Ferill 594. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 987  —  594. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um fjölda ráðinna starfsmanna þingflokka síðastliðin 20 ár.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hefur lagaumgjörð varðandi fjölda pólitískt ráðinna starfsmanna þingflokka, þ.e. aðstoðarmanna þingflokka, framkvæmdastjóra þeirra og aðstoðarmanna formanna flokka í stjórnarandstöðu, þróast síðastliðin 20 ár og hvernig hafa einstakir flokkar nýtt svigrúmið til ráðninga?
    
    Árið 1971 voru fyrst sett lög um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka. Fólu lögin m.a. í sér að þingflokkar gátu ráðið sér framkvæmdastjóra og greitt fyrir aðfengna sérfræðiþjónustu. Nú er fjallað um framlög til þingflokka úr ríkissjóði í 4. gr. laga nr. 162/2006, um starfsemi stjórnmálasamtaka, og í reglum forsætisnefndar um greiðslu framlaga á fjárlögum til þingflokka.
    Með 2. gr. laga nr. 8/2008, er breytti 10. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, og með reglum forsætisnefndar frá 14. mars 2008, um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka og alþingismanna úr Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi, var komið á fót aðstoðarmannakerfi fyrir alþingismenn af landsbyggðinni, svo og formenn stjórnmálaflokka sem voru utan ríkisstjórnar. Í reglum forsætisnefndar frá 14. mars 2008 var fjallað um rétt alþingismanns til þess að ráða sér aðstoðarmann í hlutastarf (33%) og um starfskjör hans. Sá hluti reglnanna sem laut að aðstoðarmönnum landsbyggðarþingmanna kom aðeins til framkvæmda í stuttan tíma þar sem forsætisnefnd samþykkti 9. júní 2009, í ljósi víðtækra sparnaðaraðgerða, að fresta þeim. Áfram var þó gert ráð fyrir að formönnum stjórnmálaflokka, sem sæti ættu á Alþingi og væru ekki jafnframt ráðherrar, væri heimilt að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf. Á þessari stundu er um að ræða fimm störf aðstoðarmanna.
    Því aðstoðarmannakerfi sem komið var á fót með lögum nr. 8/2008 var síðar breytt með lögum nr. 135/2018. Í aðdraganda þeirra breytinga voru störf ritara þingflokka (átta talsins), sem töldust til starfsfólks skrifstofu Alþingis, lögð niður og færð yfir til þingflokka. Veitt var heimild til að ráða starfsfólk fyrir þingflokka eftir því sem fé er veitt á fjárlögum hvers árs til þess að aðstoða þingmenn í störfum þeirra. Þá var gert ráð fyrir 17 nýjum stöðugildum starfsfólks þingflokka í þremur áföngum sem skipt yrði á milli þingflokka eftir hlutfallslegum styrk þeirra (D'Hondt-reglu). Einnig var áfram gert ráð fyrir því að formönnum stjórnmálaflokka, sem ættu sæti á Alþingi og væru ekki jafnframt ráðherrar, væri heimilt að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf. Er nánar gerð grein fyrir þessum breytingum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 135/2018. Eftir þetta eru um að ræða 25 störf starfsfólks þingflokka, sem nefndir eru aðstoðarmenn þingflokka í fyrirspurninni. Það fer eftir innra skipulagi þingflokks hvernig störf eru nánar skilgreind, þ.m.t. er starf framkvæmdastjóra þingflokks. Telur starfsfólk þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka utan ríkisstjórna því samtals 30 manns.
    Fyrirkomulag ráðninga er með þeim hætti að tillaga um ráðningu aðstoðarmanns formanns stjórnmálasamtaka er lögð fram af formanni stjórnmálaflokks, sem stýrir daglegum störfum hans. Starfsfólk þingflokka er ráðið að fengnum tillögum þingflokks. Formaður þingflokks stýrir daglegum störfum starfsfólks þingflokks og skiptir með því verkum. Um réttindi og skyldur aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka og starfsfólks þingflokka er fjallað í 10. gr. laga nr. 88/1995 og reglum forsætisnefndar um starfsfólk þingflokka frá 16. ágúst 2021.
Þingflokkar á Alþingi (átta talsins) hafa alla jafna fullnýtt heimildir sínar til ráðningar í þau 25 stöðugildi sem þeim hefur verið úthlutað frá 1. janúar 2019. Almennt hafa þingflokkar valið þá leið að nýta eitt af þeim 25 störfum fyrir ráðningu framkvæmdastjóra þingflokks. Þá hafa formenn stjórnmálaflokka alla jafna fullnýtt sínar heimildir til ráðninga aðstoðarmanna frá upphafi aðstoðarmannakerfisins árið 2008. Úthlutun stöðugilda fyrir þingflokkana fer fram í kjölfar alþingiskosninga og ríkisstjórnarmyndunar hverju sinni og nær yfir kjörtímabilið. Fyrst er öllum þingflokkum úthlutað eitt starf fyrir hvern flokk og síðan er D'Hondt-reglan notuð til útreikninga á stöðugildunum 17 sem eftir standa og þá eftir þingstyrk hverju sinni að frádregnum fjölda ráðherra. Við innleiðingu breytinga og fjölgunar á störfum úr 8 í 25 á kjörtímabilinu 2017–2021 var heildarfjöldi starfsfólks aukinn um þriðjung hvert ár samkvæmt neðangreindri upptalningu og útreikningum samkvæmt D'Hondt-reglunni, sbr. einnig samkomulag formanna þingflokka frá 27. nóvember 2018. Í meðfylgjandi töflu má sjá skiptingu starfanna með hliðsjón af niðurstöðum alþingiskosninga haustið 2021 og gildir sú úthlutun fyrir kjörtímabilið 2021–2025.

    2019: 8 störf starfsfólks þingflokka, eitt fyrir hvern þingflokk.
    2020: 5 störf starfsfólks þingflokka bætast við fyrir þingflokka D(2), M(1), S(1) og V(1).
    2021: 4 störf starfsfólks þingflokka bætast við fyrir þingflokka B(1), D(1), P(1) og V(1).

Listar D B V S F P C M Alls
Jöfn skipting 1 1 1 1 1 1 1 1 8
Samkvæmt D'Hondt 5 3 2 2 2 2 1 0 17
Samtals 6 4 3 3 3 3 2 1 25

    Í eftirfarandi töflu má sjá samantekt yfir úthlutun og nýtingu heimilda til ráðninga fyrir tímabilið frá 2019 til 2023, sundurliðað eftir þingflokkum. Taflan inniheldur upplýsingar um heildarfjölda starfa, þ.e. starfsfólk þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnarandstöðuflokka, en eins og fyrr segir byggist ráðning þeirra síðarnefndu á öðrum lagagrunni en ráðning starfsfólks þingflokka.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Athygli er vakin á því að í meðfylgjandi yfirliti yfir úthlutun stöðugilda fyrir árið 2021 er tekið mið af úthlutun starfa samkvæmt kjörtímabilinu 2017–2021 þar sem ný úthlutun vegna kjörtímabilsins 2021–2025 tók ekki gildi fyrr en undir lok árs. Í kjölfar alþingiskosninganna 2021 breyttist því þingstyrkur einstakra þingflokka á þann veg að heildarnýting ársins fór í einhverjum tilvikum umfram heimildir þess árs og endurspeglar fremur úthlutun fyrra árs (2020). Var þeim störfum sagt upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti í kjölfar niðurstaðna alþingiskosninga 2021. Þrátt fyrir að fram komi í töflunni að nýting stöðugilda sé undir úthlutun má nefna að til viðbótar við þá fjárveitingu sem veitt er fyrir stöðugildin 30 bætist við rekstrarkostnaður, m.a. vegna starfsmannaveltu og orlofsuppgjöra þess starfsfólks sem lætur af störfum.