gilt í 60 daga. Með þessu móti telur meiri hlutinn að stjórnvöldum sé tryggður möguleiki á skjótum inngripum, telji þau að aðstæður krefji, en að jafnframt sé tryggt að takmörkun á fjármagnshreyfingum til lengri tíma sé háð samþykki löggjafans. Reynslan sýnir að Alþingi getur brugðist skjótt við aðstæðum með setningu laga. Telur meiri hlutinn því ljóst að innan 60 daga gildistíma reglna Seðlabankans veitist nægjanlegt svigrúm til að framlengja takmarkanir á fjármagnsflæði með lagasetningu ef þörf krefur.
     Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til að b-liður 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins, þar sem veitt er heimild til að setja reglur sem takmarka eða stöðva greiðslur milli landa vegna vaxta, verðbóta og samningsbundinna afborgana lána og skuldabréfa, falli brott.
     Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til að í lokamálsgrein 7. gr. frumvarpsins verði kveðið á um skyldu ráðherra til að flytja Alþingi skýrslu þar sem fram komi rök fyrir nauðsyn setningar reglna samkvæmt ákvæðinu. Skýrsluna flytji ráðherra innan fjögurra sólarhringa frá setningu reglnanna, eða svo fljótt sem verða má sé Alþingi þá ekki að störfum.
    Aðrar breytingartillögur eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðsins „heimilað“ í 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. komi: leyft.
     2.      Við 7. gr.
                  a.      Inngangsmálsliður 1. mgr. orðist svo: Í neyðaraðstæðum sem hafa í för með sér verulega hættu á að fjármálastöðugleika verði raskað af völdum óheftra fjármagnshreyfinga, og ekki er unnt að bregðast við með öðrum úrræðum, er Seðlabanka Íslands heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að setja reglur sem takmarka eða stöðva í allt að 60 daga.
                  b.      B-liður 2. tölul. 1. mgr. falli brott.
                  c.      4. mgr. orðist svo:
                      Ef Seðlabanki Íslands setur reglur samkvæmt þessu ákvæði skal ráðherra flytja Alþingi skýrslu innan fjögurra sólarhringa frá gildistöku þeirra, eða svo fljótt sem verða má sé Alþingi þá ekki að störfum, þar sem m.a. komi fram rök fyrir nauðsyn þeirra.
     3.      Í stað orðanna „þar sem grunur leikur á að þau brjóti“ í 1. málsl. 4. mgr. 10. gr. komi: ef grunur leikur á að viðskiptin brjóti.

Alþingi, 8. júní 2021.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Þórarinn Ingi Pétursson.