Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 621  —  535. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.


Frá innviðaráðherra.    Alþingi ályktar, sbr. lög um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, nr. 30/2023, og skipulagslög, nr. 123/2010, að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi stefnu og aðgerðaáætlunar í skipulagsmálum og að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs.
    Landsskipulagsstefna taki mið af og verði hluti af samhæfingu stefna í húsnæðismálum, skipulagsmálum, samgöngumálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga og taki mið af samþykktum stefnum stjórnvalda á öðrum málefnasviðum.

Niðurbrot á ramma fjármálaáætlunar 2024–2028 2024 2025 2026 2027 2028 Samtals
2024–2028
Skipulagsstofnun 437,4 438,0 433,6 429,3 425,0 2.163,4
Endurgreiðsla skipulagsgjalda til sveitarfélaga sem annast sjálf skipulagsmál sín 166,0 164,3 162,7 161,1 159,5 813,6
Endurgreiðsla á hluta kostnaðar sveitarfélaga við skipulagsmál 106,5 105,4 104,4 103,3 102,3 522,0
Samtals skipulagsmál 709,9 707,8 700,7 693,7 686,8 3.498,9
Miðað við verðlag í fjárlögum fyrir árið 2024. Fjárhæðir í milljónum kr.

I. FRAMTÍÐARSÝN OG MEGINMARKMIÐ
    Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tenging byggða og Íslands við umheiminn verði í jafnvægi við umhverfið.
    Meginmarkmið áætlana innviðaráðuneytisins:
     1.      Innviðir mæti þörfum samfélagsins.
     2.      Byggðir og sveitarfélög um allt land verði sjálfbær.
    Skipulag stuðli að sjálfbærri þróun og lífsgæðum fólks, styðji samkeppnishæfni og sé sveigjanlegt og stuðli að viðnámsþrótti gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum.

II. LYKILVIÐFANGSEFNI
    Til að takast á við þær áskoranir sem blasa við á sviði skipulagsmála verði unnið að eftirfarandi níu lykilviðfangsefnum:
     1.      Viðbrögðum við loftslagsbreytingum.
     2.      Jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi.
     3.      Uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða.
     4.      Landnotkun í dreifbýli.
     5.      Landnotkun á miðhálendi Íslands.
     6.      Orkuskiptum í samgöngum og fjölbreyttum ferðamáta.
     7.      Skipulag haf- og strandsvæða.
     8.      Skipulag vindorku.
     9.      Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

III. MARKMIÐ, ÁHERSLUR OG MÆLIKVARÐAR
    Markmið stjórnvalda í skipulagsmálum verði eftirfarandi:
     A.      Vernd umhverfis og náttúru.
     B.      Velsæld samfélags.
     C.      Samkeppnishæft atvinnulíf.
    Eftirfarandi áherslur leiði til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð. Í áherslunum komi fram tilmæli og aðgerðir sem beint verði til sveitarfélaga að vinna að í skipulagsáætlunum sínum. Landsskipulagsstefnan nái yfir landið allt og efnahagslögsögu þess og áherslur beinist að skipulagi miðhálendisins (M), dreifbýlis (D), þéttbýlis (Þ) og skipulagi haf- og strandsvæða (H).

A. Markmið um vernd umhverfis og náttúru.
Áhersla A.1: Skipulag feli í sér stefnu um loftslagsmál með kolefnishlutleysi og orkuskipti að leiðarljósi. Stefnt verði að því að draga eins og kostur er úr losun gróðurhúsalofttegunda og jarðefnaeldsneyti fasað út á lofti, láði og legi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð verði mörkuð stefna um loftslagsmál. Hún feli í sér stefnu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggð, samgöngum og landnotkun og að auka kolefnisbindingu, með kolefnishlutleysi að leiðarljósi. (M, D, Þ, H)
     2.      Skipulag miði að eins miklum og skjótum árangri og kostur er við að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda. (M, D, Þ, H)
     3.      Skipulagsákvæði um þróun byggðar, samgöngur og landnotkun verði útfærð og, eftir því sem við á, sett mælanleg markmið um árangur í loftslagsmálum. (M, D, Þ, H)
     4.      Umhverfismat skipulagsáætlana feli í sér mat á loftslagsáhrifum skipulagstillagna og annarra valkosta um stefnu og útfærslu byggðar, samgangna og landnotkunar, sem til greina koma. (M, D, Þ, H)
     5.      Í skipulagi skuli horfa til losunar frá landi og landnotkun og áhrifa ólíkrar landnotkunar á getu jarðvegs og gróðurs til að binda kolefni. Nýtt verði besta fáanleg þekking á samspili landnotkunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. (M, D, Þ, H)
     6.      Skipulag taki mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og bestu fáanlegu leiðbeiningum um loftslagsmiðað skipulag. (M, D, Þ, H)

Áhersla A.2: Skipulag feli í sér stefnu og skipulagsákvæði um innviði fyrir loftslagsvænar samgöngur, með áherslu á vistvænan ferðamáta og orkuskipti í samgöngum.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag samgöngukerfis miðhálendisins stuðli að jafnvægi milli ólíkra ferðamáta. (M)
     2.      Við skipulagsgerð á miðhálendinu verði hugað að orkuskiptum en uppbygging innviða skuli vera í samræmi við áherslur landsskipulagsstefnu um uppbyggingu á miðhálendinu. (M)
     3.      Í skipulagi í dreifbýli verði, eftir því sem kostur er, skilyrði fyrir samtengdu kerfi samgangna, með áherslu á virkan ferðamáta og almenningssamgöngur. (D)
     4.      Við skipulagsgerð verði gert ráð fyrir innviðum fyrir orkuskipti, svo sem hleðslustöðvum, sem styðja við orkuskipti í samgöngum á landi, í íbúðahverfum, á atvinnusvæðum, við hafnir, stofnvegi, á sjó og í lofti. (D, Þ)
     5.      Í skipulagi í þéttbýli verði hugað að innviðum fyrir loftslagsvænar samgöngur, með áherslu á virkan ferðamáta og almenningssamgöngur. (Þ)
     6.      Við skipulagsgerð verði sett fram stefna og skipulagsákvæði um gatnakerfi og hönnun og útfærslu göturýma sem taki mið af fjölþættu hlutverki gatna sem umferðarleiða og bæjarrýma. (Þ)
     7.      Skipulag og útfærsla gatnakerfis og göturýma innan byggðarheilda taki mið af Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningum um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. (Þ)

Áhersla A.3: Skipulag miði að því að vernda kolefnisríkan jarðveg. Jafnframt stuðli skipulag að því að draga úr hnignun vistkerfa og stuðla að endurheimt þeirra, með það að markmiði að draga úr losun, auka bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri og vernda líffræðilega fjölbreytni.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag og ákvarðanir um nýtingu lands á miðhálendinu, m.a. til beitar, taki mið af ástandi þess og vistgetu og stuðli að viðgangi og virkni vistkerfa. Þetta verði m.a. útfært með skipulagsákvæðum um beitarsvæði í samráði við bændur í viðkomandi sveitarfélagi og Land og skóg. Skipulagsákvæði miði að því að beitarálag sé í samræmi við ástand vistkerfa og markmið um að endurheimta og styrkja náttúruleg vistkerfi og stöðva hnignun þeirra, þ.m.t. jarðvegs. Með þeim verði stuðlað að því að beit á miðhálendinu verði stjórnað þannig að landnotkun verði sjálfbær, valdi ekki hnignun gróðurs eða jarðvegs eða hamli náttúrulegri framvindu vistkerfa á illa förnu landi . (M)
     2.      Hverfisvernd verði eftir aðstæðum nýtt til að vernda land sem er talið viðkvæmt fyrir búfjárbeit og öðrum ágangi. (M)
     3.      Í skipulagi verði sett ákvæði, eftir því sem við á, um landgræðslu og landgræðslusvæði til að bregðast við rofskemmdum. (M)
     4.      Við skipulagsgerð verði lagt mat á ástand lands með tilliti til virkni vistkerfa og kolefnisbúskapar. (D)
     5.      Í skipulagi verði sett fram stefna um varðveislu og bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri og hún útfærð í skipulagsákvæðum um landnotkun, þar á meðal við ákvarðanir um ráðstöfun lands undir mannvirki, ræktun og byggð. (D)
     6.      Við skipulagsgerð verði mörkuð stefna um vernd og endurheimt votlendis og hún útfærð í skipulagsákvæðum um landnotkun. Stefnan miði að því að varðveita kolefni í votlendi og vernda líffræðilega fjölbreytni. (D)
     7.      Skipulag í dreifbýli stuðli að því að draga úr hnignun vistkerfa og endurheimta vistkerfi sem hafa raskast, m.a. með stefnu um verndun og eflingu gróðurs og jarðvegs. (D)
     8.      Vistgerðaflokkun, ásamt bestu fáanlegu upplýsingum og stefnum um uppgræðslu lands, verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum. (D)
     9.      Við afmörkun þéttbýlis og ráðstöfun lands undir byggð verði lagt mat á ástand lands með tilliti til virkni vistkerfa og kolefnisbúskapar og miðað verði að því að vernda land þar sem eru miklar kolefnisbirgðir. (Þ)

Áhersla A.4: Skipulag stuðli að verndun og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni, sérstæðrar náttúru og menningarminja.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð á miðhálendinu verði mörkuð stefna um verndun sérstæðrar náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni með áherslu á verndun mikilvægra vistgerða og gróðurlenda ásamt verðmætum menningarminjum. (M)
     2.      Stefna um verndun náttúrugæða hálendisins verði eftir því sem við á útfærð með hverfisvernd í skipulagsáætlunum. (M)
     3.      Við skipulagsgerð verði þess gætt að mannvirki og umferð um hálendið skerði sérkenni og náttúrugæði hálendisins sem minnst, þannig að líffræðilegri fjölbreytni sé viðhaldið og verðmætar menningarminjar verndaðar. (M)
     4.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði lögð áhersla á að varðveita náttúru og menningarminjar sem hafa staðbundið eða víðtækara gildi út frá sögu, náttúrufari eða menningu og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni. (D)
     5.      Við skipulagsgerð verði gætt að því að byggð gangi ekki að óþörfu á svæði sem eru verðmæt vegna náttúruverndar og að frístundabyggð verði almennt á afmörkuðum samfelldum svæðum sem skerði ekki mikilvæg eða viðkvæm svæði með tilliti til náttúruverndar. (D)
     6.      Við skipulagsgerð verði viðhald og útbreiðslu náttúruskóga og vernd líffræðilegrar fjölbreytni tryggð. (D)
     7.      Vistgerðaflokkun, ásamt stefnum og áætlunum um landgræðslu og vatnaáætlun, verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum. (D)
     8.      Við skipulagsgerð í þéttbýli verði lögð áhersla á að varðveita náttúru og menningarminjar sem hafa staðbundið og víðtækara gildi út frá sögu, náttúrufari eða menningu og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni. (Þ)
     9.      Við skipulag haf- og strandsvæða verði líffræðilegri fjölbreytni og framleiðslugetu hafsins viðhaldið með því að standa vörð um vistkerfi og ástand sjávar, m.a. með ástandsmati og vöktun. (H)
     10.      Skipulag haf- og strandsvæða viðhaldi sérkennum og náttúrugæðum með verndun sérstæðrar náttúru og menningarminja. (H)

Áhersla A.5: Skipulag miði að því að varðveita fjölbreytt og verðmætt landslag, svo sem óbyggð víðerni og landslagsheildir.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi verði sérkennum miðhálendisins og sérstæðri náttúru þess viðhaldið með áherslu á verndun víðerna hálendisins og landslagsheilda. Við skipulagsgerð verði þess gætt að mannvirki og umferð um hálendið skerði víðerni og önnur sérkenni hálendisins sem minnst. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á endurheimt víðerna. (M)
     2.      Til grundvallar stefnumörkun á miðhálendinu verði kort af umfangi óbyggðra víðerna og svæða sem njóta verndar haft til hliðsjónar. (M)
     3.      Á svæðum sem flokkast sem víðerni verði svigrúm fyrir takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða og göngu- og reiðleiðir. Umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni hálendisins. (M)
     4.      Í skipulagi miðhálendisins verði vandað til staðarvals og hönnunar mannvirkja með tilliti til staðbundinna gæða sem felast í landslagi. Hönnun mannvirkja taki mið af landslagi, kennileitum, sjónlínum og útsýni. Sérstaklega verði vandað til hönnunar bygginga og annarra mannvirkja sem mynda ný kennileiti. (M)
     5.      Stefna um verndun víðerna hálendisins verði eftir því sem við á útfærð með hverfisvernd, m.a. þannig að þau svæði verði hverfisvernduð sem tilgreind eru í verndarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða og í náttúruverndaráætlun. (M)
     6.      Á dreifbýlissvæðum sem flokkast sem víðerni verði svigrúm fyrir takmarkaða mannvirkjagerð, svo sem gönguskála, vegslóða og göngu- og reiðleiðir. Umfangsmeiri mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni. (D)
     7.      Landslagsgreining verði lögð til grundvallar skipulagsákvörðunum og miðað að því að virða sérkenni landbúnaðarlands og varðveita jarðfræðilega fjölbreytni og menningarlandslag. (D)
     8.      Við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum verði gætt að varðveislu verðmæts landslags, landslagsheilda og óbyggðra víðerna á landi. (H)

Áhersla A.6: Skipulagsgerð vegna orkunýtingar gæti að náttúruvernd.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulagsákvarðanir um landnotkun og mannvirkjagerð vegna orkuvinnslu á miðhálendinu grundvallist á sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og verndun víðerna og líffræðilegrar fjölbreytni. Meiri háttar mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni eða landslagsheildir hálendisins. (M)
     2.      Skipulag gefi kost á að nýta orkuauðlindir í dreifbýli með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Mannvirki vegna orkuvinnslu falli sem best að landslagi og annarri landnotkun. (D)
     3.      Við greiningu á valkostum vegna nýrrar orkuvinnslu verði leitast við að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á náttúru, landslag, menningarminjar og víðerni. (D)
     4.      Nýting vistvænna orkuauðlinda á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæða og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar. (H)

Áhersla A.7: Skipulag mannvirkja, byggða og bæjarrýma efli þau gæði sem felast í menningarlandslagi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð í dreifbýli taki ráðstöfun lands fyrir uppbyggingu og ræktun mið af þeim gæðum sem felast í landslagi. Leitast verði við að haga skipulagi og hönnun mannvirkja þannig að fjölbreytt og verðmætt landslag sé varðveitt, svo sem sérstakar landslagsheildir og búsetulandslag sem hefur menningarlegt gildi. Stefnt verði að því efla þau gæði sem felast í landslagi, náttúrulegu og manngerðu. (D)
     2.      Stefna í skipulagi um ráðstöfun lands fyrir uppbyggingu og ræktun í dreifbýli taki mið af áhrifum á hið opna land og náttúrulegt landslag og viðhaldi óbyggðum víðernum. (D)
     3.      Umhverfismat skipulagsáætlana feli í sér mat á náttúrulegu og byggðu landslagi. (D)
     4.      Skipulag miði að því að uppbygging og landnotkun falli sem best að heildarsvipmóti lands. Skipulagsákvarðanir um staðsetningu og hönnun nýrra mannvirkja taki mið af byggingarhefðum, landslagi og staðháttum þar sem m.a. er hugað að kennileitum, sjónlínum og útsýni. Sérstaklega verði vandað til hönnunar bygginga og annarra mannvirkja sem mynda ný kennileiti. (D)
     5.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði landslag og staðareinkenni greind á grundvelli flokkunar landslagsgerða á landsvísu. Niðurstöður greiningarinnar verði lagðar til grundvallar við mörkun stefnu um ráðstöfun lands til uppbyggingar og ræktunar með það að markmiði að byggja á þeim gæðum sem felast í landslagi og sérkennum náttúru og byggðar, viðhalda þeim og efla. (D)
     6.      Skipulag byggðar taki mið af þeim gæðum sem felast í landslagi. Við hönnun byggðar og bæjarrýma verði stefnt að því að efla þau gæði sem felast í landslagi, náttúrulegu og manngerðu. Leitast verði við að haga skipulagi og hönnun byggðar og mannvirkja þannig að fjölbreytt og verðmætt landslag sé varðveitt, svo sem sérstakar landslagsheildir og bæjar- eða borgarlandslag sem hefur menningarlegt gildi. (Þ)
     7.      Umhverfismat skipulagsáætlana feli í sér mat á áhrifum skipulagstillagna og annarra valkosta um stefnu og útfærslu byggðar sem til greina koma á byggt landslag. (Þ)
     8.      Við skipulagsgerð verði vandað til staðarvals og hönnunar mannvirkja í þéttbýli með tilliti til staðbundinna gæða sem felast í landslagi. Hönnun byggðar og mannvirkja taki mið af landslagi, kennileitum, sjónlínum, útsýni og þeirri byggð sem fyrir er. (Þ)

    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     a.      Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda.
     b.      Hlutfall lands og hafsvæða með fullnægjandi verndun vistkerfa.
     c.      Hlutfall óbyggðra víðerna.

B. Markmið um velsæld samfélags.
Áhersla B.1: Skipulag feli í sér stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum sem styrkir viðnámsþrótt viðkomandi samfélags til langs tíma.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulag á miðhálendinu verði, eftir því sem við á, tekið tillit til loftslagstengdrar náttúruvár og áhrifa loftslagsbreytinga á innviði. (M)
     2.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði greint hvaða áskorana er að vænta til langs tíma vegna afleiðinga loftslagsbreytinga sem varðað geta ákvarðanir um landnotkun. Tekið verði tillit til breytinga, svo sem á rennsli eða farvegum jökuláa, flóðahættu, sandfoks, hækkunar sjávarborðs og ágangs sjávar, vatnsflóða, hörfunar jökla, skriðufalla, úrkomuákefðar, ofviðra, gróðurelda og líffræðilegrar fjölbreytni. Byggt verði á bestu fáanlegu upplýsingum um viðkomandi áhættu, þ.m.t. vísindaskýrslum Veðurstofu Íslands um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag hér á landi. (D)
     3.      Í skipulagsáætlunum verði tekin afstaða til þess hvaða takmarkanir þekktar afleiðingar loftslagsbreytinga setja uppbyggingu og landnotkun í dreifbýli og sett viðeigandi skipulagsákvæði þar sem við á. Byggt verði á stefnumótun á landsvísu um aðlögun að loftslagsbreytingum og viðbrögð við loftslagstengdri náttúruvá. (D)
     4.      Við skipulagsgerð í þéttbýli verði greint hvaða áskorana er að vænta í sveitarfélaginu til langs tíma vegna afleiðinga loftslagsbreytinga sem varðað geta ákvarðanir um landnotkun og þróun byggðar í þéttbýli, svo sem breytinga á rennsli eða farvegum jökuláa, hækkun sjávarborðs og ágang sjávar, vatnsflóð, flóðbylgjur, sandfok, hörfun jökla, skriðuföll, úrkomuákefð, ofviðri, gróðurelda og áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Byggt verði á bestu fáanlegu upplýsingum um viðkomandi áhættu, þ.m.t. vísindaskýrslum Veðurstofu Íslands um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag hér á landi. (Þ)
     5.      Í skipulagsáætlunum verði tekin afstaða til þess hvaða takmarkanir þekktar afleiðingar loftslagsbreytinga setja uppbyggingu og landnotkun í viðkomandi þéttbýli og sett viðeigandi skipulagsákvæði þar sem við á. Byggt verði, eftir því sem við á, á stefnumótun á landsvísu um aðlögun að loftslagsbreytingum og um viðbrögð við loftslagstengdri náttúruvá. (Þ)
     6.      Við skipulagsgerð verði tekið tillit til áhrifa loftslagsbreytinga, svo sem vegna hækkunar sjávarborðs, og náttúruvár, t.d. snjóflóða, skriðufalla, vatnsflóða, eldgosa, jökulhlaupa og jarðskjálfta, með það að markmiði að varna slysum á fólki og tjóni á mannvirkjum. Upplýsingar Veðurstofu Íslands um náttúruvá og loftslagsbreytingar verði lagðar til grundvallar skipulagsákvörðunum. (Þ)
     7.      Við skipulagsgerð verði sérstaklega hugað að því hvernig nýta megi sjálfbærar ofanvatnslausnir til að milda og takast á við áhrif loftslagsbreytinga á byggð. (Þ)
     8.      Við gerð strandsvæðisskipulags verði tekið mið af bestu fáanlegu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga, svo sem um breytingar á sjávarborði, hlýnun og súrnun sjávar og röskun búsvæða. (H)

Áhersla B.2: Skipulag verði loftslagsmiðað og feli í sér samþætta stefnu um byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli þar sem vexti verði beint að þeim byggðakjörnum sem fyrir eru, með áherslu á búsetufrelsi og að draga úr ferðaþörf.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag landnotkunar í dreifbýli styðji við búsetu og samfélag í dreifbýli með langtímasýn um ráðstöfun lands til nýtingar og verndar og samþættri stefnu um byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli. Ákvarðanir um ráðstöfun lands fyrir uppbyggingu taki mið af staðareinkennum svo sem víðernum, sérkennum landbúnaðarlands, verndarsvæðum, varðveislu nytjalands og menningarlandslags. (D)
     2.      Við skipulagsgerð verði miðað að því að styðja og styrkja samfélag viðkomandi byggðarlags með því að beina vexti að byggðakjörnum. (D)
     3.      Skipulag landnotkunar efli búsetu og samfélag í þéttbýli með langtímasýn um ráðstöfun lands og samþættri stefnu um byggðaþróun í þéttbýli og dreifbýli. (Þ)
     4.      Við skipulagsgerð verði skilgreindir meginkjarnar í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra. Uppbyggingu, þar á meðal samgangna, verði hagað þannig að hún sé til þess fallin að styrkja kjarnana sem sjálfbæra burðarása viðkomandi nærsamfélags. (Þ)
     5.      Í skipulagi verði skýr skil milli þéttbýlis og dreifbýlis og vaxtarmörk þéttbýlisstaða skilgreind með það fyrir augum að efla viðkomandi þéttbýlisstað og standa um leið vörð um landbúnaðarland og önnur verðmæt landgæði. (Þ)
     6.      Í skipulagi verði stuðlað að búsetufrelsi með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu, húsnæði og fjölbreyttum atvinnutækifærum. (Þ)
     7.      Í skipulagi þéttbýlisstaða verði almennt haft að leiðarljósi að minnka ferðaþörf með því að þétta byggð, blanda atvinnustarfsemi, verslun og þjónustu og tengja við íbúðarbyggð í þágu sjálfbærni daglegs lífs og aukinna lífsgæða. (Þ)
     8.      Skipulag byggðar stuðli að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða með þéttri, samfelldri byggð, endurskipulagningu vannýttra svæða og eflingu nærsamfélags. (Þ)
     9.      Skipulag byggðar og landnotkunar miði að því að draga úr loftslagsáhrifum samgangna, með áherslu á virkan ferðamáta og almenningssamgöngur. (Þ)

Áhersla B.3: Skipulag tryggi tækifæri fyrir ólíka félagshópa til að hafa áhrif á ákvarðanir um nærumhverfi sitt.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð verði möguleiki íbúa til að hafa áhrif á mótun nærumhverfis síns tryggður í öllu skipulagsferlinu; frá forsendugreiningu til tillögugerðar og kynningar endanlegra skipulagstillagna. (M, D, Þ, H)
     2.      Beitt verði fjölbreyttum aðferðum við kynningu og samráð til að tryggja aðgengi að upplýsingum og möguleika ólíkra félagshópa til þátttöku. (M, D, Þ, H)
     3.      Hugað verði að skýrri og góðri framsetningu skipulagsgagna sem auðvelda almenningi að kynna sér tillögur og tileinka sér efni þeirra. (M, D, Þ, H)

Áhersla B.4: Skipulag greiði fyrir skilvirkum samgöngum þar sem jafnvægi milli ólíkra ferðamáta verði haft að leiðarljósi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Viðhald og frekari uppbygging samgöngukerfis á miðhálendinu stuðli að góðu aðgengi að hálendinu og jafnvægi milli ólíkra ferðamáta, með orkuskipti að leiðarljósi. Samgöngukerfi miðhálendisins verði þróað, til að mynda með útfærslu einstakra stofnvega og öryggishlutverks þeirra vegna náttúruvár. (M)
     2.      Samgöngumannvirki og umferð hafi lágmarksáhrif á víðerni og óbyggðaupplifun. (M)
     3.      Sveitarfélög á miðhálendinu geri grein fyrir og marki stefnu um þjóðvegi, þ.e. stofnvegi og landsvegi, í aðalskipulagi í samráði við Vegagerðina í samræmi við lög um náttúruvernd. Skipulagsákvæði um vegi á miðhálendinu feli í sér að vegaframkvæmdum verði haldið í lágmarki, möskvar vegakerfisins verði sem stærstir og að hönnun allra vega taki mið af náttúruvernd, sérstaklega með tilliti til landslags, víðerna og verndar viðkvæmra svæða. (M)
     4.      Við skipulagsgerð verði leitað jafnvægis varðandi aðgengi að áhugaverðum stöðum með mismunandi ferðamáta þannig að ferðafólki á vélknúnum farartækjum sé tryggður aðgangur að fjölbreyttum svæðum en jafnframt verði tryggð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja. (M)
     5.      Ferðamannaleiðir (gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir) verði eftir því sem kostur er aðskildar frá meginvegakerfi miðhálendisins. (M)
     6.      Í skipulagsáætlunum verði tekin afstaða til þess hvar gera megi ráð fyrir lendingarstöðum loftfara og eftir atvikum afmörkuð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja í lofti, á legi og landi. (M)
     7.      Skipulag landnotkunar í dreifbýli feli í sér samþætta stefnu um byggðaþróun með áherslu á greiðar, öruggar og vistvænar samgöngur og fjölbreyttan ferðamáta. Við skipulag byggðar og samgangna verði miðað við að sem flestir íbúar komist til næsta meginkjarna á innan við einni klukkustund. Skipulag feli einnig í sér stefnu um almenningssamgöngur. Jafnframt verði mótuð stefna um tengingar milli helstu meginkjarna í samræmi við samgönguáætlun. (D)
     8.      Sveitarfélög geri grein fyrir og marki stefnu um aðra vegi en þjóðvegi í aðalskipulagi í samræmi við lög um náttúruvernd. (D)
     9.      Sveitarfélög nýti skipulagsgerð til þess að skilgreina meginleiðir ferðamanna, gangandi, ríðandi og hjólandi. (D)
     10.      Skipulagsgerð í þéttbýli stuðli að greiðum samgöngum innan skilgreindra vinnusóknar- og þjónustusvæða, með styrkingu byggðar að leiðarljósi. (Þ)
     11.      Sveitarfélög marki í skipulagi samþætta stefnu um byggð og samgöngur. Áhersla verði lögð á göngu- og hjólavænt umhverfi og að tvinna saman almenningssamgöngur og byggðaskipulag. (Þ)
     12.      Gatnaskipulag og gatnahönnun miði að því að skapa bæjarrými og umferðarrými fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur. Við skipulagsgerð verði byggt á Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningum um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. (Þ)
     13.      Á haf- og strandsvæðum verði tryggðar öruggar og greiðar samgöngur og gott aðgengi að höfnum. Í því felst að ákvarðanir um staðbundna nýtingu byggist á mati á siglingaöryggi. (H)

Áhersla B.5: Skipulag stuðli að jöfnu aðgengi að orku um land allt og traustum veituinnviðum sem tryggja öryggi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag gefi kost á uppbyggingu fjarskiptamannvirkja til að tryggja örugg fjarskipti, um leið og gætt verði að áhrifum á náttúru og landslag. Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi og taki mið af landsskipulagsstefnu um víðerni og náttúru miðhálendisins. (M)
     2.      Við umhverfismat kerfisáætlunar verði lagt mat á áhrif mismunandi kosta varðandi legu og útfærslu raforkuflutningsmannvirkja á víðerni og náttúru hálendisins. Á miðhálendinu taki slíkt umhverfismat til kosta sem felast í lagningu jarðstrengja auk loftlína. (M)
     3.      Við skipulagsgerð verði tekið mið af tengingu við flutningskerfi raforku og áhrifa þess á náttúrugæði og umhverfisvernd. (M)
     4.      Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki í dreifbýli geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi en taki jafnframt tillit til áhrifa á náttúru og landslag. (D)
     5.      Skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki geri kleift að tryggja örugga afhendingu raforku, um leið og tekið er tillit til áhrifa á náttúru og landslag. Við skipulagsákvarðanir um lagningu raflína verði lagt mat á umhverfisáhrif, þar á meðal sjónræn áhrif, og leitast við að velja þann kost sem valdi minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. (D)
     6.      Í skipulagi verði gerð grein fyrir aðgengi íbúa og atvinnustarfsemi í dreifbýli að neysluvatni og skýrt hvernig fráveitu er háttað. Tryggja skuli að veitulausnir uppfylli gæðakröfur. (D)
     7.      Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki í þéttbýli geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi, en taki jafnframt tillit til umhverfisáhrifa. (Þ)
     8.      Skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki geri kleift að tryggja örugga afhendingu raforku, um leið og tekið er tillit til áhrifa á landslag og aðra landnotkun. (Þ)
     9.      Í skipulagi skal gera grein fyrir því hvernig vatnsveita uppfyllir þarfir íbúa og atvinnulífs með sjálfbæra nýtingu vatnsauðlindarinnar að leiðarljósi. (Þ)
     10.      Við skipulagsgerð verði tryggt að fráveita anni þörfum íbúa og atvinnulífs þannig að viðmið um gæði viðtaka séu uppfyllt. Blágrænar ofanvatnslausnir skuli nýttar eins og kostur er til að lágmarka álag á fráveitu. (Þ)
     11.      Skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum stuðli að öruggum raforku- og fjarskiptastrengjum fyrir íbúa og atvinnulíf, þar sem tekið verði mið af annarri starfsemi á viðkomandi svæði, svo sem veiðum og staðbundinni nýtingu við ákvörðun um staðsetningu þeirra. (H)
     12.      Stuðlað verði að heilnæmu umhverfi með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd við uppbyggingu vatns- og fráveitu. (H)

Áhersla B.6: Skipulag geri nauðsynlegar ráðstafanir til að stuðla að öryggi almennings gagnvart náttúruvá.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við ákvarðanir um mannvirkjagerð á miðhálendinu verði tekið tillit til hættu sem talin er stafa af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum. (M)
     2.      Í skipulagi í dreifbýli verði tekið tillit til þeirrar hættu sem stafar af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum. Sérstaklega verði hugað að aukinni náttúruvá af völdum aukinnar eldvirkni og loftslagsbreytinga. (D)
     3.      Í skipulagi verði hugað sérstaklega að hættu sem fylgir gróðureldum og hugað að flóttaleiðum og brunavörnum í frístundabyggð og á skógræktarsvæðum. (D)
     4.      Við skipulag byggðar í þéttbýli verði tekið tillit til þeirrar hættu sem stafar af náttúruvá, svo sem snjóflóðum, skriðuföllum, vatnsflóðum, eldgosum, jökulhlaupum og jarðskjálftum. Sérstaklega verði hugað að aukinni náttúruvá af völdum aukinnar eldvirkni og loftslagsbreytinga. (Þ)
     5.      Skipulag byggist á bestu fáanlegum upplýsingum um náttúruvá. (Þ)
     6.      Við skipulag á haf- og strandsvæðum verði tekið tillit til náttúruvár. Við greiningu á valkostum fyrir staðbundna nýtingu á strandsvæðum verði metið, eins og kostur er, hvort fyrirhugaðri starfsemi stafi hætta af náttúruvá. (H)

Áhersla B.7: Skipulag feli í sér stefnu um yfirbragð byggðar og annarra mannvirkja, skapi aðlaðandi og öruggt umhverfi og veiti möguleika til hreyfingar, endurnæringar og samskipta í nærumhverfi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulag í dreifbýli verði stuðlað að gæðum hins byggða umhverfis og vandað til staðarvals, yfirbragðs og hönnunar mannvirkja. Tekið verði mið af staðareinkennum og staðbundnum gæðum sem felast í menningararfi, náttúru og landslagi. (D)
     2.      Í skipulagi í dreifbýli verði gert ráð fyrir vönduðum útivistarsvæðum af mismunandi stærð og gerð sem henta fyrir hreyfingu, leik, samskipti og endurnæringu ólíkra aldurs- og getuhópa. (D)
     3.      Við skipulag byggðar og bæjarhönnun í þéttbýli verði stuðlað að gæðum í hinu byggða umhverfi og sett fram stefna og ákvæði um byggðamynstur og mælikvarða, og samspil byggðar, bæjarrýma og samgangna. (Þ)
     4.      Við skipulag byggðar og bæjarhönnun verði tekið tillit til sögulegs samhengis í þróun byggðar og byggingararfurinn nýttur til að styrkja sérkenni og staðaranda. Yfirbragð og mælikvarði nýrrar byggðar falli að bæjarmynd viðkomandi staðar og sögulegri byggð. (Þ)
     5.      Skipulag byggðar skapi góð skilyrði til búsetu og góða umgjörð um mannlíf á hverjum stað með vandaðri og viðeigandi hönnun byggðar og almenningsrýma. Við skipulagsgerð verði byggt á Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningum um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli. (Þ)
     6.      Í skipulagsáætlunum verði sett fram stefna og skipulagsákvæði um bæjarrými og bæjarhönnun sem tryggir gott framboð þjónustu ásamt fjölbreyttum og lifandi bæjarrýmum þar sem hugað er að heilnæmi og öryggi umhverfisins og góðum innbyrðis tengslum. (Þ)
     7.      Í skipulagi verði gert ráð fyrir heildstæðu kerfi vandaðra almenningsrýma og útivistarsvæða af mismunandi stærð og gerð sem henta fyrir hreyfingu, leik, samskipti og endurnæringu ólíkra aldurs- og getuhópa. (Þ)
     8.      Í skipulagi verði sett fram stefna og skipulagsákvæði um gróður og náttúru í hinu byggða umhverfi með það að markmiði að fegra og bæta umhverfi, skapa aðlaðandi og áhugaverða umgjörð um hreyfingu og útiveru og einnig í þágu loftslagsmála með viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærum ofanvatnslausnum. (Þ)
     9.      Við skipulag á strandsvæðum verði stuðlað að gæðum umhverfis við ströndina og vandað til staðarvals, yfirbragðs og hönnunar mannvirkja. Tekið verði mið af staðareinkennum og staðbundnum gæðum sem felast í menningarminjum, náttúru og landslagi. (H)
     10.      Við skipulagsgerð verði gætt að greiðu aðgengi almennings að strandsvæðum til útivistar, hreyfingar og náttúruupplifunar. (H)

Áhersla B.8: Skipulag stuðli að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði með uppbyggingu hagkvæms og vandaðs íbúðarhúsnæðis sem svari þörfum ólíkra félagshópa.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagsáætlunum í þéttbýli verði mörkuð stefna um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem taki mið af fyrirsjáanlegum þörfum samfélagsins og lýðfræðilegum breytingum til framtíðar. (Þ)
     2.      Stuðlað verði að fjölbreyttum húsnæðiskostum, svo sem hvað varðar húsagerðir og stærðir og stefnt að því að innan hverrar byggðarheildar sé fjölbreytt og vel staðsett íbúðarhúsnæði. (Þ)
     3.      Tryggt verði fjölbreytt, hagkvæmt og sveigjanlegt húsnæði sem mætir þörfum ólíkra aldurs- og félagshópa og stuðlar að félagslegri fjölbreytni. Í því samhengi verði hugað sérstaklega að framboði á húsnæði fyrir tekju- og eignalægri í samræmi við viðmið rammasamning ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisáætlanir (Þ)
     4.      Skipulag skapi umgjörð fyrir uppbyggingu vandaðs íbúðarhúsnæðis þar sem stuðlað er að gæðum húsnæðis, svo sem hvað varðar byggingarlist, birtu, hljóðvist og útirými. (Þ)

Áhersla B.9: Skipulag leggi áherslu á að lágmarka kolefnisspor húsnæðisuppbyggingar og mannvirkjagerðar með betri endingu og bættri efnisnotkun.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi í dreifbýli verði, eftir því sem við á, mælt fyrir um efnisnotkun og nýtingu bygginga með tilliti til minnkaðs umhverfisálags og bættrar endingar. Skilgreindar verði umhverfiskröfur sem taki til líftíma mannvirkja. (D)
     2.      Í skipulagi í þéttbýli verði, eftir því sem við á, mælt fyrir um efnisnotkun og nýtingu bygginga með tilliti til minna umhverfisálags og betri endingar. Skilgreindar verði umhverfiskröfur sem taki til líftíma mannvirkja. (Þ)
     3.      Í skipulagi skuli stefnt að því að nýta innbyggt kolefni í þegar byggðu umhverfi, byggingum, vegum og öðrum innviðum. (Þ)

Áhersla B.10: Skipulag geri viðeigandi ráðstafanir varðandi heilnæmi umhverfis.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð verði heilnæmt umhverfi í dreifbýli tryggt með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd, vatnsveitu, fráveitu, úrgangsmeðhöndlun, hljóðvist og loftgæði. (D)
     2.      Skipulag dreifbýlis geri ráð fyrir innviðum fyrir söfnun og meðhöndlun úrgangs við lögbýli, frístundabyggð og ferðamannastaði í dreifbýli. Tekið verði mið af svæðisáætlun sveitarfélags um meðhöndlun úrgangs. (D)
     3.      Við skipulagsgerð verði heilnæmt umhverfi í þéttbýli með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd og fráveitu. (Þ)
     4.      Skipulagsgerð miði að því að tryggja loftgæði og góða hljóðvist, m.a. með útfærslu byggðar og almenningsrýma sem dregur úr ferðaþörf og hvetur til virks ferðamáta. Horfa skuli til aðgerðaáætlunar stjórnvalda um loftgæði sem og fyrirliggjandi upplýsinga um loftgæði og hljóðvist. Leita skuli leiða til að bæta loftgæði og hljóðvist þar sem þeim er ábótavant. (Þ)
     5.      Í skipulagi verði tekið tillit til svæðisáætlana um meðhöndlun úrgangs og viðeigandi uppbyggingu innviða, þ.m.t. flokkunarstöðva í nærumhverfi. (Þ)
     6.      Skipulag verði samþætt stefnu sveitarfélags í svæðisáætlun um lágmörkun úrgangs, úrgangsforvarnir og aukna endurvinnslu og endurnýtingu, með það að markmiði að efla hringrásarhagkerfið. (Þ)
     7.      Skipulag strandsvæða stuðli að bættum loftgæðum í höfnum og á strandsvæðum með áherslu á orkuskipti. (H)

    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     a.      Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegsamgögnum og heimilum.
     b.      Hlutfall heimila með íþyngjandi húsnæðiskostnað.
     c.      Hlutfall vistvæns ferðamáta.

C. Markmið um samkeppnishæft atvinnulíf.
Áhersla C.1: Skipulag feli í sér stefnu um bindingu kolefnis með kolefnishlutleysi að leiðarljósi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi dreifbýlis verði mörkuð stefna um landnotkun sem dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda og auki bindingu kolefnis, svo sem skógrækt, endurheimt votlendis og jarðvegs. (D)
     2.      Í skipulagi verði hugað að tækifærum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni og mögulegt umfang bindingar. Þar verði forgangsraðað svæðum þar sem unnt er að binda kolefni á hagkvæman hátt, umhverfisáhrif eru ásættanleg og ekki dregur úr líffræðilegri fjölbreytni þeirra. Jafnframt verði hugað að nýjum leiðum til að binda kolefni, svo sem í berggrunni. (D)
     3.      Við val á svæðum til bindingar kolefnis verði m.a. tekið mið af landnotkun, náttúrugæðum, líffræðilegri fjölbreytni, menningarminjum og náttúruvá. (D)
     4.      Við skipulag verði metin þörf á verndun ákveðinna vistgerða og jarðvegs til að stuðla að bindingu kolefnis. (D)
     5.      Í skipulagi í þéttbýli verði sett stefna um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis innan þéttbýlismarka, svo sem hvað varðar verndun votlendis, skógrækt og bindingu kolefnis í berggrunni. (Þ)
     6.      Í stefnumörkun verði litið til áhrifa bindingar á landnotkun, náttúrufar, landslag og byggðamynstur. (Þ)
     7.      Nýting haf- og strandsvæða til bindingar kolefnis verði í sátt við umhverfi og náttúru, þannig að staðinn verði vörður um ástand sjávar, framleiðslugetu hafsins og þá nýtingu sem fyrir er. (H)

Áhersla C.2: Skipulag stuðli að orkuskiptum og að orkuauðlindir verði nýttar með sjálfbærum hætti, með það að leiðarljósi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja orkuöryggi.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulagsákvarðanir um landnotkun og mannvirkjagerð vegna orkuvinnslu á miðhálendinu grundvallist á sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda og verndun víðerna og líffræðilegrar fjölbreytni. Meiri háttar mannvirkjagerð verði beint að stöðum sem rýra ekki víðerni eða landslagsheildir hálendisins. (M)
     2.      Við skipulag orkuvinnslu skuli einnig líta til tengingar við flutningskerfi raforku og áhrifa þess á náttúrugæði og umhverfisvernd. (M)
     3.      Skipulag gefi kost á að nýta orkuauðlindir í dreifbýli með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Mannvirki vegna orkuvinnslu falli sem best að landslagi og annarri landnotkun. (D)
     4.      Skipulag gefi eftir atvikum kost á að nýta orkuauðlindir í þéttbýli með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Hugað sé að áhrifum nýtingar á aðliggjandi byggð s.s. vegna sjónrænna áhrifa, áhrifa á hljóðvist og loftgæði. Mannvirki vegna orkuvinnslu falli sem best að landslagi og annarri landnotkun. (Þ)
     5.      Við skipulagsgerð verði tekin afstaða til möguleika á orkuframleiðslu með vatnsafli, jarðvarma og vindorku í sátt við náttúru og samfélag. (D, Þ)
     6.      Við greiningu á valkostum vegna nýrrar orkuvinnslu verði leitast við að velja þá kosti sem hægt er að nýta sem fyrst, eru hagkvæmir og valda sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. (D, Þ)
     7.      Settir verði fram skilmálar í skipulagi til að koma í veg fyrir, minnka eða bæta fyrir áhrif á náttúru, landslag, víðerni, vatnsvernd og aðra nýtingu. (D, Þ)
     8.      Nýting vistvænna orkuauðlinda á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæða og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar. (H)

Áhersla C.3: Skipulag feli í sér stefnu um nýtingu vindorku í sátt við umhverfi og samfélag.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Skipulag og önnur áætlanagerð um landnotkun í dreifbýli skapi forsendur fyrir nýtingu vindorku eftir því sem aðstæður leyfa, í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérstætt landslag og lífríki og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar landnotkunar. (D)
     2.      Við skipulagsgerð fyrir vindorkuver verði lögð áhersla á að þau byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og halda umhverfisáhrifum í lágmarki. (D)
     3.      Við staðarval og ákvörðun um útfærslu vindorkuvera varðandi fjölda, stærð og niðurröðun vindmylla verði leitast við að lágmarka áhrif á landslag. Tekið verði mið af einkennum landslags, svo sem ráðandi línum, landformum og hlutföllum í landslagi svæðis. (D)
     4.      Við staðarval vindorkukosta, skipulagsákvarðanir, umhverfismat og leyfisveitingar verði tekið mið af stefnu stjórnvalda um nýtingu vindorku og þeim viðmiðum sem sett verða um staðsetningu, fjölda og stærð vindorkuvera og um áhrif á umhverfi og samfélag, ekki síst landslag, nærsamfélag, mikilvæg fuglasvæði og farleiðir fugla. (D)
     5.      Nýting vistvænna orkuauðlinda á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæðis og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar. (H)

Áhersla C.4: Skipulag stuðli að sjálfbærri nýtingu vatns.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við gerð skipulags á miðhálendinu verði leitast við að viðhalda góðu ástandi vatnshlota, m.a. stöðuvatna, fallvatna og grunnvatns. Sjónum skuli beint að mögulegu álagi vegna innviða sem tengjast samgöngum, ferðaþjónustu og orkuvinnslu. (M)
     2.      Í skipulagi í dreifbýli verði stefnt að því að koma í veg fyrir rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnshlota sem eru undir álagi. (D)
     3.      Við skipulagsákvarðanir verði sérstaklega litið til mögulegs álags á vatnshlot vegna uppbyggingar mannvirkja, iðnaðar og landbúnaðar, sér í lagi þegar um er að ræða stórnotendur sem nýta mikið af vatni. (D)
     4.      Skipulag í dreifbýli sé í samræmi við gildandi vatnaáætlun og þekkingu á stöðu vatnshlota. (D)
     5.      Í skipulagi í þéttbýli verði stefnt að því að koma í veg fyrir rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnshlota sem eru undir álagi, m.a. vegna fráveitu. (Þ)
     6.      Skipulag vatnstöku þéttbýlisstaða taki mið af sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. (Þ)
     7.      Við skipulag byggðar verði leitast við að lágmarka álag á vatnshlot með sjálfbærum ofanvatnslausnum með það að markmiði að viðhalda náttúrulegri hringrás vatns. (Þ)
     8.      Skipulag í þéttbýli taki mið af gildandi vatnaáætlun og þekkingu á stöðu vatnshlota. (Þ)
     9.      Skipulag haf- og strandsvæða stuðli að góðu ástandi strandsjávar til þess að vernda vatn og vistkerfi þeirra. Það felur m.a. í sér að ákvarðanir um nýtingu haf- og strandsvæða rýri ekki ástand sjávar og miði að því að bæta ástand vatnshlota sem eru undir álagi. (H)
     10.      Skipulagsgerð sé í samræmi við vatnaáætlun og þekkingu á stöðu vatnshlota. (H)

Áhersla C.5: Skipulag haf- og strandsvæða skapi grundvöll fyrir fjölbreytta nýtingu jafnframt því sem viðhaldið verði mikilvægum auðlindum hafsvæða við Ísland og tekið tillit til öryggis sjófarenda.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Til grundvallar skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum verði lögð gögn um nýtingu haf- og strandsvæða, þ.m.t. um veiðar, staðbundna nýtingu, svo sem eldi og ræktun nytjastofna og efnistöku, ásamt gögnum um siglingar og siglingamerki, veitumannvirki og ferðaþjónustu. (H)

Áhersla C.6: Skipulag stuðli að uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar með áherslu á eftirsóknarvert umhverfi og sjálfbæra nýtingu lands.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð verði hugað að leiðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs með tilliti til sjálfbærrar nýtingar lands, styrkleika svæða og þols gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum. (D)
     2.      Við skipulag atvinnusvæða verði litið til þess hvernig þau geti jafnað tækifæri til atvinnu, stuðlað að sjálfbærri þróun og stutt við byggðaþróun. (D)
     3.      Við skipulagsgerð verði hugað að leiðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs með tilliti til styrkleika svæða, sjálfbærrar nýtingar lands og þols gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum. (Þ)
     4.      Í skipulagi verði mörkuð stefna um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis sem taki mið af fyrirsjáanlegum þörfum samfélagsins og þróun til framtíðar. (Þ)
     5.      Í skipulagi atvinnusvæða verði tekið mið af því hvernig þau geti nýtt eða styrkt núverandi innviði til að mæta þörfum atvinnulífs og heimila. (Þ)
     6.      Í skipulagi atvinnusvæða verði mótuð umgjörð sem stuðlar að því að umhverfi hafi aðdráttarafl og mótaðar áherslur sem atvinnustarfsemi fylgi til að viðhalda því. (Þ)
     7.      Skipulag haf- og strandsvæða stuðli að sjálfbærri atvinnustarfsemi sem nýtir styrkleika svæðis til framtíðar. (H)

Áhersla C.7: Skipulag um uppbyggingu ferðaþjónustu gæti að varðveislu þeirra gæða sem hún byggist á.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi verði uppbygging ferðamannaaðstöðu takmörkuð á miðhálendinu og megináhersla lögð á uppbyggingu á jaðarsvæðum hálendisins og á nokkrum afmörkuðum svæðum við aðalvegi þess. Gengið verði út frá eftirfarandi flokkun og staðsetningu þjónustustaða:
                   Jaðarmiðstöðvar séu á tilteknum stöðum við stofnvegi inn á hálendið og í jaðri þess.
                   Hálendismiðstöðvar séu á tilteknum stöðum við meginleiðir um hálendið.
                   Skálasvæði séu á tilteknum stöðum í góðu vegasambandi.
                   Fjallasel séu í takmörkuðu vegasambandi og taki mið af hæfilegum dagleiðum göngufólks. (M)
     2.      Við skipulagsgerð verði stuðlað að því að við uppbyggingu mannvirkja og þjónustu verði tekið tillit til þolmarka náttúru, innviða, ferðamanna, samfélags og aðgengi ákvarðað í samræmi við þau. Hugað verði að varðveislu landslags sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn. Við alla mannvirkjahönnun og framkvæmdir á hálendinu verði jafnframt viðhöfð sérstök aðgæsla sem tryggi að mannvirki falli sem best að umhverfi og rýri sem minnst hlut náttúrunnar í heildarmyndinni. (M)
     3.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði leitast við að greina sérstöðu, styrkleika og staðaranda svæðis með tilliti til tækifæra í ferðaþjónustu. (D)
     4.      Í skipulagi verði hugað að varðveislu landslags, bæði náttúrulegs og manngerðs, sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn. (D)
     5.      Skipulagsákvarðanir um ferðaþjónustu og ferðamannastaði byggist á gögnum um þolmörk náttúru, innviða, ferðamanna, samfélags og efnahags. (D)
     6.      Uppbygging ferðaþjónustu miði að því að nýtast jafnt íbúum á svæðinu og ferðamönnum. (D, Þ)
     7.      Skipulagsákvarðanir um uppbyggingu ferðaþjónustu og ferðamannastaða taki mið af áfangastaðaáætlunum landshlutanna. (D, Þ, H)
     8.      Við skipulagsgerð í þéttbýli verði leitast við að greina sérstöðu, styrkleika og staðaranda svæða með tilliti til tækifæra í ferðaþjónustu. (Þ)
     9.      Í skipulagi verði hugað að landslagi og yfirbragði og gæðum byggðar sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn. (Þ)
     10.      Skipulagsákvarðanir um uppbyggingu ferðaþjónustu og ferðamannastaða byggist eins og kostur er á gögnum um þolmörk innviða, ferðamanna, samfélags og efnahags. Sérstaklega sé hugað að áhrifum ferðamennsku á húsnæðismarkað og þjónustuframboð. (Þ)
     11.      Við skipulag haf- og strandsvæða verði mótuð umgjörð fyrir starfsemi ferðaþjónustu sem tekur jafnframt tillit til þolmarka náttúru, innviða og samfélags, meðal annars í tengslum við umferð skemmtiferðaskipa. (H)
     12.      Í skipulagi verði hugað að varðveislu landslags á strandsvæðum sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn. (H)

Áhersla C.8: Skipulag stuðli að möguleikum á fjölbreyttri og hagkvæmri nýtingu landbúnaðarlands í sátt við umhverfið og stuðli að auknu fæðuöryggi þjóðarinnar.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Við skipulagsgerð í dreifbýli verði landi sem hentar vel til ræktunar matvæla almennt ekki ráðstafað til annarra nota með óafturkræfum hætti, svo sem til skógræktar. (D)
     2.      Skipulagsákvarðanir um ráðstöfun lands til landbúnaðar og annarrar nýtingar byggist á flokkun landbúnaðarlands með tilliti til ræktunarskilyrða, auk landslagsgreiningar og vistgerðaflokkunar. (D)
     3.      Ákvarðanir um uppskiptingu lands byggist á skipulagsáætlunum. (D)
     4.      Stefna í skipulagsáætlunum um ræktun stuðli að framleiðslu afurða með lítið kolefnisspor. (D)
     5.      Í skipulagi dreifbýlis verði stutt við fjölbreytta nýtingu landbúnaðarlands, svo sem í tengslum við nýsköpun og ferðaþjónustu. (D)
     6.      Við skipulagsgerð í þéttbýli verði vaxtarmörk þess skilgreind, m.a. með það fyrir augum að standa vörð um verðmætt landbúnaðarland. (Þ)
     7.      Í skipulagi verði hugað að tækifærum til aukinnar ræktunar matvæla í þéttbýli. (Þ)

Áhersla C.9: Skipulag miði að því að auka alþjóðlega samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki með sterkum aðlaðandi borgarsvæðum.
Framfylgd við skipulagsgerð:
     1.      Í skipulagi höfuðborgarsvæðisins og svæðisborgarinnar Akureyri verði lögð áhersla á þætti sem eru líklegir til að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni svæðis með því að nýta styrkleika og sérstöðu þess, svo sem hvað varðar aðgengi að mannauði, endurnýjanlegri orku, auðlindum, grunnneti samgangna (alþjóðlegar gáttir), stöðugleika, stjórnsýslu og þjónustu. (Þ)
     2.      Í skipulagi höfuðborgarsvæðisins og svæðisborgarinnar Akureyri verði horft til sérkenna og gæða hins byggða umhverfis og öflugra innviða með það að markmiði að tækifæri, lífskjör og búsetuskilyrði séu sambærileg nálægum borgarsvæðum. (Þ)
     3.      Í skipulagi höfuðborgarsvæðisins og svæðisborgarinnar Akureyri verði litið til samanburðar við sambærileg borgarsvæði og sá samanburður nýttur til að móta áherslur í skipulagi og innviðafjárfestingum. (Þ)
     4.      Í skipulagi í þéttbýli verði lögð áhersla á sjálfbærni borgarsvæða, sem verði eftirsótt til búsetu og atvinnu og skapi umgjörð fyrir efnahagslega drifkrafta og nýsköpun. (Þ)

    Mælikvarðar sem styðjast ber við til að meta framgang markmiðs:
     a.      Koltvísýringslosun á virðisaukaeiningu.
     b.      Hlutfall fjölbreyttra atvinnusvæða.
     c.      Hlutfall endurnýjanlegrar orku.

IV. SAMÞÆTTING VIÐ AÐRAR STEFNUR OG ÁÆTLANIR
    Framkvæmd stefnumörkunar þessarar verði í nánu samráði milli ráðuneyta, stofnana ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings. Með því móti verði tryggð samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera Meðal þess sem horft verði til í því sambandi er eftirfarandi:
     a.      Tryggð verði regluleg upplýsingagjöf til Alþingis.
     b.      Útbúið verði mælaborð sem varpar ljósi á stöðu og þróun skipulagsmála.
     c.      Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga haldi árlegt málþing um skipulagsmál.
     d.      Fram fari reglulegir fundir Skipulagsstofnunar og allra skipulagsfulltrúa sveitarfélaganna.
     e.      Fram fari reglulegt samtal innviðaráðuneytisins, Skipulagsstofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Innviðaráðuneyti hafi yfirumsjón með framkvæmd stefnunnar í samstarfi við einstök ráðuneyti, eftir því sem við á, og Skipulagsstofnun.

V. AÐGERÐAÁÆTLUN 2024–2028
    Unnið verði í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang markmiða landsskipulagsstefnu:
1. Mótun verkferla og leiðbeininga fyrir aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga.
     Verkefnismarkmið: Varpa ljósi á aðferðafræði, verkefni og hlutverk sveitarfélaga, fagstofnana, ráðuneyta og annarra hagaðila þegar kemur að aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga.
     Stutt lýsing: Mótuð verði heildræn nálgun á aðlögun íslenskra sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga í byggðum landsins og er verkefnið aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun. Að verkefninu komi fimm ólík sveitarfélög sem taka þátt sem tilviksrannsóknir. Greind verði staðbundin áhrif og aðgerðir til aðlögunar mótaðar. Aðgerðin varpi ljósi á mismunandi hlutverk sveitarfélaga, fagstofnana, ráðuneyta og annarra hagaðila við mótun, innleiðingu og fjármögnun aðlögunaraðgerða. Eins mun hún færa sveitarfélögum verkfæri og skýrari verkferla sem gerir þeim kleift búa sig undir áhrif loftslagsbreytinga á innviði, atvinnugreinar, efnahag og samfélög, í samstarfi við viðeigandi aðila. Á grundvelli þessarar vinnu verði unnið að leiðbeiningum um aðlögun að loftslagsbreytingum við skipulagsgerð.
     Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
     Framkvæmdaraðilar: Byggðastofnun, Skipulagsstofnun og Veðurstofa Íslands.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, innviðaráðuneytið, matvælaráðuneytið, Almannavarnir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Land og skógur, Náttúruhamfaratryggingar Íslands og Vegagerðin.
     Tímabil: 2023–2025.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum (2021), byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 og áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038.
     Heimsmarkmið: 11 og 13.

2. Skipulagsgerð sem styðji við markmið um kolefnishlutleysi.
     Verkefnismarkmið: Að fyrir liggi leiðbeiningar um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis með skipulagsgerð.
     Stutt lýsing: Unnið verði að leiðbeiningum um hvernig hægt er að nýta skipulagsgerð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Samhliða verði staðið að vitundarvakningu um loftslagsáhrif byggðar, samgangna og landnotkunar og loftslagsvæns lífs. Komið verði á markvissri söfnun og miðlun bestu fáanlegu upplýsinga fyrir loftslagsmiðað skipulag um þætti sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu. Tryggt verði að sveitarfélög, skipulagsráðgjafar og hönnuðir hafi auðvelt aðgengi að bestu upplýsingum hverju sinni.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Matvælaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Land og skógur, Orkustofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
     Tímabil: 2024–2025.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038.
     Heimsmarkmið: 11, 13 og 15.

3. Skipulag mæti húsnæðisþörf.
     Verkefnismarkmið: Að bæta aðgengi að upplýsingum um möguleika á uppbyggingu húsnæðis í skipulagsáætlunum.
     Stutt lýsing: Til að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir húsnæði verði sett fram stefna í húsnæðismálum í skipulagsáætlunum sveitarfélaga að setja fram stefnu í húsnæðismálum, sem byggist á greinargóðum gögnum um þörf fyrir uppbyggingu húsnæðis til skemmri tíma og sviðsmyndagreiningu til lengri tíma. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga verði því mikilvæg forsenda fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga. Til að stuðla að yfirsýn yfir byggingarheimildir verði komið á fót gagnagrunni þar sem hægt er að kalla fram yfirlit yfir heimildir til íbúðauppbyggingar á þegar skipulögðum íbúðareitum og á þeim reitum sem eru í skipulagsferli. Horft verði sérstaklega til þeirra möguleika sem felast í stafrænni deiliskipulagsgerð.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
     Tímabil: 2024–2025.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðisstefna fyrir árin 2024–2038.
     Heimsmarkmið: 1, 10 og 11.

4. Uppbygging og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða.
     Verkefnismarkmið: Að einfalda ákvarðanatöku um þjóðhagslega mikilvæga innviði flutningskerfa.
     Stutt lýsing: Tryggt verði að ákvarðanir um uppbyggingu og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða nái fram að ganga. Í samvinnu við hagsmunaaðila verði lagt mat á hvaða innviðir flutningskerfa svo sem samgöngu- og veitukerfi hafi þjóðhagslegt mikilvægi og skoðaðar leiðir til að einfalda og stuðla að ákvarðanatöku um uppbyggingu og viðhald þeirra.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Skipulagsstofnun, Samgöngustofa, Samband íslenskra sveitarfélaga, Orkustofnun og Umhverfisstofnun.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Samgönguáætlun 2020–2034, kerfisáætlun 2021– 2030, stefna um lagningu raflína og stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
     Heimsmarkmið: 8 og 9.

5. Kortlagning á ræktunarlandi sem hentar til matvælaframleiðslu.
     Verkefnismarkmið: Að standa vörð um gott ræktunarland til að tryggja fæðuöryggi
     Stutt lýsing: Gæði lands til ræktunar verði kortlögð á landsvísu út frá bestu fáanlegu gögnum sem lögð verði til grundvallar við skipulagsgerð og aðra stefnumótun um landnotkun. Gagnagrunnur verði í umsjón Lands og skógar og hann uppfærður eftir því sem upplýsingar verða betri.
     Ábyrgð: Matvælaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðilar: Skipulagsstofnun og Land og skógur.
     Dæmi um samstarfsaðila: Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Minjastofnun Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2024.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Matvælastefna til ársins 2040 og Landbúnaðarstefna til ársins 2040.
     Heimsmarkmið: 2, 13 og 15.

6. Stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins.
     Verkefnismarkmið: Að þróa stefnu um samgöngur á miðhálendinu með tilliti til aðgengis og orkuskipta.
     Stutt lýsing: Unnið verði að greiningu á ástandi vega á miðhálendinu og lagt mat á mismunandi kosti við þróun samgöngukerfis miðhálendisins og útfærslu vega á miðhálendinu. Mótuð verði stefna um uppbyggingu vegsamgangna í samræmi við gildi miðhálendisins í náttúrufarslegu og landslagslegu tilliti. Lögð verði áhersla á orkuskipti í samgöngum og mögulegs öryggishlutverks vegna náttúruvár.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðilar: Skipulagsstofnun og Vegagerðin.
     Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Sveitarfélög, Umhverfisstofnun, Ferðamálastofa, Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands og Landsvirkjun.
     Tímabil: 2026–2027.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Samgönguáætlun 2020–2034.
     Heimsmarkmið: 8, 9 og 15.

7. Samspil skipulagsáætlana og orkuskipta.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að hröðun orkuskipta.
     Stutt lýsing: Skipulagsáætlanir taki mið af innviðaáætlun um endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum sem unnin verði samhliða endurnýjun á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Horft verði m.a. til gagnagrunna og kortasjá í umsjá Orkustofnunar sem hefur heildstætt yfirlit yfir stöðu hverju sinni og framtíðaráform sem hafa umtalsverð áhrif á orkuskipti og orkuöryggi.
     Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga, Orkustofnun, innviðaráðuneytið og Vegagerðin.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, samgönguáætlun 2020–2034, Orkustefna til ársins 2050 og raforkuspá Orkustofnunar 2022–2050.
     Heimsmarkmið: 7, 11 og 13.

8. Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð.
     Verkefnismarkmið: Að ljúka við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð.
     Stutt lýsing: Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Eyjafjörð. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Siglunesi í vestri og Bjarnarfjalli í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið og Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Hafrannsóknastofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin og Náttúrufræðistofnun Íslands.
     Tímabil: 2025–2027
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Vatnaáætlun Íslands og Hafið – samræmd stefnumörkun um málefni hafsins.
     Heimsmarkmið: 8 og 14.

9. Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Skjálfandaflóa.
     Verkefnismarkmið: Að ljúka við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Skjálfandaflóa
     Stutt lýsing: Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Skjálfandaflóa. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Bjarnarfjalli í vestri og Tjörnestá í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðilar: Innviðaráðuneytið og Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Hafrannsóknastofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin og Náttúrufræðistofnun Íslands.
     Tímabil: 2025–2027
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Vatnaáætlun Íslands 2022–2027 og Hafið – samræmd stefnumörkun um málefni hafsins.
     Heimsmarkmið: 8 og 14.

10. Forgangsröðun verkefna vegna skipulags strandsvæða.
     Verkefnismarkmið: Að forgangsraða skipulagi strandsvæða.
     Stutt lýsing: Unnin verði greining á því hvaða svæði skuli að hafa forgang við gerð strandsvæðisskipulags. Við þá vinnu verði haft samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga og ráðgefandi aðila samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Með ráðgefandi aðilum er vísað til fagstofnana sem fara með málaflokka sem varða nýtingu og vernd á haf- og strandsvæðum og vatnasvæðisnefndir samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Orkustofnun, Hafrannsóknastofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin, Náttúrufræðistofnun Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2026–2027.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Vatnaáætlun Íslands 2022–2027 og Hafið – samræmd stefnumörkun um málefni hafsins.
     Heimsmarkmið: 8 og 14.

11. Stjórnsýsla á hafsvæðum utan strandsvæða.
     Verkefnismarkmið: Að stjórnsýsla ákvarðanatöku um nýtingu hafsvæða verði skýr og skilvirk.
     Stutt lýsing: Greint verði hver ber ábyrgð á mismunandi ákvörðunum um nýtingu eða vernd hafsvæða utan strandsvæða eins og þau eru skilgreind í lögum um haf- og strandsvæði, nr. 88/2018, og hvernig ferli ákvarðanatöku er uppbyggt. Á grunni greiningar verði gerð tillaga að skilvirku ferli við töku ákvarðana sem tryggir aðkomu þeirra stjórnvalda og hagsmunaaðila sem fara með ólík málefni nýtingar og verndar á hafsvæðum.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Skipulagsstofnun, matvælaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkustofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Uppbygging og umgjörð lagareldis: Stefna til ársins 2040, Vatnaáætlun Íslands 2022–2027 og Hafið – samræmd stefnumörkun um málefni hafsins.
     Heimsmarkmið: 8 og 14.

12. Uppbygging ferðaþjónustumannvirkja á hálendinu.
     Verkefnismarkmið: Að uppbygging ferðaþjónustumannvirkja verði innan þolmarka hálendisins.
     Stutt lýsing: Þjónustustig svæða á hálendinu verði endurskilgreint til að mæta aukinni eftirspurn. Við uppbyggingu verði þess gætt að skerða sem minnst óbyggðaupplifun, landslag og náttúrugæði. Mikilvægt verði að greina þolmörk helstu áfangastaða miðhálendisins, þ.e. þolmörk náttúru, innviða, ferðamanna og samfélags, og meta á þeim grunni hvort þörf sé á að breyta áherslum í mannvirkjagerð fyrir næstu endurskoðun landsskipulagsstefnu
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög á hálendinu, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður, Vegagerðin og Náttúrufræðistofnun Íslands.
     Tímabil: 2025–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Ferðamálastefna til 2030 og landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
     Heimsmarkmið: 8, 9 og 15.

13. Kortlagning víðerna.
     Verkefnismarkmið: Að ljúka kortlagningu víðerna.
     Stutt lýsing: Lokið verði vinnu við kortlagningu víðerna út frá þeim viðmiðum sem sett eru fram í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Kortlagning víðerna verði uppfærð reglulega og gerð aðgengileg fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila.
     Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
     Framkvæmdaraðili: Ákveðið í reglugerð.
     Dæmi um samstarfsaðila: Innviðaráðuneytið og Skipulagsstofnun.
     Tímabil: 2024–2025.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Náttúruverndaráætlun 2009–2013.
     Heimsmarkmið: 15.

14. Skipulag í dreifbýli.
     Verkefnismarkmið: Að stuðla að sjálfbærri landnotkun í dreifbýli.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð leiðbeininga um hvernig hægt er að nýta skipulagsgerð til að draga fram megináhrifaþætti í dreifbýli og til að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar og landnotkunar. Leiðbeiningarnar taki á ráðstöfun lands í dreifbýli, m.a. varðveislu góðs ræktarlands ásamt aukinni þörf á landrými, svo sem fyrir skógrækt, ferðaþjónustu, frístundabyggð, íbúðauppbyggingu sem og hefðbundin landbúnaðarnot. Leiðbeiningar munu einnig lúta að loftslagsmiðuðu skipulagi, landslagsvernd, neti verndarsvæða, líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærri byggð.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Matvælaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtök Íslands, Land og skógur og Ferðamálastofa.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036, matvælastefna til ársins 2040, landbúnaðarstefna til ársins 2040, Land og líf, Landslagssamningur Evrópu og náttúruverndaráætlun 2009–2013.
     Heimsmarkmið: 8, 11og 15.

15. Skipulag og leyfisveitingar vegna vindorkuvera.
     Verkefnismarkmið: Að útbúa leiðbeiningar um skipulagsgerð og vindorkunýtingu.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð leiðbeininga um skipulagsgerð og vindorkunýtingu þar sem fjallað verði um staðarval og umhverfismati ásamt öðrum þáttum sem snúa að leyfisveitingum. Lögð verði áhersla á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum til þess að tryggja örugga afhendingu orkunnar. Einnig verði lögð áhersla á að breið sátt ríki um uppbyggingu vindorkuvera og tillit sé tekið til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Tímabil: 2025–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna til ársins 2050.
     Heimsmarkmið: 7, 9 og 13.

16. Mælaborð um stöðu og þróun skipulagsmála.
     Verkefnismarkmið: Að bæta miðlun lykilupplýsinga um stöðu og þróun skipulagsmála.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð mælaborðs sem verði aðgengilegt á vef Skipulagsstofnunar sem mun auðvelda eftirfylgni með landsskipulagsstefnu ásamt því að hægt verður að meta þróun skipulagsmála. Þar verði settir fram lykilþættir um stöðu skipulagsmála á landsvísu og bætt aðgengi að rauntímaupplýsingum.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sjálfbært Ísland, Hagstofan, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vegagerðin, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun og Ferðamálastofa.
     Tímabil: 2026–2028.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Á ekki við.
     Heimsmarkmið: 11 og 13.

17. Einn ferill húsnæðisuppbyggingar.
     Verkefnismarkmið: Einfalda og samræma ferla á sviði skipulags og byggingarmála við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
     Stutt lýsing: Lögbundnir ferlar og verklag í skipulags- og byggingarmálum er varða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis verði endurskilgreindir og samþættir sem liður í samþættingu landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu. Annars vegar verði samþættir ferlar við gerð deiliskipulags og byggingarleyfis og hins vegar ferlar við gerð aðalskipulags og húsnæðisáætlana. Ráðist verði í fræðsluátak og gefnar út leiðbeiningar til sveitarfélaga með áherslu á einföldun ferla og aukna skilvirkni við skipulag og mannvirkjagerð.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Dæmi um samstarfsaðila: Sveitarfélög, hönnuðir og aðrir sem koma að mannvirkjagerð.
     Tímabil: 2024–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðisstefna.
     Heimsmarkmið: 11

18. Endurskoðun á lagaumgjörð skipulagsmála.
     Verkefnismarkmið: Unnið verði að heildarendurskoðun á skipulagslögum og skipulagsreglugerð.
     Stutt lýsing: Ráðist verði í heildstæða endurskoðun á skipulagslögum með það að markmiði að einfalda löggjöfina og ferill skipulagsmála í heild gerður skilvirkari. Horft verði til þess að samþætta skipulagsferla og bygginga- og framkvæmdaleyfisferla til að stuðla að einfaldari stjórnsýslu, leyfaútgáfu og lækkun byggingarkostnaðar. Leitast verði við að auka sveigjanleika, með hliðsjón af reynslu nágrannaþjóða, án þess að réttaröryggi og gæði byggðar sé skert.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Skipulagsstofnun og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
     Tímabil: 2026–2027
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Húsnæðisstefna.
     Heimsmarkmið: 11.

19. Flokkun landslagsgerða og leiðbeiningar um landslagsgreiningu.
     Verkefnismarkmið: Að skipulagsákvarðanir um ráðstöfun lands byggist á landslagsgreiningu og mati á staðareinkennum og taki mið af þeim gæðum sem felast í landslagi. Við skipulagsgerð sveitarfélaga verði landslag og staðareinkenni greind og niðurstöður slíkrar greiningar nýttar við mótun og útfærslu skipulags viðkomandi svæðis.
     Stutt lýsing: Unnið verði að gerð leiðbeininga um nýtingu landslagsflokkunar, staðbundna landslagsgreiningu og greiningu staðareinkenna við skipulagsgerð. Kortlagningin verði liður í því að uppfylla ákvæði Evrópska landslagssamningsins sem Ísland hefur staðfest og er aðili að.
     Ábyrgð: Innviðaráðuneytið.
     Framkvæmdaraðili: Skipulagsstofnun.
     Dæmi um samstarfsaðila: Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun, og Minjastofnun.
     Tímabil: 2025–2026.
     Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landslagssamningur Evrópu.
     Heimsmarkmið: 11, 14 og 15.

Greinargerð.

1. Framtíðarsýn og meginmarkmið.
1.1. Samhæfing stefna og áætlana.
    Í landsskipulagsstefnu er sett fram samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál. Hún tekur á vernd og ráðstöfun lands á hálendi Íslands, í þéttbýli og dreifbýli og sjálfbærri nýtingu haf- og strandsvæða. Landsskipulagsstefnan byggist á eftirfarandi framtíðarsýn í skipulagsmálum:
    Að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun og lífsgæðum, styðji samkeppnishæfni og sé sveigjanlegt og stuðli að viðnámsþrótti gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum.
    Áherslur ráðherra liggja til grundvallar landsskipulagsstefnu og leggur innviðaráðherra áherslu á að stefnan nái til þjóðhagslega mikilvægra innviða, samgangna á miðhálendinu, landnotkunar í dreifbýli, landslags, aukinnar uppbyggingar húsnæðis í samræmi við þörf, skipulags í þágu loftslagsmála, vindorku, fjölbreytts ferðamáta, orkuskipta í samgöngum og skipulags haf- og strandsvæða.
    Virk stefnumótun er forsenda framfara. Þegar lýðræðissamfélög þurfa að takast á við áskoranir móta þau sér stefnu og áætlanir. Sameina þarf kraftana og brýnt er að allir hlutaðeigandi komi að lausnum svo að þær nýtist á fjölþættan hátt og myndi sameiginlega framtíðarsýn.
    Ríkar kröfur eru gerðar til reksturs hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, um skilvirkni og hagkvæmni og jafnframt leitast við að veita góða þjónustu og ná árangri. Því er nauðsynlegt að opinberir aðilar hafi skýra framtíðarsýn og forgangsraði verkefnum með tilliti til stefnumörkunar hverju sinni.
    Í innviðaráðuneytinu er lögð rík áhersla á samhæfingu stefna og áætlana. Stefnur í málaflokkum ráðuneytisins verða fimm; stefna í sveitarstjórnarmálum, byggðaáætlun, samgönguáætlun, landsskipulagsstefna og húsnæðisstefna. Í því skyni að ná sem bestum árangri verða þær settar fram með sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiðum, sem er grundvöllur samhæfingar. Málefnin mynda þannig eina heild og hefur starfsemi á einu sviði áhrif á hin. Fátt hefur til að mynda meiri áhrif á þróun byggðar en húsnæðismál og samgöngur er eitt stærsta byggðamálið.
    Ávinningur af samhæfingu áætlana er margþættur og felur til að mynda í sér möguleika á betri nýtingu fjármuna, auknu gagnsæi og samvinnu málaflokka um sambærilegar eða sameiginlegar áherslur og aðgerðir. Með samhæfingu er unnt að hámarka árangur opinberra áætlana á öllum stigum stjórnsýslunnar og samræma jákvæð áhrif þeirra.
    Samhæfing stefna og áætlana byggist á eftirfarandi þáttum:
*      Sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiði málaflokka.
*      Samvinnu málaflokka um tilteknar aðgerðir og áherslur.
*      Fjölþættu samráði, svo sem við íbúa, sveitarstjórnir, aðra hagaaðila og fulltrúa annarra stefna og áætlana stjórnvalda.
*      Samræmdri vinnu og framsetningu áætlana.
    Ráðherra hefur ákveðið að áætlanir ráðuneytisins verði samhæfðar í þágu búsetufrelsis. Lífsgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í búsetuformi sem því hentar, og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er.
    Fjölbreytt íbúðasamsetning, nærþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgöngumáta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi. Með búsetufrelsi er ekki átt við að fólk geti kosið sér búsetu utan þeirra svæða sem sveitarfélög skipuleggja fyrir íbúðabyggð.
    Samhæfing stefna og áætlana í þágu búsetufrelsis felst í því að málaflokkar ráðuneytisins vinni saman að:
*      Öflugum sveitarfélögum.
*      Fjölbreyttu framboði húsnæðis.
*      Eflingu atvinnulífs innan og milli landshluta með uppbyggingu og rekstri öruggra samgangna.
*      Góðu aðgengi að þjónustu.
*      Sem flest störf verði án staðsetningar.
*      Eflingu vinnu- og skólasóknarsvæða.
*      Hagkvæmum, öruggum og umhverfisvænum samgöngum í þágu íbúa og atvinnulífs.
*      Skipulagi byggðar og landnotkunar sem stuðli að sjálfbærri þróun þéttbýlisstaða þar sem hugað er að góðu aðgengi að þjónustu og gæðum í hinu byggða umhverfi og lifandi bæjarrýmum.

1.2. Gerð landsskipulagsstefnu og samráð .
    Stefnumótun stjórnvalda og Alþingis birtist í landsskipulagsstefnu til fimmtán ára og fimm ára aðgerðaáætlun. Þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu byggist á grænbók og hvítbók um skipulagsmál. Í grænbókinni birtist mat á stöðu, áskorunum og tækifærum er varða skipulagsmál ásamt valkostum til framtíðar. Í hvítbókinni birtast drög að stefnu, lykilviðfangsefni málaflokksins, áherslur, mælikvarðar og aðgerðir ásamt mati á áhrifum stefnunnar á íslenskt samfélag.
    Landsskipulagsstefna er unnin á grundvelli skipulagslaga, nr. 123/2010, og laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, nr. 30/2023. Ráðherra ákveður hverju sinni um hvaða viðfangsefni skuli fjallað og hvaða áherslur eru lagðar til grundvallar mótun stefnunnar. Fyrsta landsskipulagsstefna stjórnvalda fyrir árin 2015–2026 var samþykkt á Alþingi í mars 2016 ( þingsályktun nr. 19/145). Í landsskipulagsstefnu á alltaf að vera uppfærð stefna um skipulag miðhálendisins og skipulag haf- og strandsvæða. Einnig eru í landsskipulagsstefnu samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, sveitarstjórnarmál, húsnæðismál, náttúruvernd og orkunýtingu. Framfylgd stefnunnar gengur þannig þvert á málaflokka.
    Innviðaráðherra skipar húsnæðis- og skipulagsráð á grundvelli laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, nr. 30/2023, sem tóku gildi 22. maí 2023. Ráðið gerir tillögu um drög að stefnu um skipulagsmál til ráðherra. Jafnframt skipar innviðaráðherra ráðgjafarnefnd sem er húsnæðis- og skipulagsráði til ráðgjafar og samráðs við gerð tillögunnar. Í ráðgjafarnefnd eru fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, opinberra stofnana og fagaðila á sviði skipulagsmála.
    Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð aðal- og svæðisskipulags. Landsskipulagsstefna hefur einnig áhrif á áætlanir stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun og byggðaþróun.

1.2.1. Verkferlið.
    Landsskipulagsstefna var að þessu sinni unnin í samræmi við stefnumótunarferli Stjórnarráðsins, svokallaðan sporbaug stefnumótunar. Meginafurðir þess ferlis eru stöðumat og valkostir (grænbók) og drög að stefnu (hvítbók). Samráð og samhæfing hafa verið leiðarljós í allri vinnu, bæði grænbókar og hvítbókar.

1.2.2. Grænbók.
    Vinna við grænbók hófst vorið 2023. Stöðumat grænbókarinnar byggðist á greiningum framkvæmdaraðila, þ.e. Skipulagsstofnunar. Við undirbúning þessarar tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu var staðið að margvíslegu samráði við sveitarfélög, íbúa sveitarfélaga, ráðuneyti og aðra hagsmunaaðila. Aflað var innleggs í grænbókina með sameiginlegum spurningalista til allra sveitarfélaga landsins um stöðu, áskoranir og tækifæri skipulagsmála á sviði sveitarstjórnar-, skipulags- og húsnæðismála sumarið 2022. Alls bárust svör frá 35 af 64 sveitarfélögum eða hátt í 55% allra sveitarfélaga í landinu. Með sama hætti var leitað sjónarmiða sveitarstjórnarfólks, íbúa og annarra hagsmunaaðila gagnvart öllum málaflokkum ráðuneytisins á átta samráðsfundum undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman í október 2022. Skráðir þátttakendur voru ríflega 360 talsins, sveitarstjórnarfólk, starfsfólk landshlutasamtaka og annarra hagsmunasamtaka og almennir íbúar á landinu öllu. Afrakstur samráðsins felur í sér dýrmætt framlag til stefnumótunar í öllum málaflokkum ráðuneytisins.
    Í upphafi árs 2023 var viðhorf ungs fólks á aldrinum 16–20 ára um málaflokka ráðuneytisins kannað. Niðurstöðurnar leiddu m.a. í ljós að þeir þættir sem skipta unga fólkið hvað mestu máli við val á búsetu eru atvinnumöguleikar, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, tækifæri til menntunar og gott aðgengi að þjónustu.
    Grænbók landsskipulagsstefnu lá frammi í opinni samráðsgátt stjórnvalda frá júlí til ágúst 2023 (mál nr. S-145/2023). Alls bárust 22 umsagnir. Umsagnirnar voru efnismiklar og fjölluðu um mörg atriði stöðumatsins. Mörg álitaefni umsagnanna komu inn á þá stefnumótun er lögð hér til grundvallar og voru gott innlegg í mótun stefnunnar.

1.2.3. Hvítbók.
    Hvítbókin, ásamt skýrslu um mat á umhverfisáhrifum áætlunarinnar, var lögð fram í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda í sex vikur í september og október 2023 og barst alls 31 umsögn (mál nr. S-167/2023). Umsagnir sem bárust í samráðsgátt höfðu að geyma fjölda gagnlegra ábendinga og athugasemda sem voru hafðar til hliðsjónar við gerð tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu og við útlistun frekari útskýringa við útgáfu stefnunnar síðar og/eða í leiðbeiningum um tiltekin viðfangsefni.

1.2.4. Staða og þróun skipulagsmála og umhverfismat.
    Samhliða vinnu við grænbók og hvítbók vann Skipulagsstofnun greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála á Íslandi skv. 10. gr. skipulagslaga og er hún lögð til grundvallar við gerð landsskipulagsstefnu. Um er að ræða greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu ásamt yfirliti yfir stefnu stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða skipulag. Fjallað er um helstu viðfangsefni er varða skipulagsgerð og mótuð verður stefna um í endurskoðaðri landsskipulagsstefnu.
    Samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skal vinna umhverfismat fyrir landsskipulagsstefnu þar sem hún markar stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í 1. viðauka við lögin og eru undirbúnar og/eða afgreiddar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra.
    Umhverfismat landsskipulagsstefnu er samþætt og tvinnað inn í vinnuna við mótun stefnunnar til að tryggja að horft verði til umhverfissjónarmiða við mótun landsskipulagsstefnu.

2. Lykilviðfangsefni.
    Málaflokkur skipulagsmála er mjög umfangsmikill og er því mikilvægt að við mótun landsskipulagsstefnu sé gætt vel að tengingum við aðra stefnumótun stjórnvalda. Við niðurstöðu samráðs og greininga voru dregin saman lykilviðfangsefni og endurspegla þau helstu áskoranir málaflokksins.

2.1. Loftslagsbreytingar.
    Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun samtímans. Ísland hefur sett fram metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar fela í sér áskoranir í landnotkun og hinu byggða umhverfi en þær geta líka haft áhrif á atvinnulíf og almenning. Til að takast á við þær þarf að hafa til þess verkfæri og byggja á bestu fáanlegu gögnum hverju sinni. Sífellt bætist við ný þekking til að takast á við loftslagsáskoranir en skortur er á aðgengilegum upplýsingum um hvernig best sé að takast á við áhrifin.

2.2. Jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi.
    Brýnt er að ná jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis í samræmi við þörf og samstilla stefnu og aðgerðir ríkis og sveitarfélaga til að tryggja nægt framboð. Tryggja þarf framboð á fjölbreyttum íbúðum sem stuðla að sjálfbærni og félagslegri samheldni. Auka þarf skilvirkni í ferlum skipulags og samhæfa og einfalda undirbúning framkvæmda við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að mæta eftirspurn og tryggja húsnæðisöryggi.

2.3. Uppbygging þjóðhagslega mikilvægra innviða.
    Innviðir eru forsenda fyrir þróun byggðar og kröftugu atvinnulífi. Uppbygging þeirra getur haft áhrif á ólíka hagsmuni varðandi þróun byggðar og landnotkunar. Innviðir tengdir flutningskerfum fyrir orku, vatn og varma, en einnig þeir sem snúa að flutningi, samgöngum og fjarskiptum, geta haft mismikil áhrif á íbúa og dæmi eru um að ágreiningur skapist um staðsetningu þeirra og hvernig gerð er grein fyrir þeim í skipulagi. Úr sumum þessara ágreiningsmála næst ekki að leysa og mikilvægar framkvæmdir ná ekki fram að ganga. Því er mikilvægt að til sé farvegur fyrir skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar þjóðhagslegra mikilvægra innviða sem þjóna hagsmunum landsins alls.

2.4. Landnotkun í dreifbýli.
    Land er takmörkuð auðlind og landbúnaðarland sem hentar vel til ræktunar matvæla og fóðurs er verðmætt. Samkeppni ríkir um land í dreifbýli vegna aukinnar eftirspurnar eftir landi til skógræktar, undir frístundabyggð, fyrir ferðaþjónustu, íbúðaruppbyggingu í dreifbýli og nýtingu vindorku. Mikilvægt er að landnotkun í dreifbýli feli í sér vernd góðs ræktarlands sem þarf að geta staðið undir aukinni matvælaframleiðslu til framtíðar á sama tíma og sveitir landsins þurfa að geta vaxið og dafnað.

2.5. Landnotkun á miðhálendi Íslands.
    Miðhálendi Íslands hefur verið nýtt sem almenningur um aldir og það gegnir enn mikilvægu hlutverki sem beitarsvæði fyrir bændur. Með vaxandi ferðaþjónustu er aukin ágangur á miðhálendið með vaxandi álagi. Aukið álag getur m.a. falið í sér þörf fyrir uppbyggingu innviða fyrir samgöngur og ferðaþjónustu, en samhliða slíkri uppbyggingu þarf að tryggja að hún rýri ekki hefðbundin not og upplifun, vernd óbyggðra víðerna, mikilvægra landslagsheilda og náttúru miðhálendisins.

2.6. Orkuskipti í samgöngum og fjölbreyttur ferðamáti.
    Vönduð samþætting samgöngukerfa og byggðar er undirstaða gæða hins byggða umhverfis. Samhliða markvissum orkuskiptum er jafnframt nauðsynlegt að auka hlutdeild vistvæns ferðamáta til að ná markmiði stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

2.7. Skipulag haf- og strandsvæða.
    Aukin ásókn er í nýtingu haf- og strandsvæða, m.a. fyrir matvælaframleiðslu og orkuvinnslu. Skilgreina þarf siglingaleiðir á strandsvæðum og skerpa sýn á rýmisþörf öryggissvæða sæstrengja og aðra staðbundna nýtingu sem hefur takmarkandi áhrif á veiðar og siglingar. Á hafsvæðum utan strandsvæða er þörf á skýrari stefnumörkun fyrir ákvarðanir um staðbundna nýtingu og náttúruvernd.

2.8. Skipulag vindorku.
    Skipulag vindorkunýtingar er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum hér á landi en vaxandi áhugi er á nýtingu hennar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá nóvember 2021 er sett fram áhersla um að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi. Mikilvægt er að breið sátt ríki um hvernig staðið verði að uppbyggingu slíkra vindorkuvera og því er þörf á heildarstefnumörkun stjórnvalda um nýtingu vindorku og huga þarf að því hvort setja skuli sérstök viðmið um staðsetningu vindorkuvera, fjölda þeirra og stærð og enn fremur skýrari reglur og viðmið um áhrif á umhverfi og náttúru.

2.9. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.
    Líffræðilegri fjölbreytni stafar hætta af aukinni eftirspurn eftir nýtingu land-, haf- og strandsvæða, og loftslagsbreytingum. Breytt landnotkun hefur áhrif á líffræðilega fjölbreytni og losun gróðurhúsalofttegunda. Tryggja þarf að fjallað sé um líffræðilega fjölbreytni við stefnumörkun og framfylgd skipulagsáætlana.

3. Markmið, mælikvarðar og aðgerðir.
3.1. Markmið og áherslur.
    Í stefnunni er sett fram þrjú markmið er snúa að vernd umhverfis og náttúru, velsæld samfélagsins og samkeppnishæfu atvinnulífi. Undir hverju markmiði eru áherslur og eru þær leiðbeinandi fyrir gerð skipulagsáætlana og grundvallast m.a. á alþjóðasamningum og stefnu íslenskra stjórnvalda. Nánari umfjöllun um forsendur og stefnu stjórnvalda er að finna í sérstakri greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála sem unnin var samhliða endurskoðun landsskipulagsstefnu (Staða og þróun skipulagsmála á Íslandi, 2023).

A. Markmið um vernd umhverfis og náttúru.
    Markmiðið snýr að því að skipulag stuðli að heilnæmu umhverfi og verndun og varðveislu víðerna, landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni. Kolefnishlutleysi á að vera leiðarljós í skipulagi sem stuðla þarf að með markvissum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun.

    Markmiðið tengist eftirfarandi heimsmarkmiðum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Áherslur markmiðs um vernd umhverfis og náttúru.
    Kolefnishlutleysi er leiðarljós markmiðsins en Ísland er aðili að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), en einnig hefur Íslands sett sér metnaðarfyllra landsmarkmið um þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021–2030 miðað við árið 1990. Áherslur í loftslagsmálum og mikilvægi skipulags til að ná þar settum markmiðum eru einnig áberandi í öðrum áætlunum stjórnvalda, svo sem samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 ( þingsályktun nr. 41/150), Sjálfbær orkuframtíð: Orkustefnu til ársins 2050 og Landi og lífi, landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt til ársins 2031. Þessar áætlanir og stefnur endurspegla ásetning um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga gegna mikilvægu hlutverki við stefnumörkun í loftslagsmálum þar sem þar eru teknar ákvarðanir um fyrirkomulag byggðar og landnotkunar. Með áherslum og aðgerðum í skipulagi er hægt að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu með ýmsum hætti.
    Ísland er aðili af samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD). Samningurinn er mikilvægt verkfæri til að varðveita líffræðilega fjölbreytni jarðar. Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna hefur einnig að geyma ákvæði um verndun gegn mengun hafsins og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni.
    Í náttúruverndarlögum, nr. 60/2013, er að finna almenna stefnu um vernd náttúru og landslags. Þá er í rammaáætlun að finna áætlun um vernd landsvæða þar sem virkjunarkostir eru til staðar. Ísland er einnig aðili að Landslagsamningi Evrópu (ELC). Með landslagi er átt við bæði náttúrulegt og manngert landslag, í byggð og óbyggðum, borgum og bæjum, til sveita og við sjávarsíðuna. Í lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, er markmið að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá nóvember 2021 koma fram áform um stofnun þjóðgarðs á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð.

B. Markmið um velsæld samfélags.
    Markmiðið snýr að því að skipulag stuðli að almennri velsæld í samfélagi og gæðum í hinu byggða umhverfi. Skipulag þarf að stuðla að jafnvægi í nýtingu lands í þéttbýli og dreifbýli þar sem vöxtur samfélaga gengur ekki um of á náttúrulegt umhverfi. Loftslagsaðlögun á að vera leiðarljós í skipulagi sem verður að stuðla að seiglu samfélaga gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga.

    Markmiðið tengist eftirfarandi heimsmarkmiðum:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Áherslur markmiðs um velsæld samfélags
    Aðlögun að loftslagsbreytingum er leiðarljós markmiðsins. Í aðgerðaáætlun loftslagsmála (2020) kemur fram að skipulagsáætlanir sveitarfélaga séu mikilvægur vettvangur til að takast á við loftslagsbreytingar, bæði hvað varðar mótvægisaðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðlögun að loftslagsbreytingum. Í tillögum fyrir gerð stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum (2021) kemur fram að slíkar aðlögunaraðgerðir séu nauðsynlegar vegna hlýnunar loftslags og súrnunar sjávar á þessari öld og því þurfi að líta til loftslagsþols byggðar, innviða, atvinnuvega og seiglu mismunandi hópa fólks og lífríkis frammi fyrir loftslagsbreytingum.
    Ísland er aðili að Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum ( þingsályktun nr. 46/139). Ísland er einnig þátttakandi í norrænni samstarfsáætlun um byggðaþróun og skipulagsmál 2021–2024 (Norræn samstarfsáætlun um byggðaþróun og skipulagsmál 2021–24 – Fyrir græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd) þar sem er lögð áhersla á að bæta þátttöku allra félagshópa.
    Í samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 ( þingsályktun nr. 41/150) er áhersla á að leitast verði við að jafna vægi ferðamáta í þéttbýli með það að markmiði að stuðla að breyttum ferðavenjum sem er í samræmi við samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga og leiðbeiningarnar Mannlíf, byggð og bæjarrými: leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur og stefnu hönnunar og arkitektúrs til 2030. Þar er að finna umfjöllun og leiðbeiningar sem m.a. lúta að gæðum byggðar, landnotkun og þéttleika, sem ætlað er að nýtist við skipulag, hönnun og uppbyggingu byggðar og bæjarrýma. Einnig er stefnu um heilnæmt umhverfi að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og áætlun um loftgæði á Íslandi 2018–2029 (Hreint loft til framtíðar: Áætlun um loftgæði á Íslandi 2018–2029).
    Gerður hefur verið rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023–2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum. Samningurinn felur í sér sameiginlega stefnu og aðgerðir ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu íbúða til að mæta áætlaðri húsnæðisþörf, m.a. með markvissari beitingu húsnæðisáætlana. Í rammasamningnum eru sett viðmið um að þörf sé að byggja 35.000 íbúðir á árunum 2023–2032. Af þeim nýju íbúðum verði að jafnaði 30% á viðráðanlegu verði og að félagslegt húsnæðisúrræði verði sem næst 5% af öllu nýju húsnæði. Í Byggjum grænni framtíð, vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 er fjallað um vistvæna mannvirkja- og skipulagsgerð og þau tækifæri til úrbóta sem liggja í hönnun og skipulagi byggðar.
    Í orkustefnu til 2050 eru sett fram leiðarljós er varða orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtingu og orkusparnað, umhverfi, samfélag og efnahag. Í kerfisáætlun 2021–2030 eru sett fram markmið um að byggt verði upp sterkt flutningskerfi með hátt afhendingaröryggi raforku. Í stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033 ( þingsályktun nr. 32/149) kemur fram að góðir samskiptainnviðir séu lykilatriði í velferð og búsetugæðum og grundvöllur að fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Lög um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, kveða á um að sveitarfélög starfræki vatnsveitur í þéttbýli í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja.
    Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er kveðið á um öryggisforsendur og takmarkanir á landnotkun vegna náttúruvár. Ljóst er að margt jákvætt hefur áunnist síðustu ár og áratugi þegar kemur að þekkingu á náttúruvá og viðbrögðum við náttúruváratburðum. Í stöðumati og áskorunum varðandi mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár kemur fram að forsendur hafi verið að breytast. Þar eru helstu áhrifavaldar breyting á byggðamynstri og landnýtingu, aukin ferðamennska og þekking á mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruvá og tíðni atburða. Frá 2010 hefur hver náttúruváratburðurinn tekið við af öðrum og þessir atburðir hafa sýnt fram á mikilvægi þekkingar, vöktunar og réttra viðbragða til að draga úr tjóni vegna náttúruvár.

C. Markmið um samkeppnishæft atvinnulíf.
    Markmiðið stuðlar að því að skipulag auki samkeppnishæfni samfélags og efli atvinnulíf með hagkvæmri uppbyggingu innviða og sjálfbærri nýtingu auðlinda þar sem vexti er beint á tiltekin svæði í skipulagi. Kolefnishlutleysi á að vera leiðarljósið í skipulagi sem miðar að því að auka til muna bindingu gróðurhúsalofttegunda. Markmiðið tengist eftirfarandi heimsmarkmiðum:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Áherslur markmiðs um samkeppnishæft atvinnulíf.
    Kolefnishlutleysi er leiðarljós markmiðsins sem miðar að því að auka til muna bindingu gróðurhúsalofttegunda en Ísland er aðili að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), en einnig hefur Íslands sett sér metnaðarfyllra landsmarkmið um þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021–2030 miðað við árið 1990. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er kveðið á um að kolefnisbinding með bættri landnotkun verði stóraukin. Áhersla á kolefnisbindingu er einnig hluti af Landi og lífi, landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt til ársins 2031. Þessar áætlanir, auk samgönguáætlunar fyrir árin 2020–2034 ( þingsályktun nr. 41/150) og Orkustefnu til 2050, endurspegla ásetning um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga gegna mikilvægu hlutverki við stefnumörkun í loftslagsmálum þar sem þar eru teknar ákvarðanir um fyrirkomulag byggðar og landnotkunar. Með áherslum og aðgerðum í skipulagi er hægt að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu með ýmsum hætti.
    Stefna stjórnvalda í orkuskiptum felur í sér að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og minnka hlutfall jarðefnaeldsneytis, birtist þessi stefna til að mynda í Orkustefnu til ársins 2050 og aðgerðaáætlun henni tengdri.
    Stefnu stjórnvalda er varðar vindorku má m.a. finna í rammaáætlun og í ríkisstjórnarsáttmála þar sem lögð áhersla á nýtingu vindorku og stefnt að því að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum.
    Stefna stjórnvalda um vernd vatns, þ.m.t. strandsjávar og árósavatns, er sett fram í lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, og í vatnaáætlun Íslands 2022–2027. Markmiðið er að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar.
    Í lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, er lögð áhersla á að skipulag veiti grundvöll fyrir fjölbreyttri nýtingu auðlinda haf- og strandsvæða sem byggist á heildarsýn á málefni hafsins, vistkerfanálgun og vernd náttúru og menningarminja, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, þar sem tekið er mið af áhrifum vegna loftslagsbreytinga. Ísland er aðili að Alþjóðasiglingamálastofnuninni, IMO og alþjóðasamningi um öryggi mannslífa á hafinu, SOLAS-samningnum. Í því fellst að taka skuli mið af alþjóðlegum tilmælum og viðmiðunarreglum um leiðsögukerfi sjófarenda sem taka skal mið af við ákvörðun um starfsemi á haf- og strandsvæðum.
    Stefna stjórnvalda í ferðaþjónustu er fyrst og fremst sett fram í stefnuramma íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Meginmarkmið stefnurammans er sjálfbær þróun greinarinnar með arðsamri og samkeppnishæfri ferðaþjónustu í sátt við land og þjóð. Ísland er þátttakandi í norrænni samstarfsáætlun um byggðaþróun og skipulagsmál 2021–2024 (Norræn samstarfsáætlun um byggðaþróun og skipulagsmál 2021–2024 – Fyrir græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd) þar sem er lögð áhersla á samkeppnishæf atvinnusvæði í þéttbýli og dreifbýli.
    Stefna stjórnvalda um nýtingu landbúnaðarlands birtist m.a. í jarðalögum, nr. 81/2004, þar sem eru ákvæði um vernd landbúnaðarlands með það að markmiði að tryggja fæðuöryggi til framtíðar með því að varðveita land sem er vel fallið til búvöruframleiðslu. Í þingsályktun um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, nr. 21/153, ásamt byggðaáætlun 2022–2036 ( þingsályktun nr. 27/152) og matvælastefnu til ársins 2040 (þingsályktun nr. 20/153) er jafnframt lögð áhersla á aukið fæðuöryggi með eflingu innlendrar landbúnaðarframleiðslu.

3.2. Um skipulag miðhálendisins.
    Í landsskipulagsstefnu skal ávallt marka stefnu um skipulagsmál á miðhálendinu. Sú stefna sem nú er sett fram í landsskipulagsstefnu um skipulag á miðhálendinu byggist á þeirri stefnu sem sett var með landsskipulagsstefnu 2015–2026.

Afmörkun miðhálendisins:
    Afmörkun miðhálendisins er skilgreind í landsskipulagsstefnu, en hún markar það svæði sem stefna um skipulagsmál á miðhálendinu tekur til. Afmörkun miðhálendisins var sett fram í landsskipulagsstefnu 2015–2026 og miðast í grunninn við línu dregna á milli heimalanda og afrétta sem var aðlöguð staðbundið í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila við vinnslu svæðisskipulags miðhálendis Íslands 2015. Markalína miðhálendisins er og skal áfram vera auðkennd á aðalskipulagsuppdráttum þeirra sveitarfélaga sem ná inn á miðhálendið. Skipulagsstofnun skal varðveita hnitsetta afmörkun miðhálendisins og veita aðgang að henni. Sveitarstjórnir geta lagt til breytingar á markalínu miðhálendisins við endurskoðun aðalskipulags, enda feli breytingin í sér að endurskoðuð markalína afmarki betur náttúrufarslega heild hálendisins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Kort 1: – Miðhálendismörk.

Um sjálfbæra gróðurframvindu á miðhálendinu.
    Mikilvægt er að skipulagsgerð stuðli að vernd og viðhaldi gróðurs, jarðvegs og líffræðilegrar fjölbreytni, að dregið sé úr jarðvegseyðingu og staðinn vörður um vistkerfi/endurheimta vistkerfi sem hafa raskast, ekki síst í þeim tilgangi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi og auka kolefnisbindingu. Á miðhálendinu á sér enn stað jarðvegsrof. Mikilvægt er að stuðla að því að landnotkun á miðhálendinu verði sjálfbær og að hún valdi ekki gróður- eða jarðvegseyðingu eða hamli náttúrulegri gróðurframvindu á illa förnu landi. Lykilatriði í því sambandi er samráð við ferðaþjónustu, bændur og aðra sem eiga nýtingarrétt á svæðinu. Lögð er áhersla á að skipulagsákvarðanir um beit og landgræðslu byggist á áætlunum um uppgræðslu lands, svo sem landbótaáætlunum fyrir upprekstrarlönd og afrétti sem unnar eru samkvæmt reglugerð nr. 511/2018, auk gildandi stefnu í náttúruvernd. Mikilvægt er að stöðvun jarðvegsrofs og uppgræðsla lands á miðhálendinu stuðli að líffræðilegri fjölbreytni og virkni vistkerfa. Sérstaklega verði gætt að notkun framandi tegunda við landgræðslu, sbr. ákvæði laga um náttúruvernd. Jafnframt er mikilvægt að viðhalda samstarfi bænda, Lands og skógar og sveitarfélaga um sjálfbæra landnotkun og viðhald og endurreisn landgæða. Einnig verði leitað samráðs við rannsóknar- og fagstofnanir á þessu sviði.

Um hverfisvernd á miðhálendinu.
    Með hverfisverndarákvæðum í skipulagsáætlunum geta sveitarfélög sett fram nánari stefnu um hvers þarf að gæta á viðkomandi svæði, m.a. varðandi mannvirkjagerð, umferð, uppgræðslu eða beitarafnot, svo sem vegna sérstæðra jarðmyndana, viðkvæms gróðurs, landslags eða söguminja. Við getur átt að útfæra landsskipulagsstefnu um víðerni og náttúrugæði hálendisins með hverfisvernd. Undirbúningur friðlýsingar getur tekið langan tíma og þannig getur fyrirsjáanlega nokkur tími liðið frá því að svæði er skilgreint í verndarflokk í rammaáætlun eða sett fram í náttúruverndaráætlun, þar til gengið hefur verið frá friðlýsingu.
    Með hverfisvernd í skipulagsáætlun getur sveitarstjórn tryggt varðveislu viðkomandi svæðis þar til friðlýsing hefur farið fram og ef tilefni þykir til haft áfram hverfisverndarákvæði jafnframt friðlýsingarskilmálum, þegar þeir liggja fyrir. Hverfisvernd til varnar gegn álagi tekur eðli málsins samkvæmt mið af aðstæðum á hverjum stað, svo sem með tilliti til þess hvort unnt er að girða landið af eða landfræðilegra aðstæðna.
    Í samræmi við áherslu landsskipulagsstefnu á verndun víðerna á miðhálendinu er eðlilegt að sveitarfélög sem land eiga á miðhálendinu skilgreini slík svæði sem „óbyggð svæði“, sbr. skipulagsreglugerð, og eftir atvikum einnig hverfisvernduð í aðalskipulagi.

Um varðveislu fjölbreytts og verðmæts landslags.
    Mikilvægt er að skipulagsgerð sé beitt til að tryggja að staðsetning og útfærsla nýrra mannvirkja og byggðar hámarki tækifæri til að varðveita fjölbreytt og verðmætt landslag, svo sem óbyggð víðerni, sérstakar landslagsheildir og búsetulandslag sem hefur menningarlegt gildi.
    Í landsskipulagsstefnu er lögð áhersla á varðveislu víðerna og náttúru hálendisins. Þannig verði mannvirkjagerð innan hálendisins áfram takmörkuð og uppbyggingu umfangsmeiri mannvirkja og þjónustu beint á jaðar miðhálendisins og að meginleiðum um hálendið þannig að hún rýri ekki víðerni eða landslagsheildir þess.
    Mikilvægt er fyrir skipulagsvinnu að hafa yfirsýn yfir umfang og þróun víðerna. Til stendur að ljúka vinnu við kortlagningu víðerna og uppfæra kortlagninguna reglulega (aðgerð 13 í aðgerðaáætlun).
    Umhverfisstofnun kortlagði víðerni landsins árið 2009 í samræmi við skilgreiningu á „ósnortnum víðernum“ í þágildandi náttúruverndarlögum, nr. 44/1999. Síðan þá hafa tekið gildi ný náttúruverndarlög, nr. 60/2013, þar sem hugtakið „óbyggð víðerni“ hefur tekið við af „ósnortnum víðernum“ ásamt því að skilgreiningu þeirra verið breytt og orðunum „að jafnaði“ bætt framan við stærðar- og fjarlægðarmörk. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur heimild í náttúruverndarlögum til þess að setja reglugerð um kortlagningu óbyggðra víðerna og þau viðmið sem notast skal við. Mikilvægt er fyrir skipulagsvinnu að hafa yfirsýn yfir umfang og þróun víðerna og því stendur til að ljúka vinnu við kortlagningu víðerna í ljósi nýrra skilgreininga og uppfæra kortlagninguna reglulega, sbr. aðgerð 13 í aðgerðaáætlun.

Um skipulag um uppbyggingu ferðaþjónustu.
    Fjölgun ferðamanna og aukin útivist getur valdið auknu álagi á ferðamannastöðum og eru vísbendingar um að ákveðnir vinsælir staðir, m.a. á miðhálendinu, séu komnir að þolmörkum vegna mikillar umferðar. Mikilvægt er að skipulag stuðli að því að álag fari ekki yfir þolmörk, en þolmörk má skilgreina sem þann fjölda gesta sem svæði getur tekið á móti áður en neikvæðra áhrifa af einhverju tagi fer að gæta. Við stjórnun og uppbyggingu ferðamannastaða á miðhálendinu þarf að taka mið af þolmörkum náttúru, innviða, ferðamanna og samfélags, á grunni gagna, svo sem ástandsmati áfangastaða innan friðlýstra svæða, eins og kostur er og þar sem við á. Skýr stefna um áfangastaði með tilliti til ferðamennsku er jafnframt forsenda þess að þolmarkagreiningar nýtist við stjórnun og skipulag þeirra.
    Landslag, bæði náttúrulegt og manngert, er meginaðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn. Hugað verður að varðveislu landslags til þess að stuðla að því að Ísland haldi sérstöðu sinni og aðdráttarafli sem áfangastaður ferðamanna. Sérstaklega verður gætt að því að óbyggðaupplifun og náttúrugæði á miðhálendinu skerðist sem minnst, vegna mannvirkja, framkvæmda og umferðar.
    Í aðalskipulagi þarf sérstaklega að gera grein fyrir þörf fyrir áformaða uppbyggingu og skýra hvernig hún fellur að markmiðum um varðveislu víðerna og náttúrugæða. Jafnframt er mikilvægt að sveitarfélög hafi samráð við nágrannasveitarfélög þannig að samræmi sé í áformum og áherslum varðandi uppbyggingu og ferðaþjónustu svæðisbundið, þannig að möguleg tækifæri til náttúruskoðunar og uppbyggingar ferðaþjónustu séu sem best nýtt án þess að raska náttúrugæðum.

Um ferðaþjónustustaði á miðhálendinu.
    Líkt og í fyrri landsskipulagsstefnu er fylgt stefnu svæðisskipulags miðhálendis Íslands 2015 varðandi staðsetningu, eðli og umfang uppbyggingar ferðamannaaðstöðu á hálendinu. Áfram er gert ráð fyrir að uppbygging ferðamannaaðstöðu verði takmörkuð á hálendinu og að megináhersla verði á uppbyggingu ferðaþjónustu á jaðarsvæðum hálendisins og á afmörkuðum svæðum í nánd við aðalvegi um hálendið. Í því skyni eru áfram skilgreindir fjórir flokkar ferðaþjónustustaða (jaðarmiðstöðvar, hálendismiðstöðvar, skálasvæði og fjallasel) og skilgreindur fjöldi og staðsetning þriggja fyrstnefndu flokkanna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Kort 2:– Ferðaþjónustustaðir á miðhálendinu

Skilgreining á uppbyggingarflokkum ferðaþjónustustaða á hálendinu er eftirfarandi:
    Jaðarmiðstöðvar:
  —      Eru staðsettar við meginleiðir inn á hálendið, á jaðarsvæðum hálendisins og efst í byggð.
  —      Bjóða upp á alhliða þjónustu við ferðamenn.
  —      Bjóða upp á möguleika á ferðaþjónustu allan ársins hring.
  —      Bjóða upp á gistingu á hótelum, gistiheimilum eða í gistiskálum, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, og reglugerð nr. 585/2007, auk tjaldsvæða.
Gert er ráð fyrir fjórum jaðarmiðstöðvum innan hálendismarka, en auk þess er hægt að gera ráð fyrir jaðarmiðstöðvum neðan hálendismarka í aðalskipulagi.
    Jaðarmiðstöðvarnar eru: Áfangi við Kjalveg, Hólaskógur og Hrauneyjar við Sprengisandsleið og Möðrudalur við Möðrudalsleið.
    Hálendismiðstöðvar:
  —      Eru staðsettar við meginleiðir um hálendið.
  —      Þjónustustarfsemi felst fyrst og fremst í rekstri gistingar og tjaldsvæða auk fræðslu og eftirlits, en einnig getur verið um einhvern verslunar- og veitingarekstur að ræða.
  —      Gisting er almennt í gistiskálum, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð, nr. 585/2007, auk tjaldsvæða. Einnig möguleiki á að bjóða upp á hótel- og gistiheimilagistingu, sbr. reglugerð 585/2007, enda
  —      sé slík gisting aðeins hluti gistiframboðs á viðkomandi stað og falli að öllu leyti að kröfum um óbyggðaupplifun.
  —      Gert er ráð fyrir samfelldri ferðaþjónustu yfir sumarið og jafnframt möguleika á einhverri starfrækslu yfir vetrartímann.
    Gert er ráð fyrir eftirtöldum níu hálendismiðstöðvum: Hveravöllum, Kerlingarfjöllum og Árbúðum við Kjalveg, Hólaskjóli við Fjallabaksleið, Háumýrum og Laugafelli við Sprengisandsleið og Drekagili, Kárahnjúkum og Laugarfelli norðan Vatnajökuls.
    Skálasvæði:
  —      Eru í góðu vegasambandi.
  —      Gisting er í gistiskálum, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð nr. 585/2007, auk tjaldsvæða.
  —      Gert er ráð fyrir ferðaþjónustu yfir sumarið og jafnframt möguleika á einhverri starfrækslu yfir vetrartímann.
  —      Þjónustustarfsemi felst fyrst og fremst í rekstri gistiskála og tjaldsvæða auk fræðslu og eftirlits.

    Eftirtalin eru þau 33 skálasvæði sem gert er ráð fyrir: Geitlandsskáli við Langjökul, Skálpanes, Úlfsvatn, Norðlingafljót, Arnarvatn stóra, Galtará, Strangakvísl, Ingólfsskáli við Lambafell, Herðubreiðarlindir, Kiðagil, Suðurárbotnar, Kverkfjöll, Laugavellir, Snæfell, Skálafellsjökull, Galti, Markarfljótsskáli, Hvanngil, Álftavatn, Landmannalaugar, Landmannahellir, Tjaldvatn, Versalir, Nýidalur, Hágöngur, Fagriskógur, Básar, Húsadalur, Langidalur, Svínárnes, Gljúfurleit, Hagavatn og Tjaldafell.
    Fjallasel:
  —      Við ákvörðun um staðsetningu nýrra fjallaselja skal tekið mið af því að fjarlægð milli jaðar- og hálendismiðstöðva, skálasvæða og fjallaselja sé jafnan hæfileg dagleið fyrir göngufólk.
  —      Gisting er í gistiskálum, sbr. lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð nr. 585/2007, auk tjaldsvæða.
  —      Eru að jafnaði stakir fjallaskálar, en eftir atvikum getur einnig verið hesthús eða önnur smærri fylgihús. Almennt einnig möguleiki á tjaldgistingu.
  —      Þjónustustarfsemi felst í rekstri gistiskála og tjaldsvæðis auk fræðslu og eftirlits.

Greining á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja á hálendinu.
    Með aðgerð 12 í aðgerðaáætlun um greiningu á þörf fyrir uppbyggingu á hálendinu verður leitast við að meta hvort þörf sé á að breyta áherslum í mannvirkjagerð fyrir næstu endurskoðun landsskipulagsstefnu, byggt á greiningum á þolmörkum áfangastaða miðhálendisins, en slík gögn hefur skort. Þar verði m.a. endurskoðuð og eftir atvikum sett frekari viðmið um fjölda og staðsetningu ferðaþjónustustaða á hálendinu, yfirbragð þeirra og búnað.

Um flutningskerfi raforku á miðhálendinu.
    Stefna um hvort nýta megi landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti til endurnýjanlega orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar er sett fram í rammaáætlun. Áður en virkjunarkostur innan miðhálendisins er settur í orkunýtingarflokk þarf að leggja mat á hvaða áhrif hann hefur á víðerni og náttúru hálendisins. Í því felst að leggja mat á svæðisbundin samlegðaráhrif viðkomandi virkjunarkosts og annarra virkjunarkosta og mannvirkja, þar á meðal fyrirsjáanlegri mannvirkjagerð vegna flutnings orku frá virkjuninni. Slíkt mat skal fara fram við umhverfismat rammaáætlunar samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana.
    Áætluð framtíðarþróun flutningskerfis raforku á landsvísu er sett fram í kerfisáætlun Landsnets. Nýjar flutningslínur raforku geta samrýmst landsskipulagsstefnu falli þær að þeim áherslum sem þar eru settar fram um verndun víðerna og náttúrugæða þar sem um er að ræða kosti sem valda minnstum sjónrænum eða öðrum neikvæðum umhverfisáhrifum. Áður en til ákvarðana um byggingu slíkra mannvirkja kemur hafi farið fram mat á þörf fyrir uppbyggingu og umhverfismat í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana og raforkulög, bæði á viðkomandi áætlunum og einstökum framkvæmdum þegar kemur að undirbúningi þeirra. Samkvæmt raforkulögum er gert ráð fyrir að við gerð kerfisáætlunar sé tekið tillit til fyrirliggjandi þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Í þingsályktuninni er í viðmiðum um lagningu raflína m.a. gert ráð fyrir að sjónræn áhrif vegna flutningsmannvirkja eða önnur umhverfisáhrif séu sem minnst.
    Mikilvægt er að í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og í kerfisáætlun verði bornir saman helstu þróunarkostir raforkukerfisins á grundvelli valkostagreiningar, lagt mat á umhverfisáhrif og tekin afstaða til framtíðarþróunar meginflutningskerfisins. Ef þörf er talin á raflínum innan miðhálendisins skal við greiningu og samanburð kosta skoða alla raunhæfa möguleika með það að markmiði að takmarka eins og kostur er skerðingu víðerna og náttúrugæða miðhálendisins. Í umhverfismati rammaáætlunar og viðkomandi skipulagsáætlana þarf að fjalla um umhverfisáhrif fyrirhugaðra flutningsmannvirkja á viðkomandi svæði og bera saman þá kosti sem til greina koma. Við skipulagningu og hönnun framkvæmda við orkuvinnslu og orkuflutning verði dregið eins og kostur er úr áhrifum á víðerni, sérkenni og náttúrugæði miðhálendisins

Um uppbyggingu fjarskiptamannvirkja.
    Í landsskipulagsstefnu er lögð áhersla á að skipulagsáætlanir gefi kost á uppbyggingu traustra fjarskipta, en jafnframt að við staðarval og útfærslu fjarskiptamannvirkja sé sérstaklega gætt að því að þau valdi sem minnstu raski og hafi sem minnst sjónræn áhrif. Þetta er sérstaklega mikilvægt á miðhálendinu þar sem miðað er að því að standa eins og kostur er vörð um víðerni og óbyggðaupplifun.

Um samgöngur á miðhálendinu.
    Skipulagsákvæði um vegi á miðhálendinu felur í sér að vegaframkvæmdum verði haldið í lágmarki, möskvar vegakerfisins verði sem stærstir og að hönnun allra vega taki mið af náttúruvernd, sérstaklega með tilliti til landslags, víðerna og verndar viðkvæmra svæða. Ferðamannaleiðir (gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir) verði eftir því sem kostur er aðskildar frá meginvegakerfi miðhálendisins. Þá verði í skipulagsáætlunum sveitarfélaga jafnframt tekin afstaða til þess hvar gera megi ráð fyrir lendingarstöðum þyrla og flugvéla og eftir atvikum afmörkuð kyrrlát svæði án umferðar vélknúinna farartækja á lofti og landi.
    Á miðhálendinu eru skilgreindir fjórir stofnvegir samkvæmt samgönguáætlun 2020–2034 ( þingsályktun nr. 41/150) en það eru Sprengisandsleið, Kjalvegur, Fjallabaksleið nyrðri og Kaldadalsvegur. Stofnvegir miðhálendisins tengja vegakerfi hálendisins við þjóðvegi á láglendi. Út frá stofnvegum miðhálendisins liggja landsvegir sem eru einnig hluti þjóðvegakerfisins. Stofnvegir ná einnig inn á miðhálendið þar sem hringvegurinn liggur um Holtavörðuheiði, Möðrudalsöræfi og Háreksstaðaleið. Landsskipulagsstefna gengur út frá að áfram verði unnið samkvæmt þeirri stefnu sem sett var fram í landsskipulagsstefnu 2015–2026, þ.e. að stofnvegir um miðhálendið skuli byggðir upp sem góðir sumarvegir með brúuðum ám og færir fólksbílum. Miðað sé við að þeir geti verið opnir a.m.k. 4–6 mánuði á ári, eftir atvikum með þungatakmörkunum á vorin þegar jarðvegur er að þiðna.
    Í náttúruverndarlögum, nr. 60/2013, er skilgreint fyrirkomulag stjórnsýslu og ákvarðana um aðra vegi og vegslóða en þá sem falla undir þjóðvegakerfið. Í landsskipulagsstefnu er gengið út frá því að allir vegir og vegslóðar aðrir en þjóðvegir verði skráðir í skrá í stafrænum kortagrunni sem Vegagerðin heldur. Sveitarfélög geri tillögur um hvaða vegir og vegslóðar skuli skráðir í kortagrunninn, samhliða afgreiðslu aðalskipulags. Nánar er mælt fyrir um skráningu í lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013. Að auki verði skipulagsgerð nýtt til að skilgreina ferðaleiðir, það er leiðir ferðamanna gangandi, ríðandi og hjólandi.
    Frá því að stefna um þjóðvegi á miðhálendinu leit fyrst ljós árið 1999 í svæðisskipulagi miðhálendisins hafa stofnvegir þess lítið þróast og stór hluti þeirra teljast ekki góðir sumarvegir færir fólksbílum. Á sama tíma hefur umferð um miðhálendið stóraukist. Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 (þskj. 319 á 154. lögþ.) er sett fram aðgerð um þróun samgöngukerfisins á miðhálendi landsins. Einnig er sett nú fram aðgerð í landsskipulagsstefnu sem snýr að stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins, sbr. aðgerð 6 í aðgerðaáætlun. Mikilvægt er að slík vinna sé unnin í breiðu samráði og taki mið af niðurstöðum annarra aðgerða sem snúa að miðhálendinu, svo sem kortlagningu víðerna og uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja.
    Þar til endurskoðuð stefna liggur fyrir um útfærslu vega á miðhálendinu, sbr. að framan, verður þess gætt við endurbyggingu stofnvega um miðhálendið að laga þá eftir föngum að landi.

3.3. Mælikvarðar landsskipulagsstefnu.
    Mælikvarðar landsskipulagsstefnu taka mið af skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum og markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér og styðja við að meta hvort skipulagsmál séu á réttri leið.

    Tafla 1: Mælikvarðar vernd umhverfis og náttúru
Staða 2022 Viðmið 2024 Viðmið 2028
A Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda* 14.060 kt CO2e 14.015 kt CO2e 13.422 kt CO2e
B Hlutfall hafsvæða með fullnægjandi verndun vistkerfa** 2% hafsvæða 5% hafsvæða 30% hafsvæða
C Hlutfall landssvæða með fullnægjandi verndun vistkerfa** Liggur ekki fyrir Liggur ekki fyrir 30% landssvæða
D Hlutfall óbyggðra víðerna*** 38.000 km2 Ný kortlagning =Grunnár nýrrar kortlagningar
* Upplýsingar um stöðu losunar gróðurhúsalofttegunda eru frá 2021
** Svæði sem njóta formlegrar verndar samkvæmt lögum og alþjóðasamningum sem eru á ábyrgð URN og MAR.
*** Upplýsingar um stöðu víðerna miðast við kortlagningu UST árið 2009. Unnin verður ný kortlagning út frá nýjum viðmiðum sem skilgreind verða á grundvelli laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Gera má ráð fyrir að víðerni stækki út frá nýjum viðmiðum.

    Tafla 2 Mælikvarðar velsældar samfélags

Staða 2022 Viðmið 2024 Viðmið 2028
A Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegsamgöngum* 860 kt CO2e 900 kt CO2e 759 kt CO2e
B Hlutfall heimila með íþyngjandi húsnæðiskostnað* 12,8% 12,8% 12,0%
C Hlutfall vistvæns ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu 25% 26% 28%
D Hlutfall vistvæns ferðamáta utan höfuðborgarsvæðisins 23% 24% 26%
* Upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og íþyngjandi húsnæðiskostnað eru frá 2021

    Tafla 3 Mælikvarðar samkeppnishæfs atvinnulífs
Staða 2022 Viðmið 2024 Viðmið 2028
A Kolefnisbinding 509 kt CO2e* 550 kt CO2e 604 kt CO2e
B Hlutfall góðs ræktar-lands Liggur ekki fyrir Ný kortlagning = Grunnár
kortlagningar
C Hlutfall endurnýjanlegrar orku** 90% 92% 94%
* Upplýsingar um kolefnisbindingu eru frá árinu 2021
** Upplýsingar um endurnýjanlega orku eru frá árinu 2020

4. Áhrif á íslenskt samfélag.
Áhrif í alþjóðlegum samanburði.
    Aðgerðaáætlun stefnunnar felur í sér fjölmargar aðgerðir til að stuðla að því að styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði. Þar má sérstaklega nefna áherslur og veigamiklar aðgerðir til að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð þar sem tekið er mið af mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og innviði.
    Loftslagsbreytingar fela í sér miklar áskoranir í landnotkun og hinu byggða umhverfi sem kalla á breytta nálgun og miðlun þekkingar varðandi skipulag landnotkunar. Eitt af leiðarljósum landsskipulagsstefnu er því að skipulag sé loftslagsmiðað. Í því felst m.a. markmið um aðlögun að loftslagsbreytingum sem styrki viðnámsþrótt samfélaga til langs tíma. Jafnframt er mikil áhersla á að sveitarfélög útfæri í skipulagi hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Landsskipulagsstefna styður við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum en þar kemur fram að ábyrgð á framkvæmd fjölda loftslagsaðgerða liggur hjá sveitarfélögum. Ákvarðanir sem teknar eru við gerð skipulagsáætlana eru lykilþáttur í að ná samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Telja má fullvíst að árangur af slíkri stefnumótun verði meiri ef horft er til stærri svæða en einstakra sveitarfélaga. Áherslur um loftslagstengd viðfangsefni eru settar fram undir öllum markmiðum enda fela loftslagsbreytingar í sér miklar áskoranir í landnotkun og hinu byggða umhverfi.
    Áherslur landsskipulagsstefnu um að í skipulagi verði stefna um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggð, samgöngum og landnotkun, innleiða orkuskipti og skapa skýrari forsendur til innlendrar orkuframleiðslu taka mið af markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun lofthjúpsins vel innan við 2°C en að markmið verði að halda hlýnun innan við 1,5°C. Áhersla er á að auka kolefnisbindingu. Sjónum er einnig beint að losun sem ekki fellur undir ábyrgð Íslands í alþjóðasamningum, t.d. með því að lágmarka kolefnisspor mannvirkja og bygginga.
    Í landsskipulagsstefnu eru sett fram markmið um vernd umhverfis og náttúru og er áhersla m.a. á að efla náttúrumiðaðar lausnir í skipulagi sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum. Stefnumótunin stuðlar að því að gripið sé til aðgerða til að draga úr hnignun búsvæða og líffræðilegrar fjölbreytni og er hún líkleg til að auka viðnámsþrótt vistkerfa. Jafnframt er áhersla á að draga úr jarðvegseyðingu og að endurheimta vistkerfi sem hafa raskast. Stefnan endurspeglar því áherslur sem koma fram í alþjóðlegum samningum er varðar lífríki sem og áherslum sem koma fram í innlendum áætlunum um að varðveita, endurheimta og styðja við sjálfbæra nýtingu vistkerfa og þjónustu þeirra. Stefnan getur þannig stuðlað að því að styrkja ímynd landsins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og matvælaframleiðslulands.
    Markmið landsskipulagsstefnu um velsæld samfélags er samtvinnað markmiðum um samkeppnishæft atvinnulíf. Stefnan er líkleg til að hafa jákvæð áhrif á atvinnu en hún styður við atvinnulíf með áherslu á góða innviði og tengingu byggða, ásamt áherslu á að jafna búsetuskilyrði í byggðum landsins. Hugað er að sjálfbærri nýtingu auðlinda og uppbyggingu atvinnulífs í sátt við samfélag og náttúru. Áhersla á alþjóðlega samkeppnishæfni beinir sjónum að samspili atvinnulífs og aðlaðandi samfélags og er líkleg til að styrkja atvinnulíf til framtíðar, auka nýsköpun og tryggja komandi kynslóðum samfélag sem er eftirsótt til búsetu.
    Árangur stefnunnar hvað varðar markmið um að auka samkeppnishæfni getur m.a. oltið á því að atvinnustarfsemi er í alþjóðlegri samkeppni þar sem miklu skiptir að hafa öfluga innviði og tryggar tengingar m.a. við alþjóðaflugvelli og aðrar flutningaleiðir til nærliggjandi landa ásamt aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum. Til að laða til landsins fyrirtæki og mannauð þarf að leggja áherslu á gott menntakerfi og byggja upp mannauð og stjórnsýslu sem stenst alþjóðlegan samanburð, ásamt því að lögð verði áhersla á sjálfbærni borgarsvæða, sem verði eftirsótt til búsetu og atvinnu og skapi umgjörð fyrir efnahagslega drifkrafta og nýsköpun.

Sveitarfélögin – Landshlutar.
    Í landsskipulagsstefnu eru sett fram leiðarljós um áherslur í skipulagsmálum til útfærslu í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Það er síðan á valdi hverrar sveitarstjórnar að útfæra hvernig hún telur eiga við að vinna úr þeirri stefnu innan sinnar skipulagslögsögu og í samvinnu við önnur sveitarfélög þegar þannig háttar til. Í ákveðnum tilvikum kann landsskipulagsstefna þó að setja nýjar kröfur á sveitarfélög varðandi gagnaöflun og áherslur í skipulagsvinnu. Þetta getur t.d. átt við um þá áherslu varðandi landnotkun í dreifbýli að varðveita gott landbúnaðarland til að stuðla að fæðuöryggi og greina hvaða svæði geta hentað fyrir landnotkun í þágu kolefnisbindingar og vindorkuframleiðslu. Einnig eru sett fram nýmæli um að landslagsgreining verði lögð til grundvallar í skipulagi til að efla þau gæði sem felast í landslagi, náttúrulegu og byggðu umhverfi. Þannig verði gætt að fjölbreyttu og verðmætu landslagi við skipulagsgerð og vandað til staðarvals og hönnunar mannvirkja og byggðar. Settar eru fram aðgerðir sem miða að því að útvega sveitarfélögum til þess bær verkfæri ásamt bestu fáanlegu gögnum hverju sinni, sem mun draga úr kostnaðaráhrifum þessara krafna. Ýmsar aðgerðir eru fjármagnaðar með framlagi viðkomandi ábyrgðarráðuneyta. Heildarkostnaður aðgerðaáætlunar liggur ekki fyrir en mun ráðast af fjárheimildum fjárlaga hverju sinni og nánara kostnaðarmati sem gert verður í tengslum við verkefnisáætlun fyrir hverja aðgerð. Einnig er vinnu að ljúka við að endurskoða álagningu og ráðstöfun skipulagsgjalds til sveitarfélaga þar sem gagnrýni hefur komið fram er varðar annars vegar skiptingu þess milli sveitarfélaga og hins vegar að einungis hluti gjaldsins rennur til skipulagsgerðar sveitarfélaga og annarra verkefna á sviði skipulagsmála samkvæmt fjárlögum. Ætlunin er að tryggja að sveitarfélög, skipulagsráðgjafar og hönnuðir hafi auðvelt aðgengi að bestu upplýsingum hverju sinni. Jafnframt er markmið að ná vitundarvakningu um loftslagsáhrif byggðar, samgangna og landnotkunar og loftslagsvæns lífsstíls með aðgengilegum upplýsingum um skipulag og innviði.
    Margar áherslur og aðgerðir hafa það markmið að efla byggðir um allt land. Lögð er áhersla á að við skipulagsgerð verði skilgreindir meginkjarnar í hverjum landshluta og vinnusóknar- og þjónustusvæði þeirra. Uppbyggingu innviða, þar á meðal samgangna, verði hagað þannig að hún sé til þess fallin að styrkja kjarnana sem sjálfbæra burðarása viðkomandi nærsamfélags og að uppbygging og rekstur öruggra samgangna efli atvinnulíf bæði innan og milli landshluta. Með bættum samgöngum, tryggari þjónustu í nærumhverfi og fjölbreyttum atvinnutækifærum styður stefnan við jafnræði ólíkra hópa í samfélaginu. Landið í heild sinni þarf að vera eftirsóknarverður kostur fyrir ungt fólk.
    Af umsögnum í samráðsgátt stjórnvalda um Hvítbók um skipulagsmál (mál nr. S-167/2023) má ráða að framangreindir þættir landsskipulagsstefnu mælast almennt vel fyrir og er ekki annars að vænta en að sveitarfélög muni kappkosta að útfæra þá nánar í svæðis- og aðalskipulagi sínu. Settar eru fram tillögur um aðgerðir til að útvega sveitarfélögum nauðsynleg verkfæri og gögn til að mæta nýjum viðfangsefnum í skipulagsgerð, svo sem með leiðbeiningum og grunnkortum.
    Vönduð samþætting samgöngukerfa og byggðar er undirstaða gæða hins byggða umhverfis. Samhliða markvissum orkuskiptum er nauðsynlegt að auka hlutdeild vistvæns ferðamáta til að ná markmiði stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta gefur möguleika á að útfæra t.d. göturými með tilliti til fjölþætts hlutverks gatna sem umferðarleiða og bæjarrýma. Með því að sveitarfélög setji sér stefnu um inniviði fyrir loftslagsvænar samgöngur er hægt að samtengja kerfi samgangna með áherslu á vistvænan ferðamáta.

Almenningur og einstakir hópar.
    Áhrif á samfélag og heilbrigði eru líkleg til að vera jákvæð, stuðla að jákvæðri þróun búsetuskilyrða og góðu samfélagi. Markmið er að samfélög þróist þannig að þau verði loftslagsvænni, nýti auðlindir á sjálfbæran hátt og stuðlað verði að seiglu gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga og náttúruvár.
    Húsnæðisöryggi og þörf fyrir betra jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á húsnæðismarkaði er áhersla sem er brýn og kallar á markvisst samstarf ríkis og sveitarfélaga. Þarfir landsmanna fyrir húsnæði eru fjölbreyttar og er áhersla á að uppbygging húsnæðis mæti ólíkum þörfum íbúa, með tilliti til efnahags. Áskoranir í húsnæðismálum eru mismunandi á milli landshluta en þörf er á húsnæðisuppbyggingu um allt land og í sumum landshlutum hefur húsnæðisskortur áhrif á atvinnuþróun. Til að tryggja gott yfirlit yfir byggingarheimildir verður komið á fót lifandi gagnagrunni með samtímaupplýsingum sem gefur yfirlit yfir heimildir til íbúðauppbyggingar á þegar skipulögðum íbúðareitum og á þeim reitum sem eru í skipulagsferli. Horft verður sérstaklega til þeirra möguleika sem felast í stafrænni deiliskipulagsgerð. Ein af forsendum þess að markmið um íbúðauppbyggingu sé í samræmi við þörf er að skipulags- og leyfisveitingaferlar verði einfaldaðir. Í aðgerðaáætlun eru lagðar til aðgerðir sem miða að því.
    Ástæða er til að nefna sérstaklega að erlendu verkafólki hefur fjölgað mikið á undanförnum árum, auk þess sem stríð í Úkraínu og fleiri ástæður hafa leitt til mikillar fjölgunar fólks sem leitar að betra lífi á Íslandi. Þessir þjóðfélagshópar eru almennt ekki í aðstöðu til að kaupa íbúðarhúsnæði hér á landi og kallar þessi þróun á að leigumarkaður þróist og eflist. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-201/2023) og fjallar meðal annars um að auka öryggi fólks sem býr í húsnæði þar sem ekki er heimilt að skrá fasta búsetu. Í hvítbók um húsnæðismál (mál nr. S-139/2023) er m.a. gert ráð fyrir að þrengja heimildir til skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis, en ljóst er að áframhaldandi fjölgun slíkra leiguíbúða mun hafa neikvæð áhrif á framboð af almennu íbúðarhúsnæði.

Atvinnulíf.
    Umhverfisáhrif einnar atvinnugreinar geta haft áhrif á afkomu annarrar og tiltekin landsvæði geta hentað fyrir fleiri en eina gerð landnotkunar. Innviðir tengdir flutningskerfum fyrir orku, vatn og varma, en einnig þeir sem snúa að flutningi, samgöngum og fjarskiptum, geta haft mismikil áhrif á íbúa og dæmi eru um að ágreiningur skapist um staðsetningu þeirra og hvernig gerð er grein fyrir þeim í skipulagi. Þannig geta orkuinnviðir bætt atvinnuöryggi og nýsköpun, einkum á svæðum þar sem aðgangur að raforku er hamlandi þáttur. Úr sumum þessara ágreiningsmála hefur reynst torvelt að leysa, sem hefur haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni landsins og einstakra landshluta. Gert er ráð fyrir frekari framþróun við skipulag haf- og strandsvæða, þar sem sú reynsla sem fékkst með gerð strandsvæðisskipulags Vestfjarða og Austfjarða er lögð til grundvallar. Í aðgerðaáætlun með tillögu þessari er sett er fram aðgerð um að hefja vinnu við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð og Skjálfanda. Jafnframt er sett fram aðgerð í aðgerðaáætlun með tillögu þessari um að skýra ferli ákvarðanatöku um nýtingu og vernd á hafsvæðum við Ísland.
    Eitt af lykilviðfangsefnum landsskipulagsstefnu er að skapa þurfi fyrir skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar þjóðhagslegra mikilvægra innviða sem þjóna hagsmunum landsins alls. Hér er þó um að ræða nokkuð flókið lagalegt viðfangsefni sem mikilvægt er að leysa í sem bestri sátt við sveitarfélög
    Stefna um styrkingu meginkjarna og samgangna innan skilgreindra þjónustu- og vinnusóknarsvæða hefur það að markmiði að þróun búsetu- og samgöngumynsturs styðji til framtíðar markmið í loftslagsmálum og styrki byggð. Mikilvægur þáttur í því er að skilgreina vinnusóknar- og þjónustusvæði út frá meginkjörnum og leitast við að beina vexti að þeim. Með því að hlúa að vexti og viðgangi meginkjarna er lagður sterkari grunnur að fjölbreyttri þjónustu og samkeppnishæfu atvinnulíf í hverju héraði, sem býður upp á þau lífsgæði sem nútímasamfélag gerir kröfur um. Því fjölmennari sem þéttbýlisstaðir og byggð á jaðarsvæðum þeirra er, þeim mun líklegra er að þeir geti staðið undir fjölbreyttri og öflugri atvinnustarfsemi, þjónustu og menningarlífi.
    Ferðaþjónustan hefur á undanförnum áratug þróast í að verða einn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. Þetta felur í sér bæði tækifæri og áskoranir. Vaxandi fjöldi ferðamanna er ein helsta áskorunin í skipulagsmálum miðhálendisins þar sem hætta er á að gæði fjölförnustu staða rýrni. Aðgengi almennings að miðhálendinu þarf að vera með þeim hætti að náttúran skaðist ekki. Með því að skoða kosti í þróun samgöngukerfis miðhálendisins og útfærslu vega á miðhálendinu, orkuskipti í samgöngum og mögulegt öryggishlutverk vegna náttúruvár skapast forsendur til að móta nánari stefnu um uppbyggingu vegasamgangna á miðhálendinu í sátt við náttúru og samfélag. Í landsskipulagsstefnu er leiðarljósið að skipulag um uppbyggingu ferðaþjónustu miði að því að varðveita þau gæði sem ferðaþjónustan byggist á. Í þessu felst m.a. að við skipulagsákvarðanir verði þolmörk vegna álags af völdum ferðaþjónustunnar á meðal þátta sem tekið verði tillit til. Þetta á við bæði í dreifbýli og þéttbýli og að sjálfsögðu einnig á miðhálendinu.

5. Aðgerðaáætlun 2024–2028.
    Til að ná fram markmiðum landsskipulagsstefnu er lögð fram aðgerðaáætlun sem nær til fimm ára, 2024–2028. Þar eru tilgreindar 20 aðgerðir sem tengjast markmiðunum þremur:
    A. Vernd umhverfis og náttúru.
    B. Velsæld samfélags.
    C. Samkeppnishæft atvinnulíf.
    Ýmsar aðgerðir eru beint eða óbeint framhald af aðgerðum í landsskipulagsstefnu fyrir árin 2015–2026 en aðrar eru nýjar og afrakstur þess samráðs sem átti sér stað í aðdraganda tillögunnar. Nánar er gerð grein fyrir samspili aðgerða og markmiða hér á eftir.

A. Markmið um vernd náttúru og umhverfis.
    Með markmiði um vernd náttúru og umhverfis á kolefnishlutleysi að vera leiðarljós í skipulagi sem stuðla þarf að með markvissum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun. Mikilvægt er að samstilla upplýsingagjöf og viðbrögð vegna loftslagsbreytinga sem þegar eru farnar að ógna lífríki á landinu öllu og hafsvæðum þess. Aðgerð 2, Skipulagsgerð sem styðji við markmið um kolefnishlutleysi, miðar að því að bæta upplýsingagjöf um áhrif skipulagsákvarðana til losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda þannig að markvisst sé unnið að því að uppfylla metnaðarfull markmið Íslands um samdrátt í losun og mætt sé sívaxandi þörf á bindingu kolefnis. Aðgerð 7, Samspil skipulagsáætlana og orkuskipta, er einnig liður í því að samstilla áætlanir ólíkra stjórnvalda þannig að nauðsynleg orkuskipti geti gengið hratt fyrir sig.
    Markmiðið um vernd náttúru og umhverfis snýr að því að skipulag stuðli að heilnæmu umhverfi og verndun og varðveislu víðerna, landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni. Aðgerð 13 , Kortlagning víðerna, og aðgerð 19 , Flokkun landslagsgerða og leiðbeiningar um landslagsgreiningu, eru mikilvægar í því samhengi að hægt sé að meta áhrif skipulagsákvarðana á víðerni og landslag

B. Markmið um velsæld samfélags.
    Með markmiði um velsæld samfélags á loftslagsaðlögun að vera leiðarljós í skipulagi sem verður að stuðla að seiglu samfélaga gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Mikilvægt er að samstilla upplýsingagjöf og viðbrögð vegna loftslagsbreytinga sem þegar eru farnar að ógna lífríki og hafa áhrif í íslensk samfélög með nýjum áskorunum, svo sem aukinni náttúruvá. Aðgerð 1, Mótun verkferla og leiðbeininga fyrir aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga, er ætlað að hjálpa sveitarfélögum að aðlagast loftslagsbreytingum eins markvisst og hægt er.
    Markmiðið snýr að því að skipulag stuðli að velsæld samfélags og gæðum í hinu byggða umhverfi. Aðgerð 3, Skipulag mæti húsnæðisþörf, og aðgerð 17, Einn ferill húsnæðisuppbyggingar, eru liðir í að mæta vaxandi húsnæðisþörf með samstilltu átaki og einfaldara utanumhaldi.
    Aðgerð 6, Stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins, og aðgerð 14, S kipulag í dreifbýli, eru liður í því styðja stjórnvöld í að vinna að þeim hluta markmiðs um velsæld samfélags um að skipulag stuðli að skynsamlegri nýtingu lands í þéttbýli og dreifbýli þar sem vöxtur samfélaga gengur ekki um of á náttúrulegt umhverfi.
    Aðgerðir 16, Mælaborð um stöðu og þróun skipulagsmála, og 18, Endurskoðun á lagaumgjörð skipulagsmála, hjálpa stjórnvöldum að ná öllum hlutum markmiðs um velsæld samfélags með bættri upplýsingagjöf um hvert samfélagið stefnir hverju sinni og uppfærslu á lagaumgjörð

C. Markmið um samkeppnishæft atvinnulíf.
    Með markmiði um samkeppnishæft atvinnulíf á kolefnishlutleysi að vera leiðarljósið í skipulagi sem miðar að því að auka til muna bindingu gróðurhúsalofttegunda. Aðgerð 15, Skiplag og leyfisveitingar vegna vindorkuvera, er mikilvæg til að mæta aukinni þörf á orkuöflun með fleiri grænum kostum. Aðgerð 11, Stjórnsýsla á hafsvæðum utan strandsvæða, er að hluta af sama meiði en aukin ásókn er í nýtingu hafsvæða umhverfis Íslands, m.a. til orkuöflunar.
    Markmið um samkeppnishæft atvinnulíf stuðlar að því að skipulag auki samkeppnishæfni samfélags og efli atvinnulíf með hagkvæmri uppbyggingu innviða og sjálfbærri nýtingu auðlinda þar sem vexti er beint á tiltekin svæði í skipulagi. Aðgerð 4, Uppbygging og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða, er liður í að efla atvinnulíf um land allt. Þá snúa aðgerðir 5, Kortlagning á ræktunarlandi sem hentar til matvælaframleiðslu, aðgerð 12, Uppbygging ferðaþjónustumannvirkja á hálendinu, að þróun, aðgerðir 8 og 9, Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð og Skjálfandaflóa, og 10, Forgangsröðun verkefna vegna skipulags strandsvæða, að skipulagsumgjörð ákveðinna atvinnugreina.


Fylgiskjal I.


Staða og þróun skipulagsmála á Íslandi.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0621-f_I.pdfFylgiskjal II.


Hvítbók um skipulagsmál: Umhverfismatsskýrsla.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0621-f_II.pdfFylgiskjal III.


Hvítbók um skipulagsmál: Drög að landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0621-f_III.pdfFylgiskjal IV.


Grænbók um skipulagsmál: Stöðumat og valkostir.

www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0621-f_IV.pdf