Ferill 536. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1694  —  536. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (viðbótarkostnaður).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Dige Baldursson og Erlu Sigríði Gestsdóttur frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Hilmar Vilberg Gylfason og Sverri Fal Björnsson frá Bændasamtökum Íslands, Tryggva Þór Haraldsson frá Rarik ohf., Geir Arnar Marelsson og Þórólf Nielsen frá Landsvirkjun, Lárus M.K. Ólafsson frá Samtökum iðnaðarins og Aðalstein Óskarsson frá Vestfjarðastofu.
    Umsagnir bárust frá Bændasamtökum Íslands, Landsvirkjun, Rarik ohf., Samtökum iðnaðarins og Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandi Vestfjarða.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á raforkulögum, nr. 65/2003. Lagt er til að á eftir 3. mgr. 17. gr. a laganna komi ný málsgrein þess efnis að heimild dreifiveitna til að innheimta gjald af notanda til greiðslu viðbótarkostnaðar verði styrkt þegar sýnt er að kostnaður við nýja tengingu verði umfram gjaldskrá, þ.e. þegar fyrirséð er að væntanlegar tekjur dreifiveitu standi ekki undir eðlilegum stofn- eða rekstrarkostnaði vegna tengingarinnar. Sama eigi við hafi forsendur viðskipta breyst verulega. Þá er lagt til að dreifiveitur skuli í samráði við notendur setja almennar reglur, netmála, um rekstur og stýringu raforkudreifingar sem Orkustofnun samþykkir. Framangreint er í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til flutningsfyrirtækisins. Í báðum tilvikum er kveðið á um heimildir til setningar reglna og reglugerðar til nánari útfærslu.
    Orðalag 2. gr. frumvarpsins er kveður á um heimild til innheimtu viðbótarkostnaðar er nær samhljóða ákvæði 4. mgr. 17. gr. raforkulaga við gildistöku þeirra í apríl 2003. Það ákvæði var efnislega samhljóða þágildandi 4. mgr. 12. gr. laganna sem kvað á um heimild flutningsfyrirtækisins til að krefja um greiðslu viðbótarkostnaðar vegna nýrrar tengingar inn á kerfið, þ.e. jákvætt kerfisframlag. Í athugasemdum við greinar frumvarps þess er varð að raforkulögum, nr. 65/2003, sagði um 4. mgr. 12. gr. að við mat á því hvað teldist eðlilegur stofn- og rekstrarkostnaður yrði að byggja á sömu sjónarmiðum og sett voru í þágildandi 1. tölul. 2. mgr. 12. gr. en sama ætti við ef forsendur hefðu breyst verulega. Í ákvæðinu var talinn upp sá kostnaður sem heimilt var að byggja ákvörðun um tekjumörk á, þ.e. allur kostnaður sem tengdist flutningsstarfsemi og kerfisstjórnun. Telja má að sömu sjónarmið hafi legið til grundvallar því hvað teldist eðlilegur stofn- og rekstrarkostnaður þegar kom að nýrri tengingu notanda við dreifiveitu.
    Raforkulög tóku gildi árið 2003 og var hugtakið notandi skilgreint í 12. tölul. 3. gr. laganna sem sá sem kaupir raforku til eigin nota. Skilgreiningu á hugtakinu stórnotandi var bætt við lögin með 1. gr. laga nr. 89/2004. Samkvæmt gildandi lögum er hugtakið stórnotandi skilgreint sem notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. GWst á ári, sbr. 19. tölul. 3. gr. Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu féll 4. mgr. 17. gr. raforkulaga brott með gildistöku laga nr. 19/2011. Vísað er til þess í greinargerðinni að engar skýringar sé að finna á brottfalli ákvæðisins í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 19/2011. Breytingarnar hafi fyrst og fremst snúið að tekjumörkum flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna og ekki hafi verið ætlunin að breyta gjaldskrárumhverfinu. Ljóst væri að markmið þeirra var ekki að taka fyrir innheimtu viðbótarkostnaðar vegna nýrra tenginga af hálfu dreifiveitna sem að öðrum kosti lendir á öðrum notendum kerfisins.
    Um dreifiveitur og dreifingu raforku fer eftir IV. kafla raforkulaga. Skv. 1. tölul. 3. mgr. 16. gr. laganna er dreifiveitu skylt að tengja alla sem eftir því sækjast við dreifikerfið að skilyrðum uppfylltum. Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að í netmála verði nánar kveðið á um þau atriði sem tilgreind eru í 3. mgr. 16. gr. Í 17. gr. laganna er kveðið á um tekjumörk dreifiveitna. Markmiðið með setningu tekjumarka skv. 1. mgr. 17. gr. er að hvetja til hagræðingar í rekstri dreifiveitna og tryggja að tekjur þeirra séu í samræmi við kostnað við þá þjónustu sem þeim er falið að veita, að teknu tilliti til arðsemi. Í 17. gr. a er kveðið á um skyldu hverrar dreifiveitu til að setja sér gjaldskrá í samræmi við tekjumörk en nánari ákvæði þar um skulu sett í reglugerð. Í 25. gr. reglugerðar um framkvæmd raforkulaga er nánar kveðið á um setningu gjaldskrár vegna dreifingar raforku og skulu dreifiveitur við setningu hennar gæta jafnræðis og byggja á hlutlægum og gegnsæjum sjónarmiðum.
    Í umsögn Vestfjarðastofu fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfjarða er lýst áhyggjum af því að þar sem flutningskerfi raforku nái ekki almennu viðmiði geti notendur raforku á Vestfjörðum þurft að bera hlutfallslega meiri kostnað en notendur í öðrum landshlutum verði frumvarpið að lögum. Meiri hlutinn vísar til þess að í greinargerð með frumvarpinu er rakið að kerfisframlag taki fyrst og fremst til stærri framkvæmda. Tilgangur þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu er að tryggja að viðbótarkostnaður við nýjar tengingar falli ekki á almenna notendur.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að sú breyting sem lögð er til um heimild dreifiveitna til innheimtu viðbótarkostnaðar geti í raun losað um framkvæmdir. Núverandi ástand sé heftandi þar sem dreifiveitur verði að velta kostnaði út í tekjumörkin og dýrar tengingar hafi í för með sér kostnað fyrir alla. Með því að bæta ákvæði um heimild til innheimtu viðbótarkostnaðar við raforkulögin sé ætlunin að koma í veg fyrir að notendur dreifiveitna þurfi að bera aukinn kostnað vegna nýrra tenginga notenda þar sem ljóst er að kostnaður verði umfram gjaldskrá. Sá aðili sem óskar nýrrar tengingar verði því að bera þann umframkostnað í stað þess að hann leggist einnig á þá notendur sem fyrir eru.
    Meiri hlutinn leggur til eina orðalagsbreytingu tæknilegs eðlis sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðsins „viðbótarkostnaðar“ í 1. efnismálsl. 2. gr. komi: gjalds sem nemur viðbótarkostnaði.

    Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 4. maí 2023.

Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, frsm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Friðjón R. Friðjónsson. Gísli Rafn Ólafsson. Hanna Katrín Friðriksson.
Helgi Héðinsson. Teitur Björn Einarsson