Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 557  —  502. mál.
Leiðréttur texti. Viðbót.




Tillaga til þingsályktunar


um afnám jafnlaunavottunar.


Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason.


    Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að hefja vinnu við að leggja fram frumvarp um að afnema skyldu til jafnlaunavottunar. Ráðherra upplýsi Alþingi um framgang vinnunnar á vorþingi 2024.

Greinargerð.

    Hinn 1. júní 2017 samþykkti Alþingi lög um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétta kvenna og karla, nr. 10/2008, sem fólu í sér að fyrirtækjum með 25 starfsmenn eða fleiri var gert að taka upp jafnlaunavottun en lögin voru liður í því að sporna við launamisrétti vegna kynferðis.
    Lögin fólu í sér að fyrirtæki og stofnanir skyldu hafa öðlast jafnlaunavottun miðað við starfsmannafjölda eftir því sem hér segir:
          250 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli eigi síðar en 31. desember 2018.
          150–249 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli eigi síðar en 31. desember 2019.
          90–149 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli eigi síðar en 31. desember 2020.
          25–89 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli eigi síðar en 31. desember 2021.
          Opinberar stofnanir, sjóðir og fyrirtæki að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkisins og þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skyldu hafa öðlast vottun eigi síðar en 31. desember 2019.
          Stjórnarráð Íslands skyldi hafa öðlast vottun eigi síðar en 31. desember 2018.
    Með nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sem komu í stað laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, var ákveðið að gefa fyrirtækjum þar sem starfa 25–49 kost á að velja á milli jafnlaunavottunar og jafnlaunastaðfestingar. Allir tímafrestir voru síðar færðir aftur um 12 mánuði fyrir hvern flokk fyrirtækja og stofnana.
    Þegar tölur við lok árs 2022 eru skoðaðar kemur í ljós að alls hafa 443 fyrirtæki og stofnanir af 1.094 hlotið jafnlaunavottun. Eftir standa 651 fyrirtæki og stofnanir sem ekki hafa hlotið jafnlaunavottun.
    Mat Samtaka atvinnulífsins, á grundvelli könnunar sem var gerð fyrri hluta árs 2021, hjá fyrirtækjum sem lokið höfðu innleiðingarferli jafnlaunavottunar, var að meðalkostnaður á hvert fyrirtæki hefði verið um 16 millj. kr. við upphaflega vottun. Það gerir um 18 milljarða kr. sé horft til þeirra tæplega 1.100 aðila sem nú falla undir regluverkið. Þessar tölur eru ekki leiðréttar með tilliti til verðlags. Jafnlaunastaðfesting fyrirtækja með 25–49 starfsmenn er svo augljóslega ekki án kostnaðar, þó lægri sé. Þessu til viðbótar felst umtalsverður kostnaður í að viðhalda vottuninni á þriggja ára fresti til samræmis við kröfur laganna.
    Í niðurstöðum rannsókna um jafnlaunastaðal og afnám kynbundinna launa sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla árið 2022 kemur fram að reglugerðinni fylgja engar leiðbeiningar um hvað sönnunarbyrði vottunaraðila inniheldur hvað varðar rannsóknarvinnu gagnvart starfaflokkun eða launagreiningu, umfang skoðunar, fjölda viðmælenda eða lágmarkstímafjölda. Viðmælendur í rannsókninni voru sammála um að verkefnið væri ekki einfalt og ekki ljóst hvernig ætti að uppfylla óskrifaðar kröfur og hvað þær þýddu. Jafnframt var skortur á eftirliti og viðmiðum.
    Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur jafnframt fram að ekki sé hægt að sjá að innleiðing jafnlaunastaðals hafi haft bein áhrif á launamun kynjanna og að lítill munur sé á þróun launa hjá fyrirtækjum og stofnunum sem hafa fengið vottun og þeirra sem ekki hafa fengið hana. Í niðurstöðum fyrrgreindrar rannsóknar er sagt að jafnlaunavottunin sé „kostnaðarsamt en bitlaust verkfæri“, enda hefur engin nágrannaþjóða lögfest staðal sem þennan.
    Það er því ljóst að háleit markmið með lagasetningunni hafa ekki haft þau áhrif sem horft var til við setningu laganna, heldur hafa þau orsakað umtalsverðan kostnað fyrir hið opinbera, stofnanir og fyrirtæki, kostnað sem ljóst er að fer út í verðlag, án þess að merkjanlegur árangur hafi náðst á grundvelli þessa íþyngjandi regluverks. Ferlið er kostnaðarsamt og eykur flækjustig fyrir fyrirtæki. Því telja flutningsmenn að skynsamlegt sé fyrir stofnanir og fyrirtæki í landinu að jafnlaunavottun verði gerð valkvæð í stað þess að hún sé lögbundin eins og nú er.