Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 814  —  1. mál.
Undirskriftir.

3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Breytingartillögur meiri hlutans ná bæði til tekju- og gjaldahliðar frumvarpsins auk hækkunar á lántökuheimild skv. 5. gr. og á heimildum til handa ráðherra skv. 6. gr. frumvarpsins.

Stuðningur í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum markaði.
    Markmið aðgerðanna er að styðja við lífskjör lág- og millitekjufólks með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Áhersla er á fjölgun íbúða og áframhaldandi uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum auk endurbóta í húsnæðisstuðningi.
    Þá verður unnið að bættri réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðningurinn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur. Aðgerðirnar leiða til þrenns konar breytinga sem fram koma við 3. umræðu um frumvarpið:
     1.      Vaxtabætur hækka um 600 m.kr. með því að hækka eignarskerðingarmörk um 50% í vaxtabótakerfinu í byrjun næsta árs.
     2.      Húsnæðisbætur hækka um 1.100 m.kr. Húsnæðisbætur leigjenda hækka um 13,8% í ársbyrjun og tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta um 7,4%. Sú hækkun er til viðbótar við 10% hækkun í júní þessa árs. Áætlað er að hækkun bóta og hækkun tekjuskerðingarmarka nái til um 17 þúsund heimila á landinu.
     3.      Barnabætur hækka um 600 m.kr. á næsta ári. Gert er ráð fyrir algerri uppstokkun á barnabótakerfinu sem kemur til framkvæmda á tveimur árum, 2023 og 2024. Dregið verður úr skerðingum, jaðarskattar af völdum barnabóta lækka og skilvirkni og tímanleiki bótanna verður aukinn. Með þessum breytingum verður kerfið einfaldað og styrkt til að fleiri fái barnabætur enda ná þær nú lengra upp tekjustiga. Þegar allar breytingar verða komnar til framkvæmda er áætlað að heildarútgjöld kerfisins verði um 5 ma.kr. hærri en ella miðað við óbreyttar fjárhæðir og skerðingarmörk.
    Fleiri mál hafa einnig verið kynnt sem hluti af stuðningnum en þau eru nú þegar fjármögnuð á næsta ári og kalla því ekki á breytingartillögur. Þar má nefna að heildarumfang stofnframlaga til að auka framboð íbúða í almenna íbúðakerfinu verða samtals 4 ma.kr. á næsta ári.
    Á móti hækkunum vegur að varasjóður fjárlaga er lækkaður um 1,7 ma.kr. vegna aðgerða í húsnæðismálum.

Eignaumsýsla ríkisins – breytt flokkun.
    Gerðar eru tillögur bæði á tekju- og gjaldahlið sem eru tilkomnar vegna breytts skipulags og flokkunar á eignasafni Ríkiseigna. Ríkiseignir eru miðlægur umsýsluaðili sem hefur umsjón með flestum fasteignum ríkisstofnana, sér um viðhald þeirra og innheimtir leigu. Leigulíkanið gerir ráð fyrir að ríkisaðilar greiði fulla leigu vegna húsnæðis sem þeir nýta, óháð því hvort það sé í eigu ríkis eða einkaaðila. Við sameiningu Ríkiseigna og Framkvæmdasýslu ríkisins haustið 2021 var gerð breyting á Ríkiseignum þannig að þær eru nú eingöngu eignasafn en rekstur og starfsmannahald fer fram í sameinaðri stofnun sem nefnist Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE).
    Við innleiðingu þessa fyrirkomulags hafa komið fram álitaefni um reikningshald, sem m.a. tengjast því hvernig standa ber að endurmati á virði fasteigna. Til að leysa úr ýmsum álitamálum af því tagi er talið nauðsynlegt að færa eignasafnið í A2-hluta ríkissjóðs, enda gerir það mögulegt að innleiða reikningsskil með reglum Fjársýslu ríkisins án þess að það hafi áhrif á almenn reikningsskil stofnana í A1-hluta ríkissjóðs.
    Samkvæmt 50. gr. laga um opinber fjármál skal starfsemi lána- og fjárfestingarsjóða og önnur starfsemi sem rekin er undir stjórn ríkisins og stendur undir sér með sölu á vöru eða þjónustu, leigu eða lánastarfsemi falla undir A2-hluta ríkisins. Ríkiseignir falla undir þessa skilgreiningu enda starfsemin fjármögnuð að öllu leyti með leigutekjum.
    Fjárhagsleg áhrif þessa á A1-hluta eru þau að tekjur hækka um 7,2 ma.kr. sem færast sem vaxtatekjur ríkissjóðs sem Ríkiseignir greiða til ríkissjóðs eftir breytinguna og á móti hækka gjöldin um 6,7 ma.kr. á þjóðhagsgrunni vegna lægri frádráttar innbyrðis færslna. Afkoma A1-hluta batnar því um 0,5 ma.kr. en samstæðuuppgjör A-hluta í heild jafnar út þá breytingu og umfang tekna og gjalda er óbreytt í samstæðunni.

Tekjur ríkissjóðs.
    Gerðar eru tillögur í fimm liðum vegna breytinga á tekjuhlið fjárlaga. Veigamesta tillagan, bæði á tekju- og gjaldahlið, er vegna flutnings eignasafns Ríkiseigna úr A1-hluta ríkisins í A2. Sú breyting var skýrð hér að framan og hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs í samstæðuuppgjöri.
    Í öðrum tilfellum er um að ræða endurmat tekjuliða eða breyttar forsendur frá endurmati við 2. umræðu um frumvarpið.
     1.      Vaxtatekjur ríkissjóðs. Hækka um 7.204,5 ma.kr. sem skýrist alfarið af áðurnefndri tilfærslu eignasafns Ríkiseigna úr A1 í A2-hluta ríkisins.
     2.      Veiðigjald. Áætlunin hækkar um 340 m.kr. sem er byggt á fjárhæð veiðigjalds sem birt var 2. desember þessa árs.
     3.      Gjald vegna fiskeldis. Gerð er tillaga um 360 m.kr. lækkun á liðnum. Annars vegar er 530 m.kr. lækkun vegna frestunar á breytingum á gjaldtöku, en hins vegar hækkar tekjuáætlun um 170 m.kr. til samræmis við uppfærða spá um verðmætagjald og framleitt magn eldisfisks.
     4.      Framlag Happdrættis Háskóla Íslands lækkar um 575 m.kr. til samræmis við áform um úthlutun á næsta ári. Um er að ræða leiðréttingu til samræmis við gjaldahlið frumvarpsins.
     5.      Skilagjald og umsýsluþóknun á einnota umbúðir hækkar um 343 m.kr. vegna tillögu um hækkun skilagjalds á einnota umbúðir. Tekjunum er ráðstafað til Endurvinnslunnar og hafa þær því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Að frádregnum vaxtatekjum, sem eru innbyrðis færsla hjá ríkissjóði, lækka tekjur ríkissjóðs um 252 m.kr. með þessum tillögum.

Gjöld ríkissjóðs.
    Gerðar eru nokkrar tillögur sem ekki tengjast stuðningi við gerð kjarasamninga eða tilfærslu eignasafns Ríkiseigna. Þær nema samtals 2.881,2 m.kr. en á móti vegur að almennur varasjóður fjárlaga lækkar um 1.839,3 m.kr. vegna þeirra. Nettóútgjöld, að frádregnum stuðningi við kjarasamninga, hækka því um 1.041,9 m.kr.
    Af þessum gjaldatillögum vega þyngst 1.200 m.kr. framlög til hjúkrunarheimila til að mæta hækkun daggjalda á næsta ári. Framlagið tengist verkefni um betri vinnutíma í vaktavinnu og er framhald á sambærilegri heimild sem veitt var á þessu ári. Nú þegar er gert ráð fyrir fjárhæðinni í daggjöldum stofnana og er gjaldaheimild fjármögnuð af almennum varasjóði.
    Næstmest vega 639,3 m.kr. sem einnig tengjast verkefni um betri vinnutíma og snúa að löggæslu, Fangelsismálastofnun og Landhelgisgæslu Íslands. Framlagið er varanlegt og einnig fjármagnað af almennum varasjóði.
    Því næst kemur 500 m.kr. tímabundin fjárveiting til að auka viðbúnað lögreglu í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í maí árið 2023. Gert er ráð fyrir því að tugir þjóðarleiðtoga, ráðherra og embættismanna frá flestum ríkjum Evrópu muni sækja fundinn.
    Gerð er tillaga um 343 m.kr. til Endurvinnslunnar hf. sem einkum skýrist af tillögu um að hækka skilagjald á einnota umbúðir. Tillagan hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir að tekjur hækki um sömu fjárhæð.
    Gerð er tillaga um 335 m.kr. til Ríkisútvarpsins til samræmis við endurmetna áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi. Endurmatið skýrist að mestu af því að í frumvarpinu láðist að taka tillit til nýrrar áætlunar um innheimtuna.
    Gerð er tillaga um 200 m.kr. lækkun framlaga til Fiskeldissjóðs. Tillagan tengist lækkun tekna vegna gjaldtöku á sjókvíaeldi til samræmis við breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Með því að fresta fyrirhugaðri gjaldtöku er lagt til að fella jafnframt niður fyrirhugaða hækkun til sjóðsins.
    Gerð er tillaga um 100 m.kr. framlag til Hafrannsóknastofnunar til að koma til móts við þarfir fyrir grunnrannsóknir á lífríki sjávar og til að bæta vöktun á nytjastofnum.
    Aðrar tillögur á gjaldahlið vega minna og felast aðallega í millifærslum milli liða sem allar koma fram í breytingartillögum meiri hlutans.

Breytingar á 5. og 6. gr. frumvarpsins.
    Við breytingar á frumvarpinu við 2. umræðu um það hækkuðu útgjöld umfram hækkun tekna og af þeim sökum leggur meiri hlutinn fram tillögu um að lántökuheimild ríkissjóðs verði hækkuð úr 220 ma.kr. í 240 ma.kr.
    Ísland er aðili að viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, (e. Emission Trading System, ETS). Rekstraraðilum í kerfinu er úthlutað að hluta endurgjaldslausum losunarheimildum sem þeim er heimilt að eiga viðskipti með. Heildarfjöldi heimilda í kerfinu á hverjum tíma samsvarar þeim takmörkunum sem settar eru í upphafi og lækkar með tímanum til að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Hluta heimildanna er úthlutað endurgjaldslaust en hluti er seldur á uppboði.
    Samkvæmt sérstöku sveigjanleikaákvæði hafa níu ríki, þar á meðal Ísland, heimild til að nota takmarkaðan hluta ETS-heimildanna til að standa skil á skuldbindingum um samdrátt í losun á beinni ábyrgð viðkomandi ríkis samkvæmt sameiginlega markmiðinu. Þessi heimild gildir vegna losunar á árunum 2021 til 2030. Ef til þess kemur að ákvæðið verði nýtt er lagt til að bæta við 6. gr. fjárlaga heimild til ráðherra sem hljóði svo: „Að heimila ráðstöfun á losunarheimildum, í samráði við ráðherra loftslagsmála, sem tilheyra íslenska ríkinu í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda til móts við loftslagsskuldbindingar íslenska ríkisins.“
    Með heimildinni yrði mögulegt að ráðstafa óseldum losunarheimildum sem annars yrðu boðnar upp í viðskiptakerfi ESB til að jafna út þörf fyrir nýjar heimildir svo að standast megi alþjóðlegar skuldbindingar. Ef til þess kemur að heimildin verði nýtt er þó gert ráð fyrir að aflað verði tekju- og gjaldaheimildar fyrir ráðstöfuninni.

    Við 2. umræðu um frumvarpið var samþykkt tillaga um tímabundið framlag til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð. Í ljósi umræðu í fjölmiðlum beinir meiri hlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 14. desember 2022.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Vilhjálmur Árnason.
Óli Björn Kárason. Stefán Vagn Stefánsson. Þórarinn Ingi Pétursson.