Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 797  —  148. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um aðgengi að sálfræðiþjónustu óháð efnahag.


     1.      Hvert er nýgengi örorku vegna kvíða og þunglyndis árið 2021 og hvert var nýgengið á tímabilinu 2018–2020?
    Samkvæmt a- og b-lið 3. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2021, fer félagsmálaráðuneytið með mál sem varða lífeyristryggingar og Tryggingastofnun, hvorki heilbrigðisráðherra né hans stofnanir hafa upplýsingar um nýgengi örorku vegna kvíða og þunglyndis.

     2.      Hyggst ráðherra auka aðgengi fólks að sálfræðimeðferð óháð efnahag með því að niðurgreiða slíka heilbrigðisþjónustu, sbr. heimild þar um í lögum nr. 93/2020? Ef ekki, hvernig hyggst ráðherra bæta aðgengi landsmanna að sálfræðiþjónustu og jafna kostnað?
    Á fjárlögum 2022 er gert ráð fyrir 250 millj. kr. til sálfræðiþjónustu utan stofnana ríkisins en ætlunin er að nýta það fjármagn til að lækka greiðsluþátttöku almennings í sálfræðiþjónustu. Sálfræðiþjónusta og þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta hefur verið efld innan heilsugæslunnar, en það liggur fyrir að bæta þarf aðgengi landsmanna að sálfræðiþjónustu með víðtækari hætti og verður það gert með fyrrgreindum fjármunum.
    Ráðherra hefur einnig komið á fót vinnuhóp sem hefur það verkefni að gera tillögur að því hverjir skulu eiga rétt á greiðsluþátttöku, tilvísanir í þjónustuna og greiðslur sjúklinga. Í hópnum sitja fulltrúar ráðuneytisins auk fulltrúa frá Sálfræðingafélagi Íslands, Félagi sérfræðinga í klínískri sálfræði, Félagi sjálfstætt starfandi sálfræðinga og sálfræðingi frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hópurinn hefur nú fundað alls fjórum sinnum til að móta verkefnið og leggur áherslu á jöfnuð og aðgengi í sínum tillögum.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra framfylgja þeim orðum sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf meiri hlutans að efla skuli geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins?
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram meðal annars að það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar að aukin áhersla sé lögð á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar er að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni. Geðheilsuteymi verði efld um land allt, áhrif notenda á þjónustuna aukin, forvarnir bættar og áhersla lögð á að veita fjölbreytta gagnreynda þjónustu sem sé miðuð að ólíkum þörfum. Einnig er áhersla á innleiðingu stafrænna lausna, fjarheilbrigðisþjónustu og nýsköpun. Heilsugæslan verði styrkt og áhersla í ríkari mæli á þverfaglega teymisvinnu. Staða og hlutverk Landspítala verði enn fremur styrkt. Aðgengi allra landsmanna að sérfræðiþjónustu verði bætt í samráði við heilbrigðisstofnanir í öllum umdæmum.
    Mörg skref hafa verið tekin í þá átt að færa þessi mál til betri vegar. Fyrri stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi 2016 lagði áherslu á mótun heildstæðrar geðheilbrigðisþjónustu. Fjargeðheilbrigðisþjónusta hefur verið efld, sömuleiðis hefur þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta í heilsugæslu og nærumhverfi verið styrkt, þverfagleg geðheilsuteymi stofnuð. Einnig er unnið að endurskipulagningu 2. stigs geðheilbrigðisþjónustu barna og geðheilsuteymi barna hefur verið fjármagnað og nýtt úrræði, Geðheilbrigðismiðstöð barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, mun þjónusta börn og fjölskyldur á landsvísu. Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt á Alþingi 2021 og tóku gildi í janúar 2022.
    Markmið ríkisstjórnarinnar eru meðal annars að skýra skipulag geðheilbrigðisþjónustu þannig að það stuðli að samstarfi milli þjónustustiga og þverfaglegri teymisvinnu. Jafnframt er áríðandi að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem er einstaklingsmiðuð, samfelld, samþætt, valdeflandi og batamiðuð. Geðheilbrigðisþjónustuna þarf veita í nærumhverfi notanda eða á viðeigandi heilbrigðisstofnun sem starfrækt er í bataeflandi húsnæði.
    Tryggja þarf að samfella, samstarf og samhæfing sé á milli geðheilbrigðisþjónustu og annarra sem veita velferðarþjónustu, svo sem félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu skóla og annarrar skólaþjónustu sem og virkniþjálfunar eða endurhæfingar til atvinnuþátttöku. Einnig þarf árangursríkt samstarf og samhæfing að vera á milli heilbrigðisþjónustu og dómskerfis varðandi frelsissvipta einstaklinga. Mikilvægt er að skilgreindir gæðavísar verði til staðar fyrir öll stig geðheilbrigðisþjónustu. Tryggja þarf fullnægjandi þverfaglega mönnun í geðheilbrigðisþjónustu sem er í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi með tilliti til viðfangsefna, hæfniviðmiða, handleiðslu og símenntun. Sérstaka áherslu þarf að leggja á fjölgun fagstétta þar sem nýliðun er takmörkuð. Einnig er mikilvægt að notendafulltrúar starfi í geðheilbrigðisþjónustu á öllum þjónustustigum.
    Í þeirri áralöngu þverfaglegu vinnu sem fram hefur farið varðandi stefnumótun í geðheilbrigðismálum hefur orðið til safn aðgerða sem vel eru til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
    Á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra fyrir yfirstandandi löggjafarþing kemur fram að ráðherra muni leggja fram tillögu til þingsályktunar um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Jafnframt er nú unnið að aðgerðaáætlun sem kynnt verður samtímis stefnunni. Tillagan verður sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og undirmarkmiðum til að móta sérstakar aðgerðir að.
    Áherslur til framtíðar í geðheilbrigðismálum þurfa að vera á greitt aðgengi að notendamiðaðri, heildrænni, samhæfðri og samþættri þjónustu af réttum gæðum sem veitt er af hæfu starfsfólki. Auk þess er æskilegt að leggja áherslu á nýsköpun í þróun og veitingu fjargeðheilbrigðisþjónustu.