Ferill 939. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1469  —  939. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996 (geymsla og nýting fósturvísa og kynfrumna).

Frá heilbrigðisráðherra.1. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sá sem leggur kynfrumur til getur veitt skriflegt og vottað samþykki fyrir notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun enda sé eftirlifandi maki einhleypur og geti notað kynfrumurnar í eigin líkama. Sama á við um samþykki fyrir notkun fyrrverandi maka eftir skilnað eða sambúðarslit, enda sé hann einhleypur og geti notað kynfrumurnar í eigin líkama og skriflegt og vottað samþykki liggi fyrir samhliða umsókn um tæknifrjóvgun.

2. gr.

    Við 3. mgr. 9. gr. laganna bætast við tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Einstaklingur sem samþykkt hefur geymslu fósturvísa skv. 2. mgr. getur veitt skriflegt og vottað samþykki fyrir notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun enda sé eftirlifandi maki einhleypur og geti notað fósturvísi í eigin líkama. Sama á við um samþykki fyrir notkun fyrrverandi maka eftir skilnað eða sambúðarslit, enda sé hann einhleypur og geti notað kynfrumurnar í eigin líkama og skriflegt og vottað samþykki liggi fyrir samhliða umsókn um tæknifrjóvgun.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nú er hámarksgeymslutími ekki liðinn en sá sem samþykkti geymslu kynfrumna eða fósturvísa dregur samþykki sitt til baka og skal þá eyða kynfrumum eða fósturvísum.
     b.      Við 3. mgr. bætist: eða fyrir liggi skriflegt og vottað samþykki hins látna um notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun skv. 1. málsl. 3. mgr. 8. gr.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                      Nú er hámarksgeymslutími fósturvísa ekki liðinn en aðili sem samþykkt hefur geymslu fósturvísa andast skal eyða fósturvísunum nema skriflegt og vottað samþykki hins látna liggi fyrir um notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun skv. 2. málsl. 3. mgr. 9. gr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.
    Um geymslu og notkun fósturvísa og kynfrumna, sem sett voru í geymslu fyrir gildistöku þessara laga, fer samkvæmt ákvæðum laga þessara.

5. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Barnalög, nr. 76/2003:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. a laganna:
                      1.      Í stað vísunarinnar „2.–4. mgr.“ 2. málsl. kemur: 2.–5. mgr.
                      2.      Í stað vísunarinnar „4. mgr.“ í 3. málsl. kemur: 5. mgr.
                  b.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
                      1.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Einstaklingur sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi eiginkonu eða sambúðarkonu, samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun, eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit telst móðir eða faðir barns sem þannig er getið. Gildir þetta þrátt fyrir að sá sem gengst undir tæknifrjóvgun kunni að vera í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns.
                      2.      Við 4. mgr. bætist: nema ákvæði 4. mgr. eigi við.
                      3.      Í stað vísunarinnar „5. mgr.“ í 6. mgr. kemur: 6. mgr.
                      4.      Á eftir vísuninni „3. mgr.“ í 7. mgr. kemur: eða eftirlifandi eða fyrrverandi eiginkonu eða sambúðarkonu, sbr. 4. mgr.
                      5.      Í stað vísunarinnar „7. mgr.“ í 8. mgr. kemur: 8. mgr.
                  c.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
                      1.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Einstaklingur sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi hjúskapar- eða sambúðarmaka, samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun, eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit telst móðir, faðir eða foreldri barns sem þannig er getið eftir því hvernig breyttri kynskráningu er háttað á sama hátt og skv. 2. málsl. 3. mgr. Gildir þetta þrátt fyrir að sá sem gengst undir tæknifrjóvgun kunni að vera í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns.
                      2.      Við 4. mgr. bætist: nema ákvæði 4. mgr. eigi við.
                      3.      Í stað vísunarinnar „5. og 6. mgr.“ í 6. mgr. kemur: 6. og 7. mgr.
                      4.      Í stað vísunarinnar „7. og 8. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 8. og 9. mgr.
                      5.      Í stað vísunarinnar „7. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 8. mgr.
                  d.      Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
                      1.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Læknir eða ljósmóðir sem tekur á móti barni skal spyrja móður sem elur barnið um faðerni þess, m.a. hvort um tæknifrjóvgun hafi verið að ræða eða ekki og skrá yfirlýsingu hennar um það.
                      2.      Á eftir vísuninni „2. mgr.“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: eða 4. mgr.
                      3.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Móðir barns, barnið sjálft, sá sem er skráður faðir barns og sá sem telur sig föður barns geta óskað eftir leiðréttingu á skráningu á faðerni barns hjá Þjóðskrá Íslands á þeim grundvelli að skráning sé ekki í samræmi við faðerni barns samkvæmt lögum þessum. Sé faðir eða sá sem taldi sig föður látinn geta þeir erfingjar hans sem ganga jafnhliða eða næst barninu að erfðum óskað eftir leiðréttingu á skráningu. Skal Þjóðskrá Íslands taka ákvörðun um leiðréttingu á skráningu.
                      4.      Í stað vísunarinnar „2.–4. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 2.–5. mgr.
                      5.      Á eftir orðunum „þ.m.t. um“ í 6. mgr. kemur: leiðréttingu á skráningu.
                  e.      Við 23. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Nú hefur einstaklingur samþykkt að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi maka, sbr. 4. mgr. 6. gr. eða 4. mgr. 6. gr. a, og er þá í máli samkvæmt þessum kafla því aðeins unnt að taka til greina kröfu um vefengingu á faðerni eða foreldrastöðu að ljóst sé að barn sé ekki getið við tæknifrjóvgunina.
     2.      Erfðalög, nr. 8/1962: Við 21. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um barn sem getið er eftir að arfleifandi fellur frá á grundvelli samþykkis skv. 4. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 6. gr. a barnalaga, nr. 76/2003, ef það fæðist lifandi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í heilbrigðisráðuneytinu að höfðu samráði við Hrefnu Friðriksdóttur prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og dómsmálaráðuneytið. Það felur í sér breytingar á ákvæðum laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, sem nú kveða á um eyðingu kynfrumna og fósturvísa við hjúskapar- eða sambúðarslit eða andlát þrátt fyrir að geymslutími þeirra sé ekki liðinn. Lýtur breytingin að því að einstaklingum verði gert heimilt að samþykkja sameiginlega notkun þrátt fyrir skilnað, eða eftir atvikum notkun eftirlifandi maka á kynfrumum eða fósturvísum, í stað skyldunnar til að eyða kynfrumum eða fósturvísum ef svo ber undir að annar aðilinn andast eða hjúskap eða sambúð aðila lýkur.
    Markmið með frumvarpinu er að virða vilja einstaklinga eða pars, sem hefur geymt kynfrumur eða fósturvísa í tengslum við tæknifrjóvgunarferli, til að nýta kynfrumur eða fósturvísa þrátt fyrir andlát eða breytingu á sambúðarformi aðila. Með þessari breytingu er viðkomandi einstaklingum því falið ríkara ákvörðunarvald yfir eigin kynfrumum og fósturvísum við framangreindar aðstæður.
    Í frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á notkun og eyðingu kynfrumna. Lagt er til að kynfrumum einstaklings, sem á kynfrumur í geymslu en andast síðar, verði ekki sjálfkrafa eytt ef fyrir liggur vottað og skriflegt samþykki viðkomandi um að eftirlifandi maka sé heimilt að nýta kynfrumurnar sjálfur í eigin líkama. Þá geti sá sem á kynfrumur í geymslu samþykkt að fyrrverandi maka sé heimilt að nýta kynfrumurnar á sama hátt þrátt fyrir skilnað eða sambúðarslit. Gerð er krafa um að sá sem vill nýta kynfrumur á þennan hátt sé einhleypur þegar að tæknifrjóvgun kemur.
    Í frumvarpinu eru hins vegar lagðar til breytingar á notkun og eyðingu fósturvísa. Lagt er til að andlát eða slit hjúskapar eða sambúðar leiði ekki sjálfkrafa til þess að þeim fósturvísum, sem einstaklingar sem stóðu að tæknifrjóvgun og eiga fósturvísa í geymslu í kjölfar meðferðar, skuli undantekningarlaust eyða. Nýting fósturvísa sem fást með tæknifrjóvgunarferli verður þannig ekki háð því að upphaflegt sambúðarform þeirra einstaklinga sem stóðu að tæknifrjóvguninni haldist heldur mun nýtingin byggjast á vottuðu og skriflegu samþykki þeirra beggja. Sama á við ef annar einstaklingurinn sem stóð að tæknifrjóvgun andast. Hér er einnig gerð krafa um að sá sem vill nýta fósturvísa á þennan hátt sé einhleypur þegar að tæknifrjóvgun kemur.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Gildandi lög takmarka vilja einstaklinga til að nýta kynfrumur eða fósturvísa við tilteknar aðstæður. Þannig geta pör sem standa saman að tæknifrjóvgunarferli ekki nýtt fósturvísa, sem verða til í ferlinu og þau eiga í geymslu, ef til skilnaðar, sambúðarslita eða andláts kemur. Þá getur kynfrumugjafi ekki heimilað eftirlifandi eða fyrri maka að nýta kynfrumur sem viðkomandi á í geymslu.
    Ljóst er að tilgangur tæknifrjóvgunar er einkum sá að hjálpa barnlausu fólki að eignast barn. Tæknifrjóvgunarmeðferð er almennt tímafrekt og mjög kostnaðarsamt ferli sem einnig getur verið líkamlega og andlega erfitt. Með geymslu kynfrumna er fólki m.a. gert kleift að stefna að varðveislu frjósemi og barneignum eftir erfiða sjúkdóma eða meðferð sem hefur áhrif á frjósemi. Með geymslu fósturvísa getur fólk stefnt að því að draga úr álagi og kostnaði við frekari tilraunir til barnaeigna. Hvort tveggja getur einnig dregið úr þörf fyrir notkun gjafakynfrumna og stuðlað að því að börn þegar fædd deili erfðaefni með systkinum sínum. Einnig þarf að líta til þess að gæði kynfrumna dvína með hækkandi aldri. Nýting einstaklinga á kynfrumum eða fósturvísum í geymslu gæti þannig verið eina tækifærið til barneigna þar sem viðkomandi hefur mögulega ekki aðrar nothæfar kynfrumur en þær sem þegar hafa verið lagðar til í tæknifrjóvgunarferlinu.
    Þá er æskilegt að draga úr mun á réttarstöðu fólks í mismunandi fjölskyldustöðu. Samkvæmt gildandi lögum getur t.d. einstæð kona nýtt fósturvísa sem verða til í tæknifrjóvgunarferli. Kona í parsambandi getur á hinn bóginn ekki nýtt fósturvísa eftir skilnað eða sambúðarslit eða andlát maka þrátt fyrir að vilji maka kunni að standa ótvírætt til þess. Í báðum tilvikum getur verið um að ræða egg konunnar sjálfrar eða afrakstur mikils kostnaðar og langs biðtíma eftir gjafaeggi.
    Með framangreint í huga er mikilvægt að auka heimildir fólks til að taka upplýstar ákvarðanir um notkun kynfrumna og fósturvísa eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit. Um leið er nauðsynlegt að tryggja skýrlega réttarstöðu barna sem verða til við þessar aðstæður. Ríkir hagsmunir þykja standa til þess að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér nái fram að ganga.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Breytingar á ákvæðum laga um tæknifrjóvgun.
    Við setningu laganna var upphaflega byggt á því skilyrði að kona, sem undirgekkst tæknifrjóvgun, væri í hjúskap eða sambúð með karli. Í samhengi við breytta samfélagsgerð og jafnrétti hafa lögin tekið töluverðum breytingum frá setningu þeirra til þess að jafna réttarstöðu karla og kvenna, gagnkynhneigðra og samkynhneigðra og einstæðra og para í hjúskap eða sambúð. Þá er tekið tillit til þeirra sem hafa breytt kynskráningu sinni.
    Með breytingalögum nr. 65/2006 tóku gildi ákvæði í ýmsum lögum til að tryggja réttindi samkynhneigðs fólks, þar á meðal var réttarstaða samkynhneigðra til að geta gengist undir tæknifrjóvgun gerð sú sama og gagnkynhneigðra. Þegar lögunum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna var breytt með lögum nr. 54/2008 var einhleypum konum veitt heimild til þess að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð. Tekið var fram í frumvarpi til framangreindra laga að þegar einhleyp kona elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun sé það meðvituð ákvörðun sem einhleypar konur taka, að uppfylltum skilyrðum, eftir að hafa metið aðstæður sínar og hæfni sem uppalanda með tilliti til líkamlegrar heilsu, sem og félagslegrar og fjárhagslegrar stöðu. Skilyrði fyrir tæknifrjóvgun eru þau sömu hjá einhleypum konum og öðrum konum. Með lögum nr. 153/2020 var ákvæðum laganna breytt til að tryggja réttindi fólks með tilliti til kynræðs sjálfræðis. Var gildissvið laganna víkkað þannig að þau ná nú jafnframt til einstaklinga sem breytt hafa kynskráningu sinni, hvort sem um er að ræða þann sem gengst undir tæknifrjóvgun eða maka hans.
    Í þessu frumvarpi er lagt til að breyta ákvæðum laganna sem kveða á um eyðingu kynfrumna eða fósturvísa við andlát, skilnað eða sambúðarslit þrátt fyrir að geymslutími þeirra sé ekki liðinn. Breytingin miðar að því að rýmka heimildir einstaklinga til að taka ákvarðanir um það hvort kynfrumum eða fósturvísum sé eytt við framangreindar aðstæður eða hvort eftirlifandi eða fyrrverandi maki megi nýta eftir atvikum kynfrumur eða fósturvísa sem einstaklingar lögðu til í tæknifrjóvgunarferlinu. Er litið svo á að hjúskapur eða skráð sambúð þurfi ekki endilega að vera grundvöllur notkunar kynfrumna eða fósturvísa heldur frekar samvinna, virðing og gott samband þeirra einstaklinga sem standa að ákvörðuninni. Við gerð frumvarpsins var litið til þeirra reglna sem gilda í þessum efnum annars staðar á Norðurlöndunum ásamt Bretlandi og Spáni, en aðallega var litið til norsku laganna. Samkvæmt þeim leiðir andlát einstaklings, sem stóð að tæknifrjóvgun ásamt maka sínum og á í geymslu kynfrumur eða fósturvísa í kjölfar meðferðar, ekki sjálfkrafa til þess að kynfrumum eða fósturvísum sé eytt. Eftirlifandi maka er heimilt, ef samþykki hins látna liggur fyrir, að nýta kynfrumur eða fósturvísana. Eftirlifandi maki þarf þó að vera einhleypur og fullnægja þeim skilyrðum sem lögin setja fyrir tæknifrjóvgun. Sams konar skilyrði eru sett í þessu frumvarpi.
    Samkvæmt norsku lögunum leiðir slit á hjúskap eða sambúð ekki sjálfkrafa til eyðingar á kynfrumum eða fósturvísum. Ef egg konu hefur verið frjóvgað með gjafasæði þarf ekki að liggja fyrir samþykki fyrrverandi maka til þess að konan geti nýtt fósturvísinn við tæknifrjóvgun. Í frumvarpi þessu er aftur á móti lagt til að þeir aðilar sem standa að geymslu fósturvísa, sama hvort um sé að ræða fósturvísi sem samsettur sé úr kynfrumum beggja, annars eða hvorugs, þurfi báðir aðilar að gefa samþykki fyrir notkun.
    Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er einstaklingum falið ríkara ákvörðunarvald yfir kynfrumum og fósturvísum sínum þegar svo ber undir sem að framan greinir. Með breytingunni er ekki verið að heimila gjöf fósturvísa og notkun þriðja aðila. Eingöngu þeim sem stóðu að geymslu fósturvísa er heimilt að samþykkja notkun eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit og er með notkun átt við nýtingu í eigin líkama. Þá er þeim sem eiga kynfrumur í geymslu eingöngu heimilt við sambærilegar aðstæður að samþykkja notkun fyrrverandi eða eftirlifandi maka í eigin líkama. Eðli málsins samkvæmt er því einungis heimilt að samþykkja notkun leghafa á kynfrumum eða fósturvísum eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit.

3.2. Breytingar á ákvæðum barnalaga.
    Efni laga um tæknifrjóvgun og I. kafla A barnalaga, nr. 76/2003, skarast að nokkru. Í lögunum um tæknifrjóvgun er þó fyrst og fremst kveðið á um hvar, hvenær og hvernig tæknifrjóvgun megi fara fram. Í barnalögum eru aftur á móti ákvæði um foreldra barns sem getið er við tæknifrjóvgun.
    Frá því að lögfest voru ákvæði um foreldra barns eftir tæknifrjóvgun í fyrri barnalögum, nr. 20/1992, hefur verið lögð áhersla á að foreldrastaða ráðist af samþykki þeirra sem standa að tæknifrjóvgunarferli. Þannig var lögfest strax í upphafi að barn sem getið er við tæknifrjóvgun á eiginkonu manns með samþykki hans, en með sæði úr öðrum manni, hlyti réttarstöðu barns hans. Lögð var áhersla á að girða fyrir að eiginmaður gæti vefengt faðerni barns á öðrum grundvelli en þeim að barnið hefði ekki verið getið við tæknifrjóvgunina. Voru ákvæðin gerð skýrari við setningu gildandi laga nr. 76/2003. Var þá m.a. mælt fyrir um móðerni barns sem getið er við tæknifrjóvgun í ljósi þess að lög um tæknifrjóvgun heimila eggfrumugjöf. Ákvæðum barnalaga um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun hefur síðan verið breytt í takt við breytingar á lögum um tæknifrjóvgun. Þannig var barnalögum breytt með lögum nr. 65/2006 þegar tveimur konum var heimilt að gangast undir tæknifrjóvgun og með lögum nr. 54/2008 þegar sams konar heimild var veitt einhleypum konum. Með breytingalögum nr. 65/2010 voru m.a. tekin af tvímæli um að 6. gr. barnalaga ætti alfarið við um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun sem framkvæmd væri samkvæmt lögum. Þá var ákvæðum I. kafla A barnalaga breytt með lögum nr. 49/2021 til samræmis við lög um kynrænt sjálfræði.
    Ákvæði barnalaga um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun miðast annars vegar við að einhleypur einstaklingur verði einn foreldri barns, sbr. 4. mgr. 6. gr., og hins vegar við að par sem stendur saman að tæknifrjóvgun verði hvort tveggja foreldrar barns sem þannig er getið, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. Í 7. mgr. 6. gr. er tekið fram að maður sem gefur sæði í þeim tilgangi að það verði notað við tæknifrjóvgun á öðrum einstaklingi en eiginkonu sinni eða sambúðarkonu verði ekki faðir barns sem getið er með sæði hans. Samsvarandi á við þegar foreldrar barns sem getið er við tæknifrjóvgun hafa breytt skráningu kyns, sbr. 7. mgr. 6. gr. a.
    Ákvæði frumvarpsins um heimild til að samþykkja notkun kynfrumna eða fósturvísa eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit kalla því á vandlega skoðun á barnalögum enda nauðsynlegt að taka skýra afstöðu til þess hverjir skuli teljast foreldrar barns við þessar aðstæður.
    Samkvæmt gildandi lögum um tæknifrjóvgun getur einstaklingur sem á kynfrumur í geymslu ekki orðið foreldri barns ásamt fyrrverandi maka sínum. Viðkomandi getur gefið fyrrverandi maka kynfrumur sínar til notkunar við tæknifrjóvgun, en við þær aðstæður verður gjafinn þó ekki foreldri barnsins, sbr. 7. mgr. 6. gr. barnalaga. Ef frumvarpið verður að lögum mun sá sem á kynfrumur í geymslu geta samþykkt að eftirlifandi eða fyrrverandi maki megi nýta þær eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, að nánari skilyrðum uppfylltum. Með því er gagngert stefnt að því að viðkomandi geti staðið saman að ákvörðun um að eignast barn við þessar aðstæður ef vilji beggja stendur til þess. Ætla má að á þetta geti reynt t.d. ef þau eiga saman barn fyrir og óska þess að systkini deili sama erfðaefni. Við þær aðstæður sem frumvarpið tekur til er talið réttast að þeir einstaklingar sem standa saman að ákvörðuninni, þ.e. leghafinn sem óskar eftir tæknifrjóvgun og fyrrverandi maki sem samþykkt hefur notkun leghafans á kynfrumum eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, verði foreldrar barns sem þannig er getið.
    Samkvæmt gildandi lögum á svipað við um fósturvísa og á við um kynfrumur eins og rakið var að framan, þó með þeim fyrirvara að gjöf fósturvísa er óheimil. Skv. 9. gr. gildandi laga verða einstaklingar í hjúskap eða sambúð að standa saman að ákvörðun um geymslu fósturvísa og í 10. gr. er mælt fyrir um eyðingu fósturvísa við andlát, skilnað eða sambúðarslit. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þeir geti mælt fyrir um notkun eftirlifandi eða fyrrverandi maka á fósturvísi í geymslu eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, að nánari skilyrðum uppfylltum. Á sama hátt og á við um kynfrumur er hér gagngert stefnt að því að þeir geti staðið saman að ákvörðun um að eignast barn við þessar aðstæður. Ætla má að enn frekar geti reynt á þetta við notkun fósturvísa þar sem par stóð saman að gerð þeirra í upphaflega tæknifrjóvgunarferlinu. Við þær aðstæður sem frumvarpið tekur til er talið réttast að þeir einstaklingar sem standa saman að ákvörðuninni, þ.e. leghafinn sem óskar eftir tæknifrjóvgun og fyrrverandi maki sem samþykkt hefur notkun leghafans á fósturvísi eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, verði foreldrar barns sem þannig er getið.
    Fyrrgreindar lausnir taka mið af því að gildandi reglur um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun gildi óháð uppruna kynfrumna, þ.e. um getur verið að ræða kynfrumur frá báðum einstaklingum eða öðrum þeirra eða alfarið gjafakynfrumur. Samkvæmt framangreindu er ljóst að þegar um tæknifrjóvgun er að ræða hefur löggjafinn mælt skýrt fyrir um að samþykki þess sem óskar að verða foreldri ráði meiru en uppruni kynfrumna. Ekki þykja standa rök til þess að foreldrastaða við tæknifrjóvgun eftir andlát, skilnað eða sambúðaslit verði mismunandi eftir uppruna kynfrumna.
    Samkvæmt ákvæðum barnalaga getur barn einungis átt tvo foreldra. Með hliðsjón af því þykja standa skýr rök til þess að gera kröfu um að leghafi sé einhleypur þegar tæknifrjóvgun á sér stað. Jafnvel þótt lögin gætu mælt fyrir um foreldrastöðu án þess að gera kröfu um að leghafi sé einhleypur þá er hætt við að sú staða gæti skapað árekstra mismunandi væntinga og hagsmuna og með því skapað togstreitu og álag fyrir barnið. Þá þykir rétt að samkomulag aðilanna ráði úrslitum um foreldrastöðu jafnvel þótt leghafi kunni að ganga í hjúskap eða skrá sambúð sína með öðrum áður en barnið fæðist enda hefur nýr maki þá ekki tekið þátt í tæknifrjóvgunarferlinu. Nefna má að nýr maki leghafa sem undirgengist hefur tæknifrjóvgun með framangreindum skilyrðum getur eftir atvikum farið með forsjá barnsins, að uppfylltum skilyrðum 29. gr. a barnalaga, eða jafnvel stjúpættleitt barnið, að uppfylltum skilyrðum ættleiðingalaga. Þá er vert að árétta að þegar um er að ræða tæknifrjóvgun eftir skilnað eða sambúðarslit er ekki unnt að veita samþykki fyrir fram heldur verður samþykki beggja að liggja fyrir í beinum tengslum við tæknifrjóvgunarferlið.
    Með lögum nr. 49/2021, um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003 (kynrænt sjálfræði), var skerpt á ákvæði 7. gr. barnalaga um skráningu faðernis barns. Við gerð frumvarps þessa hafa vaknað frekari spurningar um þessi atriði og er lagt til að skýra frekar reglur um skráningu á faðerni og leiðréttingu á skráningu í þjóðskrá ef hún reynist ekki í samræmi við faðerni eða foreldrastöðu.
    Rétt er að taka fram að almennt nýtur barn erfðaréttar ef það er feðrað, eða foreldrastaða liggur fyrir, samkvæmt ákvæðum barnalaga. Til hliðsjónar hefur margoft komið til kasta dómstóla að staðfesta faðerni barns löngu eftir andlát þess sem krafa beinist að. Ljóst er að ef einstaklingur hefur samþykkt notkun eftirlifandi maka á kynfrumu eða fósturvísi og barn hefur þegar verið getið við tæknifrjóvgun þegar hann fellur frá er tekinn frá sá arfshluti sem barninu ber ef það fæðist lifandi, sbr. 21. gr. erfðalaga, nr. 8/1962. Ef einstaklingur hefur samþykkt notkun eftirlifandi maka á kynfrumu eða fósturvísi og barn er getið og fæðist lifandi eftir andlát viðkomandi öðlast barnið við fæðingu rétt til arfs samkvæmt lögbundinni foreldrastöðu. Barnið getur þá í þeim tilvikum krafist arfs við skipti á dánarbúi ef þeim er ekki lokið eða eftir atvikum krafist endurupptöku skipta, að lögmæltum skilyrðum uppfylltum samkvæmt ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl. Í því sambandi ber að hafa í huga að samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum o.fl. er frestur til þess að fara fram á endurupptöku skipta, hvort sem það eru opinber skipti eða einkaskipti bundinn við tíu ár frá lokum opinberra skipta eða einkaskipta.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Þau ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sem efni frumvarpsins varðar eru fyrst og fremst 65. gr. um jafnrétti, 1. mgr. 71. gr. um friðhelgi einkalífs og 3. mgr. 76. gr. um hagsmuni barns. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og varða breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, taka mið af rétti barna til skráningar þegar eftir fæðingu og rétti til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra skv. 1. gr. a og 7. gr., sbr. 5. og 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, eða barnasáttmálans.
    Samkvæmt 7. gr. barnasáttmálans skal barn skráð þegar eftir fæðingu og á barnið eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Í ákvæðinu, sbr. og ákvæði 16. gr. um friðhelgi einkalífs barnsins, felst hvort tveggja réttur barnsins til að njóta foreldra og til að þekkja uppruna sinn. Þá undirstrika ákvæði 5. og 18. gr. samningsins skyldur foreldra til að annast barnið sem endurspeglast einnig í ákvæðum barnalaga, fyrst og fremst ákvæðum um forsjá, umgengi og framfærsluskyldur. Ákvæði barnalaga um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun miða að því að taka af allan vafa um hverjir teljast foreldrar barns og tryggja með því að barn njóti foreldra strax frá fæðingu.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Þvert á móti er breytingunum ætlað að tryggja þau réttindi sem felast í framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og barnasáttmálans. Þess má geta að fyrirhuguð er heildarendurskoðun laganna þar sem hugað verður að frekari breytingum, m.a. verður ákvæði laganna um nafnleynd kynfrumugjafa skoðað.

5. Samráð.
    Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum frumvarpsins voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-222/2022) 17. nóvember 2022 og var umsagnarfrestur veittur til 1. desember 2022. Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, embætti landlæknis og ein frá einstaklingi.
    Í umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga kemur fram að félagið sé fylgjandi því að breyta lögunum þannig að ákvæði laganna kveði ekki á um skyldu til að eyða fósturvísum ef fyrir liggi upplýst samþykki aðila um að slíkt skuli ekki gera. Þá er talin þörf á að breyta lögunum í ljósi fjölbreyttra fjölskylduforma í nútímasamfélagi.
    Í umsögn embættis landlæknis er því lýst yfir að embættið styðji áform ráðuneytisins um að breyta lögunum á þá leið að afnema skyldu laganna til þess að eyða fósturvísum ef fyrir liggur upplýst samþykki aðila um að slíkt skuli ekki gera. Embættið telur að um réttlætismál sé að ræða og að ríkir hagsmunir standi til þess að breyta lögunum að þessu leyti. Í því sambandi bendir embættið á sífellt fjölbreytilegri fjölskylduform sem lögin ná ekki til. Einstæð kona sé lagalega betur sett en fráskilin kona sem lagt hefur eigin kynfrumur til og átt hefur fósturvísi með fyrrverandi eiginkonu sinni. Eðlilegt og sanngjarnt sé að þessu verði breytt þannig að réttarstaða fráskilinna samkynhneigðra kvenna verði sú sama og einstæðra kvenna samkvæmt lögunum. Að lokum er lagt til að gerðar verði frekari breytingar á lögunum en gert er í frumvarpinu. Embættið telur mikilvægt að lögin kveði á um skyldu til að upplýsa eigendur fósturvísa áður en þeim er eytt og að fyrir liggi upplýsingar um fjölda fósturvísa sem séu í geymslu hverju sinni. Þá vekur embættið athygli á því að hvorki sé að finna í gildandi lögum né reglugerð nr. 144/2009, um tæknifrjóvgun, ákvæði sem takmarki notkun á kynfrumum sæðisgjafa hér á landi en vegna smæðar íslensku þjóðarinnar ætti að takmarka notkun sæðisfrumna úr sama einstaklingi við að úr verði börn í einungis einni fjölskyldu eða tveimur að hámarki. Takmarkið sé að draga úr hættu á of nánum skyldleika einstaklinga þegar þessi börn sem fullorðnir einstaklingar eignast maka. Embættið telur brýnt að úr þessu verði bætt og að kveðið verði á um þetta í lögunum.
    Einstaklingur sendi umsögn sem foreldri einstaklinga getinna með gjafafrumum. Í umsögninni var bent á mikilvægi þess að breyta ekki lögunum nema að réttindi barna væru höfð að leiðarljósi. Í umsögninni voru reifuð sjónarmið varðandi réttindi barna og fólks sem eru getin með gjafafrumum og rétt þeirra á að fá upplýsingar um líffræðilegan uppruna sinn. Umsagnaraðili taldi að tilefni væri til að rýmka regluverk í kringum gjafir, notkun og geymslu á fósturvísum en á sama tíma tryggja að nafnlausar gjafir yrðu gerðar óleyfilegar til að tryggja réttindi barna.
    Drög að frumvarpinu, að undanskildum fyrirhuguðum breytingum á barnalögum og erfðalögum, voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 3. febrúar 2023 (mál nr. S-24/2023). Frestur til að skila inn umsögnum var veittur til 17. febrúar 2023. Ein umsögn barst frá Félagsráðgjafafélagi Íslands. Samtökin '78 og embætti landlæknis sendu umsögn eftir að veittur frestur var liðinn.
    Í umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands er lýst yfir ánægju með frumvarpsdrögin og segir að mikilvægt sé að einstaklingar hafi ákvörðunarvald yfir kynfrumum sínum og fósturvísum sem þeir hafa staðið að og eiga í geymslu. Vísað er til þess að með því að veita maka sínum heimild til að nýta kynfrumur eða fósturvísa eftir andlát sitt sé opnað á möguleika fyrir fjölskyldur sem eiga börn fyrir að þau fái alsystkin. Einnig gæti þetta verið eina tækifærið til barneigna fyrir eftirlifandi maka þar sem viðkomandi hefur mögulega ekki aðrar nothæfar kynfrumur en þær sem þegar hafa verið lagðar til í tæknifrjóvgunarferli eða eru í fósturvísum.
    Í umsögn Samtakanna '78 er frumvarpsdrögunum fagnað en samtökin telja að ákvæði frumvarpsins um eyðingu kynfrumna og fósturvísa vegna andláts eða sambúðarslita, þrátt fyrir að geymslutími sé ekki liðinn, feli í sér mismunun. Þá sé þetta mikið réttindamál fyrir pör sem samanstanda af tveimur konum. Í því sambandi er vísað til þess að kona sem hafi farið ein í tæknifrjóvgun sé með betri réttarstöðu en kona sem fór í tæknifrjóvgun með þáverandi konu sinni og geymdi fósturvísa. Í báðum tilfellum sé notast við gjafasæði en í síðara tilfellinu geti sú kona sem lagði til kynfrumur ekki nýtt áfram fósturvísa sem voru búnir til í fyrra sambandi með nýjum maka eða ein þrátt fyrir samþykki fyrrverandi maka. Að lokum beina samtökin því til ráðuneytisins að bæta við lögin kynhlutlausri tilvísun til einstaklinga með leg, einkum með tilliti til trans og intersex, til viðbótar við hugtökin kona og móðir.
    Í umsögn embættis landlæknis er lýst stuðningi við frumvarpsdrögin og áréttar embættið þau atriði sem koma fram í umsögn sinni um áformin.
    Líkt og fram kom í áformum um lagasetninguna eru eingöngu fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum laganna sem kveða á um notkun og eyðingu kynfrumna og fósturvísa vegna andláts eða slita á hjúskap/sambúð þrátt fyrir að geymslutími sé ekki liðinn. Um er að ræða réttlætismál og brýn þörf er að breyta lögunum að þessu leyti sem fyrst. Að þessu sinni verður því ekki ráðist í víðtækari breytingar. Eins og áður var vikið að er ráðgert að fara í heildarendurskoðun á lögunum og verða framangreindar athugasemdir hafðar til hliðsjónar í þeirri vinnu.

6. Mat á áhrifum.
    Tilgangur þessa frumvarps er að auka möguleika fólks til að eignast börn í tilteknum tilvikum. Hafa ber í huga við mat á jafnréttisáhrifum að óhjákvæmilegt er að frumvarpið hafi mismunandi áhrif á einstaklinga eftir því hvort þeir eru líffræðilega færir um að ganga með og eignast barn eða ekki. Þar sem í einhverjum tilvikum er um að ræða trans karla sem eru enn með leg verður hér eftir talað um konur og fólk með leg sem leghafa.
    Þeir einstaklingar sem verða fyrir áhrifum af lagasetningu þessari eru í fyrsta lagi þeir sem geyma kynfrumur. Áhrifin eru þó mismunandi. Réttur til að heimila notkun kynfrumna eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit er bundinn við að viðkomandi hafi verið í parsambandi við leghafa. Einstaklingur sem geymt hefur kynfrumur getur því ekki heimilað fyrrverandi eða eftirlifandi maka án legs að nýta kynfrumurnar.
    Í öðru lagi hefur frumvarpið áhrif á pör sem geyma fósturvísa. Frumvarpið dregur úr þeim mun sem er annars vegar á einhleypum leghöfum og hins vegar á leghöfum í parsambandi, þ.e. eykur möguleika þeirra síðarnefndu til að nýta fósturvísa þrátt fyrir andlát, skilnað eða sambúðarslit. Sá möguleiki er þó háður samþykki makans sem tók þátt í tæknifrjóvgunarferlinu. Að öðru leyti eru áhrifin mismunandi eins og getið var hér að framan varðandi kynfrumur.
    Um er að ræða minni háttar breytingu á gildandi lögum sem getur þó haft meiri háttar áhrif á fólk sem vill eignast börn með tæknifrjóvgun.
    Eitt einkafyrirtæki hér á landi annast tæknifrjóvgunarferli. Því miður liggja ekki fyrir nein kyngreind gögn sem lúta að meðferð þessara einstaklinga.
    Frumvarpið hefur áhrif á framkvæmd hjá Þjóðskrá Íslands hvað varðar skráningu á öllum börnum sem fæðast eins og kemur fram í 3. kafla.
    Mat á fjárhagslegum áhrifum á ríkissjóð gerir ekki ráð fyrir breytingu á útgjaldahlið ríkissjóðs við lögfestingu frumvarpsins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Sú breyting sem lögð er til á 8. gr. laganna felur í sér heimild fyrir þann sem á kynfrumur í geymslu til að samþykkja notkun eftirlifandi eða fyrrverandi maka á þeim. Með maka er átt við þann sem var í hjúskap eða sambúð með þeim sem leggur til kynfrumurnar. Í ákvæðinu er kveðið nánar á um hvaða kröfur eru gerðar til notkunar kynfrumna við þessar aðstæður. Í fyrsta lagi er gerð krafa um skriflegt og vottað samþykki og ef um notkun eftir skilnað eða sambúðarslit er að ræða verður slíkt samþykki að liggja fyrir samhliða umsókn um tæknifrjóvgun. Eftir skilnað og sambúðarslit má gera ráð fyrir að breytingar hafi orðið á aðstæðum og forsendum hjá viðkomandi einstaklingum. Því er eðlilegt að ekki sé miðað við það samþykki sem kann að hafa verið gefið á meðan einstaklingarnir voru í hjúskap eða sambúð heldur þarf að liggja fyrir nýtt samþykki sem verður jafnframt grundvöllur þess að þeir verða báðir foreldrar barnsins við þessar aðstæður. Um samþykki er einnig vísað til skýringa við 3. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi verður eftirlifandi maki að vera einhleypur þegar hann óskar eftir tæknifrjóvgun með þessum hætti og er hér vísað til nánari skýringa í 3. kafla. Í þriðja lagi verður maki að geta nýtt kynfrumur í eigin líkama.

Um 2. gr.

    Í 3. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að fósturvísa megi eingöngu nota í samræmi við samþykki þeirra sem lögðu kynfrumurnar til eða fengu þær að gjöf til notkunar við glasafrjóvgun. Breytingin sem lögð er til á málsgreininni felur í sér heimild fyrir þann sem á fósturvísa í geymslu til að samþykkja notkun eftirlifandi eða fyrrverandi maka á þeim. Kröfurnar eru sambærilegar þeim sem gerðar eru til samþykkis og notkunar kynfrumna og vísast til skýringa við 1. gr. frumvarpsins. Þess ber að geta að ef báðir einstaklingar eiga þess kost að nýta fósturvísi eftir skilnað eða sambúðarslit verða báðir að samþykkja notkun hans og koma sér saman um hvor þeirra gangi með barnið.
    Líkt og fram kemur í 3. mgr. 5. gr. laganna er gjöf fósturvísa óheimil og er með þessu frumvarpi ekki lögð til breyting á því ákvæði. Eingöngu þeim aðilum sem lögðu til fósturvísa og samþykktu geymslu þeirra er heimilt að nýta þá eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lagt til að við 2. mgr. 10. gr. laganna bætist nýr málsliður þess efnis að þrátt fyrir að hámarksgeymslutími kynfrumna eða fósturvísa sé ekki liðinn skuli eyða þeim ef einstaklingur sem samþykkti geymslu dregur samþykki sitt fyrir geymslunni til baka. Eðlilegt þykir að taka þetta fram í lögunum. Árétta ber að ef um par er að ræða verður að eyða fósturvísi ef annar aðilinn dregur samþykki sitt fyrir geymslunni til baka.
    Í b-lið er lögð til breyting á 3. mgr. 10. gr. laganna, en í gildandi ákvæði er kveðið á um að þrátt fyrir að hámarksgeymslutími kynfrumna sé ekki liðinn skuli eyða ónotuðum kynfrumum ef sá sem lagði til kynfrumurnar andast, nema tilgangur geymslunnar hafi verið gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun. Upp hafa komið tilvik þar sem pör í tæknifrjóvgunarferli stefna að því að nota kynfrumur í geymslu en kynfrumugjafi veikist lífshættulega áður en ferlinu lýkur. Eina leiðin til að heimila eftirlifandi maka nýtingu kynfrumnanna hefur þá verið að breyta tilgangi geymslunnar þannig að um sé að ræða gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun. Slík staða hefur þá ekki í för með sér að kynfrumugjafi verði foreldri barns sem þannig er getið. Í frumvarpinu er lagt til að afnema þá skyldu ákvæðisins að eyða kynfrumum í þeim tilvikum þegar fyrir liggur skriflegt og vottað samþykki þess sem lagði til kynfrumurnar um notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun. Um heimild til að samþykkja notkun eftirlifandi maka á kynfrumum er nánar kveðið á um í nýrri 3. mgr. 8. gr., sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er ekki mælt fyrir um ákveðið form samþykkis. Slíkt getur verið á sérstöku eyðublaði hjá þjónustuveitanda, í sérstöku skjali eða jafnvel í erfðaskrá.
    Í c-lið er lögð til breyting á 4. mgr. 10. gr. laganna. Í gildandi ákvæði er í 1. málsl. kveðið á um eyðingu fósturvísa við skilnað eða sambúðarslit. Í 2. málsl. er kveðið á um eyðingu fósturvísa ef annar aðilinn andast, nema tilgangur geymslunnar hafi verið gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun. Lagt er til að fyrri málsl. 4. mgr. um eyðingu fósturvísa við skilnað eða sambúðarslit falli brott. Leiðir það af heimild til að nýta fósturvísa við þessar aðstæður, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Árétta ber að fósturvísa má þó eingöngu nota ef uppfyllt eru skilyrði nýs 3. málsl. 3. mgr. 9. gr., sbr. 2. gr. frumvarpsins. Lagt er til að orðalagi síðari málsl. 4. mgr. 10. gr. verði breytt þannig að eyða skuli fósturvísum við andlát annars aðilans nema fyrir liggi skriflegt og vottað samþykki þess aðila sem stóð að geymslu fósturvísa um notkun eftirlifandi maka á þeim við tæknifrjóvgun. Um heimild til að samþykkja notkun eftirlifandi á fósturvísum er nánar kveðið á um í nýrri 3. mgr. 9. gr., sbr. 2. gr. frumvarpsins. Kemur þetta orðalag í stað fyrirvarans í núgildandi ákvæði um að ekki þurfi að eyða fósturvísi ef um gjöf kynfrumna til tæknifrjóvgunar hafi verið að ræða.
    Í frumvarpinu er að finna það nýmæli að einstaklingar geti samþykkt notkun á fósturvísi sem verður til í tæknifrjóvgunarferli eftir andlát annars aðilans óháð uppruna kynfrumna, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Samþykki verður þá einnig grundvöllur foreldrastöðu. Í ljósi þess er óheppilegt að eyðing fósturvísis eftir andlát geti jafnframt verið háð uppruna kynfrumu. Í tilvikum þegar notað er gjafasæði myndi það gera samþykki þess sem fellur frá óþarft og jafnvel útiloka viðkomandi frá því að njóta foreldrastöðu. Skapar það ójafnræði milli aðilanna. Þá gæti foreldrastaða barns orðið tilviljunarkennd eftir því hvort samþykki lá fyrir eða ekki. Árétta ber að með framangreindum breytingum á 4. mgr. 10. gr. er ekki verið að heimila gjöf fósturvísa og notkun þriðja aðila. Eingöngu þeim sem stóðu að geymslu fósturvísa er heimilt að samþykkja notkun eftir andlát og er með notkun átt við nýtingu í eigin líkama.

Um 4. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2024 til að tími gefist til þess að setja reglugerð skv. 7. gr. barnalaga og móta m.a. reglur um þau tilvik þegar leiðrétta þarf skráningu. Auk þess þarf Þjóðskrá Íslands að hafa svigrúm til þess að breyta framkvæmd hvað varðar skráningu á öllum börnum sem fæðast. Að lokum er lagt til að um þær kynfrumur og þá fósturvísa sem eru í geymslu við gildistöku laganna fari samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Talið er sanngjarnt að hin nýja réttarstaða, verði frumvarp þetta að lögum, gildi um þá einstaklinga sem nú þegar eiga kynfrumur eða fósturvísa í geymslu, enda um réttarbót að ræða til handa þeim sem fara í þetta ferli.

Um 5. gr.

     Um 1. tölul.
    Lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á barnalögum vegna nýmæla í lögum um tæknifrjóvgun.
     Um a-lið 1. tölul.
    Lagðar eru til breytingar á vísan til málsgreina í 1. gr. a laganna til samræmis við þær breytingar sem gerðar eru á 6. gr. og 6. gr. a laganna.
     Um 1. tölul. b-liðar 1. tölul.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 6. gr. laganna mæla fyrir um foreldrastöðu þegar kona eða maður samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun. Í 1. málsl. er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein, sem verði 4. mgr., sem taki sérstaklega á því þegar einstaklingur, hvort sem það er maður eða kona, samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi eiginkonu eða sambúðarkonu, eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit. Gert er ráð fyrir að ákvæðið eigi við þegar tæknifrjóvgun fer fram samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar er að finna um notkun kynfrumna eða fósturvísa eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit, m.a. skilyrði um að fyrrverandi maki sé einhleypur þegar tæknifrjóvgun fer fram og að viðkomandi geti nýtt kynfrumur eða fósturvísa í eigin líkama. Skv. 3. mgr. 3. gr. laganna er ljóst að ákvæði 6. gr. gilda um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun. Til að taka af öll tvímæli er lagt til að tekið verði fram í 2. málsl. nýrrar 4. mgr. 6. gr. að einstaklingur sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi eiginkonu eða sambúðarkonu, skv. 1. málsl. nýrrar 4. mgr., verði foreldri barns þrátt fyrir að hún kunni að hafa gengið aftur í hjúskap eða sé í skráðri sambúð við fæðingu barnsins. Samræmist þetta þeirri áherslu laganna að þau sem standa saman að ákvörðun um tæknifrjóvgun verði foreldrar barns sem þannig er getið.
     Um 2. tölul. b-liðar 1. tölul.
    Meginreglan um að barn einhleyprar konu verði ekki feðrað byggist á því að hún standi ein að ákvörðun um tæknifrjóvgun. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einungis einhleypur leghafi geti notað kynfrumur eða fósturvísa eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit og heimildin til þess byggist á samstöðu leghafans og fyrrverandi maka. Breyting sem hér er lögð til er nauðsynleg til áréttingar á foreldrastöðu skv. 1. tölul. b-liðar 1. tölul. þessarar frumvarpsgreinar við þær aðstæður sem þar er lýst.
     Um 3. tölul. b-liðar 1. tölul.
    Lögð er til breyting á vísan til málsgreinar í 6. mgr. 6. gr. laganna til samræmis við breytingu í b-lið 1. tölul. þessarar frumvarpsgreinar.
     Um 4. tölul. b-liðar 1. tölul.
    Í 7. mgr. 6. gr. laganna er gerður skýr greinarmunur á réttarstöðu sæðisgjafa, annars vegar þegar um er að ræða kynfrumugjöf til nota við tæknifrjóvgun á eiginkonu eða sambúðarkonu og hins vegar kynfrumugjöf í öðrum tilgangi. Með hliðsjón af 1. tölul. b-liðar 1. tölul. þessarar frumvarpsgreinar verður að leggja að jöfnu stöðu eiginkonu og sambúðarkonu og eftirlifandi eða fyrrverandi eiginkonu og sambúðarkonu, að öðrum skilyrðum uppfylltum.
     Um 5. tölul. b-liðar 1. tölul.
    Lögð er til breyting á vísan til málsgreinar í 8. mgr. 6. gr. laganna til samræmis við breytingu í 1. tölul. b-liðar 1. tölul. þessarar frumvarpsgreinar.
     Um c-lið 1. tölul.
    Hér eru lagðar til breytingar á ákvæði 6. gr. a laganna um foreldra barns sem getið er við tæknifrjóvgun þegar annað foreldri eða bæði hafa breytt skráningu kyns. Annars vegar er um að ræða sambærilegar efnisbreytingar og lagðar eru til á 6. gr., sbr. 1. tölul. b-liðar 1. tölul. þessarar frumvarpsgreinar, og hins vegar nauðsynlegar breytingar á vísan til málsgreina.
     Um d-lið 1. tölul.
    Vert er að undirstrika mikilvægi þess að við fæðingu barns liggi fyrir réttar upplýsingar um foreldrastöðu. Samkvæmt núgildandi 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. barnalaga ber lækni eða ljósmóður sem tekur á móti barni að spyrja móður um faðerni þess sé móðir ekki í hjúskap. Lagt er til að fella niður fyrirvara um hjúskap enda mikilvægt að réttar upplýsingar liggi fyrir í öllum tilvikum. Ávallt ber því að spyrja um foreldrastöðu og með því er unnt að skrá upplýsingar um hvort foreldrastaða ræðst af pater-est- eða parens-est-reglum eða yfirlýsingu sem getur orðið grundvöllur faðernis- eða foreldraviðurkenningar. Jafnframt er lagt til að áréttuð verði sérstaklega skylda til þess að upplýsa hvort barn hafi verið getið við tæknifrjóvgun. Með hliðsjón af sjónarmiðum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þykir mikilvægt að slík upplýsingagjöf byggist á skýrri lagaheimild enda um viðkvæmar persónverndarupplýsingar að ræða. Breytingarnar munu því fela í sér breytta framkvæmd hjá Þjóðskrá Íslands hvað varðar skráningu á öllum börnum sem fæðast. Yfirlýsing móður um foreldrastöðu er svo skráð og send Þjóðskrá Íslands. Í 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna er sérstaklega tekið fram að sá sem móðir lýsir föður verði þó ekki skráður faðir í þjóðskrá nema barnið sé feðrað samkvæmt lögunum. Undirstrika ber að samkvæmt þessu eru það foreldrareglur barnalaga sem ráða úrslitum um löglega foreldrastöðu en ekki skráning í þjóðskrá. Er því tekið sérstaklega fram að yfirlýsing móður sem elur barn ráði ekki úrslitum heldur ráði reglur laganna um faðerni eða foreldrastöðu. Ef í ljós kemur ósamræmi milli löglegrar foreldrastöðu og skráningar barns í þjóðskrá, t.d. vegna rangra eða ófullnægjandi upplýsinga, er mikilvægt að unnt sé að leiðrétta skráninguna til samræmis við rétta foreldrastöðu. Talið er nauðsynlegt að setja ákvæði í barnalögin um það hvernig unnt er að leiðrétta skráningu foreldrastöðu en gert er ráð fyrir að útfært yrði nánar í reglugerð skv. 6. mgr. 7. gr. laganna t.d. hvaða gögn Þjóðskrá Íslands og eftir atvikum ráðuneytið getur óskað eftir frá heilbrigðisstofnunum vegna slíkra mála, svo sem gögn um tæknifrjóvgun hér á landi. Áréttað er einnig að Þjóðskrá Íslands tekur ákvörðun um leiðréttingu um skráningu, en skv. 1. mgr. 78. gr. laganna eru ákvarðanir Þjóðskrár Íslands kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins. Vert er að taka sérstaklega fram að grundvallarmunur er annars vegar á leiðréttingu á skráningu og hins vegar á vefengingar- og ógildingarmálum skv. III. kafla laganna. Leiðrétting á skráningu nær einungis fram að ganga ef í ljós kemur að skráning sé ekki í samræmi við foreldrareglur barnalaga. Ef skráning er á hinn bóginn í samræmi við foreldrareglur laganna er einungis unnt að breyta faðerni eða foreldrastöðu með því að höfða vefengingar- eða ógildingarmál eftir atvikum.
     Um e-lið 1. tölul.
    Markmið 23. gr. laganna er að girða fyrir að maki þess sem ól barn geti vefengt foreldrastöðu barnsins sem getið er við tæknifrjóvgun með gjafakynfrumum. Með hliðsjón af ákvæði 1. tölul. þessarar frumvarpsgreinar er hér lagt til að það sama gildi um einstakling sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eftirlifandi eða fyrrverandi maka, samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun, eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit.
     Um 2. tölul.
    Lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á erfðalögum vegna nýmæla í lögum um tæknifrjóvgun. Í 21. gr. erfðalaga er tekið fram að barn njóti erfðaréttar ef það er getið áður en arfleifandi fellur frá og fæðist lifandi. Til að taka af öll tvímæli er lagt til að bæta við ákvæði sem mæli fyrir um erfðarétt barns sem getið er eftir að arfleifandi fellur frá, á grundvelli samþykkis skv. 4. mgr. 6. gr. eða 4. mgr. 6. gr. a barnalaga, ef barnið fæðist lifandi. Til nánari skýringa er vísað til umfjöllunar í 3. kafla.