Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 970  —  618. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023 (framlenging gildistíma stuðningsúrræðis).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá innviðaráðuneyti, Verkalýðsfélagi Grindavíkur og Grindavíkurbæ.
    Nefndinni barst umsögn auk minnisblaða frá innviðaráðuneytinu sem hvort tveggja er aðgengilegt á síðu málsins á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistími heimildar til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings samkvæmt lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 94/2023, verði framlengdur um fjóra mánuði, til loka júní 2024. Jafnframt er lagt til að úrræðið verði rýmkað. Annars vegar verði þak á hlutfalli sértæks húsnæðisstuðnings hækkað úr 75% í 90%. Hins vegar verði gerð sú breyting á hámarki sértæks húsnæðisstuðnings miðað við fjölda heimilismanna að í stað þess að efsti flokkur verði fjórir heimilismenn eða fleiri verði hann sex heimilismenn eða fleiri og hámarksfjárhæð í efstu flokkunum hækkuð því til samræmis.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja áframhaldandi stuðning til að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar vegna hættuástands sem skapast hefur í bænum.
    Að mati meiri hluta nefndarinnar felur frumvarpið í sér mikilvægt skref til að koma til móts við þarfir Grindvíkinga vegna verulegs hættu- og óvissuástands sem ríkt hefur í bænum frá því að eldgos hófst 14. janúar síðastliðinn.

Breytingartillögur.
Hámarksfjárhæð sértæks húsnæðisstuðnings.
    Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að það kunni að vera tilefni til að hækka hámarksfjárhæð sértæks húsnæðisstuðnings við einstaklinga, þ.e. heimili sem aðeins telja einn heimilismann, annaðhvort með því að hækka hámarksfjárhæðina eða sameina flokka heimila með einum og tveimur heimilismönnum. Þá var jafnframt bent á að hækkun á hámarkshlutfalli sértæks húsnæðisstuðnings úr 75% í 90% af húsnæðiskostnaði nýtist ekki sem skyldi ef hámarksfjárhæðir sértæks húsnæðisstuðnings eru ekki hækkaðar samhliða í öllum flokkum.
    Meiri hlutinn tekur undir nauðsyn þess að hækka hámarksfjárhæð sértæks húsnæðisstuðnings í öllum flokkum og leggur til breytingu á 2. gr. frumvarpsins.

Gildistími úrræðisins.
    Í nefndinni fór fram nokkur umræða um hvort ástæða væri til að framlengja gildistíma sértæks húsnæðisstuðnings enn frekar, en gert er ráð fyrir að úrræðið verði framlengt til 30. júní 2024. Hinn 22. janúar síðastliðinn kynnti ríkisstjórnin áform um aðgerðir sem miða að því að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð fyrir Grindvíkinga og hefur verið ákveðið að bjóða upp á að einstaklingar geti nýtt fjármuni sem nú eru bundnir í húsnæði þar til fjármögnunar nýrra heimila, óski þeir eftir því. Boðað hefur verið að útfærsla á varanlegum lausnum í húsnæðismálum Grindvíkinga liggi fyrir í febrúar næstkomandi. Til að tryggja Grindvíkingum tímabundið húsnæði á meðan unnið er að varanlegum lausnum leggur meiri hlutinn til að gildistími sértæks húsnæðisstuðnings verði til 31. ágúst næstkomandi. Þá áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að lögin verði endurskoðuð fyrir lok júní 2024 og að þá verði metið hvort þörf sé á frekari framlengingu á gildistíma þess.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. gr. orðist svo:
             Tafla í 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
Fjöldi heimilismanna Hámarksfjárhæð sértæks húsnæðisstuðnings
1 180.000 kr.
2 237.600 kr.
3 279.000 kr.
4 302.400 kr.
5 326.592 kr.
6 eða fleiri 352.800 kr.
     2.      Í stað dagsetningarinnar „30. júní 2024“ í 4. gr. komi: 31. ágúst 2024.

    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hann ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi, var fjarverandi við afgreiðslu málsins en er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 30. janúar 2024.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Bryndís Haraldsdóttir.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Magnús Árni Skjöld Magnússon. Stefán Vagn Stefánsson.
Óli Björn Kárason. Ásmundur Friðriksson.