Ferill 585. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 817  —  585. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um Umhverfis- og orkustofnun.

Frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.1. gr.

Yfirstjórn.

    Umhverfis- og orkustofnun er ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra.
    Innan Umhverfis- og orkustofnunar skal starfa sérstök eining sem nefnist Raforkueftirlitið. Raforkueftirlitið er sjálfstætt í störfum sínum þegar það sinnir raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

2. gr.

Forstjóri o.fl.

    Ráðherra skipar forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og annast rekstur hennar.
    Forstjóri ber ábyrgð á:
     a.      að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og stefnu stjórnvalda,
     b.      fjárreiðum stofnunarinnar og reikningshaldi,
     c.      að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt og í samræmi við ársáætlun,
     d.      að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárveitingar og gerð ársáætlunar fyrir stofnunina í heild,
     e.      ráðningu starfsfólks og fer með yfirstjórn starfsmannamála.
    Ráðherra skipar skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins til fimm ára í senn. Ber hann faglega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri Raforkueftirlitsins. Sama einstakling er aðeins hægt að skipa skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins tvisvar sinnum. Við skipun í embætti skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins skal ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Niðurstaða hæfnisnefndar er ráðgefandi við skipun í embætti.
    Umhverfis- og orkustofnun skal árlega gera áætlun um störf stofnunarinnar, birta skýrslu um starfsemi sína og setja sér stefnu til lengri tíma um starfsemi og meginverkefni stofnunarinnar í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál.
    Ráðherra setur í reglugerð, að höfðu samráði við Umhverfis- og orkustofnun, nánari ákvæði um skipulag stofnunarinnar, þ.m.t. staðsetningu starfsstöðva hennar með það að markmiði að fjölga störfum á landsbyggðinni.

3. gr.

Hlutverk Umhverfis- og orkustofnunar.

    Umhverfis- og orkustofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit sem og önnur verkefni á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefna auðlindanýtingar. Stofnunin skal í starfsemi sinni vinna að lögbundnum markmiðum og stefnu stjórnvalda hverju sinni og eftir atvikum að leitast við að hafa samráð við stofnanir sem tengjast starfsemi hennar sem og aðra aðila.
    Málefni sem falla undir starfsemi Umhverfis- og orkustofnunar eru eftirtalin:
     1.      Efnamál.
     2.      Erfðabreyttar lífverur.
     3.      Fráveitumál.
     4.      Hollustuhættir.
     5.      Hringrásarhagkerfi og úrgangsmál.
     6.      Jöfnun kostnaðar við húshitun og dreifingu raforku.
     7.      Leit, rannsóknir og vinnsla orku og annarra auðlinda í jörðu og á, í eða undir hafsbotni.
     8.      Mengunarvarnir.
     9.      Orkuskipti.
     10.      Orkusparnaður og nýting orku.
     11.      Hitaveitur.
     12.      Loftgæði, þ.m.t. losunarbókhald yfir loftmengunarefni.
     13.      Loftslagsmál, þ.m.t. losunarbókhald Íslands yfir gróðurhúsalofttegundir og viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
     14.      Raforkumarkaður.
     15.      Stjórn vatnamála.
     16.      Umhverfisábyrgð.
     17.      Umhverfisvottanir og sjálfbær neysla.
     18.      Upprunaábyrgðir.
     19.      Varnir gegn mengun hafs og stranda.
     20.      Vatnsréttindi og nýting og aðgangur að vatni.
     21.      Verndar- og orkunýtingaráætlun.
     22.      Vinnsla, flutningur, dreifing og viðskipti með raforku.
     23.      Öryggi raforkukerfisins.

4. gr.

Verkefni Umhverfis- og orkustofnunar.

    Umhverfis- og orkustofnun veitir ráðherra ráðgjöf og aðstoð við undirbúning að stefnumótun, áætlunum og setningu laga og stjórnvaldsfyrirmæla á starfssviði sínu. Stofnunin veitir einnig öðrum stjórnvöldum ráðgjöf og umsagnir um slík málefni í samræmi við lög.
    Önnur helstu verkefni Umhverfis- og orkustofnunar eru eftirtalin eins og nánar greinir í ákvæðum laga þar um:
     1.      Ákvarðanir um útgáfu leyfa og beiting sambærilegra heimilda auk annarrar stjórnsýslu.
     2.      Eftirlit með framfylgd laga og annarra stjórnvaldsfyrirmæla.
     3.      Fræðsla og leiðbeiningar ásamt söfnun og miðlun upplýsinga.
     4.      Gerð og framfylgd áætlana og skýrslna.
     5.      Samræming heilbrigðiseftirlits.
     6.      Setning tekjumarka flutnings- og dreififyrirtækja.
     7.      Viðbrögð við bráðamengun á hafi.
     8.      Umsjón með vöktun tiltekinna umhverfisþátta.
     9.      Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á starfssviði stofnunarinnar.
     10.      Önnur verkefni samkvæmt sérlögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.

5. gr.

Hlutverk Raforkueftirlitsins.

    Hlutverk Raforkueftirlitsins er eftirfarandi:
     a.      að sinna raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra,
     b.      að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og umsagnar um raforkumál,
     c.      að annast önnur verkefni sem Raforkueftirlitinu eru falin samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
    Til að tryggja sjálfstæði sitt við raforkueftirlit skal Raforkueftirlitið setja sér starfsreglur og birta þær almenningi.
    Raforkueftirlitið skal vera sjálfstæð eining innan Umhverfis- og orkustofnunar sem rekin er fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar.

6. gr.

Valdheimildir, stjórnsýsluviðurlög, gjaldtökuheimildir, framsal eftirlits o.fl.

    Um valdheimildir Umhverfis- og orkustofnunar, beitingu stjórnsýsluviðurlaga, gjaldtökuheimildir, heimildir til að krefjast endurgreiðslu á útlögðum kostnaði stofnunarinnar og heimildir til að gera samninga við faggilta skoðunaraðila eða aðra um framkvæmd tiltekinna verkefna eða eftirlits fer eftir ákvæðum annarra laga sem stofnunin starfar eftir.

7. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2025 og tekur þá Umhverfis- og orkustofnun til starfa. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um Orkustofnun, nr. 87/2003, og Orkustofnun er lögð niður, ásamt embætti orkumálastjóra. Umhverfis- og orkustofnun tekur við hlutverki, verkefnum, réttindum og skyldum, eignum og skuldbindingum Orkustofnunar og þess hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum.

8. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 1. gr. laganna:
                  a.      A-liður fellur brott.
                  b.      Orðin „ lögum nr. 61/1992, um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, með síðari breytingum“, „ lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, með síðari breytingum, lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum,“ og „og lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, með síðari breytingum“ í b-lið falla brott.
                  c.      Á eftir orðunum „náttúrustofur, með síðari breytingum“ í b-lið kemur: og.
                  d.      F-liður fellur brott.
     2.      Lög um loftslagsmál, nr. 70/2012: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, að undanskildum ákvæðum til bráðabirgða III og V, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     3.      Lög um Hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998:
                  a.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 1. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina og viðaukum laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
                  b.      Í stað orðanna „Orkustofnunar og Brunamálastofnunar“ í 1. mgr. 33. gr. laganna kemur: og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
     4.      Efnalög, nr. 61/2013: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ tvívegis í 5. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina, að undanskildu ákvæði til bráðabirgða VI, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     5.      Lög um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. mgr. 5. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     6.      Lög um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     7.      Lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. og 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, að undanskildu ákvæði til bráðabirgða I, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     8.      Lög um stjórn vatnamála, nr. 36/2011:
                  a.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnunar.
                  b.      Orðið „Orkustofnun“ í 2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.
     9.      Lög um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ 1., 2. og 4. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum og í I. viðauka laganna, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     10.      Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 1., 2. og 4. málsl. 2. mgr., 3. og 4. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, að undanskildu ákvæði til bráðabirgða I og II, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     11.      Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     12.      Lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990:
                  a.      Á undan 1. mgr. 2. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Umhverfis- og orkustofnun skal stuðla að því að rannsóknir séu gerðar á orkulindum og öðrum auðlindum hafsbotnsins þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra. Umhverfis- og orkustofnun er heimilt að gera samninga við fyrirtæki eða stofnanir um slíkar rannsóknir. Leita skal staðfestingar ráðherra á samningum sem gerðir eru til lengri tíma en tveggja ára.
                      Umhverfis- og orkustofnun skal safna gögnum um orkulindir og aðrar auðlindir hafsbotnsins og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings.
                      Umhverfis- og orkustofnun skal vinna áætlun til langs tíma um hagnýtingu orkulinda og annarra auðlinda hafsbotnsins, sem skal vera hluti af áætlun um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins, sbr. einnig lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og raforkulög.
                      Umhverfis- og orkustofnun skal stuðla að samvinnu þeirra sem sinna rannsóknum á orkulindum og öðrum auðlindum hafsbotnsins og samræmingu á rannsóknarverkefnum.
                  b.      Í stað orðsins „Orkustofnunar“ í 1. málsl. 1 mgr. 2. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnunar.
                  c.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
                  d.      Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um tegund gagna um nýtingu á orkulindum og öðrum auðlindum hafsbotnsins, sem skylt er að afhenda Umhverfis- og orkustofnun skv. 3. mgr. 6. gr., gæði þeirra og skilafrest.
                  e.      Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Til að sinna hlutverki skv. 2. mgr. 2. gr. er Umhverfis- og orkustofnun heimilt að krefjast gagna um nýtingu á orkulindum og öðrum auðlindum hafsbotnsins. Skylt er þeim sem stunda atvinnurekstur er varðar framangreint að afhenda stofnuninni nauðsynleg gögn innan frests sem hún tilgreinir. Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests er Loftslagsstofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10–100 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Sé sekt samkvæmt þessari grein ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Óinnheimtar dagsektir, sem lagðar eru á fram að efndadegi, falla ekki niður þótt aðili efni síðar viðkomandi kröfu nema Umhverfis- og orkustofnun ákveði það sérstaklega. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
     13.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu, nr. 14/1979: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. málsl. 4. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     14.      Lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001:
                  a.      Í stað orðsins „Orkustofnun“ fjórum sinnum í 4. gr. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina, að undanskildu ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 24. gr. og ákvæði til bráðabirgða II í lögunum, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
                  b.      Orðið „Umhverfisstofnunar“ í 2. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.
                  c.      2. málsl. 3. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Í samráðshópnum skulu sitja 11 fulltrúar skipaðir af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Geislavörnum ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfis- og orkustofnun, Samgöngustofu, Skipulagsstofnun og Vinnueftirliti ríkisins.
     15.      Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998:
                  a.      Á undan 1. mgr. 4. gr. laganna koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Umhverfis- og orkustofnun skal stuðla að því að rannsóknir séu gerðar á orkubúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og á öðrum jarðrænum auðlindum þannig að unnt sé að meta þær og veita stjórnvöldum ráðgjöf um skynsamlega og hagkvæma nýtingu þeirra.
                      Umhverfis- og orkustofnun er heimilt að gera samninga við fyrirtæki eða stofnanir um slíkar rannsóknir. Leita skal staðfestingar ráðherra á samningum sem gerðir eru til lengri tíma en tveggja ára.
                      Umhverfis- og orkustofnun skal safna gögnum um auðlindir samkvæmt lögum þessum og nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings.
                      Umhverfis- og orkustofnun skal vinna áætlun til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins sem og hafsbotnsins, sbr. einnig lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins og raforkulög.
                      Umhverfis- og orkustofnun skal stuðla að samvinnu þeirra sem sinna rannsóknum á auðlindum í jörðu og samræmingu á rannsóknarverkefnum.
                  b.      Í stað orðsins „Orkustofnun“ tvívegis í 1. mgr. 4. gr. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
                  c.      Orðið „Umhverfisstofnunar“ í 4. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.
                  d.      Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Til að sinna hlutverki skv. 1. mgr. er Umhverfis- og orkustofnun heimilt að krefjast gagna um nýtingu á auðlindum samkvæmt lögum þessum. Skylt er þeim sem stunda atvinnurekstur er varðar framangreint að afhenda stofnuninni nauðsynleg gögn innan frests sem hún tilgreinir. Í reglugerð skal kveða nánar á um tegund gagna, gæði þeirra og skilafrest. Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests er Loftslagsstofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10–100 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Sé sekt samkvæmt þessari grein ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Óinnheimtar dagsektir, sem lagðar eru á fram að efndadegi, falla ekki niður þótt aðili efni síðar viðkomandi kröfu nema Umhverfis- og orkustofnun ákveði það sérstaklega. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
     16.      Lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnunar.
     17.      Lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 2. málsl. 6. mgr. og 8. mgr. 8. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Umhverfis- og orkustofnunar.
     18.      Vatnalög, nr. 15/1923: Í stað orðsins „Orkustofnunar“ í 1. mgr. 9. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnunar.
     19.      Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011:
                  a.      Í stað orðsins „Orkustofnunar“ í 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
                  b.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. mgr. 10. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     20.      Raforkulög, nr. 65/2003:
                  a.      Í stað orðsins „Orkustofnunar“ í 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnunar.
                  b.      Við 39. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Umhverfis- og orkustofnun skal safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap þjóðarinnar og landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings, sbr. einnig lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum úr jörðu og lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.
                      Umhverfis- og orkustofnun vinnur áætlun til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins, sbr. einnig lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.
                      Til að sinna hlutverki sínu skv. 2. mgr. er Umhverfis- og orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varðar nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun. Skylt er þeim sem stunda atvinnurekstur er varðar framangreint að afhenda stofnuninni nauðsynleg gögn innan frests sem hún tilgreinir. Í reglugerð skal kveða nánar á um tegund gagna, gæði þeirra og skilafrest. Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests er Umhverfis- og orkustofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10–100 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Sé sekt samkvæmt þessari grein ekki greidd innan mánaðar frá ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Óinnheimtar dagsektir, sem lagðar eru á fram að efndadegi, falla ekki niður þótt aðili efni síðar viðkomandi kröfu nema Umhverfis- og orkustofnun ákveði það sérstaklega. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
                  c.      Fyrirsögn 39. gr. laganna orðast svo: Raforkuskýrsla o.fl.
     21.      Lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013: Í stað orðsins „Orkustofnunar“ í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnunar.
     22.      Lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004: Í stað orðsins „Orkustofnun“ í 1. málsl. 2. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     23.      Lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, nr. 53/1980: Í stað orðsins „Orkustofnun“ í 1. málsl. 9. gr. og 1. málsl. 14. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     24.      Lög um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002: Í stað orðsins „Orkustofnun“ í 4. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögnum greina, að undanskildu ákvæði til bráðabirgða III, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     25.      Orkulög, nr. 58/1967: Í stað orðsins „Orkustofnunar“ í 2. mgr. 32. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnunar.
     26.      Lög um orkusjóð, nr. 76/2020: Í stað orðsins „Orkustofnun“ í 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     27.      Lög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011: Í stað orðsins „Orkustofnun“ í 1. og 2. málsl. 5. mgr. 7. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     28.      Lög um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl., nr. 30/2008: Í stað orðsins „Orkustofnun“ í 6. tölul. 2. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnun.
     29.      Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988: Í stað orðsins „Orkustofnun“ í 3. málsl. 11. mgr. 42. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     30.      Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 4. málsl. 1. mgr. 51. gr., 3. mgr. 51. gr. a og 4. mgr. 80. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     31.      Lög um almannavarnir, nr. 82/2008:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 4. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 2. tölul. kemur: Umhverfis- og orkustofnunar.
                  b.      Orðin „Orkumálastjóri og“ í 4. tölul. falla brott.
     32.      Lög um brunavarnir, nr. 75/2000: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. málsl. 4. mgr. 11. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     33.      Lög um fiskeldi, nr. 71/2008: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. a laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnunar.
     34.      Hafnalög, nr. 61/2003:
                  a.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ tvívegis í f-lið 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnunar.
                  b.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 3. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     35.      Lög um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 1. og 2. málsl. 6. mgr. 135. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     36.      Skipalög, nr. 66/2021: Í stað orðsins „Umhverfisstofnun“ í 2. málsl. 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun.
     37.      Sóttvarnalög, nr. 19/1997: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 2. mgr. 6. gr. laganna og sama orðs hvarvetna í öllum beygingarföllum annars staðar í lögunum, þ.m.t. í fyrirsögn greinar, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og orkustofnunar.
     38.      Lög um tóbaksvarnir, nr. 6/2002: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnunar.
     39.      Lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:
                  a.      A-liður orðast svo: Umhverfis- og orkustofnunar vegna orku- og hitaveitna og vatnsveitna.
                  b.      E-liður fellur brott.
     40.      Lög um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 2. málsl. 25. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnunar.
     41.      Lög um skeldýrarækt, nr. 90/2011:
                  a.      Orðið „Orkustofnunar“ í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. og sama orð hvarvetna annars staðar í lögunum fellur brott.
                  b.      Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Umhverfis- og orkustofnunar.
     42.      Lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018: Í stað orðanna „Orkustofnun, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun“ í 4. málsl. 6. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnun, Samgöngustofa.
     43.      Skipulagslög, nr. 123/2010: Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 4. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: Umhverfis- og orkustofnunar.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Starfsfólk Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar sem er í starfi við gildistöku laga þessara og sinnir þeim verkefnum sem færast til Umhverfis- og orkustofnunar samkvæmt lögum þessum þegar Umhverfisstofnun og Orkustofnun eru lagðar niður, skal eiga forgangsrétt til starfa í Umhverfis- og orkustofnun þegar hún tekur til starfa. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.
    Starfsfólk Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar sem ráðið verður til starfa hjá Umhverfis- og orkustofnun heldur réttindum sem það hefur áunnið sér til námsleyfis og um lengdan uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningum þar sem miðað er við samfellt starf hjá sömu stofnun.
    Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. er ráðherra heimilt að skipa forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar við samþykkt þessara laga og skal hann vinna með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu að því að undirbúa gildistöku laganna, þar með talið ráða starfsfólk til Umhverfis- og orkustofnunar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti sumarið 2022 verkefni sem fólst í því að greina tækifæri til endurskipulagningar á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Samkvæmt núverandi stöðu eru stofnanir ráðuneytisins 13 með um 600 starfsmenn á yfir 40 starfsstöðvum víða um land. Verkefnið var sóknarmiðað og unnið á grundvelli áherslna ráðherra í umhverfis-, orku- og loftslagsmálum og áherslum stjórnvalda um einföldun stofnanakerfisins. Miðaði verkefnið að því að skapa vettvang fyrir kraftmikið fagstarf og árangur. Hvað varðar áherslur um einföldun stofnanakerfisins var m.a. horft til vinnu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra, sem skipaður var 2022, um einföldun á stofnanakerfinu, en honum var m.a. ætlað að bæta þjónustu, auka skilvirkni og auðvelda stafræna þróun ríkisins. Einnig var höfð til viðmiðunar skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá árinu 2021: „Stofnanir ríkisins. Fjöldi, stærð og stærðarhagkvæmni“ þar sem m.a. kemur fram að Ríkisendurskoðun telji mikilvægt að stjórnvöld fylgi eftir og taki afstöðu til tillagna sem lagðar hafa verið fram í fjölda skýrslna um aukið samstarf og jafnvel sameiningu ríkisstofnana frá miðjum 10. áratug síðustu aldar.
    Verkefni þetta hófst þegar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fundaði með forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins í júní 2022 á Þingvöllum. Á fundinum kom fram að hugsunin væri sú að nýta þekkingu, innviði og þær greiningar sem þá þegar höfðu verið gerðar og að í vinnunni yrði lögð áhersla á að auka samþættingu stefnumótunar og áætlanagerðar. Lögð var áhersla á gott samstarf við forstöðumenn í greiningarferlinu sem og annað starfsfólk stofnana ráðuneytisins. Í kjölfarið setti ráðuneytið af stað frumathugun með gagnaöflun og fjölda vinnufunda. Í þeirri vinnu áttu sér stað gagnlegar umræður og þróaðist verkefnið áfram með þéttri aðkomu starfsfólks ráðuneytisins og stofnana. Til skoðunar voru öll verkefni stofnana ráðuneytisins og voru þau flokkuð í þrjá verkefnahópa þar sem skýr kjarnahæfni var skilgreind í hverjum verkefnahópi út frá eðli verkefna, árangurslyklum og áherslum. Í fyrsta lagi var um að ræða vernd og sjálfbæra umgengni, í öðru lagi rannsóknir, mælingar og vöktun og í þriðja lagi stjórnsýslu. Í endanlegri tillögu um stofnanabreytingar var byggt á þróaðri útgáfu þessarar nálgunar.
    Í greiningunni voru áherslur ráðuneytisins kortlagðar sem og framtíðarsýn og helstu markmið málaflokka. Einnig var farið yfir önnur markmið ráðuneytisins og stjórnvalda. Fyrir hvert markmið voru settir fram hvatar, framtíðarsýn, markmið og árangurslyklar. Í ágúst 2022 var netkönnun gerð til að kanna viðhorf starfsfólks stofnana til sameiningar stofnana og/eða samþættingu verkefna stofnana. Könnunin var lögð fyrir 470 manns frá öllum stofnunum. Fjöldi þeirra sem svaraði var 346 eða 74%. Útkoman úr könnunni leiddi í ljós jákvætt viðhorf þar sem 48,2% töldu að mikil eða mjög mikil tækifæri lægju í sameiningu stofnana. Þá töldu 63% að mikil tækifæri lægju í samþættingu verkefna eða samvinnu stofnana sem heyrðu undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
    Frumathuguninni lauk með því að stýrihópur ráðuneytisins skilaði ráðherra greinargerð í desember 2022. Ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins stýrði stýrihópnum en auk hans sátu í hópnum verkefnastjóri, annað starfsfólk ráðuneytisins og ráðgjafar. Í greinargerð stýrihópsins voru lagðar fram tillögur um breytingar á stofnanaskipulagi. Tillögurnar fólu í sér að leggja til þrjár öflugar stofnanir í stað tíu, sem bæru ábyrgð á helstu málaflokkum ráðuneytisins. Í fyrsta lagi að í nýrri Loftslagsstofnun yrði um að ræða samruna Orkustofnunar og þess hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar sem lýtur að stjórnsýslustarfsemi stofnunarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum eins og nánar kemur fram í frumvarpi þessu. Í öðru lagi að í nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun yrði samruni eftirtalinna stofnana: Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Minjastofnunar og þess hluta Umhverfisstofnunar er lýtur að náttúruvernd. Í þriðja lagi var lögð til stofnun nýrrar Náttúruvísindastofnunar þar sem sameinaðar yrðu Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Landmælingar Íslands og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR).
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tók ákvörðun í febrúar 2023 um að framfylgja tillögum stýrihópsins. Í júlí 2023 var þó ákveðið að fresta áformum um að hafa ÍSOR og Veðurstofu Íslands með í nýrri stofnun á sviði náttúruvísinda. Þau áform eru talin þarfnast frekari skoðunar við vegna sérstöðu þessara stofnana. Í fyrsta áfanga er lagt til í frumvarpi til laga um Náttúrufræðistofnun, sem lagt hefur verið fram á 154. löggjafarþingi 2023–2024 (þingskjal 527, 479. mál), að verkefni Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn verði færð inn í Náttúrufræðistofnun Íslands og að heiti þeirrar stofnunar verði framvegis Náttúrufræðistofnun.
    Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að til verði ný Umhverfis- og orkustofnun sem taki við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar. Samhliða er lagt til að Orkustofnun verði lögð niður. Í frumvarpi til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun, sem áformað er að leggja einnig fram á 154. löggjafarþingi, er ætlunin að leggja til að Umhverfisstofnun verði einnig lögð niður.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni þess að lagt var af stað í greiningu á tækifærum til endurskipulagningar á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins var m.a. mikill fjöldi stofnana ráðuneytisins, sem eru flestar fremur litlar að umfangi og með einungis 20–50 starfsmenn. Ljóst er að almennt fylgir sameiningum stofnana nokkurt hagræði í rekstri en í vinnunni var aðaláhersla lögð á að skapa vettvang fyrir kraftmeira faglegt starf og árangur, þ.e. að auka getu rekstrareininga til að vinna að markmiðum um aukin gæði með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi til lengri tíma. Í því sambandi var litið til áherslna um einföldun stofnanakerfisins eins og fram kemur í 1. kafla. Helstu markmið verkefnis um breytt stofnanaskipulag voru nánar tiltekið eftirfarandi:
          Að til verði stærri og kröftugri stofnanir sem efla þekkingar- og lærdómssamfélag sérfræðinga.
          Að samnýta þekkingu, innviði og gögn.
          Að til verði faglega spennandi og áhugaverðir vinnustaðir.
          Að skapa meiri sveigjanleika stofnana til að takast á við umfangsmikil og flókin verkefni.
          Aukin samþætting stefnumótunar, einfaldari áætlanagerð og aukin rekstrarhagkvæmni.
          Betri umgjörð mannauðsmála og stuðningur við öflugt þverfaglegt teymisstarf.
          Að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifast um landið.
          Að styðja við starfseiningar sem tryggja stöðugar umbætur og nýsköpun í opinberum rekstri.
          Aukinn árangur með stafrænni umbreytingu.
          Að bregðast við kröfu um áreiðanlegri, skilvirkari og aðgengilegri þjónustu.
          Aukinn samfélagslegur ávinningur.
    Til að ný Umhverfis- og orkustofnun geti orðið að veruleika þarf að fella úr gildi eða breyta lögum sem gilda um Orkustofnun og hluta Umhverfisstofnunar og þeim lögum sem kveða á um tiltekin hlutverk og verkefni sem þessar stofnanir hafa með höndum. Þá þarf að leggja fram til samþykktar Alþingis frumvarp þetta til heildarlaga um Umhverfis- og orkustofnun.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Efnisatriði frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér að sett verði fót ný Umhverfis- og orkustofnun sem er fyrst og fremst ætlað að fara með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar samkvæmt lögum þar um. Samhliða er lagt til að Orkustofnun og sá hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar, sem ný Umhverfis- og orkustofnun mun taka yfir, verði lagðar niður. Í 1. og 2. gr. er fjallað um yfirstjórn ráðherra og skipan og hlutverk forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar. Í 3.–5. gr. er fjallað um meginhlutverk Umhverfis- og orkustofnunar, þau svið og málefni sem henni er ætlað að fara með og helstu verkefni hennar. Þá er sérstaklega fjallað um hlutverk Raforkueftirlitsins, sem ber að aðgreina frá annarri starfsemi stofnunar og tryggja sjálfstæði í störfum til að uppfylla skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum. Í 6. gr. er að finna almennt ákvæði sem minnir á þær heimildir sem Umhverfis- og orkustofnun er ætlað að hafa samkvæmt ákvæðum annarra sérlaga, sem tengjast stjórnsýslu- og eftirlitshlutverki stofnunarinnar. Um er að ræða ýmsar valdheimildir, heimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum, gjaldtökuheimildir stofnunarinnar og heimildir til að krefjast endurgreiðslu vegna ýmiss kostnaðar. Einnig heimildir til að fela öðrum aðilum framkvæmd tiltekinna verkefna eða eftirlits. Í ljósi þess að bæði Orkustofnun og Umhverfisstofnun starfa samkvæmt nokkrum fjölda laga eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á þeim lögum sem um er að ræða til að færa hlutverk þessara stofnana og verkefni til Umhverfis- og orkustofnunar, sbr. 10. gr. frumvarpsins.

3.2. Markmið endurskipulagningar stofnanakerfis umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.
    Greiningarvinna umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins leiddi í ljós samlegð með starfsemi Orkustofnunar og þeim hluta Umhverfisstofnunar er lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum. Í starfsemi þessara stofnana eiga við megináherslur ráðuneytisins um að minnka losun og auka bindingu kolefnis, tryggja orku til orkuskipta, orkuöryggi og jafnt aðgengi að orku á landsvísu, að efla hringrásarhagkerfið og tryggja sjálfbæra nýtingu og heilnæmt umhverfi fyrir íbúa. Stofnanir þessar eru fyrst og fremst stjórnsýslustofnanir og þurfa að búa yfir öflugri stjórnsýslu, annast birtingu upplýsinga, stafræna miðlun og fræðslu og hagnýtingu rannsókna. Greiningin leiddi í ljós að megintilgangur nýrrar stofnunar yrði að stuðla að því að markmið stjórnvalda um loftslagsmál gengi eftir auk þess að leggja áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda með náttúruvernd og lágmörkuð umhverfisáhrif að leiðarljósi. Í því sambandi er góð þjónusta nýrrar stofnunnar lykilatriði með ráðgjöf, skýrri upplýsingamiðlun og skilvirkum ferlum.
    Greiningarvinna leiddi í ljós ýmiss konar ávinning af sameiningu sem lýtur að faglegum viðfangsefnum, mannauði og þekkingu, fjármagni, innri virkni og þjónustu. Hvað varðar fagleg viðfangsefni þá er ávinningurinn af sameiningu talinn eftirfarandi: Skýr kjarni í starfsemi stofnana sem skapar aukin tækifæri faglega til þróunar og nýsköpunar og eflingar og árangurs, stærri vinnustaðir sem geta fremur tekist á við krefjandi áskoranir og umhverfi stöðugrar þróunar og markvissara þverfaglegt samstarf innan stofnana og þeirra í milli. Í tengslum við mannauð og þekkingu þá má gera ráð fyrir að sameiningin leiði til aukinnar hæfni, getu og sérhæfingar og eftirsóknarverðari og fjölbreyttari vinnustaða þar sem aukin tækifæri verða til starfsþróunar. Hvað varðar fjármagn þá má gera ráð fyrir að frekar verði tryggt að nýting fjármagns verði í takt við áherslur, um verði að ræða einfaldari fjárlagagerð og aukna rekstrarhagkvæmni auk betri nýtingar á húsnæði. Í tengslum við innri virkni þá má gera ráð fyrir að skýrari tenging á starfsemi stofnana verði við stefnu ráðuneytisins, aukin tækifæri til einföldunar á regluverki og að sameiningin myndi leiða til aukinnar skilvirkni og framleiðslu, tækifæri væru til aukinnar upplýsingagjafar, gagnsæis og aðgengi að gögnum og að um yrði að ræða samþættingu krafta, þekkingar og fjármagns til að mæta loftslagsáskorunum og öðrum brýnum viðfangsefnum. Aukin tækifæri fælust þá í betri þjónustu með skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu, færri snertiflötum og stafrænni þróun og lausnum.

3.3. Gildandi lög sem varða stofnun Umhverfis- og orkustofnunar.
    Sá hluti Umhverfisstofnunar sem lagt er til að sameinist Orkustofnun í nýrri Umhverfis- og orkustofnun fer með framkvæmd og annast eftirlit að hluta eða öllu leyti með framkvæmd eftirtalinna laga:
          Laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, 7/1998,
          efnalaga, nr. 61/2013,
          laga um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996,
          laga um loftslagsmál, nr. 70/2012,
          laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003,
          laga um stjórn vatnamála, nr. 36/2011,
          laga um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012,
          laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004,
          laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu, nr. 14/1979, og
          laga um framkvæmd samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, nr. 17/2000.
    Viðkomandi hluti Umhverfisstofnunar fer einnig með hlutverk eða verkefni samkvæmt öðrum lögum á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis: Lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015, lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, og lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.
    Umhverfisstofnun fer einnig með hlutverk og annast tiltekin verkefni samkvæmt lögum á málefnasviði annarra ráðuneyta, sbr. lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, hafnalögum, nr. 61/2003, lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, og lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019.
    Auk þessa er í ýmsum lögum kveðið er á um að afla beri umsagna Umhverfisstofnunar eða eiga samráð við stofnunina, sbr. lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum úr jörðu, nr. 57/1998, lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, skipalögum, nr. 66/2021, og sóttvarnalögum, nr. 19/1997.
    Orkustofnun fer með framkvæmd og annast eftirlit að hluta eða öllu leyti með framkvæmd eftirtalinna laga:
          Raforkulaga, nr. 65/2003,
          laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001,
          laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998,
          laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990,
          vatnalaga, nr. 15/1923,
          laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013,
          laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004,
          laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, og
          laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum, nr. 30/2008.
    Orkustofnun annast verkefni samkvæmt öðrum lögum á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis: Orkulögum, nr. 58/1967, lögum um orkusjóð, nr. 76/2020, lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, lögum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, nr. 53/1980, lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, og lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019.
    Auk þessa er kveðið á um að afla þurfi umsagnar Orkustofnunar eða eiga samráð við stofnunina í nokkrum lögum, sbr. lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, lögum um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011, og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir niðurfellingu á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, og þeim hluta laga um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, sem varðar þann hluta stofnunarinnar sem lagt er til að falli undir nýja Umhverfis- og orkustofnun.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Fyrirhugaðar breytingar á stofnunum hafa áhrif á starfsfólk viðkomandi stofnana, ekki síst Umhverfisstofnun þar sem ætlunin er að skipta upp starfsemi stofnunarinnar milli Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndar- og minjastofnunar. Breytingar sem þessar hafa einnig áhrif á ráðuneyti, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og viðskiptavini þessara stofnana. Fyrir liggur samskiptaáætlun sem er fylgt eftir vegna sameiningarinnar. Auk þessa hefur náið samráð verið haft við viðkomandi stofnanir, starfsmenn þeirra o.fl. og verkefnið kynnt fyrir starfsmönnum ráðuneytisins og öðrum ráðuneytum, kjarafélögum, þingflokkum, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, Sambandi íslenskra sveitarfélagi, Félagi fornleifafræðinga og Félagi forstöðumanna. Við samruna stofnana þarf að huga vel að mannauðsmálum og líðan starfsfólks og upplýsingamiðlun í gegnum allar breytingar og er því að störfum sérstakur mannauðshópur sem stýrt er af ráðuneytinu og í sitja fulltrúar viðkomandi stofnana ásamt ráðgjafa. Hlutverk hópsins er að greina stöðu mannauðsmála gagnvart ýmsum stefnutengdum málum eins og jafnlaunavottun, starfaflokkun, launasetningu, lýsingu starfa og verkefna, mönnunarþörf, styrkleika- og hæfnigreiningu mannauðsins sem og þróun starfa til framtíðar.
    Áform um lagasetningu vegna sameiningar viðkomandi stofnana voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 30. maí 2023 og var umsagnarfrestur veittur til 13. júní 2023 (mál nr. S-103/2023). Í áformum um lagasetningu og í drögum að frumvarpi í samráðsgátt var notast við heitið Loftslagsstofnun. Í kjölfar samráðsferlis var heiti nýrrar stofnunar breytt í Umhverfis- og orkustofnun.
    Ráðuneytinu bárust alls 20 umsagnir vegna áforma um lagasetningu. Í umsögnum Byggðaráðs Skagafjarðar, Fljótsdalshrepps, Fjórðungssambands Vestfirðinga, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins sem og Viðskiptaráðs eru áformin litin jákvæðum augum og m.a. vísað til hagræðingar og aukinnar skilvirkni. Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða telja ýmislegt jákvætt við áformin og minna á mikilvægi heilbrigðiseftirlits og samráðs við sveitarfélög og heilbrigðisnefndir í sameiningarferlinu. Samband íslenskra sveitarfélaga telur sameiningar vera farsælt skref, m.a. til að tryggja gott samstarf stofnana og sveitarfélaga. Í umsögn Landsvirkjunar er einnig tekið undir áform um nýja stofnun og bent á að eitt stærsta verkefni hennar verði orkuskipti.
    Í umsögn Félags fornleifafræðinga er bent á skort á samráði og rökstuðningi fyrir áformum og í umsögn formanns fornminjanefndar er m.a. gagnrýnd sú nálgun að sameina stofnanir sökum stærðar þeirra þar sem þær séu eðlisólíkar og undirmannaðar. Í umsögn Landverndar eru faglegar forsendur frumvarpsins dregnar í efa og athugasemd gerð við að markmið sameiningar séu eingöngu á grundvelli rekstrar og byggðaþróunar. Bent er m.a. á að tryggja þurfi fagfólki áframhaldandi starf og að þekking og reynsla glatist ekki. Að mati Landverndar er rétt að byrja á því að sameina stofnanir á sviði náttúruverndar. Að mati heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er samruni Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar ekki æskilegur þar sem slíkt geti leitt til árekstra vegna mismunandi hlutverks þessara stofnana. Í umsögn Landsnets er gagnrýnt að í áformaskjali sé ekki vikið að markmiðum tengdum orkumálum, áformum um sjálfstæði raforkueftirlitsins og áhrifum á Orkustofnun og í umsögn Samorku er bent á mikilvægi þess að tryggja að orku- og veitumál fái nægjanlegt vægi í nýrri stofnun. Í umsögn umhverfis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar er m.a. lögð áhersla á að staðinn verði vörður um starfsstöðvar á Vestfjörðum. Þá bendir Félag íslenskra náttúrufræðinga á mikilvægi samstarfs við verkalýðshreyfinguna og aðra hagsmunaaðila, að réttum ferlum og ákvæðum laga sé fylgt og að lögð sé áhersla á mannauðinn og fyrirsjáanleika við stofnanabreytingar. Skýrt þurfi að vera hvort öllu starfsfólki verði boðið starf eða það geti sótt um starf og hvaða áunninn réttindi starfsfólks haldist.
    Mikilvægt er hversu margir umsagnaraðilar taka jákvætt í sameiningaráformin. Hvað varðar athugasemd í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að mismunandi hlutverk nýrrar stofnunar geti leitt til árekstra þá er litið svo á að fleiri hlutverk eða verkefni nýrrar stofnunar leiði fyrst og fremst til þess að stofnunin þurfi að huga að fleiri þáttum við ákvarðanatöku og til að mynda leiðir frumvarpið til þess að í einhverjum tilvikum verður ekki lengur þörf á að ein stofnun veiti annarri umsögn í tilteknum málum. Í umsögnum um áformin er nokkuð vikið að því að frekari gaum þurfi að gefa tækifærum er lúta að verkefnum annarra ráðuneyta og stofnana. Tekið er undir þær athugasemdir og hefur verið haldið áfram að kanna tækifæri í samlegð slíkra verkefna við verkefni ráðuneytisins og stofnana þess og möguleika á tilfærslu verkefna. Hvað varðar athugasemdir er lúta að starfsfólki er vísað til ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpinu og skýringa við það. Í tengslum við athugasemdir er lúta að samrunaáætlun og stefnumótun vegna stofnanabreytinganna þá verður gerð nánari áætlun um ferlið í samráði við forstöðumenn umræddra stofnana. Ýmsa undirbúningsvinnu þarf að vinna auk þess sem gert er ráð fyrir að hafist verði handa við heildstæða stefnumótun fyrir málefni stofnana, þar á meðal þá stofnun sem hér um ræðir, eftir að frumvörp um þær verða að lögum. Í stefnumótuninni felst að móta nýja framtíðarsýn, meginmarkmið og áherslur með víðtækri þátttöku starfsfólks.
    Frumvarp þetta var samið í samvinnu við viðkomandi stofnanir auk þess sem drög að frumvarpinu voru kynnt sérstaklega fyrir starfsfólki þeirra áður en þau voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 20. september til 4. október 2023, sjá mál nr. S-168/2023. Alls bárust 12 umsagnir á umsagnartímanum sem vörðuðu frumvarpið. Eins og áður hefur komið fram þá hefur heiti frumvarpsins verið breytt eftir samráðsferlið og ber nú heitið frumvarp til laga um Umhverfis- og orkustofnun í stað frumvarps til laga um Loftslagsstofnun.
    Byggðarráð Skagafjarðar er fylgjandi frumvarpinu ef sameining er gerð í sátt við starfsfólk stofnana. Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins er frumvarpið litið jákvæðum augum og í umsögn Bændasamtakanna er lýst yfir stuðningi við hagræðingu í stofnanakerfinu.
    Í umsögn einstaklings er bent á að Umhverfisstofnun hafi orðið til við sameiningu Hollustuverndar ríkisins, Náttúrverndar ríkisins og Veiðistjórnarembættisins á þeim grunni að verið væri að sameina umhverfismál í einni og sterkari stofnun, einfalda stofnanakerfið og gera það skilvirkara. Að mati umsagnaraðila eru nú tekin skref aftur í tímann þar sem verkefni náttúrverndar og veiðistjórnar eru skilin frá starfsemi gömlu Hollustuverndar. Ekki verði séð að breytingin einfaldi stjórnsýsluna í ljósi þess að aðkoma viðkomandi stofnana að náttúruverndarmálum sé nauðsynleg, t.d. í tengslum við mengunarmál og stjórnun vatnamála. Í umsögninni segir þá að ekki komi skýrt fram hvort starfsmenn haldi áunnum réttindum og skyldum við breytinguna. Óljóst sé þá hvernig eigi að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum um landið. Spurt er af hverju Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Þingvallaþjóðgarður og Vatnajökulsþjóðgarður séu ekki sameinuð þar sem rekstur þjóðgarða sé sér rekstrareining og fjárhagslega aðgreind eins og Raforkueftirlitið og með sama fyrirkomulagi og Snæfellsjökulsþjóðgarður.
    Eitt af mikilvægum markmiðum stofnanabreytinga er einföldun stjórnsýslu, sem byggist á grunni samlegðar með verkefnum og málaflokkum. Ljóst er hins vegar að þrátt fyrir sameiningar stofnana verður í einhverjum tilvikum þörf á aðkomu beggja stofnana að málum, þ.e. þeirrar stofnunar sem hér um ræðir og Náttúruverndar- og minjastofnunar. Í vinnu við stofnanabreytingar hefur ekki síður verið litið til samlegðar með málaflokkum en að um yrði að ræða stærri og öflugri stofnanir. Hvað varðar athugasemd er lýtur að fjölgun starfa á landsbyggðinni þá verður unnið að því markmiði í gegnum stefnumótun stofnana þegar og ef frumvörp um sameiningar verða að lögum.
    Í umsögn Landverndar er m.a. bent á mikilvægi þess aðhalds sem Umhverfisstofnun veiti Orkustofnun með lögbundnum umsögnum. Einnig eru gerðar athugasemdir við að hlutverk Orkustofnunar innan almannavarna falli út sem og að starfsfólk stofnana njóti eingöngu forgangs til nýrra starfa. Einnig eru gerðar athugasemdir við að forstjóra verði heimilt að fela skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins önnur verkefni, sem samræmist ekki kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA. Landvernd gerir sérstakar athugasemdir við breytingu á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins þar sem bætt er við ákvæði um að stofnunin skuli stuðla að því að rannsóknir séu gerðar á orkulindum hafsbotnsins, sem samræmist ekki stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Sömuleiðis eru gerðar athugasemdir við að stofnuninni sé falið að vinna áætlun til langs tíma um hagnýtingu auðlinda hafsbotnsins sem hluta af áætlun um orkubúskap þjóðarinnar, hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins. Væri hér skýrara að tala um auðlindir hafsbotnsins en ekki landsins. Þá sé ekki fjallað um hlutverk stofnunarinnar í því að forgangsraða raforkunotkun til orkuskipta.
    Bent er á vegna umsagnar Landverndar að nýrri stofnun er ætlað að bera ábyrgð á öllum tilgreindum málefnum og verkefnum Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar hvort sem um er að ræða orkumál, umhverfismál eða loftslagsmál og því ætti ekki að vera þörf á aðhaldi annarra stofnana vegna þeirra málaflokka. Hvað varðar athugasemd um að hlutverk Orkustofnunar innan almannavarna falli út þá gerir frumvarpið ráð fyrir að forstjóri nýrrar stofnunar sitji í almannavarnaráði. Hvað varðar athugasemdir er lúta að því að forstjóra verði heimilt að fela skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins önnur verkefni þá hefur það ákvæði verið endurskoðað og því breytt, sjá a-lið 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Einnig er bent á vegna athugasemdar er lýtur að því hlutverki nýrrar stofnunar að stuðla að því að rannsóknir séu gerðar á orkulindum hafsbotnsins, sbr. 12. tölul. 8. gr. frumvarpsins, að jarðhiti fellur m.a. undir það að vera orkulind. Tillagan felur ekki í sér efnisbreytingu heldur hefur Orkustofnun í reynd þetta hlutverk í dag skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um Orkustofnun. Er því í 8. gr. frumvarpsins um að ræða tillögu um flutning á umræddu ákvæði úr lögum um Orkustofnun í önnur lög. Hvað varðar hlutverk nýrrar stofnunar við að forgangsraða raforkunotkun til orkuskipta er bent á 3. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að stofnunin hafi það hlutverk að vinna að lögbundnum markmiðum og stefnu stjórnvalda hverju sinni. Dæmi um slíkt eru markmiðsákvæði raforkulaga, nr. 65/2003, og laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013.
    Í umsögn Landsvirkjunar er talið að ný fagstofnun geti styrkt málaflokkana og byggt upp þekkingu og skilning. Sameiningin leiði þó til fjölgunar í umsögnum í tengslum við umhverfismat framkvæmda og skipulag. Einnig er bent á mikilvægi þess að löggjafinn skeri úr um ábyrgðarskiptingu á borholum í eigu ríkisins. Þá er bent á að tryggja þurfi að aðili með þekkingu á orkumálum eigi setu í ráðgjafarnefnd fagstofnana samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.
    Vegna athugasemda í umsögn Landsvirkjunar um að umsögnum vegna umhverfismats muni fjölga þá er óljóst til hvaða framkvæmda eða áætlana er verið að vísa. Bent er á að við skiptingu Umhverfisstofnunar í tvær nýjar stofnanir getur í einstökum málum verið þörf á aðkomu beggja stofnana að málum, t.d. í formi umsagna. Hvað varðar það hver taki við umsjónar- og eftirlitshlutverki Orkustofnunar vegna borhola í eigu ríkisins er bent á að nýrri stofnun er ætlað að taka við öllum verkefnum Orkustofnunar.
    Samorka lýsir yfir ánægju með áform um að styrkja og einfalda stjórnsýsluna og um betri nýtingu fjármagns og hagkvæmni í rekstri. Athugasemd er gerð við að skrifstofustjóri Raforkueftirlits eigi að sinna öðrum verkefnum sem forstjóri feli honum, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 4. gr. frumvarpsins, og segir ekki ganga upp að skrifstofustjóri Raforkueftirlits sé skipaður af ráðherra en starfi svo í umboði forstjóra stofnunarinnar. Þá er í umsögninni gagnrýnt að í 6. tölul. 5. gr. frumvarpsins segi að setning tekjumarka flutnings- og dreififyrirtækja sé eitt af verkefnum nýrrar stofnunar, þar sem það sé verkefni Raforkueftirlitsins. Þá sé mikilvægt að aðgreina í raforkulögum hvað séu verkefni stofnunarinnar og hvaða verkefni eigi að vera á hendi Raforkueftirlitsins.
    Vegna athugasemda í umsögn Samorku er lýtur að Raforkueftirlitinu er bent á að 4. gr. frumvarpsins hefur sætt breytingum með tilliti til sjálfstæðis Raforkueftirlitsins. Vegna athugasemda um að yfirmaður raforkueftirlitsins geti ekki lotið beinu boðvaldi forstjóra vegna sjálfstæðis eftirlitsins er bent á að forstjóri hefur samkvæmt frumvarpinu ekki heimild til að hafa afskipti af einstökum málum Raforkueftirlitsins, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Hvað varðar athugasemd um að setning tekjumarka flutnings- og dreififyrirtækja sé eitt af verkefnum Raforkueftirlitsins en ekki nýrrar stofnunar er bent á að 5. gr. frumvarpsins er ætlað að fjalla um öll helstu verkefni stofnunarinnar óháð því hvaða svið innan hennar sinna þeim verkefnum. Í þessu sambandi er einnig bent á að á þingmálaskrá ríkisstjórnar vegna 154. löggjafarþings eru tilgreind tvö frumvörp þar sem m.a. er gert ráð fyrir nánari útfærslu á ákvæðum raforkulaga í ljósi athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA og krafna tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB.
    Í umsögn Samband íslenskra sveitarfélaga er bent á mikilvægi þess að huga að þekkingu og mannauði viðkomandi stofnana og að þjónusta þeirra raskist sem minnst. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru m.a. ítrekaðar athugasemdir um árekstur milli mismunandi hlutverka stofnana og segir að markmið laga sem stofnanirnar framfylgi stangist að vissu leyti á. Að lokum er talið að heilbrigðiseftirlitið ætti að vera tilgreint sem eitt af þeim aðilum sem heimilt sé að framselja vald til í 6. gr. frumvarpsins.
    Vegna umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á á að stofnanir gegna ýmsum hlutverkum og ber að vinna að ýmsum markmiðum laga sem geta að einhverju leyti verið ólík og þarf að samræma. Athugasemdir sem þessar verða þó hafðar í huga í framhaldsvinnu vegna stofnanabreytinga. Hvað varðar athugasemd við 6. gr. frumvarpsins er bent á að ákvæðið felur eingöngu í sér tilvitnun í að heimildir séu í sérlögum sem stofnuninni er ætlað að starfa eftir til að framselja framkvæmd eftirlits. Þessi ákvæði sérlaga tilgreina þá aðila sem heimilt er að framselja vald til, t.d. heilbrigðiseftirlit.
    Í umsögn Ungra umhverfissinna er talið að ýmis tækifæri séu til aukinnar skilvirkni og gæða vegna stofnanabreytinga. Segir að mikilvægt sé að störf er varði eftirlit og rannsóknir á orku og orkunýtingu séu ekki undir sömu stofnun og leyfisveitingar orkuframkvæmda. Nýting og framleiðsla orku sé nátengd óafturkræfri eyðileggingu á náttúruauðlindum sem hafi neikvæð áhrif á gæði óbyggða, líffræðilega fjölbreytni og loftslagið. Hvað varði fyrirhugaða breytingu á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, um að auka áherslu stofnunarinnar á rannsóknir á orkulindum hafsbotnsins, er bent á ósamræmi við markmið í loftslagsmálum og um jarðefnaeldsneytislaust Ísland.
    Óljóst er í umsögninni hvað átt sé við með því að störf sem lúta að eftirliti og rannsóknum á orku og orkunýtingu ættu ekki að vera undir sömu stofnun og leyfisveitingar orkuframkvæmda. Samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, hefur Orkustofnun bæði það hlutverk að veita leyfi til að reisa og reka raforkuver og hafa eftirlit með því að slík starfsemi fullnægi settum skilyrðum. Þess misskilnings gætir að í 8. gr. sé að finna aukna áherslu á rannsóknir á orkulindum hafsbotnsins. Í viðbrögðum við umsögn Landverndar framar í kafla þessum vegna 12. tölul. 8. gr. frumvarpsins er nánar útskýrt að ekki eingöngu jarðefnaeldsneyti fellur undir orkulindir heldur einnig jarðhiti.
    Í umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) segir að ekki komi nægjanlega fram hvernig færsla starfsfólks til nýrra stofnana sé fyrirhuguð. Svo virðist sem gert sé ráð fyrir að starfsfólk sæti niðurlagningu starfa sinna, þurfi svo mögulega að sækja um störf sín aftur og hlíta breytingum á starfi en störfin sæti samt sem ekki auglýsingaskyldu. Þessi atriði séu ekki samrýmanleg. Tilvísun til forgangs og væntanlegra breytinga á starfi/starfsstigi sé ávísun á óróleika, hræðslu og mögulegan flótta starfsfólks með tapi á þekkingu og reynslu. Að mati FÍN verði ekki unnt að framkvæma bráðabirgðaákvæði frumvarpsins með öðrum hætti en að auglýsa störf, sem mögulega séu önnur og/eða breytt, hjá nýrri stofnun og forgangsrétturinn varði forgang gagnvart einstaklingum sem ekki hafi þurft að þola niðurlagningu starfs síns. FÍN bendir einnig á að ekkert liggi fyrir um starfskjör starfsfólks. Ýmis ákvæði miðlægs kjarasamnings séu þannig útfærð að réttindi miðist við samfellt starf hjá sömu stofnun. Þó að eðli sínu samkvæmt séu störf lögð niður við fyrirhugaða niðurlagningu umræddra stofnana þurfi að halda til haga að hvers konar áunnin réttindi starfsfólks muni ekki tapast. Þrátt fyrir að gerð stofnanasamninga sé ekki hluti af lagasetningu er að mati FÍN nauðsynlegt að gerð þeirra við viðkomandi stéttarfélög verði hraðað.
    Í tilefni af umsögn FÍN ber að nefna að samráð við stéttarfélög hefur þegar hafist í ferlinu og mun aukið samráð eiga sér stað í aðdraganda breytinga, sér í lagi þegar kemur að gerð nýrra stofnanasamninga, en leggja þarf tímanlega í þá vegferð. Hvað varðar athugasemdir FÍN við þá leið sem er lögð til í frumvarpinu og lýtur að starfsfólki þá er sú leið farin þegar nýjar stofnanir eru sameinaðar úr öðrum stofnunum eða hluta úr stofnun þar sem fyrir hendi er skipulag og skipurit sem getur ekki legið til grundvallar nýrri stofnun. Gert er ráð fyrir að í undirbúningsfasa, sem mun hefjast við samþykkt frumvarpsins eftir að ráðningarferli vegna nýs forstjóra er yfirstaðið, hefjist stefnumótun fyrir hina nýju stofnun. Í stefnumótunarferlinu er mótað nýtt skipurit og samhliða skýrist hvernig ný störf eru samsett. Afurð stefnumótunar getur leitt til breytinga á störfum. Ekki er gert ráð fyrir að starf verði auglýst nema starfsfólk viðkomandi stofnana þiggi það ekki eða það samræmist ekki þeirri þekkingu eða færni sem er til staðar hjá starfsfólkinu. Forstjóri nýrrar stofnunar mun fá í hendur greinargerð frá mannauðshópi stofnanabreytinga þar sem lagt er mat á stöðu mannauðsmála þeirra stofnana sem munu mynda nýja stofnun og tillögur að aðgerðum í mannnauðsmálum. Vegna ábendingar FÍN og annarra ábendinga hefur breyting verið gerð á ákvæði til bráðabirgða í þá veru að tryggja áunnin réttindi starfsfólks í nýrri stofnun til námsleyfis og framlengds uppsagnarfrests. Ekki er þörf á að tilgreina sérstaklega biðlaunarétt þar sem hann mun virkjast ef starfsfólk þiggur ekki störf hjá nýrri stofnun sem ekki eru sambærileg því starfi sem það sinnti. Ákvörðun um ráðningarkjör liggur að öðru leyti hjá nýjum forstjóra.
    Í umsögn Orkustofnunar segir að gæta þurfi að því að áunnin réttindi starfsmanna haldist óbreytt þiggi starfsmaður boð um starf á nýrri stofnun. Í umsögninni er þá lagt til nýtt ákvæði sem veiti Loftslagsstofnun heimild til gjaldtöku vegna úrlausna tiltekinna afmarkaðra verkefna.
    Sem viðbrögð við ábendingum Orkustofnunar um réttindi starfsfólks er vísað til framangreindra viðbragða við umsögn FÍN og breytinga á ákvæði frumvarpsins til bráðabirgða. Vegna athugasemda um veikinda- og orlofsrétt starfsfólks skal bent á að starfsfólk stofnana heldur veikindarétti og rétti til orlofs þó að það hætti störfum hjá einni stofnun til að hefja störf í annarri stofnun. Vegna tillögu um nýtt gjaldtökuákvæði þá er fyrirhugað að leggja fram á haustþingi 154. löggjafarþings frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna leyfisveitinga Orkustofnunar (þjónustugjöld) og mun tillaga Orkustofnunar koma til skoðunar í tengslum við það frumvarp.
    Tekið er undir ábendingar í umsögnum um að mikilvægt sé að halda í mannauð og þekkingu starfsfólks til að innleiðingarferli vegna nýrrar stofnunar, verði frumvarpið að lögum, verði farsælt auk þess sem mikilvægt sé að byggja áfram upp faglega þekkingu innan hennar. Einnig eru mikilvægar ábendingar er lúta að starfsemi nýrrar stofnunar og verkefnum hennar, sem munu verða teknar til nánari skoðunar. Frumvarpi þessu er hins vegar ekki ætlað að leggja til breytingar á verkefnum þeim sem umræddar stofnanir hafa nú með höndum. Hvað varðar athugasemdir sem fram hafa komið um stuttan umsagnarfrest er tekið undir það að æskilegt sé að hafa umsagnarfrest sem lengstan. Auk samráðs vegna áforma um lagasetningu og frumvarpsdraga hefur verið kallað eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og annarra í samráðsgátt stjórnvalda vegna endurskipulagningar stofnanakerfisins og þar á meðal leitað eftir því að tilteknum lykilspurningum sé svarað. Ætlunin er að vinna með þær athugasemdir og sjónarmið sem þar munu koma fram í undirbúningsvinnunni fram undan.

6. Mat á áhrifum.
    Eins og fram kemur í 3. kafla þá leiddi greiningarvinna umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í ljós faglegan ávinning af sameiningaráformum og ávinning í tengslum við mannauð og þekkingu, fjármagn, innri virkni og þjónustu. Gert er ráð fyrir að skýr kjarni umhverfis-, loftslags- og orkumála og málefna auðlindanýtingar verði í starfsemi nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar og aukin tækifæri faglega til þróunar og nýsköpunar og eflingar og árangurs. Stærri vinnustaður geti fremur tekist á við krefjandi áskoranir og umhverfi stöðugrar þróunar og að þverfaglegt samstarf innan stofnana og þeirra í milli verði markvissara. Þá er gert ráð fyrir að sameiningin leiði til aukinnar hæfni, getu og sérhæfingar og eftirsóknarverðari og fjölbreyttari vinnustaðar þar sem aukin tækifæri verði til starfsþróunar. Einnig má gera ráð fyrir að nýting fjármagns verði í frekari takti við áherslur stjórnvalda, fjárlagagerð verði einfaldari og aukin rekstrarhagkvæmni auk betri nýtingar á húsnæði. Vonir eru til skýrari tengingar á starfsemi stofnana við stefnu ráðuneytisins, aukinna tækifæra til einföldunar á regluverki og aukinnar skilvirkni og framleiðslu. Tækifæri væru þá til aukinnar upplýsingagjafar, gagnsæis og aðgengis að gögnum og samþættingu krafta, þekkingar og fjármagns til að mæta loftslagsáskorunum og öðrum brýnum viðfangsefnum. Aukin tækifæri felist einnig í betri þjónustu við almenning og stjórnvöld, þ.m.t. sveitarfélög, og aðra með skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu, færri snertiflötum og stafrænni þróun og lausnum.
    Sameining stofnana hefur í för með sér hagræðingu til lengri tíma sem nýtt verður til að efla hina nýju stofnun. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess muni hafa áhrif á útgjöld eða afkomu ríkissjóðs. Til skemmri tíma er líklegt að einhver tilfallandi kostnaður falli til og verður honum mætt innan útgjaldaramma.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um yfirstjórn stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að Umhverfis- og orkustofnun verði hefðbundin ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra. Í samræmi við 11. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, er gert ráð fyrir að hin nýja stofnun muni lúta yfirstjórn umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
    Í 2. mgr. er fjallað um Raforkueftirlitið, sem skal vera sérstök eining innan stofnunarinnar og sjálfstætt í störfum sínum við raforkueftirlit. Krafa um sjálfstæði raforkueftirlitsins leiðir af skuldbindingum Íslands samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB. Ákvæðið er í samræmi við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun og raforkulögum (Raforkueftirlitið) hvað varðar þann hluta er snýr að breytingu á lögum um Orkustofnun. Ráðgert er að leggja það frumvarp einnig fram á 154. löggjafarþingi. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 153. löggjafarþingi 2022–2023 (þingskjal 1531, 983. mál) en náði ekki fram að ganga. Markmið þess frumvarps er að innleiða þau ákvæði í tilskipun 2009/72/EB sem varða sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur haft til skoðunar ákvæði laga og reglna hér á landi sem innleiða kröfur tilskipunar 2009/72/EB, sem varða sjálfstæði raforkueftirlits. Í ljósi sjónarmiða sem fram hafa komið í samskiptum ráðuneytisins og ESA er talin þörf á að hnykkja frekar á tilteknum ákvæðum löggjafarinnar sem tengjast sjálfstæði raforkueftirlitsins. Skv. 1. gr. laga um Orkustofnun, nr. 87/2003, er stofnunin sjálfstæð í ákvörðunum sínum þegar hún sinnir raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum. Í samræmi við þær athugasemdir sem gerðar hafa verið af hálfu ESA er í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins lagt til að mælt verði fyrir um sérstaka einingu innan Orkustofnunar sem nefnist Raforkueftirlitið sem verði sjálfstætt í störfum sínum þegar það sinnir raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum. Með því er átt við þau verkefni sem tilgreind eru í 37. gr. tilskipunar 2009/72/EB, sbr. III., IV. og V. kafla raforkulaga. Í ljósi sjálfstæðis raforkueftirlitsins í störfum sínum fer ráðherra ekki með almennar yfirstjórnunarheimildir gagnvart því vegna raforkueftirlits.

Um 2. gr.

    Í greininni er fjallað um skipan forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar og hlutverk hans. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að forstjóri sé skipaður til fimm ára eins og almennt er gert ráð fyrir í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Í lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, eru ekki gerðar kröfur til menntunar orkumálastjóra en í lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, er gert ráð fyrir að forstjóri Umhverfisstofnunar hafi háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Í frumvarpi þessu þykir nægjanlegt að forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar hafi háskólamenntun sem nýtist honum í starfi, sem veitir ákveðinn sveigjanleika við skipun forstjóra. Skýrt er í greininni að forstjóri beri ábyrgð á starfsemi og rekstri Umhverfis- og orkustofnunar, sem er meginhlutverk hans.
    Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda m.a. um forstöðumenn ríkisstofnana og er ábyrgð þeirra til að mynda skilgreind í 38. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er einnig tilgreint hvað felst í ábyrgð forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar. Honum er ætíð ætlað að sjá til þess að stofnunin starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem gilda um starfsemi hennar. Einnig ber honum að fylgja áherslum og stefnum ráðherra og annarra stjórnvalda eftir atvikum. Forstjóri ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Ef útgjöld stofnunar fara fram úr fjárlagaheimildum eða verkefnum hennar er ekki sinnt á forsvaranlegan hátt líkt og forstöðumanni ber að tryggja má veita honum áminningu skv. 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Forstöðumaður hefur því yfirumsjón með rekstri stofnunar, framkvæmd verkefna hennar og starfsmannamálum. Skv. 4. mgr. 27. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, ber forstöðumaður ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að starfsemi skili árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og samþykktar áætlanir. Í 36. gr. laga um opinber fjármál er vísað til 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins varðandi ábyrgð forstöðumanna þar sem í 2. mgr. kemur fram að ábyrgðin nái m.a. til þess að rekstur og fjárstýring ríkisaðila sé skilvirk og í samræmi við samþykktar áætlanir. Forstjóri stofnunarinnar ber ábyrgð á yfirstjórn starfsmannamála og er það því í höndum forstjóra að ráða aðra starfsmenn stofnunarinnar.
    Í 3. mgr. er lagt til að skrifstofustjóri Raforkueftirlitsins verði skipaður af ráðherra til fimm ára í senn og að sama aðila sé aðeins hægt að skipa í embættið tvisvar sinnum. Í tilskipun 2009/72/EB er gerð krafa um að stjórnendur hins sjálfstæða raforkueftirlits séu skipaðir í fimm til sjö ára tímabil sem heimilt er að endurnýja einu sinni. Er því lagt til að raforkueftirlitinu verði stýrt af embættismanni skipuðum af ráðherra. Við skipun í embætti skrifstofustjóra Raforkueftirlitsins skal ráðherra skipa þriggja manna nefnd til að meta hæfni umsækjenda um embættið. Niðurstaða hæfnisnefndar er ráðgefandi við skipun í embætti. Útfærslan byggist m.a. á þeim hæfnisnefndum sem fjallað er um í 19. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011, og er ætlað að meta umsækjendur út frá hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Rétt er að taka mið af reglum um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands, nr. 393/2012, við störf hæfnisnefnda sem skipaðar eru á grundvelli laga um Umhverfis- og orkustofnun, verði frumvarp þetta að lögum. Gert er ráð fyrir því að yfirmaður raforkueftirlitsins fari með daglega stjórn og rekstur einingarinnar, hafi eftirlit með störfum starfsmanna innan einingarinnar og samræmi þau. Ákvæði 3. mgr. er samhljóða 3. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun og raforkulögum (Raforkueftirlitið) sem fyrirhugað er að leggja fram á 154. löggjafarþingi. Um Raforkueftirlitið er einnig fjallað í 2. mgr. 1. gr. frumvarps þessa og vísast einnig til skýringa við þá grein.
    Skýrslur Umhverfisstofnunar hafa gefið góða mynd af starfi stofnunarinnar. Talið er rétt að viðhalda þeim vinnubrögðum í nýrri Umhverfis- og orkustofnun og að hún vinni ársáætlun byggða á stefnumótun til lengri tíma og árlega skýrslu um starfsemi stofnunarinnar sem gefi raunsanna mynd af því starfi sem stofnuninni er að lögum falið að sinna. Því er í 4. mgr. gerð tillaga um að Umhverfis- og orkustofnun geri árlega áætlun um störf stofnunarinnar og birti skýrslu um starfsemi sína. Í ársáætlun stofnunarinnar geta verið stefnumarkandi áherslumál, svo sem undirbúningur áætlana fyrir ráðherra, ráðstöfun fjármagns vegna ýmissa verkefna og framkvæmd á alþjóðlegum samningum og því er mikilvægt að tryggt sé að stofnunin starfi í takt við stefnu stjórnvalda í viðkomandi málaflokki, þannig að stofnunin og ráðuneytið séu samstíga um grundvallaratriði sem unnið er að og að ráðuneytið geti haft visst faglegt eftirlit með grundvallarþáttum í starfi stofnunarinnar. Þetta er m.a. í samræmi við ákvæði 32. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem mælir fyrir um gerð ársáætlunar sem leggja ber fyrir ráðherra til staðfestingar.
    Enn fremur er í 4. mgr. kveðið á um að stofnunin setji sér stefnu til lengri tíma um meginverkefni stofnunarinnar í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Í 31. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um að ríkisaðilar skuli á hverju ári móta stefnu fyrir starfsemi sína fyrir a.m.k. næstu þrjú ár. Um er að ræða lifandi stefnu þar sem Umhverfis- og orkustofnun mótar áherslur sem eru í takti við stöðu mála hér á landi í alþjóðlegu samhengi. Með ákvæðum laga um opinber fjármál er gerð krafa um að í stefnu stofnunarinnar til þriggja ára komi fram skýr markmið og almennar áherslur í starfsemi hennar og hvernig þeim verði náð með tilliti til áætlaðra fjárveitinga. Hér er átt við að stefnumótun feli ekki aðeins í sér yfirlit yfir almennar rekstrarforsendur heldur séu sett mælanleg markmið, þ.m.t. hvernig fjárveiting verður notuð til að ná fram áherslum í starfsemi, svo sem til að bæta þjónustu við tiltekinn markhóp, stytta biðtíma eftir þjónustu, stuðla að auknum verklegum framkvæmdum, stuðla að rannsóknum á tilteknu sviði eða lækka rekstrarkostnað. Því er mikilvægt að markmið og áherslur verði settar fram fyrir hvert ár svo greina megi árangur milli ára.
    Samkvæmt 5. mgr. greinarinnar er ráðherra heimilt að setja í reglugerð, að höfðu samráði við Umhverfis- og orkustofnun, nánari ákvæði um skipulag stofnunarinnar. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Ísland, nr. 115/2011, kveður ráðherra t.d. á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir og er því m.a. unnt að kveða á um þá staðsetningu í reglugerð um skipulag stofnunarinnar. Í 5. mgr. er einnig gert ráð fyrir að ráðherra geti tekið ákvörðun um staðsetningar á starfsstöðvum stofnunarinnar líkt og á við um aðsetur hennar. Eins og áður hefur komið fram var eitt af markmiðum verkefnisins um breytt stofnanaskipulag að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifast um landið. Í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036 er að finna aðgerð um staðarval ríkisstarfa, þar sem markmiðið er að dreifing opinberra starfa verði jöfnuð og stuðlað að fjölbreyttu atvinnulífi sem víðast um landið (aðgerð B.6). Einnig er þar að finna aðgerð B.7 um óstaðbundin störf þar sem markmiðið er að búsetufrelsi verði eflt með fjölgun atvinnutækifæra og auknum fjölbreytileika starfa á landsbyggðinni. Þessar aðgerðir og markmið hafa verið leiðarljós við umræddar stofnanabreytingar líkt og endurspeglast í 5. mgr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í greininni er fjallað um hlutverk Umhverfis- og orkustofnunar. Hlutverk nýrrar stofnunar verður fyrst og fremst að sinna stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefnum auðlindanýtingar í samræmi við ýmis sérlög eins og nánar greinir í 3. kafla. Umhverfis- og orkustofnun er ætlað að starfa eftir miklum fjölda sérlaga þar sem hin ýmsu markmið eru tilgreind. Sökum þessa eru ekki lögð til sérstök markmið sem stofnuninni ber að starfa eftir í frumvarpi þessu. Þess í stað er dregið fram í 1. mgr. greinarinnar að stofnuninni ber að starfa eftir markmiðum sem fram koma í þeim lögum sem stofnunin starfar eftir og stefnu stjórnvalda hverju sinni. Einna mikilvægustu markmið stjórnvalda koma fram í lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Markmið þeirra er að ná kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, stuðla að aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Markmið laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Jafnframt að koma í veg fyrir eða að draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið. Markmið raforkulaga, nr. 65/2003, er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í því skyni ber að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna, stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja fullnægjandi raforkuöryggi, hagsmuni neytenda og neytendavitund á raforkumarkaði, stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða. Í lögum um Orkusjóð, nr. 76/2020, kemur fram það hlutverk sjóðsins að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða þar sem markmiðið er að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Einnig ber að nefna lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, þar sem lögfest er markmið um að koma á hringrásarhagkerfi. Þar er markmiðið að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis og tryggja að úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs fari þannig fram að til að mynda sé stuðlað að sjálfbærri auðlindanotkun með aðgerðum og fræðslu til að draga úr myndun úrgangs.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. ber Umhverfis- og orkustofnun í starfsemi sinni að vinna að stefnu og þ.m.t. helstu áherslum stjórnvalda hverju sinni á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála og auðlindanýtingar. Auk ríkisstjórnarsáttmála hverju sinni koma áherslur stjórnvalda fram í fjármálastefnu og fjármálaáætlun og fjölmörgum stefnuskjölum. Ber þar að nefna aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, orkustefnu, og orkuskiptaáætlun, vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, stefnu um meðhöndlun úrgangs, loftgæðaáætlun o.fl. Í skýringum við 5. gr. er komið inn á ýmsar lögbundnar stefnur ráðherra sem Orkustofnun og Umhverfisstofnun ber að vinna að, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Umhverfis- og orkustofnun taki við því hlutverki.
    Í 2. mgr. eru talin upp í stafrófsröð þau málefni sem falla undir starfssvið Umhverfis- og orkustofnunar. Tekið er mið af forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Í 11. gr. forsetaúrskurðarins er fjallað um þau mál er umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti fer með. Undir starfsemi Umhverfisstofnunar í gildandi lögum falla málefni sem talin eru upp í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins og mun ný Umhverfis- og orkustofnun taka við þeim málefnum:
          Efnamál. Um efnamál er fjallað í efnalögum, nr. 61/2013, og lögum um framkvæmd samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, nr. 17/2000.
          Erfðabreyttar lífverur. Um það málefni er fjallað í lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996.
          Fráveitumál. Um fráveitur er fjallað í lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009.
          Hollustuhættir. Um hollustuhætti er fjallað í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
          Hringrásarhagkerfi og úrgangsmál. Um úrgangsmál og önnur málefni er lúta að hringrásarhagkerfi er fjallað í lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, lögum um umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
          Mengunarvarnir. Um mengunarvarnir er fjallað í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, lögum um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012, lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, nr. 40/2015, og lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.
          Loftgæði. Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, er fjallað um málefni er lúta að loftgæðum.
          Loftslagsmál. Lög um loftslagsmál, nr. 70/2012, taka í heild sinni til loftslagsmála en einnig er komið inn á þetta mikilvæga málefni í lögum, um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og í efnalögum, nr. 61/2013. Umhverfisstofnun fer með lykilhlutverk samkvæmt lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Eitt af mikilvægustu lykilhlutverkunum er loftslagsbókhald Íslands, en Umhverfisstofnun heldur bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda úr andrúmslofti í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á því sviði. Auk þessa annast hún umsýslu losunarheimilda á Íslandi vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.
          Stjórn vatnamála. Um það málefni er fjallað í lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011.
          Umhverfisábyrgð. Málefnið byggir á lögum um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012.
          Umhverfisvottanir og sjálfbær neysla. Um þetta málefni er helst fjallað í lögum nr. um hollustuhætti og mengunarvarnir, 7/1998, en einnig í lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
          Varnir gegn mengun hafs og stranda. Í raun er hér um að ræða málefni sem fellur undir mengunarvarnir, en í ljósi sérstöðu slíkra mengunarvarna er ástæða til að nefna það sérstaklega. Umfjöllun um málefnið er að finna í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.
    Undir starfsemi Orkustofnunar, sem ný Umhverfis- og orkustofnun mun taka yfir, falla eftirtalin málefni:
          Jöfnun kostnaðar við húshitun og dreifingu raforku. Kveðið er um málefnið í lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002, lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004, og lögum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, nr. 53/1980.
          Leit, rannsóknir og vinnsla orku og annarra auðlinda í jörðu og á, í eða undir hafsbotni. Um þetta málefni er fjallað í lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, og lögum um rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.
          Orkuskipti. Í raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum um orkusjóð, nr. 76/2020, er komið inn á orkuskipti í markmiðsákvæðum auk þess sem lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, fjalla um gerð áætlunar um vernd og nýtingu landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti.
          Orkusparnaður og nýting orku. Ýmis lög koma inn á þetta málefni, sbr. raforkulög, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, vatnalög, nr. 15/1923, lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, orkulög, nr. 58/1967, lög um orkusjóð, nr. 76/2020, lög um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum, nr. 30/2008, og lög um rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001.
          Hitaveitur. Um hitaveitur er helst fjallað í orkulögum, nr. 58/1967.
          Raforkumarkaður. Um raforkumarkað er fjallað í raforkulögum, nr. 65/2003.
          Upprunaábyrgðir. Um er að ræða lög um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl., nr. 20/2008.
          Vatnsréttindi og nýting og aðgangur að vatni. Um málefnið er fjallað í vatnalögum, nr. 15/1932 en einnig er komið inn á það í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.
          Verndar- og orkunýtingaráætlun. Þessi áætlun er í daglegri umræðu nefnd rammaáætlun, en um hana er fjallað í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Orkustofnun hefur haft það hlutverk samkvæmt lögunum að meta hvort skilyrði séu til þess að tiltekinn virkjunarkostur fari til umfjöllunar verkefnisstjórnar vegna gerðar verndar- og orkunýtingaráætlunar.
          Vinnsla, flutningur, dreifing og viðskipti með raforku. Hér er um að ræða málefni raforkulaga, nr. 65/2003.
          Öryggi raforkukerfisins. Um þetta málefni er fjallað í raforkulögum, nr. 65/2003.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um þau helstu verkefni sem Umhverfis- og orkustofnun er ætlað að hafa með höndum. Eitt af mikilvægum hlutverkum Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar er að veita ráðherra ráðgjöf og aðstoð við undirbúning að stefnumótun, áætlunum og setningu laga og stjórnvaldsfyrirmæla á þeirra starfssviði. Hér er um almenna skyldu að ræða gagnvart ráðherra í ljósi yfirstjórnarhlutverks hans samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Stofnanirnar hafa einnig lögbundin hlutverk sem þessu tengjast. Má þar nefna að Umhverfisstofnun ber að vinna tillögu að stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs og úrgangsforvarnir, loftgæðaáætlun, aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara og vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011. Þá er öll upplýsingagjöf stofnana mikilvæg í þessu sambandi og má þar nefna að Umhverfisstofnun ber að skila ráðherra árlega skýrslu um árangur opinberra aðila í loftslagsmálum og gera stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði. Orkustofnun ber að vinna langtímaáætlun um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins og hafsbotnsins, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um Orkustofnun, nr. 87/2003, og 4. tölul. 2. mgr. 5. gr. þessa frumvarps. Einnig ber að nefna að Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og gegna stofnanir þessar hlutverki við greiningu Evrópugerða sem Íslandi ber að innleiða og veita ráðuneytinu aðstoð í tengslum við vinnu að innleiðingum gerðanna í lög og reglugerðir. Þessar skyldur er gert ráð fyrir að færist til Umhverfis- og orkustofnunar.
    Í lögum er einnig mælt fyrir um að Umhverfisstofnun og Orkustofnun veiti öðrum stjórnvöldum umsagnar um þau málefni sem undir þau falla o.fl. og er gert ráð fyrir að þau verkefni færist til Umhverfis- og orkustofnunar. Einnig er rétt að nefna að í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, er kveðið á um að umsagnaraðilar séu þær opinberu stofnanir, stjórnvöld og aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra. Samkvæmt umræddum lögum hefur eitt af lögbundnum verkefnum Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar verið að veita umsagnir um framkvæmdir og áætlanir á grundvelli laganna þegar tilefni er til og viðkomandi framkvæmd eða áætlun varðar starfssvið þeirra.
    Í 2. mgr. eru listuð upp önnur helstu verkefni Umhverfis- og orkustofnunar en greint er frá í 1. mgr.:
          Í 1. tölul. er gert ráð fyrir að ný stofnun sinni umfangsmikilli leyfisútgáfu. Einnig er gert ráð fyrir sambærilegri ákvarðanatöku, svo sem undanþáguveitingum, ýmiss konar samþykki og staðfestingum. Ákvarðanir um leyfi og sambærilegar ákvarðanir eru teknar m.a. á grundvelli raforkulaga, nr. 65/2003, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, vatnalaga, nr. 15/1923, laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, efnalaga, nr. 61/2013, laga um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, laga um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, og laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004. Stofnanirnar sinna þá samkvæmt margvíslegri annarri stjórnsýslu, þar á meðal annast Umhverfisstofnun stjórnsýslu á sviði vatnsverndar samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, og sker úr um þegar ágreiningur er um hvort um vöru eða úrgang sé að ræða samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Einnig er vert að nefna að samkvæmt lögum um Orkusjóð, nr. 76/2020, hefur Orkustofnun það hlutverk að annast daglega umsýslu sjóðsins undir yfirstjórn stjórnar.
          Í 2. tölul. er vísað til eftirlitshlutverks nýrrar stofnunar sem helst m.a. í hendur við ýmis stjórnsýsluverkefni sem falla undir 1. tölul. 2. mgr. Í lögum er gjarnan lögð sú almenna skylda á stofnanir að fara með eftirlit með framkvæmd viðkomandi laga. Sú skylda er oft á tíðum nánar útfærð í lögunum. Um er að ræða sömu löggjöf og mælir fyrir um ákvarðanir Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar um leyfisveitingar, samþykki, undanþáguveitingar o.fl., sbr. 1. tölul., en einnig er um að ræða eftirlit með athöfnum sem ekki eru háðar leyfi eða sambærilegri ákvarðanatöku stofnunar o.fl. Þá getur verið um að ræða annað eftirlit, svo sem eftirlit sem Orkustofnun hefur með tiltæku varaafli raforku, eftirlit stofnunarinnar með gjaldskrám og skilmálum sérleyfisfyrirtækja sem og áætlunum um uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis raforku. Einnig má nefna að Umhverfisstofnun hefur m.a. eftirlit með því að framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja og rafhlaða og rafgeyma séu skráðir í tiltekið skráningarkerfi.
          Í 3. tölul. er komið inn á leiðbeiningar-, fræðslu-, skráningar- og upplýsingahlutverk nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar, sem verður nokkuð stórt í sniðum við þá sameiningu sem lagt er til í frumvarpinu. Umhverfisstofnun hefur samkvæmt gildandi lögum m.a. fræðsluhlutverk gagnvart almenningi og lögaðilum um úrgangsforvarnir og meðhöndlun úrgangs í samvinnu við sveitarfélög og fleiri aðila. Einnig hefur hún lögbundið fræðslu- og leiðbeiningarhlutverk gagnvart þeim er starfa að heilbrigðiseftirliti, þ.m.t. heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, en einnig sveitarfélögum í tengslum við úrgangsmál sem og þeim sem starfa að vörnum gegn mengun hafs og stranda. Leiðbeiningarhlutverk stofnunarinnar lýtur einnig að umhverfismerkjum samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Hvað varðar skyldur stofnana samkvæmt gildandi lögum til upplýsingamiðlunar að öðru leyti þá ber að nefna að samkvæmt lögum nr. 7/1998 annast Umhverfisstofnun miðlun upplýsinga um gæði andrúmslofts og losun efna í andrúmsloftið, miðlun upplýsinga um erfðabreyttar lífverur og tölfræðiupplýsinga um úrgang eftir sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að ný Umhverfis- og orkustofnun yfirtaki þessar lögbundnu skyldur. Í frumvarpinu er þá gert ráð fyrir að Umhverfis- og orkustofnun taki við því hlutverki Umhverfisstofnunar og eftir atvikum Orkustofnunar samkvæmt upplýsingalögum, nr. 140/2012, að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, treysta rétt fólks til að búa við heilsusamleg skilyrði og varðveita lífsgæði sín og stuðla að aukinni vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál. Samkvæmt upplýsingalögum er stjórnvöldum skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf ef ástæða er til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Umhverfisstofnun heldur einnig utan um ýmis skráningarkerfi. Hún skráir m.a. upplýsingar um losun efna í andrúmsloftið, heldur skrá um spilliefni, annast skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda rafhlaðna og rafgeyma og raf- og rafeindatækja. Umhverfisstofnun er þá landsstjórnandi Íslands í skráningarkerfi með losunarheimildir. Orkustofnun hefur einnig lögbundnar skyldur í tengslum við ýmsa upplýsingaöflun, en hún safnar til að mynda upplýsingum um landgrunnið og varðveitir upplýsingar um kolvetnisauðlindir í gagnagrunni. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Umhverfis- og orkustofnun yfirtaki allar þessar lagalegu skyldur.
          Umhverfis- og orkustofnun mun skv. 4. tölul. taka við því lögbundna hlutverki Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar að sinna gerð og framfylgd áætlana og skýrslna. Um er að ræða gerð ýmissa ársskýrslna, t.d. um árangur opinberra aðila í loftslagsmálum, niðurstöður eftirlits, ýmsar stöðuskýrslur, eftirlits- og aðgerðaráætlanir, t.d. á grundvelli efnalaga, nr. 61/2013, og laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, og umsjón með framkvæmd ýmissa áætlana, t.d. á grundvelli laga um stjórn vatnamála, nr. 36/2011.
          Með vísan til þess hlutverks Umhverfis- og orkustofnunar í 5. tölul. að annast samræmingu heilbrigðiseftirlits er vísað til yfirumsjónarhlutverks Umhverfisstofnunar með eftirliti heilbrigðisnefnda samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
          Í 6. tölul. er lagt til að Umhverfis- og orkustofnun annist setningu tekjumarka flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna vegna kostnaðar við flutning og dreifingu raforku. Um þessi verkefni er fjallað í raforkulögum, nr. 65/2003.
          Í 7. tölul. er gert ráð fyrir að Umhverfis- og orkustofnun taki við því hlutverki Umhverfisstofnunar að annast viðbrögð við bráðamengun á hafi í samræmi við lög um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.
          Eins og fram kemur í 8. tölul. er lagt til að ný Umhverfis- og orkustofnun taki við umsjónarhlutverki Umhverfisstofnunar hvað varðar vöktun tiltekinna umhverfisþátta. Hér má nefna vöktun mengandi efna og loftgæða samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, það hlutverk Umhverfisstofnunar að sjá til þess að mengun hafs og stranda sé vöktuð, sinna gerð vöktunaráætlunar og samræma vinnu stofnunarinnar við gerð áætlana á grundvelli laga um stjórn vatnamála, nr. 36/2011.
          Í 9. tölul. er fjallað um það hlutverk Umhverfis- og orkustofnunar að sinna alþjóðlegu samstarfi á sínu starfssviði. Gert er ráð fyrir að stofnunin sinni því hlutverki í nánu samstarfi við ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála og í samræmi við fjárveitingar til stofnunarinnar.
          Í 10. tölul. er vísað til þess að Umhverfis- og orkustofnun beri að sinna öðrum verkefnum sem ótalin eru í frumvarpinu og koma fram í öðrum sérlögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra hverju sinni.

Um 5. gr.

    Lagt er til að í 4. gr. laganna verði sérstaklega fjallað um Raforkueftirlit Umhverfis- og orkustofnunar og hlutverk þess. Er það liður í því að aðgreina raforkueftirlit skýrar frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Vísað er í þessu sambandi einnig til 1. gr. frumvarpsins og skýringa við þá grein í tengslum við Raforkueftirlitið.
    Í a-lið 1. mgr. er meginverkefni Raforkueftirlitsins tilgreint, þ.e. að sinna raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Eins og fram er komið felst í sjálfstæði Raforkueftirlitsins að eftirlitið leiti ekki eftir eða taki við beinum fyrirmælum frá neinni ríkisstofnun eða öðrum opinberum aðila eða einkaaðila við framkvæmd eftirlitsverkefnanna. Hér undir falla ráðherra orkumála og forstjóri Umhverfis- og orkustofnunar.
    Í b-lið 1. mgr. er mælt fyrir um það verkefni Raforkueftirlitsins að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og umsagnar um raforkumál. Afar mikilvægt er að stjórnvöld geti leitað umsagnar og álits Raforkueftirlitsins um raforkumál enda um nokkuð sérhæft svið að ræða. Slíkt verkefni samræmist fyrrgreindri tilskipun 2009/72/EB enda er tekið fram í b-lið 4. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar að krafan um sjálfstæði sé „með fyrirvara um náið samstarf, eftir því sem við á, með öðrum viðkomandi landsyfirvöldum eða um almennar viðmiðunarreglur sem gefnar eru út af ríkisstjórninni án þess að hafa áhrif á eftirlitsvald og skyldur skv. 37. gr.“
    Í c-lið 1. mgr. er tilgreint að Raforkueftirlitið skuli sinna öðrum verkefnum en raforkueftirliti sem því eru falin samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Hér má nefna verkefni tengd upprunaábyrgðum raforku, sbr. lög um upprunaábyrgð raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl., nr. 30/2008, en stjórnsýsluverkefnum sem þeim tengjast er sinnt af Raforkueftirlitinu.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Raforkueftirlitið setji sér starfsreglur til að tryggja sjálfstæði sitt. Með lögum nr. 112/2019, um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði) var komið á skyldu Orkustofnunar til að setja sér starfsreglur til að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar. Í gildandi starfsreglum er fjallað um skyldur og ferli við ákvarðanatöku, samstarf Raforkueftirlitsins, stjórnun upplýsinga, samráð við setningu leiðbeininga og samskipti Raforkueftirlitsins út á við. Í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB, er mælt fyrir um að starfsreglurnar skuli birtar. Telst birting á netinu fullnægjandi.
    Í 3. mgr. segir að Raforkueftirlitið skuli vera fjárhagslega aðgreint frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Samkvæmt tilskipun 2003/54/EB skal tryggja að sjálfstæða eftirlitsstjórnvaldið hafi aðskildar árlegar fjárúthlutanir og sjálfræði við framkvæmd fjárúthlutana.

Um 6. gr.

    Í greininni er vísað almennt til valdheimilda nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar, beitingu stjórnsýsluviðurlaga, gjaldtökuheimilda, heimilda til endurgreiðslu ýmiss kostnaðar, heimilda til framsals eftirlits o.fl. Slík ákvæði koma fram í lögum sem stofnuninni er ætlað að starfa eftir og tengjast eftirlitshlutverki hennar. Ákvæðin er til að mynda að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, efnalögum, nr. 61/2013, og lögum um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012. Einnig raforkulögum, nr. 65/2003, lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, og lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998. Slík úrræði geta verið fólgin í heimild til áminningar af hálfu stofnunar, beitingu dagsekta, að framkvæma verk á kostnað aðila, aðgangs til skoðunar og eftirlits og sýna- og myndatöku, stöðvun til bráðabirgða á starfsemi eða markaðssetningu vöru, beitingu stjórnvaldssekta o.fl. Dæmi um heimild til að krefjast endurgreiðslu útlagðs kostnaðar er í 30. gr. laga um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012, þar sem gert er ráð fyrir að gjaldskrá stofnunarinnar taki m.a. mið af útlögðum kostnaði hennar. Í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, er að finna heimild Umhverfisstofnunar til að fela tiltekna þætti eftirlits heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga eða faggiltum skoðunaraðilum auk þess sem stofnuninni er heimilt að fela heilbrigðisnefnd framkvæmd þvingunarúrræða samhliða eftirliti. Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, er Umhverfisstofnun heimilað að fela tiltekna þætti heilbrigðiseftirlits faggiltum skoðunaraðilum. Í lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, er Umhverfisstofnun heimilað að fela heilbrigðisnefnd eftirlit og framkvæmd þvingunarúrræða sem og að fela tiltekna þætti eftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum. Samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, er Umhverfisstofnun heimilt að semja við Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnun eða aðra aðila um einstök verk við framkvæmd laganna. Umhverfisstofnun er einnig heimilt að fela faggiltum aðilum að annast tiltekin verkefni við vöktun samkvæmt fyrrgreindum lögum. Samkvæmt lögum um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012, er Umhverfisstofnun heimilt að fela heilbrigðisnefnd með samningi tiltekna þætti eftirlits. Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þessar lögbundnu heimildir Umhverfisstofnunar færist til nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar.

Um 7. gr.

    Gert er ráð fyrir í greininni að lögin taki gildi 1. janúar 2025. Í ákvæði til bráðabirgða er þá gert ráð fyrir að heimilt verði að skipa við samþykkt laganna forstjóra til að vinna að því með umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu að koma á fót nýrri stofnun. Ljóst er að við samþykkt frumvarpsins tekur við umfangsmikil innleiðingarvinna við að koma á fót nýrri Umhverfis- og orkustofnun. Innifalið í slíkri vinnu er skipun forstjóra og annars starfsfólks, ákvörðun um húsnæði fyrir nýja stofnun, vinna við skipurit og stefnu nýrrar stofnunar o.fl. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2025. Samhliða því tekur Umhverfis- og orkustofnun við lögformlegu hlutverki sínu. Á sama tíma og lögin taka gildi falla úr gildi lög um Orkustofnun, nr. 87/2003, og er sú stofnun lögð niður auk þess sem embætti orkumálastjóra er lagt niður. Í ljósi þess að ný stofnun tekur eingöngu við hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar er ekki lagt til í frumvarpi þessu að lög um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, falli úr gildi í heild sinni, heldur er lögð til í 8. gr. frumvarpsins breyting á þeim lögum. Gert er ráð fyrir að í frumvarpi til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun verði lagt til að Umhverfisstofnun verði í heild sinni lögð niður og á hið sama við um lög um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002.

Um 8. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á hinum ýmsu lögum sem Orkustofnun og Umhverfisstofnun starfa eftir. Um er að ræða 44 lög sem að mestu leyti tilheyra málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, en einnig annarra ráðuneyta. Tilgangur greinarinnar er að yfirfæra viðkomandi verkefni og hlutverk fyrrgreindra stofnana yfir til nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar og gera eftir atvikum þær breytingar á verkefnunum sem nauðsynlegar eru vegna sameiningar Orkustofnunar og þeirrar starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum. Um helstu verkefni og hlutverk er ítarlega fjallað í skýringum við 5. gr. og vísast til þeirrar umfjöllunar hvað það varðar.
    Að langmestu leyti felur 8. gr. í sér breytingar á stofnanaheitum í lögum. Í 1. tölul. er þó lögð til sú breyting á lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, að þau ákvæði falli niður sem lúta að hlutverki og verkefnum þess hluta starfsemi Umhverfisstofnunar sem frumvarp þetta fjallar um. Í nokkrum tilvikum er lagt til að umsagnarhlutverk annarrar hvorrar stofnunarinnar til hinnar falli niður í ljósi sameiningarinnar. Þá eru nokkur ákvæði sem fjalla um hlutverk og verkefni Orkustofnunar, í lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, færð í önnur sérlög. Sú tilfærsla felur því ekki í sér efnisbreytingu á umræddum ákvæðum. Um er að ræða þau verkefni og hlutverk Orkustofnunar í 2.–5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna að standa fyrir rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar, á orkulindum landsins og hafsbotnsins og á öðrum jarðrænum auðlindum, að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla, að vinna að áætlanagerð um orkubúskap þjóðarinnar og hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda og að stuðla að samvinnu þeirra sem sinna orkurannsóknum og samræmingu á rannsóknarverkefnum. Lagt er til að sú breyting verði gerð að Umhverfis- og orkustofnun beri að stuðla að rannsóknum á orkubúskap þjóðarinnar o.fl. í stað þess að standa að þeim sökum þess að Orkustofnun hefur í reynd ekki sjálf staðið að slíkum rannsóknum. Einnig er um að ræða tilfærslu á ákvæðum 3., 5. og 6. mgr. 2. gr. laga um Orkustofnun í sérlög, þar sem fjallað er um heimild stofnunarinnar til að semja við aðra aðila um framkvæmd skilgreindra verkefna skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr., heimild stofnunarinnar til að krefjast gagna til að sinna hlutverki sínu skv. 3. tölul. 1. mgr. og heimild til að leggja á dagsektir sé gögnum ekki skilað innan tilskilins frests. Í 12., 15. og 20. tölul. 8. gr. frumvarpsins er lagt til að umrædd ákvæði laga um Orkustofnun verði færð í raforkulög, nr. 65/2003, lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, og lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Eins og fram kemur í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er gert ráð fyrir að allt starfsfólk Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar, sem hefur sinnt þeim verkefnum sem munu heyra undir nýja Umhverfis- og orkustofnun, njóti forgangs til þeirra starfa sem munu verða til með tilkomu nýrrar stofnunar. Fram hefur komið að tilgangur nýrrar stofnunar er fyrst og fremst að koma á fót faglega sterkri stofnun og er ávinningurinn þar margþættur. Markmiðið er því ekki að fækka störfum heldur má m.a. gera ráð fyrir að tilkoma nýrrar stofnunar leiði í ljós aukinn fjölbreytileika starfa. Gert er ráð fyrir að fyrri störf verði lögð niður og viðkomandi hafi þá forgang til að ráða sig í nýtt starf hjá Umhverfis- og orkustofnun. Starfsmenn kunna því að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipulag og starfslýsingu. Í ljósi fyrrgreinds forgangsréttar starfsfólks stofnana er í ákvæðinu einnig kveðið á um að ekki sé skylt að auglýsa umrædd störf í samræmi við almenna reglu 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
    Í kjölfar samráðs er gert ráð fyrir í 2. mgr. að starfsfólk viðkomandi stofnana sem ræður sig hjá nýrri stofnun haldi þeim réttindum sem það hefur áunnið sér til námsleyfis og um lengdan uppsagnarfrest þegar kjarasamningar gera ráð fyrir að sá réttur miði við samfellt starf hjá sömu stofnun.
    Í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að skipa forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar þegar lögin hafa verið samþykkt. Gert er ráð fyrir að skipaður forstjóri vinni að því að undirbúa starfsemi stofnunarinnar í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og ráði m.a. nýtt starfsfólk til stofnunarinnar áður en hún tekur til starfa.