Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1415  —  633. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um mat á loftslagsáhrifum áætlana.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða stærri áætlanir ríkisins voru metnar út frá loftslagsmarkmiðum kjörtímabilið 2017–2021? Þess er óskað að m.a. komi fram hve miklum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda áætlað var að hver þeirra myndi skila.

    Í stjórnarsáttmála fyrstu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá árinu 2017 kom eftirfarandi fram: „Ríkisstjórnin stefnir að því að allar stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum.“ Benda má á að hluti af þeirri stefnu var aðgerð í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá því í júní 2020 sem sneri að því að meta loftslagsáhrif lagafrumvarpa. Unnið er að því að skilgreina tól fyrir slíkt mat en mikilvægt er að það verði unnið í tengingu við heildræn verkefni sem eru í undirbúningi um t.d. kolefnishlutleysi og fjármögnun loftslagsmála.
    Lög og reglur vegna mats áætlana með tilliti til loftslagsmarkmiða hafa verið í þróun á undanförnum árum. Í fyrra tóku gildi ný lög um umhverfismat og framkvæmd áætlana, nr. 111/2021, og féllu þá úr gildi eldri lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Í 4. gr. nýrra laga er tilgreint að í umhverfismati skuli greina, lýsa og meta bein og óbein umtalsverð áhrif á m.a. loftslag. Í reglugerð nr. 1381/2021, sem var samþykkt í kjölfar nýrra laga, er kveðið á um að í umhverfismatsskýrslu áætlunar sé lýsing á þeim umhverfisþáttum sem líklegt er að verði fyrir umtalsverðum áhrifum. Lýsing á loftslagi sem umhverfisþætti er þar frekar skilgreind í 4 gr. c-liðar sem „t.d. losun gróðurhúsalofttegunda og áhrif sem tengjast aðlögun að loftslagsbreytingum“. Ljóst er að orðið hefur framþróun á regluverki sem tengist því mati sem spurt er um. Ráðuneytið bendir á að það hefur ekki nákvæmar upplýsingar um þær áætlanir stjórnvalda sem hafa verið metnar með tilliti til umhverfisáhrifa þeirra, að loftslagsáhrifum þeirra meðtöldum. Kalla þyrfti eftir þeim upplýsingum frá hverju og einu stjórnvaldi.
    Í tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu 2015–2026, sem umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram á 151. löggjafarþingi (þskj. 1184, 705. mál), var m.a. lagt til að Skipulagsstofnun hefði forgöngu um gerð og miðlun upplýsinga og leiðbeininga fyrir sveitarfélög, skipulagsráðgjafa og hönnuði um loftslagsmiðað skipulag, sem og um mat á loftslagstengdum áhrifum skipulags og annarra áætlana. Í tillögunni var þeim tilmælum beint til stjórnvalda að meta loftslagsáhrif áætlana, annarra en skipulagsáætlana sveitarfélaga, sem varða þróun byggðar, samgöngur og landnotkun, sem og áhrif slíkra áætlana á viðnámsþrótt byggðar og samfélags gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Þingsályktunartillagan hlaut ekki afgreiðslu á þinginu. Tekið skal fram að skipulagsmál, þar á meðal landsskipulagsstefna, eru nú á forræði innviðaráðuneytis.
    Í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti er stefnt að því að vinna viðmið sem tengjast stefnumótun Íslands í loftslagsmálum sem megi hagnýta við gerð stærri áætlana ríkisins og að auki nýtast við stöðumat þeirra. Nú er unnið að verklagsreglum um mat á loftslagsáhrifum lagafrumvarpa eins og nefnt var að framan. Stefnt er að því að útbúa tól og viðmið sem stuðst verður við til að meta möguleg loftslagsáhrif allra lagafrumvarpa og líta til ólíkra hagsmuna við greiningu. Í þeirri vinnu er litið til viðmiða sem unnin voru í Danmörku og eins horft til svokallaðs jafnréttismats sem mögulegrar fyrirmyndar þar sem unninn var leiðarvísir fyrir slíkt mat. Þá er vert í þessu samhengi að benda á lögbundið hlutverk loftslagsráðs skv. 5. gr. b laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, sem er að rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál þar sem opinber viðmið við mat áætlana myndu gera slíka rýni skilmerkilegri.
    Loftslagsmarkmið stjórnvalda hafa mótandi áhrif á stórar áætlanir líkt og samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 þar sem markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við stefnu stjórnvalda með áherslu á aðgerðir um orkuskipti í samgöngum. Þá fela losunarbókhald sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með og framreikningar um losun í sér mat á losun frá tilteknum geirum atvinnulífs og sveitarfélaga og mat á árangri tiltekinna aðgerða. Horft er til þess að þau tól verði bætt enn frekar á næstu árum og hagnýtt við gerð áætlana ríkisins, svo að dæmi sé tekið.
    Markmið um mat stærri áætlana ríkisins út frá loftslagsmarkmiðum sem sett var fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili endurspeglast í núgildandi stjórnarsáttmála í því markmiði að „stjórnvöld [muni] í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira“.