Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 870  —  539. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um endurnýjun lyfjaskírteina fyrir ADHD-lyf.


     1.      Hvernig hefur afgreiðslutími vegna endurnýjunar lyfjaskírteina fyrir ADHD-lyf þróast undanfarin þrjú ár? Þess er óskað að í svari verði tilgreindur eftir mánuði meðalafgreiðslutími og fjöldi umsókna, kyn þeirra einstaklinga sem lyfin voru ætluð og hversu margir einstaklinganna voru undir 18 ára aldri.
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum er afgreiðslutími lyfjaskírteina fyrir ADHD-lyf á bilinu tveir til þrír dagar frá byrjun árs 2020 til loka árs 2022, ef horft er til meðaltals hvers mánaðar fyrir sig. Í byrjun árs 2023 lengist afgreiðslutími og nær hámarki, er um 9 dagar, í apríl 2023. Undir lok árs 2022 fer að bera á fjölgun umsókna, þær fara úr u.þ.b. 1.100 á mánuði að meðaltali í tæplega 1.600 umsóknir í mars 2023. Bent skal á að þó að umsóknum um lyfjaskírteini vegna ADHD-lyfja hafi fjölgað um 45%, þá fjölgaði einnig öðrum umsóknum um lyfjaskírteini mikið á sama tíma (blóðsykurslækkandi lyf þar fremst í flokki) sem hafði áhrif á afgreiðslutíma allra umsókna. Þá var á sama tíma verið að þjálfa nýja starfsmenn sem hafði áhrif á afgreiðslu allra lyfjaskírteinisumsókna.
    Lyfjaskírteini vegna ADHD-lyfja gilda í þrjú ár í senn. Umsóknir um endurnýjun ADHD-lyfja eru unnar á sama hátt og allar aðrar umsóknir um lyfjaskírteini. Því er í þessum tölum ekki greint á milli endurnýjunar umsóknar og fyrstu umsóknar um ADHD-lyf. Viðvarandi skortur á lyfjum hefur einnig fjölgað umsóknum sem hefur áhrif á afgreiðslu allra umsókna, m.a. ADHD-lyfja.
    Umsóknum einstaklinga yngri en 18 ára fækkaði frá sumarmánuðum ársins 2021 þar til haustið 2022, en þá fjölgar umsóknum aftur mjög. Umsóknir voru um 500 að meðaltali á mánuði í lok árs 2020 en voru um 200 á mánuði í lok sumars 2022. Nú er fjöldinn aftur kominn í um 500 umsóknir að meðaltali á mánuði.
    Sé horft til kynjamunar, bæði fyrir alla og svo eingöngu fyrir einstaklinga yngri en 18 ára, þá er ekki að sjá marktækan mun á fjölda miðað við kyn fyrir heildarhópinn.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     2.      Hvað telur ráðherra að sé ásættanlegur hámarksafgreiðslutími og til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að bregðast við þegar afgreiðsla hefur farið yfir þau mörk?
    Samkvæmt útgefnum viðmiðum Sjúkratrygginga er gert ráð fyrir að umsókn um lyfjaskírteini sé afgreidd eftir u.þ.b. eina viku. Frá ársbyrjun 2020 til loka árs 2022 var meðalafgreiðslutími umsókna u.þ.b. tveir til þrír dagar. Á árinu 2023 hefur afgreiðslutími lengst töluvert, en þó að meðaltali verið á bilinu fimm til níu dagar. Í einstaka mánuðum hefur meðalafgreiðslutími farið yfir viðmiðið um 7 daga.
    Sjúkratryggingar hafa eftir fremsta megni reynt að stytta biðtímann m.a. með því að yfirfara verkferla og verklagsreglur fyrir umsóknir lyfjaskírteina til að áður óskýr viðmið séu gerð skýr. Verkferlar og verklagsreglur hafa verið einfaldaðar innan þess ramma sem lög og reglugerðir leyfa. Sjúkratryggingar hafa einnig unnið að því að sjálfvirknivæða umsóknir um lyfjaskírteini fyrir viss lyf og er sú vinna þegar hafin í samstarfi við embætti landlæknis.
    Almennt er afgreiðslutími umsókna vegna lyfjaskírteina fyrir ADHD-lyf innan viðmiða miðað við þær upplýsingar sem koma frá Sjúkratryggingum. Áherslur stofnunarinnar að nýta tæknina til að einfalda og flýta fyrir afgreiðslu lyfjaskírteina sem og öðrum umsóknum innan stjórnsýslunnar er jafnframt skref í rétta átt.