Ferill 1047. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1680  —  1047. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992 (lágmarksfjárhæð bóta).

Flm.: Gísli Rafn Ólafsson, Andrés Ingi Jónsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Logi Einarsson, Sigmar Guðmundsson, Sigurjón Þórðarson, Tómas A. Tómasson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Lágmarksfjárhæð bóta.

    Vátryggður öðlast rétt til vátryggingarbóta þegar um er að ræða tjón sem nemur fjárhæð að lágmarki:
     1.      Vegna lausafjár, sem vátryggt er skv. 1. mgr. 5. gr., 200.000 kr.
     2.      Vegna húseigna, sem vátryggðar eru skv. 1. mgr. 5. gr., 400.000 kr.
     3.      Vegna mannvirkja, sem vátryggð eru skv. 2. mgr. 5. gr., 1.000.000 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laganna er varða lágmarksfjárhæðir bóta eiga við um tjónsatvik sem orðið hafa frá og með 25. mars 2023. Falli kostnaður á Náttúruhamfaratryggingu Íslands vegna niðurfellingar eigin ábyrgðar á tímabilinu frá og með 25. mars 2023 til gildistöku laga þessara skal hann greiðast af ríkissjóði.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að 10. gr. laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands um eigin áhættu tjónþola verði breytt á þá leið að þar verði kveðið á um lágmarksupphæð til að öðlast rétt til vátryggingarbóta í stað núgildandi ákvæðis um eigin ábyrgð. Með því má tryggja að sömu lágmarksskilyrði séu til staðar til að öðlast rétt til bóta og nú er, en að í þeim tilfellum þar sem skilyrðin eru uppfyllt falli kostnaður ekki í miklum mæli á fólk sem þarf þegar að takast á við afleiðingar náttúruhamfara.
    Þann 27. mars 2023 féllu tvö stór snjóflóð á íbúðarhús í Neskaupstað. Alls urðu um 10 heimili fyrir alvarlegu tjóni og eiga rétt á vátryggingarbótum úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Slík atvik hafa komið upp með reglubundnum hætti á Íslandi undanfarin ár enda snjóflóð í íbúðarbyggð því miður algeng staðreynd hér á landi. Í 10. gr. laganna er kveðið á um eigin áhættu vátryggðs en samkvæmt núgildandi lögum er hún almennt um 2% af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en 200.000 kr. vegna lausafjár sem er vátryggt skv. 1. mgr. 5. gr., 400.000 kr. vegna húseigna sem eru vátryggðar skv. 1. mgr. 5. mgr. og 1.000.000 kr. vegna mannvirkja sem eru vátryggð skv. 2. mgr. 5. gr. Samtals eigin áhætta þeirra sem verða fyrir tjóni vegna snjóflóða er þannig alls 600.000 kr. Sú eigin áhætta getur svo hækkað ef tjónið er meira en 30 millj. kr., þar sem 2% eigin áhætta nær 600.000 kr. við þá tjónsfjárhæð. Sem dæmi væri eigin áhætta í 50.000.000 kr. tjóni 1.000.000 kr.
    Núverandi ákvæði um eigin áhættu í náttúruhamförum voru sett með lögum nr. 46/2018, um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, með síðari breytingum. Voru lágmarksfjárhæðir eigin ábyrgðar þannig hækkaðar úr 20.000 kr. í 200.000 kr. fyrir lausafjártjón og úr 85.000 kr. í 400.000 kr. fyrir húseignatjón. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 46/2018 er breytingin rökstudd með þeim hætti að umræddar fjárhæðir hafi verið komnar til ára sinna og að eigin áhætta hafi verið lág. Eðli náttúruhamfaratrygginga hafi verið annað en hefðbundinna skaðatrygginga og náttúruhamfaratryggingu ætlað að bæta tjón sem verði á verðmætum sem talin eru nauðsynleg til þess að unnt sé að mæta grunnþörfum í samfélaginu. Því var einnig haldið fram að mikill tími hafi farið í það að meta og afgreiða smærri tjón og ágreiningsefni um tjónabætur.
    Að mati flutningsmanna var þessi breyting frá árinu 2018 ekki til bóta. Orðræða stjórnvalda í kjölfar snjóflóðanna nýverið hefur lotið að því að hækka þyrfti iðgjöld til að geta borgað út eftir stórfelldar náttúruhamfarir á mjög þéttbýlum svæðum eins og t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Sú orðræða rímar þó ekki við yfirlýst markmið áðurnefndra laga frá 2018 sem héldu því fram að hækkun sjálfsábyrgðar hafi miðað að því að draga úr kröfum vegna smávægilegra tjóna, sem hafi verið mjög margar í kjölfar náttúruhamfara sem hafi valdið útbreiddu tjóni. Núverandi fyrirkomulag hefur aftur á móti þann ókost að valda þeim sem lenda í stórfelldu tjóni í alvarlegum náttúruhamförum óþarfa fjárhagslegri byrði. Er því lagt til að ákvæði um eigin ábyrgð verði fellt úr lögunum og þess í stað verði tekið upp ákvæði um lágmarksfjárhæð bóta. Þannig má gæta þess að fjöldi umsókna fari ekki fram úr hófi í stærri tjónsatburðum og valdi óþarfa álagi og miklum kostnaði fyrir Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
    Það verður ekki hjá því litið að þau hús sem urðu illa úti í snjóflóðum í Neskaupstað í mars síðastliðnum eru á svæði sem stjórnvöld hafa þegar gefið út að byggja eigi varnargarða á, án þess þó að það loforð hafi verið efnt. Ekki verður talið réttlátt að færa svo mikinn kostnað, líkt og núverandi ákvæði um eigin ábyrgð kveða á um, á herðar tjónþola í ljósi þess að hefðu stjórnvöld efnt loforð sín um byggingu varnargarða hefði líklega mátt afstýra mestu tjóni.
    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en að ákvæði um lágmarksfjárhæðir bóta taki til tjóna afturvirkt frá 25. mars 2023. Hefði slík gildistaka þau áhrif að fella niður eigin áhættu þeirra sem urðu fyrir snjóflóðunum aðfaranótt og að morgni hins 27. mars í Neskaupstað, að því gefnu að tjónsfjárhæðir nái umræddu lágmarki. Kostnaður vegna ábyrgðar á slíkum tjónum yrði óverulegur, þ.e. líklega um eða yfir 6.000.000 kr. vegna þeirra tjóna sem urðu í Neskaupstað. Með það að leiðarljósi að hafa ekki áhrif á endurtryggingarvernd Náttúruhamfaratryggingar Íslands er þó rétt að ríkissjóður beri ábyrgð á niðurfellingu á eigin ábyrgð í þessum tjónum.