Ferill 832. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1285  —  832. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2022.


1. Inngangur.
    Innrás Rússa í Úkraínu markaði starf Norðurlandaráðs eins og flestra annarra alþjóðastofnana á árinu 2022. Fjallað var um afleiðingar stríðsins og viðbrögð við því frá ýmsum sjónarhornum á öllum helstu fundum Norðurlandaráðs. Mikið og náið samstarf var haft við Eystrasaltsþingið, samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litháens, um þessi mál. Samtökin skipulögðu í sameiningu fund á Íslandi í september, og þangað var boðið fulltrúum frá Úkraínu og útlægum stjórnarandstöðuleiðtogum frá Rússlandi og Belarús. Bæði Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin sendu frá sér yfirlýsingar þar sem innrásin var fordæmd og samstarfi við Rússland var hætt. Mikil umræða varð í Norðurlandaráði um varnar- og öryggismál vegna þeirrar erfiðu stöðu sem komin var upp í Evrópu og vegna væntanlegrar aðildar Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu. Jafnframt héldu þingmennirnir áfram að hvetja til aukins samstarfs norrænna landa um samfélagsöryggi en þá viðleitni má rekja til stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi sem samþykkt var 2019.
    Haldið var áfram viðræðum við Norrænu ráðherranefndina sem staðið hafa undanfarin ár um að auka áhrif Norðurlandaráðs á fjárhagsáætlun norræns samstarfs og gera ferlið við mótun áætlunarinnar skilvirkara. Norðurlandaráð hélt einnig áfram að beita sér fyrir því að draga úr niðurskurði framlaga til norræns menningarsamstarfs og fyrir því að stofna ráðherranefnd um samgöngumál og innviði.
    Árið 2022 voru 70 ár liðin frá stofnun Norðurlandaráðs og sextíu ár frá því að Helsingforssamningurinn, grundvallarsáttmáli norræns samstarfs, var undirritaður. Enn fremur fögnuðu Álandseyjar 100 ára fullveldisafmæli. Þessara tímamóta var minnst með ýmsum hætti. Umræða hófst um fýsileika þess að taka Helsingforssamninginn til endurskoðunar og endurnýjunar.
    Þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku mikinn og virkan þátt í alþjóðastarfi Norðurlandaráðs og sátu fjar- og staðfundi ráðsins með Eystrasaltsþinginu, Benelúx-þinginu, Evrópuþinginu og fleiri þingmannasamtökum og öðrum aðilum. Á vettvangi Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins tóku þeir þátt í að móta ákvarðanir um útilokun Rússa frá starfi samtakanna og beittu sér í fleiri málum.
    Landsdeildin fundaði ítrekað með samstarfsráðherra Norðurlanda og hann hafði samráð við þingmennina um mótun formennskuáætlunar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2023 og ýmis önnur málefni.
    Áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru gætti enn í byrjun árs og janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir með fjarfundarfyrirkomulagi. Eftir það voru allir helstu fundir Norðurlandaráðs staðfundir en fjarfundartækni engu að síður notuð óspart við önnur tækifæri þegar það þótti eiga við.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Rætur norræns þingmannasamstarfs má rekja til ársins 1907 þegar Norræna þingmannasambandið var stofnað. Alþingi tók þátt í störfum þess frá árinu 1926. Með stofnun Norðurlandaráðs árið 1952 varð samstarfið formfastara. Stofnríki ráðsins voru Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð en Finnland bættist í hópinn árið 1955.
    Norðurlandaráð er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Það kemur að jafnaði saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þingmenn sem eru valdir af norrænum þjóðþingum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands átján fulltrúa, Danmerkur sextán fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, sem einnig eru nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingum. Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð skiptast á um að fara með formennsku í ráðinu. Forseti og varaforseti hvers árs eru frá formennskulandinu.
    Þingfundir eru að jafnaði haldnir tvisvar á ári. Á þingfundum er fjallað um framkomnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Vorþing er að jafnaði haldið í mars eða apríl og haustþing um mánaðamót október og nóvember. Vorfundurinn er einnig nefndur þemaþing og er þar lögð áhersla á ákveðið málefni. Haustþingið er haldið í formennskulandi ársins. Þar gefa forsætisráðherrar, utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlanda Norðurlandaráðsþingi skýrslu og samstarfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárhagsáætlun norræns samstarfs fyrir komandi ár er að jafnaði samþykkt á haustþingi en Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin móta fjárhagsáætlun í sameiningu í viðræðum sem hefjast allt að ári fyrr. Á þinginu eru jafnframt forseti og varaforseti komandi árs kjörnir og skipað í nefndir og aðrar trúnaðarstöður.
    Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norrænt frelsi og norræn vinstri græn. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Flestar tillögur sem lagðar eru fram í Norðurlandaráði koma frá flokkahópum.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2022 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamstarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir starfi nefnda Norðurlandaráðs og samræmir það, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum og utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd er skipuð forseta, varaforseta og allt að fimmtán fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd getur skipað undirnefndir, vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við Norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefnd sér einnig um samskipti við þjóðþing utan Norðurlanda og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir. Norðurlandaráð á m.a. í nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið, samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litháens.

Þekkingar- og menningarnefnd.
    Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs fer með málefni sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu, þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála. Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og og störf sjálfboðaliða. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytt list, og menning barna og ungmenna eru jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.

Hagvaxtar- og þróunarnefnd.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og atvinnustefnu, þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta, og í framhaldi af því um frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Sjálfbærninefnd.
    Norræna sjálfbærninefndin vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og náttúruvernd og náttúruauðlindir, þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar, þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórn, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni.

Velferðarnefnd.
    Norræna velferðarnefndin leggur áherslu á hið norræna velferðarlíkan. Nefndin fæst við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Samþætting innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefni frumbyggja Norðurlanda.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlanda. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og með aukakosningum í forsætisnefnd.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Aðalmenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs í upphafi árs 2022 voru: Bryndís Haraldsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, sem er formaður, Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, sem er varaformaður, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokki Viðreisnar, og Orri Páll Jóhannsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Eyjólfur Ármannsson, þingflokki Flokks fólksins, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Njáll Trausti Friðbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingflokki Viðreisnar, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs skipuðust þingmenn í nefndir sem hér segir: Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson tóku sæti í forsætisnefnd, Bryndís Haraldsdóttir og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir í sjálfbærninefnd, Guðmundur Ingi Kristinsson og Ásmundur Friðriksson í velferðarnefnd og Orri Páll Jóhannsson í hagvaxtar- og þróunarnefnd. Bryndís Haraldsdóttir tók sæti sem aðalmaður í eftirlitsnefnd og Guðmundur Ingi Kristinsson sem varamaður. Fyrir Norðurlandaráðsþing í Helsinki færðist Bryndís Haraldsdóttir úr sjálfbærninefnd í forsætisnefnd og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir úr sjálfbærninefnd í þekkingar- og menningarnefnd.
    Vilhjálmur Árnason var fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO) og Norræna þróunarsjóðsins (NDF). Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir sat fyrir hönd landsdeildarinnar í stjórn Norræna menningarsjóðsins en Guðmundur Ingi Kristinsson var varamaður. Bryndís Haraldsdóttir var fulltrúi landsdeildarinnar gagnvart Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC).
    Oddný G. Harðardóttir var aðaltalsmaður forsætisnefndar Norðurlandaráðs í málefnum sem varða Rússland og varatalsmaður gagnvart Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál (CPAR). Hanna Katrín Friðriksson var aðaltalsmaður forsætisnefndar Norðurlandaráðs gagnvart Benelúx-þinginu. Hún sat jafnframt í vinnuhópi á vegum forsætisnefndar sem falið var að móta nýja alþjóðastefnu Norðurlandaráðs.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði tíu sinnum á árinu. Fundað var í janúar, febrúar, mars (tvisvar), apríl, maí, júní, ágúst og október (tvisvar). Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra, fundaði þrisvar með landsdeildinni.

4. Fundir Norðurlandaráðs 2022.
    Fundir sem þingmenn Íslandsdeildar sóttu sem fulltrúar Norðurlandaráðs eða Íslandsdeildar Norðurlandaráðs:

Janúar
     *      24.–25. janúar: Janúarfundir Norðurlandaráðs (fjarfundir) (Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Orri Páll Jóhannsson).
Febrúar
     *      21.–22. febrúar: Fundur fulltrúa forsætisnefndar Norðurlandaráðs með Evrópuþingmönnum (DEEA) í Helsinki (Oddný G. Harðardóttir).
Mars
     *      16. mars: Fjarfundur um nýja alþjóðastefnu Norðurlandaráðs (Hanna Katrín Friðriksson og Oddný G. Harðardóttir).
     *      21.–22. mars: Þemaþing Norðurlandaráðs í Malmö (allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs).
     *      23. mars: Heimsókn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á skrifstofur Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn og í danska þingið (Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Orri Páll Jóhannsson).
     *      24.–25. mars: Benelúx-þing í Brussel (Hanna Katrín Friðriksson).
Apríl
     *      19. apríl: Fjarfundur Norðurlandaráðs með formönnum ESB- og utanríkismálanefnda norrænna þjóðþinga (Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir).
     *      19.–20. apríl: Fundur fastanefndar Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Varsjá (Bryndís Haraldsdóttir).
     *      24.–25. apríl: Fundur fulltrúa forsætisnefnda Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins (Hanna Katrín Friðriksson).
Maí
     *      12. maí: Þátttaka Norðurlandaráðs á fjarfundi Þingmannanefndar um norðurslóðamál (Oddný G. Harðardóttir).
Júní
     *      11. júní: Þátttaka í pallborðsumræðum með fjarfundarfyrirkomulagi í tengslum við ungmennafund BSPC (Bryndís Haraldsdóttir).
     *      12.–14. júní: Ársfundur Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Stokkhólmi (Bryndís Haraldsdóttir tók þátt sem fulltrúi Alþingis og Hanna Katrín Friðriksson sem fulltrúi Norðurlandaráðs).
     *      27.–29. júní: Sumarfundur hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs á Álandseyjum (Orri Páll Jóhannsson).
     *      27.–29. júní: Sumarfundur velferðarnefndar Norðurlandaráðs á Íslandi (Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson).
     *      27.–29. júní: Sumarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs á Álandseyjum (Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir).
     *      28.–30. júní: Sumarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs í Ilulissat á Grænlandi (Bryndís Haraldsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir).
Ágúst
     *      22. ágúst: Fjarfundur eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir).
September
     *      5. september: Fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Reykjavík með fulltrúum forsætisnefndar Eystrasaltsþingsins og gestum frá Úkraínu og stjórnarandstæðingum frá Belarús og Rússlandi (Bryndís Haraldsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir).
     *      6.–7. september: Septemberfundir Norðurlandaráðs í Reykjavík (allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs).
     *      8. september: Fundur landsdeildar Norðurlandaráðs með Kristínu Háfoss, framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs, í Reykjavík (allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs).
Október
     *      31. október–3. nóvember: Norðurlandaráðsþing í Helsinki (allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs).
Nóvember
     *      15. nóvember: Fjarfundur starfshóps Norðurlandaráðs um mótun nýrrar alþjóðastefnu (Hanna Katrín Friðriksson).
     *      16.–17. nóvember: Þátttaka Norðurlandaráðs á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP27) í Sjarm el-Sjeik í Egyptalandi (Bryndís Haraldsdóttir).
     *      20.–21. nóvember: Fundur fastanefndar BSPC í Berlín (Hanna Katrín Friðriksson).
     *      28. nóvember: Fjarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs með fulltrúum ESB- og utanríkisnefnda norrænna þjóðþinga.
Desember
     *      9.–12. desember: Benelúx-þing í Brussel (Hanna Katrín Friðriksson).
     *      14.–15. desember: Desemberfundir forsætisnefndar Norðurlandaráðs (Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðarson, Hanna Katrín Friðriksson).

5. Starfsemi Norðurlandaráðs.
Formennskuáætlun Finna.
    Finnar gegndu formennsku í Norðurlandaráði árið 2022. Forseti Norðurlandaráðs var jafnaðarmaðurinn Erkki Tuomioja og varaforseti var Lulu Ranne, þingmaður Sannra Finna. Í formennskuáætlun Finnlands var lögð áhersla á sjálfbærni á ýmsum sviðum. Megináhersla var á hið norræna velferðarkerfi og framtíð þess, en einnig umhverfis- og loftslagsmál og samfélagsöryggi. Einnig var í áætluninni fjallað um landamæralaus Norðurlönd og þörfina á að fjarlægja stjórnsýsluhindranir og opna landamæri á ný að loknum heimsfaraldri kórónuveiru.
    Innrás Rússa í Úkraínu hafði óhjákvæmilega áhrif á áherslur og stefnu Norðurlandaráðs á árinu og formennskuáætlunin féll því nokkuð í skuggann.

Janúarfundir Norðurlandaráðs með fjarfundarfyrirkomulagi.
    Vegna heimsfaraldurs voru janúarfundir Norðurlandaráðs haldnir með fjarfundarfyrirkomulagi dagana 24.–25. janúar.

Vorþing Norðurlandaráðs í Malmö.
    Vorþing Norðurlandaráðs var að þessu sinni haldið í Malmö í Svíþjóð dagana 21.–22. mars. Á fundinum var rætt um innrás Rússa í Úkraínu, framtíð hins norræna velferðarkerfis, stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, samfélagsöryggi og fleiri mál. Að fundum loknum hélt Íslandsdeild Norðurlandaráðs til Kaupmannahafnar og heimsótti þar skrifstofur Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og danska þingið.

Sumarfundir nefnda Norðurlandaráðs.
    Á árinu héldu Álandseyjar upp á 100 ára afmæli sjálfsstjórnar. Af þessu tilefni voru sumarfundir forsætis- og hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs haldnir á Álandseyjum í lok júní og dagskrá fundanna bar svip af þessum tímamótum. Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson sóttu sumarfund forsætisnefndar og Orri Páll Jóhannsson sat fund hagvaxtar- og þróunarnefndar. Sumarfundur sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs var haldinn í Ilulissat á Grænlandi. Þema fundarins var loftslagsmál. Bryndís Haraldsdóttir og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir sóttu fundinn. Velferðarnefnd og þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs funduðu á Íslandi. Ásmundur Friðriksson og Guðmundur Ingi Kristinsson áttu sæti í velferðarnefnd og tóku þátt í fundi hennar. Steinunn Þóra Árnadóttir, varaforseti Vestnorræna ráðsins, kom á fund þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs til að kynna starfsemi ráðsins og áherslur og ræða möguleika á samstarfi.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Dagana 5.–7. september kom Norðurlandaráð saman í Reykjavík. Þema fundanna var stríð Rússa í Úkraínu og til þeirra var boðið þingmönnum frá Eystrasaltsríkjum og fulltrúum frá Úkraínu og stjórnarandstöðunni í Rússlandi og Belarús. Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið stóðu sameiginlega að dagskrá fyrsta fundardagsins sem helgaður var samtölum við gestina.

Norðurlandaráðsþing í Helsinki.
    Norðurlandaráðsþing var haldið dagana 31. október til 3. nóvember í finnska þinginu í Helsinki. Allir þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið. Að venju var í upphafi þingsins haldinn leiðtogafundur með forsætisráðherrum Norðurlanda og stjórnarleiðtogum Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Þema leiðtogafundarins var að þessu sinni framtíð norræns samstarfs og hlutverk Norðurlanda í Evrópu og heiminum. Sauli Niinistö, forseti Finnlands, var sérstakur gestur þingsins. Í ræðu sinni fjallaði Niinistö um hvernig nýta mætti sterka ímynd Norðurlanda á alþjóðavettvangi enn betur til að vinna í sameiningu að áherslumálum á borð við loftslagsmál, jafnrétti og frið, en einnig á sviði viðskipta.
    Á þinginu kynnti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2023 en yfirskrift hennar er „Norðurlönd – afl til friðar“. Áætlunin speglar í megindráttum þrjár megináherslur framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar til ársins 2030 um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd en sérstök áhersla er lögð á mikilvægi friðar sem undirstöðu mannréttinda, velferðar, kvenfrelsis og umhverfis- og loftslagsverndar. Einnig er í áætluninni fjallað um græna nýtingu á auðlindum hafsins, orkuskipti og réttlát græn umskipti, stafræna þróun, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, réttindabaráttu hinsegin fólks og nýsköpun í menningarlífi svo að nokkur dæmi séu nefnd.
    Utanríkis- og varnarmálaráðherrar Norðurlanda fluttu þinginu skýrslu og svöruðu spurningum þingmanna. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, átti ekki heimangengt til Helsinki en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, leysti hana af í báðum þessum dagskrárliðum. Guðmundur Ingi hélt þriðju ræðuna síðar sama dag þegar samstarfsráðherrar Norðurlanda fluttu greinargerðir sínar og sátu fyrir svörum. Steinunn Þóra Árnadóttir kom á þingið sem fulltrúi Vestnorræna ráðsins og sat fund með fulltrúum forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sótti einnig þingið og fundaði með menningarmálaráðherrum Norðurlanda. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, komst ekki á þingið en Oddný G. Harðardóttir leysti hann af á fundum þingforseta Norðurlanda.
    Í lok þingsins var norski jafnaðarmaðurinn Jorodd Asphjell kjörinn forseti Norðurlandaráðs árið 2023 og norski hægrimaðurinn Helge Orten varaforseti. Asphjell kynnti á þinginu formennskuáætlun Norðmanna fyrir árið 2023 með yfirskriftinni „Örugg, græn og ung Norðurlönd“.

Desemberfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs.
    Desemberfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs var haldinn í Kaupmannahöfn dagana 14.–15. desember. Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson sóttu fundinn. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kom einnig á fundinn til að gera grein fyrir starfi Norrænu ráðherranefndarinnar og Íslendinga á sviði netöryggismála. Jonas Wendel, nánasti aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, kom á fund forsætisnefndar til að segja frá alþjóðastarfi stofnunarinnar.

Alþjóðastarf.
    Þingmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku virkan þátt í alþjóðastarfi Norðurlandaráðs á árinu. Starfsemin mótaðist mjög af innrás Rússlands í Úkraínu í febrúar. Málefni tengd henni voru á dagskrá þemaþings Norðurlandaráðs í Malmö í Svíþjóð í mars, á septemberfundum í Reykjavík og á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki í byrjun nóvember.
    Á árinu var skipaður starfshópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs undir forystu Erkki Tuomioja, forseta, og Lulu Ranne, varaforseta, til að móta nýja alþjóðastefnu sem leysti af hólmi þá stefnu sem gilti 2018–2022. Hanna Katrín Friðriksson átti sæti í nefndinni. Ráðgert var að ný stefna yrði endanlega samþykkt á vorþingi Norðurlandaráðs 2023.

Eystrasaltsþingið.
    Norðurlandaráð hefur um árabil átt í nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið sem eru samstarfssamtök þinga Eistlands, Lettlands og Litháens. Þau voru stofnuð árið 1990 og svipar um margt til Norðurlandaráðs. Samstarfið styrktist enn í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Fulltrúar forsætisnefndar Eystrasaltsþingsins sóttu vorþing Norðurlandaráðs í Malmö í mars, fundi Norðurlandaráðs á Íslandi í september og haustþing í Helsinki í byrjun nóvember. Fulltrúar forsætisnefnda beggja samtaka funduðu jafnframt í Helsinki í apríl og Erkki Tuomioja, forseti, og Lulu Ranne, varaforseti, tóku þátt í þingi Eystrasaltsþingsins í Ríga í nóvember. Á fundinum í apríl var undirritaður samstarfssamningur landanna fyrir komandi ár.
    Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið stóðu sameiginlega að komu gesta frá Úkraínu og stjórnarandstæðinga frá Rússlandi og Belarús til Íslands í september. Þingmenn og starfsmenn Eystrasaltsþingsins gegndu þar lykilhlutverki í krafti þekkingar sinnar á málefnum þessara nágrannalanda sinna og góðra tengsla við ofangreinda hópa. Þingmenn Eystrasaltsríkjanna miðluðu einnig af reynslu sinni og kunnáttu um Úkraínu, Rússland og Belarús á öðrum fundum með þingmönnum Norðurlandaráðs og skýrt kom fram að hinir síðarnefndu mátu það mikils.

Benelúx-þingið.
    Benelúx-þingið er samstarfsvettvangur þinga Belgíu, Hollands og Lúxemborgar og hefur það einnig átt í töluverðum samskiptum við Norðurlandaráð undanfarin ár. Formlegt samstarf Benelúx-landa á rætur að rekja til ársins 1944 en Benelúx-þingið, samstarfsvettvangur þingmanna, var stofnað 1955. Hanna Katrín Friðriksson var talsmaður forsætisnefndar Norðurlandaráðs gagnvart Benelúx-þinginu á árinu. Hún sat Benelúx-þing í Brussel í mars og aftur í desember.

Evrópumál.
    Í febrúar funduðu fulltrúar forsætisnefndar Norðurlandaráðs með fulltrúum DEEA, nefndar Evrópuþingsins sem sinnir samskiptum við Norðurlönd. Fjallað var um netöryggi, græn umskipti, norðurslóðir og fleiri mál. Oddný G. Harðardóttir sat þann fund sem einn af fulltrúum Norðurlandaráðs. Forsætisnefnd átti einnig tvo fjarfundi með fulltrúum ESB- og alþjóðanefnda norrænna þjóðþinga. Fyrri fundurinn var haldinn í apríl og fjallað var um norðurslóðaáætlun ESB. Oddný G. Harðardóttir og Hanna Katrín Friðriksson tóku þátt í þeim fundi. Samsvarandi fundur var haldinn í nóvember þar sem fjallað var um netöryggi. Bryndís Haraldsdóttir og Oddný G. Harðardóttir tóku þátt í fundinum.

Norðurslóðamál.
    Norðurlandaráð á áheyrnaraðild að Þingmannaráðstefnunni um norðurskautsmál (CPAR) sem er samstarfsvettvangur þingmanna aðildarríkja Norðurskautsráðs. Oddný G. Harðardóttir tók þátt í óformlegum fjarfundi fastanefndar samtakanna sem fulltrúi Norðurlandaráðs í maí.

Úkraína, Belarús og Rússland.
    Innrás Rússa í Úkraínu hafði mikil áhrif á starfsemi og dagskrá Norðurlandaráðs á árinu og áherslurnar í formennskuáætlun Finna sem mótaðar höfðu verið árið áður féllu nokkuð í skuggann. Norðurlandaráð hafði náið samstarf og samráð við Eystrasaltsþingið um viðbrögð við innrásinni og fulltrúar forsætisnefnda samtakanna funduðu títt. Sama dag og innrásin hófst gaf Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs, út yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi innrásina og lýsti yfir stuðningi við Úkraínu og úkraínsku þjóðina. Fáum dögum síðar birtist sameiginleg yfirlýsing forsætisnefndar ráðsins sama efnis. Samstarfsráðherrar Norðurlanda tilkynntu 3. mars að gert yrði hlé á öllu samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar við Rússland og Belarús. Rússnesk yfirvöld greindu frá því 14. mars að öll starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar í Rússlandi yrði stöðvuð.
    Ráðgert hafði verið að meginþema vorþings Norðurlandaráðs í Malmö yrði hið norræna velferðarsamfélag. Í byrjun mars, aðeins tveimur vikum fyrir þingið, var ákveðið að staðan í Úkraínu yrði aðalumræðuefnið. Á vorþingið í Malmö 21.–22. mars var boðið Míhaíló Vídojník, sendiherra Úkraínu í Danmörku, Anne Beathe Tvinnereim, norrænum samstarfsráðherra Noregs, Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, og fulltrúum Eystrasaltsþingsins. Vídojník sendiherra þakkaði fyrir stuðning í formi mannúðaraðstoðar, vopna og móttöku flóttamanna til Norðurlanda en sagði að þörf væri á mun meiri aðstoð en þegar hefði verið veitt. Hann benti sérstaklega á að grípa þyrfti til mjög harðra viðskiptaþvingana gagnvart Rússlandi. Sendiherrann, fulltrúar Eystrasaltsþingsins og fleiri hörmuðu að alþjóðasamfélagið hefði ekki brugðist við af meiri krafti strax árið 2014 í tengslum við innlimun Krímskaga. Bryndís Haraldsdóttir bað í ræðu sinni Úkraínumenn afsökunar á því að hún og aðrir vestrænir stjórnmálamenn hefðu ekki hlustað nægilega vel á aðvaranir þeirra um hættuna af Rússlandi. Hún hvatti til harðari refsiaðgerða gegn Rússlandi en sagði jafnframt að lýðræði væri besta vörnin gegn stríði. Oddný G. Harðardóttir sagði að innrás Rússa í Úkraínu væri jafnframt árás á öll frjáls og opin samfélög og á gildi Norðurlanda.
    Í lok apríl funduðu fulltrúar forsætisnefndar Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Helsinki. Hanna Katrín Friðriksson sótti fundinn. Meginumræðuefnið var staðan í Úkraínu. Undirritaður var nýr samstarfssamningur samtakanna fyrir árin 2022–2023 þar sem m.a. er kveðið á um stuðning við Úkraínu en jafnframt um samstarf um leiðir til að efla viðnámskraft Norðurlanda og Eystrasaltsríkja gegn netógnum, falsfréttum og öðrum hættum. Á fundinum kynnti Hanna Katrín Friðriksson fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs hugmyndir um að halda fund sem helgaður yrði Úkraínu og stjórnarandstæðingum í Belarús og Rússlandi í tengslum við septemberfundi Norðurlandaráðs á Íslandi. Sú tillaga fékk góðar viðtökur.
    Landsdeild Íslands hafði frumkvæði að því að boða til sérstaks fundar um málefni Úkraínu, Belarúss og Rússlands sem haldinn var í Reykjavík 5. september. Eystrasaltsþingið og Norðurlandaráð stóðu sameiginlega að skipulagningu fundarins. Frá Úkraínu komu þingkonan Lesja Vasílenkó og Elína-Alem Kent, blaðamaður fréttaveitunnar Kyiv Independent. Fulltrúi rússnesku stjórnarandstöðunnar var Jevgenía Kara-Múrza sem er í útlegð og starfar fyrir samtökin Free Russia Foundation en eiginmaður hennar er stjórnarandstæðingurinn Vladímír Kara-Múrza sem nú situr í fangelsi í heimalandi sínu. Meðal þátttakenda frá Belarús var Franak Vjatsjorka, aðalráðgjafi Svjatlönu Tsíhanóskaju sem er leiðtogi stjórnarandstæðinga. Frá Eystrasaltsþinginu komu lettneski þingmaðurinn Jãnis Vucãns, sem er forseti samtakanna, og varaforsetinn Andrius Kupcinskas frá Litháen, auk fleiri þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum þremur. Fyrir hönd Norðurlandaráðs tóku þátt þingmenn í forsætisnefnd auk Bryndísar Haraldsdóttur, formanns landsdeildar Íslands. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, flutti erindi í upphafi fundarins og tók þátt í umræðum. Katín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kom við í hádegishléi og heilsaði upp á gesti. Þeim var jafnframt boðið í heimsókn á Bessastaði þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók á móti þeim.
    Markmið fundanna var m.a. að kanna hvernig Norðurlönd og Eystrasaltsríki gætu stutt við stjórnvöld í Úkraínu og stjórnarandstöðuna í Belarús og Rússlandi. Gestir lýstu einnig stöðu mála í heimalöndum sínum og erfiðri baráttu við alræðisstjórnir Pútíns og Lúkasjenkós. Úkraínska þingkonan Lesja Vasílenkó sagði að til að vinna stríðið þyrftu Úkraínumenn að fá vopn og skotfæri, skotheld vesti og einkennisbúninga, brynvarin ökutæki, sjúkrabíla og heilbrigðisaðstoð af ýmsu tagi. Einnig bað hún þingmenn að beita sér fyrir því að Evrópulönd tækju upp nýja orkugjafa og gegn því að hefja á ný innflutning á rússnesku gasi. Hún lýsti persónulegri reynslu sinni af stríðinu og hversu erfitt hefði verið að senda börnin frá sér í öruggara skjól til afa þeirra og ömmu fáeinum vikum eftir að stríðið hófst. Fjölmiðlakonan Elína-Alem Kent sagði að einn þáttur innrásar Rússa í Úkraínu væri upplýsingastríð og þá baráttu væri Úkraína að vinna. Hún sagði að Rússar dreifðu falsfréttum til íbúa Úkraínu, bæði á hernámssvæði sínu og utan þess. Hún hvatti til þess að lokað yrði til frambúðar á upplýsingaveitur rússneskra stjórnvalda og að studd yrði barátta forritara og annarra sjálfboðaliða sem ynnu gegn áróðri Rússa. Hún nefndi einnig mikilvægi þeirra sjálfboðaliða sem endurreistu heimili og samfélag í Úkraínu en að alþjóðasamfélagið þyrfti að aðstoða þá með fjármagni og þjálfun. Franak Vjatsjorka, aðalráðgjafi Svjatlönu Tsíhanóskaju, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, lýsti þróun mála í heimalandi sínu frá árinu 2020 þegar fjölmenn mótmæli gegn kosningasvikum stjórnvalda voru brotin á bak aftur með ofbeldi. Hann sagði að nú væri mjög erfitt og hættulegt að mótmæla opinberlega en að í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hefðu verið unnin skemmdarverk á járnbrautum landsins til að tefja fyrir liðsflutningum Rússa. Þegar allir þingmenn Norðurlandaráðs voru komnir til Reykjavíkur þriðjudaginn 6. september var haldinn sameiginlegur fundur í Silfurbergi í Hörpu þar sem gestir fluttu á ný erindi og umræður fóru fram.
    Ýmsar tillögur sem lagðar voru fram í Norðurlandaráði á árinu tengdust beint innrás Rússa í Úkraínu. Þannig lagði flokkahópur norrænna vinstri grænna fram tillögu um norrænan stuðning við enduruppbyggingu Úkraínu. Flokkahópur miðjumanna lagði fram tillögu um að skipulag Norðurlandaráðs yrði lagað að breyttum aðstæðum í utanríkis- og öryggismálum. Á vorþingi Norðurlandaráðs var jafnframt samþykkt tillaga frá finnsku landsdeildinni um skiptinám fyrir námsmenn frá Belarús.

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna.
    Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin í Sjarm el-Sjeik í Egyptalandi. Dagana 16.–17. nóvember stóð Norðurlandaráð fyrir dagskrá á ráðstefnunni. Bryndís Haraldsdóttir sótti hana sem fulltrúi Norðurlandaráðs. Aðrir íslenskir þingmenn sem fóru á ráðstefnuna tóku einnig þátt í dagskrá á vegum Norðurlandaráðs.

Fjárhagsáætlun og starfsáætlun norræns samstarfs.
    Árið 2019 setti Norræna ráðherranefndin sér framtíðarsýn til ársins 2030 um að Norðurlönd ættu að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Í framhaldi af því var mótuð framkvæmdaáætlun fyrir árin 2021–2024. Í henni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Útfærslan á þessari framtíðarsýn hefur mjög mótað tillögur Norrænu ráðherranefndarinnar að fjárhagsáætlunum sem lagðar hafa verið fyrir Norðurlandaráð undanfarin ár. Í þeim hafa tilfærslur milli málefnasviða verið meiri en oft áður. Fjármagn hefur verið veitt til verkefna sem miða að því að gera framtíðarsýnina að veruleika og skorið var niður á öðrum sviðum. Menningar- og menntamál hafa löngum verið fyrirferðarmikil í fjárhagsáætlunum norræns samstarfs og framlög til þeirra áttu að dragast verulega saman samkvæmt tillögum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þingmenn í Norðurlandaráði gagnrýndu þennan niðurskurð og töldu hann of harkalegan. Sú gagnrýni harðnaði enn eftir að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru tók að gæta í menningargeiranum á Norðurlöndum. Töldu margir þingmenn að taka þyrfti tillit til þessara sérstöku aðstæðna og endurskoða fjárhagsáætlunina til samræmis. Jafnframt vöruðu þeir við því að með niðurskurðinum væri verið að veikja sjálfan grundvöll norræns samstarfs. Samkomulag hefur þó alltaf tekist milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlanirnar og verulega hefur verið dregið úr fyrirhuguðum niðurskurði, m.a. með því að nýta afgang frá fyrri árum og með tilfærslu fjármuna milli sviða.
    Samhliða umræðu um niðurskurð og forgangsröðun hafa Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin unnið sameiginlega að endurskoðun á ferlinu við mótun fjárhagsáætlunar með það að markmiði að gera það skilvirkara og auka áhrif Norðurlandaráðs. Í samræmi við nýja verkferla sendi Norðurlandaráð Norrænu ráðherranefndinni strax í janúar 2022 lista yfir forgangsmál fyrir fjárhagsáætlun fyrir árið 2023. Fulltrúar Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar funda jafnframt tíðar en áður um fjárhagsáætlunina. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs samþykkti samkomulag um fjárhagsáætlunina á fundi sínum í lok júní og það var staðfest á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda og á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki í nóvember.
    Í byrjun árs 2022 fólu samstarfsráðherrar skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar að taka saman milliúttekt á framkvæmdaáætluninni fyrir norrænt samstarf árin 2021–2024. Norðurlandaráð fékk drög að úttektinni til umsagnar og gerði fjölmargar athugasemdir.

Ráðherranefnd í samgöngumálum.
    Í tengslum við umræður um fjárhagsáætlun norræns samstarfs hélt Norðurlandaráð á lofti kröfu um stofnun ráðherranefndar í samgöngumálum. Slík ráðherranefnd var áður starfandi en lögð niður í tengslum við skipulagsbreytingar árið 2005. Þrátt fyrir mikinn þrýsting af hálfu Norðurlandaráðs fékkst þessi krafa ekki samþykkt á árinu en viðræður við Norrænu ráðherranefndina halda áfram.

Afmæli Norðurlandaráðs og Helsingforssamningsins.
    Árið 2022 átti Norðurlandaráð 70 ára afmæli en það var stofnað á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn í mars árið 1952. Fyrsti fundur ráðsins var haldinn í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn í febrúar árið 1953. Ísland, Danmörk, Noregur og Svíþjóð voru stofnaðilar en Finnland bættist við þremur árum síðar. Í tilefni af afmælinu gerði Norðurlandaráð átak í því að efla tengsl við norræn þjóðþing.
    Helsingforssamningurinn, grundvallarsáttmáli opinbers samstarfs Norðurlanda, átti jafnframt 60 ára afmæli en skrifað var undir hann 23. mars 1962. Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs með samstarfsráðherrum Norðurlanda í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Helsinki var rætt hvort hugsanlega væri ráð að endurskoða samninginn í ljósi breyttra aðstæðna.

Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins.
    Fyrsta þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins (e. BSPC) var haldin í Helsinki í janúar árið 1991, tæpu ári áður en Sovétríkin liðu undir lok. Boðað var til ráðstefnunnar að frumkvæði Kalevi Sorsa, þáverandi forseta finnska þingsins. Síðan þá hafa ráðstefnur verið haldnar árlega en ársfundur árið 2020 var haldinn með fjarfundarfyrirkomulagi vegna heimsfaraldurs.
    Markmið þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins er að stuðla að samvinnu þjóð- og héraðsþinga og að umræðu um málefni er snerta svæðið. Þingmannaráðstefnan er þannig vettvangur umræðu og gagnkvæmrar upplýsingagjafar þinga og annarra þátttakenda. Samtökunum er ætlað að efla undirstöður lýðræðis í aðildarríkjunum, styrkja samskipti ríkisstjórna, þinga og borgaralegs samfélags, efla samkennd á Eystrasaltssvæðinu með nánu samstarfi á jafnræðisgrundvelli milli þjóðþinga og héraðsþinga, og að eiga frumkvæði að og leiða pólitískar aðgerðir á svæðinu og þar með veita þeim aukið lýðræðislegt og þinglegt lögmæti. Niðurstöður ársfundar þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins eru settar fram í formi ályktunar sem samþykkja þarf samhljóða. Stjórnarnefndin gerir drög að ályktun fyrir ráðstefnuna.
    Tíu þjóðþing, sjö héraðsþing og fimm alþjóðastofnanir eiga aðild að BSPC. Hvert aðildarþing og hver aðildarsamtök mega senda allt að fimm fulltrúa á árlegu ráðstefnuna. Frá Alþingi kemur að jafnaði einn fulltrúi. Jafnframt hefur einn íslenskur þingmaður stundum setið hana sem fulltrúi í sendinefnd Norðurlandaráðs og á kostnað þess. Milli ráðstefna fer stjórnarnefndin (e. Standing Committee) með æðsta ákvörðunarvald BSPC. Hún tekur ákvarðanir um markmið, pólitískar áherslur, starfshætti, fjármál og stjórnsýslu samtakanna. Stjórnarnefndin hefur jafnframt yfirumsjón með skipulagningu árlegu ráðstefnunnar. Í stjórnarnefndinni situr einn fulltrúi frá hverju aðildarþingi og aðildarsamtökum ráðstefnunnar.
    Aðildarlönd og aðildarsvæði fara með formennsku í samtökunum eitt ár í senn. Formennskuskipti verða á ársfundum sem að jafnaði eru haldnir í ágúst. Ólíkt því sem tíðkast í Norðurlandaráði fylgir formennskan ekki fastákveðinni röð heldur sækja lönd og svæði sérstaklega um að gegna henni. Ísland hefur aðeins einu sinni verið í formennsku í samtökunum og var það frá 2005–2006.
    Svíar gegndu formennsku í þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins fram í júní og ársfundur samtakanna var haldinn í Stokkhólmi. Forseti í formennskutíð Svía var jafnaðarmaðurinn Pyry Niemi. Þjóðverjar tóku við formennsku í júní og þýski jafnaðarmaðurinn Johannes Schraps var kjörinn forseti. Danir taka við af Þjóðverjum að loknum ársfundi í ágúst 2023.
    Bryndís Haraldsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í BSPC á árinu. Hún sótti einn fund fastanefndar samtakanna og ársfundinn í Stokkhólmi í júní. Hanna Katrín Friðriksson sótti einnig ársfundinn og fund fastanefndarinnar í nóvember sem fulltrúi Norðurlandaráðs. Þær tóku virkan þátt í mótun lokaályktunar ársfundarins og að frumkvæði þeirra var bætt við ályktunina yfirlýsingum um réttindi hinsegin fólks, kvenna og flóttamanna.

Viðbrögð þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins við innrás Rússa í Úkraínu.
    Samkvæmt upprunalegri fundaáætlun BSPC var gert ráð fyrir að stjórnarnefnd kæmi saman á fjarfundi fimmtudaginn 28. febrúar. Strax eftir innrás Rússa í Úkraínu hafði framkvæmdastjóri Eystrasaltsþingsins samband við skrifstofu Norðurlandaráðs og lét vita af því að forsætisnefnd samtakanna hefði samþykkt að leggja til að Rússland yrði útilokað frá starfi BSPC þar til hernaði í Úkraínu hefði verið hætt. Einnig var tilkynnt að ef ekki væri stuðningur við þessa tillögu í stjórnarnefndinni myndu fulltrúar Eystrasaltsþingsins framvegis ekki sækja fundi þar sem Rússar tækju einnig þátt.
    Föstudaginn 25. febrúar sendu Jãnis Vucãns, forseti Eystrasaltsþingsins, og Arvils Aseradens, formaður lettnesku landsdeildarinnar í BSPC, frá sér formlega beiðni um að setja á dagskrá fundar fastanefndar BSPC umræðu um að útiloka Rússland frá starfi samtakanna. Sama dag sendu Pyry Niemi, forseti BSPC, og Johannes Schraps, varaforseti, frá sér yfirlýsingu þar sem framferði Rússa í Úkraínu var harðlega gagnrýnt. Næstu vikurnar fóru fram viðræður milli fulltrúa aðildarlanda og aðildarsvæða, annarra en Rússa, um framhaldið. Formenn landsdeilda BSPC, þar á meðal Bryndís Haraldsdóttir, fulltrúi Íslands, sendu frá sér yfirlýsingu 12. mars þar sem innrás Rússa í Úkraínu var fordæmd. Jafnframt kom fram að lokað yrði á alla þátttöku Rússa í störfum BSPC þar til þeir létu af brotum sínum gegn alþjóðalögum. Niemi heimsótti forsætisnefnd Norðurlandaráðs 21. mars og fór yfir helstu valkosti varðandi framhaldið. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs komst að þeirri niðurstöðu að best væri að frysta starfsemi BSPC og stofna tímabundið ný samtök til að halda áfram samstarfi við Eystrasaltsríki án þátttöku Rússa.
    Boðað var til fundar í Varsjá í Póllandi 20. apríl til að ræða næstu skref. Þar voru samankomnir fulltrúar allra aðildarlanda og aðildarsvæða sem hafa verið virk í samtökunum undanfarin ár en fulltrúar Rússlands voru ekki boðaðir. Bryndís Haraldsdóttir sótti fundinn sem fulltrúi Alþingis. Pyry Niemi, forseti, lýsti á fundinum þremur leiðum sem helst kæmu til greina til að bregðast við innrás Rússa. Róttækasti valkosturinn væri að leggja niður BSPC og stofna ný samtök án þátttöku Rússa. Niemi sagði að í fyrstu hefðu flestir, þar á meðal hann sjálfur, hallast að þessari leið vegna þess að í henni fælust sterk skilaboð og að hún gæfi tækifæri til að móta frá grunni nýjar reglur og viðmið fyrir BSPC og kröfur til aðildarríkja og aðildarsvæða. Við nánari skoðun hefði komið í ljós að hún væri erfið í framkvæmd og tímafrek. Endurgreiða þyrfti aðildargjöld ársins og jafnframt hugsanlega einnig afgang frá fyrri árum, m.a. til Rússa. Þing allra aðildarlanda og aðildarsvæða yrðu að fjalla um og samþykkja stofnun nýrra samtaka. Huga þyrfti að skrifstofuhaldi og ráðningum til nýrra samtaka. Allt myndi þetta taka verulegan tíma sem væri óheppilegt við ríkjandi aðstæður og á meðan myndi reglulegt starf samtakanna liggja að mestu niðri. Ólíklegt væri að hægt væri að ljúka þessu ferli fyrir ársfund BSPC í júní. Önnur leið væri að reka Rússa úr BSPC. Þriðja leiðin sem Niemi lýsti og lagði til að yrði valin var að vísa Rússum tímabundið úr samtökunum en að halda opnum möguleika á að þeir gætu aftur hafið þátttöku ef þeir breyttu hegðun sinni og færu að virða alþjóðalög. Mikilvægt væri þá að skilgreina fyrir fram hvaða kröfur þyrfti að uppfylla til að fá aftur að taka þátt í samstarfinu, til dæmis að til þess þyrfti samþykki allra aðildarlanda og aðildarsvæða BSPC. Jafnframt þyrfti að semja almennar reglur um skilyrði fyrir virkri aðild að samtökunum, til dæmis varðandi mannréttindi, réttarríkið og fleira. Þetta ætti að vera tiltölulega auðvelt að gera þegar Rússar væru ekki þátttakendur í samstarfinu. Í umræðum kom fram að fulltrúar Eystrasaltsríkja vildu helst velja róttækari leiðina, þ.e. að leggja niður BSPC og stofna ný samtök án Rússa, en þeir sögðust tilbúnir til að samþykkja þriðja valkostinn ef meiri hluti væri fyrir því meðal fulltrúa. Aðrir fulltrúar á fundinum lýstu yfir stuðningi við tillögu forseta BSPC og var hún samþykkt.
    Viðbrögð við innrás Rússa í Úkraínu voru einnig mjög áberandi á ársfundi BSPC í Stokkhólmi í júní, bæði í umræðum þingmanna og ræðum Andreasar Norléns, forseta sænska þingsins, Önnu Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og annarra gesta. Rætt var um stöðu úkraínskra flóttamanna, stöðu lýðræðisins, frjálsa fjölmiðla, varnir gegn rússneskum áróðri og falsfréttum og um væntanlega inngöngu Svía og Finna í NATO. Í ályktun ársfundarins var fordæming á innrásinni ítrekuð með hörðu orðalagi og stuðningi við Úkraínu lýst yfir. Þar kom einnig fram að Rússum yrði ekki heimil nein þátttaka í starfsemi samtakanna þar til unnt yrði að starfa með þeim á grundvelli alþjóðalaga og þá aðeins að lokinni ítarlegri athugun og með ákvörðun ársfundarins.

6. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau nema 300.000 dönskum krónum.
    Verðlaunin voru að þessu sinni afhent við hátíðlega athöfn í Tónlistarhúsinu í Helsinki í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Á vef Norðurlandaráðs, norden.org, eru nánari upplýsingar um verðlaunin.

7. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2023.
    Norðmenn fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2023. Jorodd Asphjell er forseti ráðsins árið 2023 og Helge Orten varaforseti. Norðurlandaráðsþing verður haldið í Ósló. Yfirskrift formennskuáætlunar Norðmanna árið 2023 er „Örugg, græn og ung Norðurlönd“.

Alþingi, 6. mars 2023.

Bryndís Haraldsdóttir, formaður.
Oddný G. Harðardóttir, varaformaður.
Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Hanna Katrín Friðriksson.
Orri Páll Jóhannsson.




Fylgiskjal 1.

Tilmæli Norðurlandaráðs árið 2022.
     *      Tilmæli 1/2022 – Almannavarnir á Norðurlöndum.
     *      Tilmæli 2/2022 – Stafrænt ofbeldi og hótanir.
     *      Tilmæli 3/2022 – Samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um aðlögunarmál.
     *      Tilmæli 4/2022 – Viðurkenning stafrænna ökuskírteina innan Norðurlanda.
     *      Tilmæli 5/2022 – Sjálfbærir vöruflutningar.
     *      Tilmæli 6/2022 – Norrænar aðgerðir gegn smygli á hundum.
     *      Tilmæli 7/2022 – Hrossarækt og hestamennska á Norðurlöndum.
     *      Tilmæli 8/2022 – Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar í félags- og heilbrigðismálum.
     *      Tilmæli 9/2022 – Rafrænn vettvangur fyrir greiðslur innan lands og milli Norðurlanda.
     *      Tilmæli 10/2022 – Stofnun ráðherranefndar um innviði með samgöngumál og stafvæðingu á sínu verksviði.
     *      Tilmæli 11/2022 – Áætlun um skiptinám fyrir námsmenn frá Hvíta-Rússlandi.
     *      Tilmæli 12/2022 – Fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2023.
     *      Tilmæli 13/2022 – Skýrsla um rannsóknastefnu.
     *      Tilmæli 14/2022 – Vinaskólar og vináttutengsl menntastofnana.
     *      Tilmæli 15/2022 – Nordplus – Nýtt áætlunarskjal 2023–2027.
     *      Tilmæli 16/2022 – Um að koma á fót norrænni kennslustofnun fyrir tónlistarnemendur.
     *      Tilmæli 17/2022 – Um að auka norrænt efni í kennaramenntun.
     *      Tilmæli 18/2022 – Bókasöfn í hringrásarhagkerfi framtíðarinnar.
     *      Tilmæli 19/2022 – Námskrár gegn rasisma.
     *      Tilmæli 20/2022 – Um fyllingaraðgerðir í fegurðarskyni og aðrar fegrunarskurðaðgerðir.
     *      Tilmæli 21/2022 – Um að fækka börnum og ungmennum sem alast upp við viðvarandi lágtekjur.
     *      Tilmæli 22/2022 – Um norrænt samstarf um langvarandi COVID.
     *      Tilmæli 23/2002 –Vottunarkerfi fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu.
     *      Tilmæli 24/2002 –Vottunarkerfi fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu.
     *      Tilmæli 25/2022 – Rafvæðing siglinga og hafna.
     *      Tilmæli 26/2022 – Norrænt samstarf um aðgerðir gegn ágengum tegundum.
     *      Tilmæli 27/2022 – Norrænt samstarf um aðgerðir gegn ágengum tegundum.
     *      Tilmæli 28/2022 – Að gera Norðurlönd leiðandi á sviði föngunar, flutnings og geymslu koldíoxíðs (CCS) í Evrópu.
     *      Tilmæli 29/2022 – Að gera Norðurlönd leiðandi á sviði föngunar, flutnings og geymslu koldíoxíðs (CCS) í Evrópu.
     *      Tilmæli 30/2022 – Stofnun landsbundinna ungmennaráða um loftslagsmál.
     *      Tilmæli 31/2022 – Reikningsskil Norrænu ráðherranefndarinnar.
     *      Tilmæli 32/2022 – Að auka vægi norræns samstarfs í löndunum.
     *      Tilmæli 33/2022 – Um stofnun ráðherranefndar um innviði með samgöngumál og stafvæðingu á sínu verksviði.
     *      Tilmæli 34/2022 – Um samstarfsáætlun á sviði dómsmála 2023–2024.
     *      Tilmæli 35/2022 – Um að gera grein fyrir hvernig gætt er að réttindum frumbyggja í tengslum við námuvinnslu á búsetusvæðum þeirra.
     *      Tilmæli 36/2022 – Norræn samstarfsáætlun um fötlunarmál 2023–2027.


Fylgiskjal 2.

Formennskuáætlun Finnlands í Norðurlandaráði 2022.

Sjálfbær Norðurlönd.
    Hið norræna velferðarlíkan er almennt talið vera meðal helstu framfara sem orðið hafa á Norðurlöndum. Norðurlönd eru í fararbroddi þegar kemur að ýmsum velferðar- og velsældarvísum. Heimsfaraldur kórónuveiru hefur hins vegar gjörbreytt heiminum og skapað nýjar áskoranir á Norðurlöndum. Við slíkar aðstæður reynir á sjálfbærni norræna líkansins. Þörf er á sameiginlegri sýn á það hvert heimurinn stefnir og hver hlutdeild okkar er til þess að við getum lagst á eitt við að leysa sameiginlegar áskoranir.
    Á formennskuári Finnlands verður sjötíu ára afmæli Norðurlandaráðs fagnað og er það kjörið tilefni til að tileinka okkur starfshætti sem auka skilvirkni og stefnumörkun í norrænu samstarfi.
    Á formennskuári Finnlands verður einnig haldið upp á sextíu ára afmæli Helsingforssamningsins sem norrænt samstarf er byggt á. Samstarfssamningur Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur var undirritaður 23. mars 1962 sem nú er haldið upp á og er nefndur Dagur Norðurlanda.
    Sjálfsstjórn Álandseyja verður eitt hundrað ára 9. júní 2022. Álandseyjar eru herlaust sjálfsstjórnarsvæði með sænsku sem opinbert tungumál en heyra undir Finnland. Afmælisárs sjálfsstjórnarinnar verður minnst á formennskuári Finnlands í Norðurlandaráði.

Félagslega og vistfræðilega sjálfbær Norðurlönd.
    Norðurlönd eru talin áþekk í innanlandsmálum með hátt skattstig og víðtæka almannaþjónustu auk þess sem öll löndin leitast við að halda atvinnuleysi í lágmarki. Í hinum rómuðu velferðarsamfélögum Norðurlanda eru lífskjör góð og vel staðið að félagslegu öryggi almennings.
    Hið norræna velferðarlíkan veitir löndunum góðar forsendur til að verða leiðandi í sjálfbærri þróun, vistrænt, félagslega og efnahagslega. Allar víddir sjálfbærrar þróunar verða að vera í innbyrðis jafnvægi. Í því felst að efnahagslegur stöðugleiki er forsenda fyrir sjálfbæru velferðarlíkani.
    Hagkerfi Norðurlanda standa frammi fyrir nýjum áskorunum og þá reynir á hið norræna líkan. Meðal áskorana má nefna efnahagslega óvissu og vaxandi ójöfnuð en einnig óhagstætt framfærsluhlutfall þegar meðalaldur almennings fer hækkandi. Við viljum vinna gagnrýna úttekt á þessum málum, greina núverandi ástand og einnig áskoranir hins norræna líkans. Við verðum að vera óhrædd við að takast á við þann vanda sem steðjar að velferðarlíkaninu á þriðja áratug 21. aldar. Tryggja verður forsendur hins norræna velferðarlíkans til framtíðar.
    Afleiðingar heimsfaraldursins hafa reynt á hagkerfi Norðurlanda. Fjöldi fyrirtækja hefur neyðst til að hætta rekstri og atvinnuleysi hefur stóraukist alls staðar á Norðurlöndum, einkum í þjónustugreinum. Við verðum að kanna hvernig við getum brugðist sameiginlega við atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks, og hvernig við deilum góðum norrænum starfsvenjum með markvissum hætti. Sú hefð sem er fyrir gerð kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins gerir samfélögum okkar kleift að styðja og efla sjálfbæra efnahagsþróun.
    Brýnustu verkefni norrænnar samvinnu eru að hægja á loftslagsbreytingum, sporna gegn hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og skapa græn Norðurlönd. Það tekur tíma að innleiða sjálfbærar grænar lausnir. Finnland mun á formennskuárinu leggja áherslu á hringrásarhagkerfi, sjálfbæra skógrækt og verndun sjávar. Norðurlönd eru frumkvöðlar á sviði grænnar tækni og ættu að fjárfesta enn meira á því sviði.
    Norræn samfélög byggjast á sameiginlegum menningargrunni, víðtæku jafnrétti og virðingu fyrir einstaklingnum ásamt ósérhlífni, samstarfsvilja og öflugum félagasamtökum. Við stöndum vörð um réttarríkið og leggjum áherslu á að almenningur beri traust til ríkisins, svo að einhver hinna mörgu sameiginlegu gilda séu nefnd. Mestu máli skiptir að norrænt samstarf verði greinilegra og nái betur til almennings.
    Hið norræna velferðarlíkan er ákveðið hugtak en þörf er á verkfærakistu fyrir vörumerki Norðurlanda sem vekur athygli á árangrinum. Með því að þróa útflutningsvöru sem byggð er á velferðarlíkaninu og skapa verkfærakistu fyrir vörumerki Norðurlanda verður hægt að bregðast við eftirspurn um allan heim.

Örugg Norðurlönd.
    Öryggi er grundvöllur og upphaf allrar velferðar. Í nútímaheimi getur það verið raunlægt öryggi eða netöryggi en öryggi getur staðið ógn af heimsfaraldri eða fjölþáttaáhrifum. Loftslagsbreytingar hafa áhrif á allt og alla og í öllum atvinnugreinum. Norðurlönd vinna náið saman á ýmsum sviðum öryggismála en samstarfið þarf að auka og dýpka. Norðurlandaráð kallar eftir öflugum Norðurlöndum sem eru betur undir það búin þegar heimsfaraldur brýst út eða annað hættuástand skapast.
    Raunlægt öryggi felst í fyrirbyggjandi viðbúnaði og sameiginlegri sýn á neyðarviðbúnað. Heimsfaraldur kórónuveiru hefur sýnt að þar eigum við langt í land. Samstarf Svíþjóðar og Finnlands, sem kennt er við Hanaholmen, þarf að ná til allra Norðurlanda. Norðurlandaráð lætur félagslegt öryggi sig miklu varða og neyðarviðbúnaður er málaflokkur sem þarf að huga mun betur að.
    Á undanförnum árum hafa margar norrænar ríkisstofnanir og einstaklingar orðið fyrir alvarlegum netárásum. Norðurlandaráð verður að beita sér fyrir því að Norðurlönd móti sér sameiginlega netöryggisstefnu og aðgerðaáætlun þar að lútandi. Ýmsir hagsmunaaðilar á þessu sviði ættu að koma að undirbúningnum.

Landamæralaus Norðurlönd íbúanna.
    Þegar faraldrinum linnir verðum við að hverfa aftur að Norðurlöndum án landamæra með frjálsri för einstaklinga og þjónustu. Brýnt verkefni er að dýpka norræna samþættingu og einbeita okkur að afnámi stjórnsýsluhindrana.
    Grípa verður til nýrra og öflugra tækja til að fjarlægja stjórnsýsluhindranir og greiða fyrir hreyfanleika. Við setjum okkur háleit framtíðarmarkmið og leggjum til að unnið verði sameiginlegt stöðumat fyrir Norðurlönd og haldnir sameiginlegir þingfundir með ríkisstjórnum landanna. Í framtíðinni nægir ekki að löndin semji innanlandsstefnu á ýmsum sviðum heldur þarf áætlun um hvernig þau semja samnorræna stefnu eða hafa samráð sín á milli áður en þau semja og samþykkja eigin stefnu. Auk þess þarf að auka norræn samskipti í opinberri stjórnsýslu og meðal embættismanna svo og samstarf opinberra starfsmanna á öllum stigum í anda Helsingforssamningsins.
    Sjötti áratugur 20. aldar markaði upphafið að sjálfsögðu samstarfi almennings á Norðurlöndum. Óformlegt samstarf er gagnlegt en auk góðrar tungumálakunnáttu skipta hin mörgu samstarfsnet máli í hverju landi. Norrænt menningarsamstarf hefur fundið fyrir takmörkunum í faraldrinum og niðurskurði á framlögum til menningarmála. Eftir takmarkanir vegna heimsfaraldurs stöndum við á vegamótum. Við verðum að halda áfram á þeirri braut sem við þekkjum í norrænu samstarfi, sem einkennist af gagnkvæmu trausti og trúnaði.

Alþjóðleg Norðurlönd.
    Þróun heimsmála og breyttar heimspólitískar aðstæður hafa áhrif á Norðurlöndum. Stefna Norðurlandaráðs í alþjóðamálum verður endurskoðuð á formennskuárinu. Mikilvægt er að hugsa stefnuna til langs tíma og að hún skapi norrænan virðisauka. Við keppum ekki við aðrar alþjóðastofnanir um athygli heldur bætum við norrænum virðisauka við þær aðgerðir sem við setjum í forgang.
    Framtíðarsýn forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030 er mikilvægt markmið. Þess vegna þurfum við að skapa stefnumarkandi norrænt utanríkismálasamstarf til langs tíma og stefna hærra en gert er í skýrslu Björns Bjarnasonar. Hið norræna líkan hefur mótast um langt skeið. Í samræmi við framtíðarsýnina þurfum við að skapa heildræna mynd af Norðurlöndum og norræna líkaninu og undirbúa hana til útflutnings.

Norðurlönd sem horfa til framtíðar.
    Þegar við komum saman í afmælissamkvæmum formennskuársins gefst tækifæri til að staldra við og ræða starfshætti sem auka skilvirkni og stefnumörkun í norrænu samstarfi. Samstarf við Norrænu ráðherranefndina og norrænar ríkisstjórnir verður að efla. Lítil og opin útflutningshagkerfi landanna eiga mikið undir því hvernig efnahagsmál og valdajafnvægi þróast í heiminum. Við teljum mikilvægt að Norðurlönd tali með sameiginlegri rödd víða um heim.
    Á framtíðarráðstefnu ESB árið 2002 var rætt um framtíð sambandsins og nú er tímabært að efna til nýrra umræðna. Norræn framtíðarráðstefna hefur aldrei verið haldin. Um er að ræða brýnt málefni og ærin ástæða er til að gangast fyrir framtíðarumræðu milli ríkisstjórna og þingmanna. Á formennskuárinu mætti efna til framtíðarumræðu með forsætisráðherrum á leiðtogafundi þingsins í október 2022. Mikilvægt er að starfsemi ráðsins verði greinilegri, að það setji sér stefnumarkandi langtímamarkmið og taki upp skilvirka starfshætti. Samstarf, einkum við Norrænu ráðherranefndina og norrænar ríkisstjórnir, verður eflt.