Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 403  —  158. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um laxeldi.


     1.      Hyggst ráðherra setja reglur um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað eldislax sem seldur er á Íslandi? Ef ekki, hver eru rökin fyrir því að gera það ekki?
    Hér á landi eru í gildi lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Skv. 5. gr. þeirra laga eru óréttmætir viðskiptahættir bannaðir. Bann þetta gildir áður en, á meðan og eftir að viðskipti með vöru fara fram eða þjónusta er veitt.
    Í III.–V. kafla laganna er tilgreint hvað teljist til óréttmætra viðskiptahátta. Þar segir m.a. að viðskiptahættir séu villandi ef ekki er greint frá upplýsingum sem telja má að almennt skipti máli fyrir neytendur eða þeim er leynt og þær eru til þess fallnar að hafa áhrif á ákvörðun neytanda um að eiga viðskipti. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/2008, um breytingu á lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57 20. maí 2005, með síðari breytingum, segir að viðskiptahættir séu villandi og geti þar af leiðandi verið ólögmætir ef upplýsingar vantar þannig að það verði til þess að neytandinn taki ákvörðun um að eiga viðskipti sem hann hefði annars ekki gert.
    Þar sem framangreind lög tryggja að neytendum skuli greint frá upplýsingum sem almennt má telja að skipti þá máli, telur ráðherra ekki þörf á að setja sérstakar reglur um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað eldislax. Ef upprunaupplýsingar um eldislax eru taldar skipta máli fyrir neytendur þá ber fyrirtækjum að greina frá þeim, að öðrum kosti gætu viðskiptahættirnir talist villandi. Er það Neytendastofa, undir yfirstjórn menningar- og viðskiptaráðherra, sem fer með eftirlit samkvæmt lögunum.

     2.      Telur ráðherra stöðu laxeldis á Íslandi ásættanlega með tilliti til heilbrigðis og dýravelferðar? Ef ekki, hvað telur ráðherra að hægt sé að bæta og mun hann beita sér fyrir því?
    Ráðherra telur að ýmislegt megi bæta er varðar heilbrigði eldisfiska og dýravelferð. Innan ráðuneytisins hefur verið lögð mikil vinna, bæði formleg og óformleg, í samstarfi við Matvælastofnun til að greina hvað megi gera betur er varðar þessi mál. Einnig má nefna að ráðherra hefur óskað eftir aðkomu Ríkisendurskoðunar til að gera heildstæða úttekt á allri stjórnsýslu í kringum fiskeldi.
    Sjúkdómastaða í fiskeldi á Íslandi hefur þar til nýlega verið góð, sjúkdómar af því tagi sem hér um ræðir eru þess eðlis að hætta á að þeir komi upp og líkur á að þeir dreifi sér aukast eftir því sem eldi og þar með þéttleiki eldisfiska eykst. Í nóvember sl. greindist meinvirkt afbrigði ISA-veirunnar (ísl. blóðþorra) í fyrsta sinn hér á landi í eldiskví í Reyðarfirði og var brugðist við því smiti í samræmi við þær reglur sem hér gilda. Engu að síður dreifði veiran sér í allt fiskeldi á Austfjörðum. Í framhaldi þessa skipaði ráðherra í júní sl. sérstakan hóp sérfræðinga til að skoða sjúkdóma og smitvarnir í fiskeldi. Er starfshópnum ætlað að vinna að tillögum um breytingar á núgildandi regluverki ef þörf þykir. Gert er ráð fyrir að vinnu hópsins ljúki undir lok árs og að í framhaldi verði farið í að endurskoða reglur, ferla og stjórnsýslu er lítur að sjúkdóma- og smitvörnum og viðbrögðum við smitsjúkdómum í fiskeldi.

     3.      Telur ráðherra þörf á að bæta reglur um losun lífræns úrgangs eða frárennslisvatns í laxeldi?
    Samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, ákveður ráðherra hvaða firði eða hafsvæði skuli meta til burðarþols og er það Hafrannsóknastofnun sem framkvæmir það mat og birtir sem ráðgjöf á heimasíðu stofnunarinnar. Stofnuninni er einnig falið að vakta lífrænt álag vatnshlota þar sem fiskeldi er stundað og endurskoða matið svo oft sem þurfa þykir að mati stofnunarinnar. Mat á burðarþoli lýtur að þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála. Umhverfisstofnun vaktar svo lífrænt álag undir og við sjókvíaeldisstöðvarnar og getur lengt hvíldartíma eldissvæðanna sé þess þörf. Til staðar er því regluverk og kerfisleg umsjón um ástand eldissvæða sem tekur tillit til losunar lífræns úrgangs frá fiskeldi.
    Að því er varðar reglur um losun frárennslisvatns frá sláturhúsum laxeldis þá segir í 15. gr. reglugerðar nr. 300/2018 að í „vinnslustöð og hvers kyns aðstöðu til aflífunar og blóðgunar á eldisfiski með frárennsli í sjó þar sem kvíaeldi er stundað skal sótthreinsa allt blóðvatn með þeim hætti sem Matvælastofnun viðurkennir og samþykkir. Allar nýbyggingar skulu útbúnar slíkri sótthreinsistöð.“ Brot gegn ákvæðinu getur varðar viðurlögum.

     4.      Telur ráðherra þörf á að bregðast frekar við með einhverjum hætti vegna vísbendinga um erfðablöndun milli eldislaxa sem sloppið hafa úr sjókvíum og villtra laxastofna?
    Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun hefur erfðablöndun milli eldislaxa og laxa úr villtum stofnum ekki verið staðfest. Þó svo að ekki liggi fyrir staðfestar upplýsingar um erfðablöndun milli eldislaxa og laxa úr villtum stofnum er brýn þörf á því, í samræmi við varúðarregluna, að vakta og tryggja skýrt eftirlit til að fyrirbyggja erfðablöndun.
    Rafræn vöktun laxveiðiáa hefur verið sett upp á ýmsum stöðum og í dag nær kerfið yfir Laugardalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi, Vesturdalsá í Vopnafirði og Krossá í Breiðafirði. Fáir fiskar úr fiskeldi hafa verið greindir frá því að kerfið var sett upp og fáir fiskar úr fiskeldi hafa veiðst í öðrum laxveiðiám. Áformað er að koma upp samsvarandi vöktun í Breiðdalsá í Breiðdal, Skjálfandafljóti, Blöndu, Víðidalsá, Laxá í Dölum, Langá, Úlfarsá og Elliðaám.
    Þrjú tilvik um strok úr kvíum teljast vera stór en flestir laxar úr eldi hafa veiðst í nánasta nágrenni við eldissvæðin, sbr. Mjólká í Arnarfirði. Strok eldislaxa út kvíum ber að taka mjög alvarlega. Eftir samtöl við starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar og Fiskistofu hafa komið fram ábendingar um að skerpa þurfi á regluverki í tengslum við strok og veiði á eldislaxi. Því mun ráðherra á næstunni skipa starfshóp með einum fulltrúa frá hverri stofnun fyrir sig ásamt einum fulltrúa frá skrifstofu matvæla. Hópurinn mun yfirfara þær reglur sem um málefnið gilda hérlendis og þá ferla og framkvæmd sem er til staðar en jafnframt afla gagna um reglur og framkvæmd þeirra í Noregi og Færeyjum. Loks mun hópurinn gera tillögur að endurskoðuðum reglum og verkferlum.