Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 305  —  301. mál.
Viðbót.
Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum varðandi aldursmörk.

Flm.: Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Teitur Björn Einarsson.


I. KAFLI
Breyting á áfengislögum, nr. 75/1998.
1. gr.

    2. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.


2. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: 18 ára.


II. KAFLI
Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016.
3. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012.
5. gr.

    26. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um hreppstjóra, nr. 32/1965.
6. gr.


    Í stað orðanna „21 árs að aldri“ í 2. tölul. 3. gr. laganna kemur: 18 ára að aldri.

V. KAFLI
Breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993.
7. gr.

    Í stað orðanna „26 ára“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 18 ára.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um köfun, nr. 81/2018.
8. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: 18 ára.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um loftferðir, nr. 80/2022.
9. gr.

    74. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74/1938.
10. gr.

    Orðin „og fullra 25 ára“ í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
11. gr.

    Í stað orðanna „25 ára“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: 18 ára.

12. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í 3. mgr. 61. gr. laganna kemur: 18 ára.

13. gr.

    Í stað orðanna „25 ára“ í 2. mgr. 81. gr. laganna kemur: 18 ára.

X. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
14. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í 6. mgr. 12. gr. laganna kemur: 18 ára.

15. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í 3. mgr. 128. gr. laganna kemur: 18 ára.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003.
16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                      Samgöngustofa gefur út skírteini fyrir leiðsögu- og hafnsögumenn. Skírteinið gildir fyrir tiltekið svæði til allt að fimm ára í senn. Um skírteinin skal nánar kveðið á í reglugerð.
     b.      1. tölul. 3. mgr. fellur brott.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011.
17. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í a- og b-lið 2. mgr. 11. gr. laganna kemur: 18 ára.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
18. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: 18 ára.

19. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í b-lið 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: 18 ára.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999.
20. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Leyfi til ættleiðingar verður veitt þeim einum sem náð hefur 18 ára aldri.

XV. KAFLI
Breyting á lögum um öryggisþjónustu, nr. 58/1997.
21. gr.

    Í stað orðanna „25 ára“ í a-lið 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: 18 ára.

XVI. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996.
22. gr.

    29. gr. a laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.

XVII. KAFLI
Breyting á vopnalögum, nr. 16/1998.
23. gr.

    Í stað orðanna „20 ára“ í a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: 18 ára.

24. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2024.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er endurflutt með minni háttar breytingum frá 153. löggjafarþingi (925. mál). Víða í lögum er að finna svokölluð aldursmörk, þ.e. skilyrði um að einstaklingur hafi náð ákveðnum aldri áður en hann getur notið ákveðinna réttinda, öðlast ákveðin leyfi o.s.frv. Þá er einnig að finna efri aldursmörk, þ.e. um hámarksaldur einstaklinga svo að þeir geti öðlast ákveðin leyfi eða réttindi.
    Jafnan er nú miðað við 18 ára aldur, þ.e. sjálfræðis- og fjárræðisaldur, þegar lög eru sett og ákveðið er að afmarka tiltekin réttindi við lágmarksaldur. Þetta hefur þó verið nokkuð á reiki í áranna rás og víða er miðað við annan og hærri aldur þegar sett eru skilyrði fyrir réttindum, leyfisveitingum o.s.frv. Því er með frumvarpi þessu lagt til að miða skuli öll aldursskilyrði laga við 18 ára aldur. Flutningsmenn fá ekki séð hvaða rök standi til þess að löggjöf feli víða í sér handahófskennd aldursmörk og áskilji til að mynda á einum stað að einstaklingar verði að vera orðnir 25 ára til þess að fullnægja skilyrðum laga en á öðrum þyki rétt að miða við 20 ára aldur, í stað þess að einfaldlega sé miðað við sjálfræðisaldur í öllum tilvikum.
    Rétt er að nefna að í sumum tilvikum felast ákveðin aldursskilyrði í hæfisskilyrðum. Þegar lögum um dómstóla, nr. 50/2016, var breytt með lögum nr. 50/2021 var aldursskilyrði laga um skipan héraðsdómara fellt brott, en áður hafði aldursskilyrði laganna verið 30 ár. Þótt aldursskilyrði hafi verið fellt brott er ólíklegt að aðili sem er 18 ára gamall yrði metinn hæfur sem héraðsdómari, enda eru gerðar aðrar kröfur í lögunum um að viðkomandi hafi lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi. Því liggja fyrir eðlileg og málefnaleg skilyrði laga um hæfni sem eiga ekki að hverfast um aldur.
    Með frumvarpinu er einnig lagt til að aldurshámark laga verði fellt úr gildi þar sem það á við. Að baki þeirri tillögu liggur sú hugsun að ekki sé nauðsynlegt að takmarka réttindi við ákveðinn aldur heldur beri mun frekar að líta til annarra þátta ef nauðsynlegt þykir að afturkalla réttindi eða takmarka leyfisveitingar til eldra fólks, svo sem heilsu, færni og annarra atriða sem hægt er að meta á hlutlægan máta.
    Við vinnslu frumvarpsins var gerð leit að þeim lögum sem fela í sér aldursskilyrði sem takmarka leyfi eða skyldu manna við annan og hærri aldur en 18 ára, svo og lögum sem fela í sér aldurshámark. Undanskilið frá frumvarpinu er ákvæði 4. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, þar sem kveðið er á um meðal kjörgengisskilyrða til forseta Íslands að kjörgengur sé hver 35 ára gamall maður. Tekur frumvarpið ekki á þeim aldursskilyrðum af formlegum ástæðum vegna þess hve örðugt er að breyta einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar, en það er von flutningsmanna að slík breyting nái engu að síður fram að ganga í náinni framtíð.
    Við samanburðarkönnun á réttarsviðum í öðrum norrænum ríkjum og aldursmörkum laga kom í ljós að umtalsvert færri sambærilegar lagareglur eru í gildi varðandi aldursmörk þar sem miðað er við annan og hærri aldur en 18 ár sem skilyrði fyrir ákveðnum réttindum en hér á landi og almennt virðist sú regla gilda að miða við sjálfræðisaldur en hafa sem fæst önnur aldursmörk í lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. og 2. gr.

    Í 2. mgr. 5. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, segir að til þess að fá útgefið leyfi skv. 1. mgr. 3. gr., annað en leyfi til smásölu, skuli umsækjandi vera orðinn 20 ára. Ef umsækjandi er félag með ótakmarkaðri ábyrgð skulu eigendur og framkvæmdastjóri þess vera orðnir 20 ára. Ef um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð skulu allir stjórnarmenn og framkvæmdastjóri fullnægja aldursskilyrðinu. Lagt er til að ákvæðið verði fellt brott, enda sé ekki tilefni til að skilyrða útgáfu leyfis til smásölu áfengis við sérstakan aldur umfram sjálfræðisaldur. Þá sé ekki tilefni til að setja sérstakt aldursskilyrði fyrir eigendur og framkvæmdastjóra félags sem er umsækjandi leyfis til smásölu áfengis.
    Í 18. gr. laganna er kveðið á um að óheimilt sé að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur, enda séu ekki málefnaleg rök fyrir því að takmarka sölu, veitingu eða afhendingu áfengis við 20 ára aldur.

Um 3. gr.

    Í 1. tölul. 2. mgr. 13. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, um almenn hæfisskilyrði hæstaréttardómara, kemur fram að engan megi skipa í Hæstarétt Íslands sem ekki hefur náð 35 ára aldri. Lagt er til að ákvæðið falli brott þar sem ekki þykir tilefni til þess að binda skipun við ákveðinn aldur umfram sjálfræðisaldur heldur fremur við hæfni og reynslu.

Um 4. gr.

    Í 1. tölul. 2. mgr. 21. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, kemur fram að engan megi skipa landsréttardómara sem ekki hefur náð 35 ára aldri. Lagt er til að ákvæðið falli brott.

Um 5. gr.

    Í 26. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, um aldursmörk, segir að heilbrigðisstarfsmanni sé óheimilt að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að hann nær 75 ára aldri. Lagt er til að ákvæðið falli brott, enda sé aldur ekki málefnaleg ástæða fyrir því að skylda heilbrigðisstarfsmenn til að hætta eigin rekstri.

Um 6. gr.

    Í 2. tölul. 3. gr. laga um hreppstjóra, nr. 32/1965, segir að engan megi skipa hreppstjóra nema þann sem náð hafi 21 árs aldri. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 7. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, segir að eigandi innstæðu, sem nemur hærri fjárhæð en 30.000 kr., eigi þess kost að fá innstæðu sína greidda þegar hann hefur náð 26 ára aldri. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 8. gr.

    Í a-lið 1. mgr. 5. gr. laga um köfun, nr. 81/2018, segir að aldurstakmark fyrir útgáfu skírteinis sem heimilar köfun í atvinnuskyni sé 20 ár. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 9. gr.

    Í 74. gr. laga um loftferðir, nr. 80/2022, segir að aldurshámark flugmanna í flutningaflugi sé 60 ár en ráðherra megi framlengja þessi mörk til allt að 65 ára aldurs. Lagt er til að greinin falli brott, ásamt fyrirsögn.

Um 10. gr.

    Í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74/1938, er þess krafist að löggiltur niðurjöfnunarmaður sjótjóns sé lögráða og fullra 25 ára. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins falli brott.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að þá eina megi kveðja til setu í dómi sem sérfróða meðdómsmenn sem hafa nægilegan þroska og andlegt og líkamlegt heilbrigði, njóta íslensks ríkisborgararéttar, eru lögráða og orðnir 25 ára, hafa forræði á búi sínu og hafa hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að þeir urðu fullra 18 ára né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 12. gr.

    Í 3. mgr. 61. gr. laganna segir að þann einn megi dómkveðja til að framkvæma mat sem er orðinn 20 ára að aldri. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 13. gr.

    Í 2. mgr. 81. gr. laganna segir að ekki megi skipa mann stefnuvott nema hann sé orðinn 25 ára. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 14. gr.

    Í 6. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, segir að þann einn megi kveðja til sem dómtúlk, táknmálstúlk, þýðanda eða kunnáttumann sem er orðinn 20 ára að aldri. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur, enda séu ekki málefnaleg rök fyrir því að skilyrða löggildingu við 20 ára aldur.

Um 15. gr.

    Í 3. mgr. 128. gr. laganna segir að þann einn megi dómkveðja til að framkvæma mat sem er orðinn 20 ára að aldri. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur með sömu rökum og fyrir 12. gr.

Um 16. gr.

    Í 2. mgr. 13. gr. laga um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, segir að skírteini leiðsögu- og hafnsögumanna gildi ekki lengur en til 70 ára aldurs. Lagt er til aldursskilyrðið falli brott.
    Í 1. tölul. 3. mgr. 13. gr. segir að hafnsögu- og leiðsögumenn skipa skuli vera 25–69 ára að aldri. Lagt er til að ákvæðið falli brott.

Um 17. gr.

    Í a-lið 2. mgr. 11. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, segir að ÁTVR sé heimilt að hafna áfengi ef varan sjálf, umbúðir hennar eða markaðssetning höfðar sérstaklega til barna eða ungmenna yngri en 20 ára. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.
    Í b-lið 2. mgr. 11. gr. laganna segir að hið sama eigi við ef varan sýnir börn eða ungmenni yngri en 20 ára. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 18. gr.

    Í 1. mgr. 6. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, segir að heimilt sé að kveða á um það í reglugerð að dyraverðir skuli hafa náð 20 ára aldri. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 19. gr.

    Í b-lið 1. mgr. 8. gr. laganna segir að umsækjandi um leyfi til reksturs starfsemi sem fellur undir gistiflokka II–IV og veitingastaðaflokka II og III skuli vera lögráða og hafa náð a.m.k. 18 ára aldri á umsóknardegi. Feli rekstrarleyfi í sér heimild til áfengisveitinga skal umsækjandi vera lögráða og hafa náð a.m.k. 20 ára aldri á umsóknardegi. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði alfarið breytt í 18 ára aldur.

Um 20. gr.

    Í 5. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130/1999, segir að leyfi til ættleiðingar verði veitt þeim einum sem náð hefur 25 ára aldri. Þó megi, ef sérstaklega stendur á, veita þeim sem er orðinn 20 ára leyfi til ættleiðingar. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 21. gr.

    Í a-lið 2. mgr. 2. gr. laga um öryggisþjónustu, nr. 58/1997, segir að einstaklingur sem hyggst annast öryggisþjónustu skuli vera orðinn 25 ára. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 22. gr.

    Í 29. gr. a lögreglulaga, nr. 90/1996, segir að lögreglumenn skuli leystir frá embætti þegar þeir eru orðnir fullra 65 ára eða fyrr, eftir því sem ráðherra ákveður með reglugerð. Lagt er til að greinin falli brott, ásamt fyrirsögn.

Um 23. gr.

    Í a-lið 1. mgr. 13. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, segir að skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis sé að hafa náð 20 ára aldri og hafa ekki verið sviptur sjálfræði. Í reglugerð sé heimilt að víkja frá þessu aldursskilyrði vegna íþróttaskotfimi, sbr. 17. gr. Lagt er til að aldursskilyrði ákvæðisins verði breytt í 18 ára aldur.

Um 24. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.