Ferill 978. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Nr. 17/153.

Þingskjal 1893  —  978. mál.


Þingsályktun

um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026.


    Alþingi ályktar að unnið verði samkvæmt eftirfarandi aðgerðaáætlun á sviðum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026 þar sem lögð verði áhersla á markvissa nýtingu á aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs til að auka lífsgæði með verðmætasköpun, nýsköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild að leiðarljósi.

AÐGERÐAÁÆTLUN Í MÁLEFNUM HÖNNUNAR OG ARKITEKTÚRS FYRIR ÁRIN 2023–2026


A. Verðmætasköpun.
    Stjórnvöld leitist við að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf með vaxandi áherslu á greinar sem byggjast á hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum. Hönnun sem aðferðafræði verði lykill að því að nýta tækifæri sem felast í örum tæknibreytingum og stuðla að aukinni sjálfbærni. Leitast verði við að hafa víðtæk jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og lífsgæði til framtíðar með því að virkja fagþekkingu hönnuða, arkitekta og aðferðafræði hönnunar.

1. Efling Hönnunarsjóðs.
     Markmið: Mótuð verði framtíðarsýn Hönnunarsjóðs með hliðsjón af stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs, þar sem hlutverk sjóðsins verði skýrt til samræmis við ráðgerða varanlega hækkun framlaga.
     Framkvæmd: Samantekt verði unnin um starfsemi, hreyfiafl og áhrif sjóðsins sl. 10 ár og könnun gerð um áhrif sjóðsins meðal styrkþega. Framtíðarsýn verði síðan mótuð á grunni samantektar.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Stjórn Hönnunarsjóðs, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Tímabil: 2023–2026.

2. Skilgreining mælikvarða og miðlun virðisauka hönnunar.
     Markmið: Skilgreindir verði samfélagslegir og hagrænir mælikvarðar sem miðli virðisauka samfélagsins vegna hönnunar og arkitektúrs.
     Framkvæmd: Fyrirliggjandi tölfræðigögn verði rýnd og mótaðir 3–5 lykilmælikvarðar sem nýtist í innlendum og erlendum samanburði og markmiðasetningu. Gagnasöfnun og miðlun verði með reglubundnum hætti og árleg samantekt birt.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Hagstofan, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, rannsakendur á sviðum skapandi greina, Samtök skapandi greina.
     Tímabil: 2023–2024.

3. Virkjun hönnunardrifinnar nýsköpunar.
     Markmið: Stuðlað verði að auknum skilningi á áhrifamætti og gagnsemi hönnunardrifinnar nýsköpunar og aðgengi slíkra verkefna að stuðningi bætt.
     Framkvæmd: Greining verði gerð á getu samkeppnissjóða og núverandi endurgreiðslukerfa til stuðnings við hönnunardrifin nýsköpunar- og þróunarverkefni og mótaðar tillögur til úrbóta.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Rannís, Samtök iðnaðarins, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Tímabil: 2023–2026.

4. Lög um málefni hönnunar og arkitektúrs.
     Markmið: Markaður verði heildarrammi fyrir málefnasvið hönnunar og arkitektúrs þar sem aðkoma stjórnvalda verði skilgreind og kveðið á um hvernig búa megi greinunum hagstæð skilyrði, líkt og öðrum listgreinum. Lögin taki til þeirrar starfsemi sem ríkið stendur fyrir eða styrkir.
     Framkvæmd: Að undangengnu hefðbundnu mati á þörf fyrir lagasetningu og greiningu á lagaumhverfi annars staðar á Norðurlöndum verði ráðist í gerð frumvarps til heildarlaga um málefni hönnunar og arkitektúrs. Virkt samráð verði haft við haghafa meðan á smíði frumvarpsins stendur um hvernig ná megi þeim markmiðum sem stefnt er að. Frumvarpið fari síðan í opið samráðsferli og verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2025.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Tímabil: 2023–2025.

5. Aukning hlutar hönnuða í úthlutun listamannalauna.
     Markmið: Fleiri hönnuðir fái úthlutað starfslaunum listamanna.
     Framkvæmd: Mannmánuðum sem til úthlutunar eru úr launasjóði hönnuða verði fjölgað úr 50 í 100 með breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, og reglugerð um listamannalaun, nr. 834/2009.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Bandalag íslenskra listamanna, Rannís.
     Tímabil: 2025–2026.

B. Hönnun sem breytingarafl.
    Hagnýting hönnunar verði vaxandi þáttur í þróun og nýsköpun fyrirtækja og stofnana og hönnunarhugsun nýtt í auknum mæli til úrlausnar á fjölbreyttum verkefnum og flóknum umhverfis- og félagslegum áskorunum.

6. Samfélagsleg nýting hönnunardrifinnar nýsköpunar.
     Markmið: Að efla ráðgefandi hlutverk Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs á sviðum hönnunardrifinnar nýsköpunar til að undirbyggja vöxt slíkrar atvinnustarfsemi.
     Framkvæmd: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs verði falið að leiða sértæk verkefni á sviðum hönnunardrifinnar nýsköpunar, líkt og systurstofnanir miðstöðvarinnar annars staðar á Norðurlöndum gera. Skilgreind verði tvö tilraunaverkefni sem komi til framkvæmda á árunum 2025–2026.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, fjármála- og efnahagsráðuneyti.
     Tímabil: 2025–2026.

7. Aukið vægi hönnunar í útboðum og samkeppnum.
     Markmið: Vægi hönnunar, gæða, endingar, umhverfis og notenda verði aukið í útboðum, samkeppnum og opinberum innkaupum.
     Framkvæmd: Samstarf verði aukið milli Ríkiskaupa, Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna og Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs um þróun útboðs- og samkeppnisgagna þar sem leitast verði við að auka gæði, traust, sanngirni, gagnsæi og fagmennsku með því að samræma upplýsingar, einfalda verklag og auka skilvirkni.
     Ábyrgð: Ríkiskaup.
     Samstarfsaðilar: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, fjármála- og efnahagsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, Samtök iðnaðarins.
     Tímabil: 2023–2026.

C. Sjálfbærir innviðir.
    Hönnunarhugsun og sérþekking hönnuða verði nýtt við þróun, viðhald og uppbyggingu innviða, þ.m.t. tæknilegra og félagslegra, til að stuðla að uppbyggingu sjálfbærra samfélaga. Hugað verði að heildrænni stefnumótun um hönnun innviða og mannvirkja með aukna sjálfbærni, gæði og bætta lýðheilsu að leiðarljósi og byggt upp öflugt þverfaglegt rannsóknarumhverfi fyrir fagfólk í arkitektúr og hönnunar- og byggingagreinum.

8. Heildstæð stefnumótun í mannvirkjagerð.
     Markmið: Unnið verði að heildstæðri stefnumótun í mannvirkjagerð og innviðauppbyggingu þvert á stjórnkerfið með aukin gæði, sjálfbærni og öryggi að leiðarljósi.
     Framkvæmd: Í tengslum við mótun húsnæðisstefnu verði jafnframt unnið að stefnumótun um mannvirkjagerð þar sem m.a. verði fjallað um hagræna, umhverfis-, tækni-, menningar- og félagslega þætti mannvirkjagerðar. Verkefnið verði unnið í breiðu samráði ráðuneyta, stofnana og hagaðila. Samhliða verði hugað að virkri samþættingu áherslna í hönnunarstefnu við aðra stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, mennta- og barnamálaráðuneyti, Skipulagsstofnun, Samtök iðnaðarins, Arkitektafélag Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Tímabil: 2023–2026.

9. Miðlægur rannsóknavettvangur fyrir innviði.
     Markmið: Unnið verði að því að skilgreint hlutfall fjármagns til opinberra framkvæmda fari til rannsókna og nýsköpunar í mannvirkjagerð sem undirbyggi starfsemi óháðs rannsóknavettvangs fyrir hið byggða umhverfi.
     Framkvæmd: Fram fari mat á starfsemi mannvirkjarannsóknasjóðsins Asks og þarfagreining fyrir auknar rannsóknir á sviðum húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landsskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands. Mótaðar verði tillögur um framtíðarskipan byggingar- og innviðarannsókna og sviðsmyndir kostnaðarmetnar.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, Samtök iðnaðarins, Skipulagsstofnun, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Tímabil: 2023–2024.

D. Menntun framsækinna kynslóða.
    Til að efla verðmætasköpun á Íslandi með hönnun og arkitektúr verði meðvitund um fagþekkingu hönnuða og arkitekta aukin og leitast við að tryggja að menntun þeirra og hæfni mæti áskorunum samfélagsins hverju sinni. Námsframboð, m.a. á sviðum símenntunar, sæti stöðugri endurskoðun og taki mið af örri tækniþróun og eðli hönnunartengdra faga. Aukið verði úrval námsmöguleika á sviðum nýlegra hönnunargreina þar sem vaxandi eftirspurn er eftir sérþekkingu, svo sem á sviði stafrænnar hönnunar, þjónustu- og upplifunarhönnunar og viðmótshönnunar. Unnið verði að því að auka þverfaglega nálgun í menntun, rannsóknum og samstarfi.

10. Aukið framboð náms og endurmenntunar í hönnunargreinum.
     Markmið: Að samvinna og samtal sé aukið milli menntastofnana og milli þeirra og atvinnulífsins um þróun menntunar í hönnunargreinum.
     Framkvæmd: Haldnir verði reglulegir fundir og málþing um fjölbreytt málefni menntunar í hönnunargreinum þar sem hagaðilar komi saman til samtals um þróun, nýjar námsleiðir og eflingu menntunar og þverfaglegra áherslna á sviði hönnunar og arkitektúrs.
     Ábyrgð: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
     Samstarfsaðilar: Listaháskóli Íslands, menntastofnanir og fyrirtæki sem kenna hönnunarfög, Samtök atvinnulífsins, stéttarfélög fagfólks í hönnunargreinum, kennarar í list- og verkgreinum, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
     Tímabil: 2023–2026.

11. Verndun, miðlun og rannsóknir á menningararfi íslensks arkitektúrs.
     Markmið: Valkostir fyrir verndun, miðlun og rannsóknir á menningararfi íslensks arkitektúrs verði metnir með hliðsjón af stefnunni Menningararfurinn – stefna um varðveislu og aðgengi.
     Framkvæmd: Skipaður verði faglegur starfshópur sem falið verði að gera þarfagreiningu og forgangsraða verkefnum sem tengjast verndun, miðlun og rannsóknum á menningararfi íslensks arkitektúrs. Þarfagreining fari síðan í opið samráðsferli.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Minjastofnun Íslands, Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóli Íslands, Arkitektafélag Íslands.
     Tímabil: 2023–2024.
12. Fræðsla um höfundarétt og hönnunarvernd.
     Markmið: Fræðsla og meðvitund um höfundarétt og hönnunarvernd verði aukin, þar sem sérstaklega verði tekið mið af sérstöðu og fjölbreyttu starfsumhverfi þeirra sem starfa að sjónlistum.
     Framkvæmd: Fræðsla um höfundarétt, hönnunarvernd og samningamál verði aukin meðal fagfólks í hönnunargreinum. Stuðlað verði að aukinni fræðslu um höfundarétt meðal almennings og hjá fyrirtækjum.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Myndstef, Hugverkastofa, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Listaháskóli Íslands, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, Ríkiskaup, Samtök iðnaðarins.
     Tímabil: 2023–2026.

13. Safnafræðsla í Hönnunarsafni Íslands.
     Markmið: Að auka fræðslu og miðlun til ungs fólks með áherslu á sköpun, verkþekkingu, menningararf og framtíðarmöguleika íslenskrar hönnunar og arkitektúrs.
     Framkvæmd: Fjölbreyttum miðlunarleiðum verði beitt til þess að auka aðgengi grunnskólanemenda á aldrinum 10–14 ára að Hönnunarsafni Íslands, m.a. með heimsóknum, leiðsögn, vinnustofum og kveikjum.
     Ábyrgð: Hönnunarsafn Íslands.
     Samstarfsaðilar: Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, grunn- og framhaldsskólar, Listaháskóli Íslands.
     Tímabil: 2023–2025.

E. Kynning á íslenskri hönnun og arkitektúr.
    Byggt verði á grunni þess sem áunnist hefur við að vekja athygli og áhuga á íslenskri hönnun og arkitektúr og unnið að því að auka skilning hjá fyrirtækjum og stofnunum á jákvæðum áhrifum hönnunarhugsunar á verkefni, þjónustu og skipulag. Til þess að auka virðingu og sýnileika íslenskrar hönnunar verði lögð áhersla á íslenska hönnun og birtingarmyndir hennar á sem flestum sviðum.

14. Þátttaka í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
     Markmið: Að Ísland taki þátt í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr og að þátttaka landsins veki eftirtekt og athygli á íslenskri hönnun og ólíkum birtingarmyndum hennar.
     Framkvæmd: Skipuð verði stjórn sem skipuleggi þátttöku og móti stefnu um rannsóknir, viðfangsefni og miðlun, geri tillögu að tilnefningu þátttakenda og ráði sýningarstjóra.
     Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
     Samstarfsaðilar: Utanríkisráðuneyti, Íslandsstofa, Listaháskóli Íslands, Arkitektafélag Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Myndlistarmiðstöð, SAMARK.
     Tímabil: 2023–2026.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 2023.