Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1129, 154. löggjafarþing 27. mál: greiðsluaðlögun einstaklinga (málsmeðferð og skilyrði).
Lög nr. 21 6. mars 2024.

Lög um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (málsmeðferð og skilyrði).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 2. gr. laganna:
 1. A-liður orðast svo: upplýsingar um fjárhagsstöðu skuldara erlendis liggja fyrir.
 2. B-liður orðast svo: einstaklingur skuldar ekki, eða í óverulegum mæli, erlendum kröfuhöfum.
 3. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: einstaklingur á ekki húsnæði eða aðrar eignir með umtalsvert verðgildi utan Íslands, nema ljóst sé að eignastaða valdi ekki vandkvæðum í greiðsluaðlögunarumleitunum.


2. gr.

 1. Í stað orðsins „lánardrottinn“ í 2. mgr. 3. gr., tvívegis í 2. mgr. 10. gr., 2. mgr. 14. gr., 6. mgr. 16. gr., 1. málsl. 3. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. 17. gr. laganna kemur: kröfuhafi.
 2. Í stað orðsins „lánardrottna“ í fyrirsögn 10. gr., í d-lið 1. mgr. 12. gr., 2. málsl. 1. mgr. 13. gr., 2. mgr. 17. gr., lokamálslið 1. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laganna kemur: kröfuhafa.
 3. Í stað orðsins „lánardrottnum“ í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr., c-lið 1. mgr. 12. gr., 2. mgr. 15. gr., 2. málsl. 3. mgr. 17. gr. og 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: kröfuhöfum.
 4. Í stað orðsins „lánardrottnar“ í lokamálslið 2. mgr. 16. gr., 1. málsl. 4. mgr. 17. gr., 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. og 2. málsl. 30. gr. laganna kemur: kröfuhafar.
 5. Í stað orðsins „lánardrottin“ í 2. málsl. 3. mgr. 17. gr. laganna kemur: kröfuhafa.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „tekin til greina“ í a-lið 1. mgr. kemur: samþykkt skv. 7. gr.
 2. Í stað orðanna „tekin til greina“ í c-lið 1. mgr. kemur: samþykkt en sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara telst vera frestdagur í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
 3. D- og e-liður 1. mgr. falla brott.
 4. Við f-lið 1. mgr. bætist: að öðru leyti en því að ákveða má að greitt verði af þeim kröfum í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. Þá má ákveða að veittur sé gjaldfrestur á þeim á tímabili greiðsluaðlögunar, að undanskildum fésektum.
 5. Í stað 2. málsl. g-liðar 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þeim greiðslum sem falla niður á greiðsluaðlögunartíma ásamt vanskilaþætti kröfunnar, sem var tilkominn við gildistöku samnings, skal bæta við höfuðstól kröfunnar. Virkar kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum sem og almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila, ofgreiðslu námslána eða markaðskjaralána teljast ekki kröfur vegna námslána.
 6. Við i-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er heimilt að ákveða að greitt verði af þeim kröfum í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. eða að veittur sé gjaldfrestur á þeim á tímabili greiðsluaðlögunar.
 7. Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: krafna sem stofnast hafa erlendis.
 8. 4. mgr. fellur brott.


4. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Synja skal um heimild til greiðsluaðlögunar, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, ef:
 1. fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga þessara til að leita greiðsluaðlögunar,
 2. fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af því hvernig fjárhagur skuldara hefur verið, hver fjárhagur skuldara er við vinnslu umsóknar eða hver er væntanleg þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar,
 3. óleyst fjárhagsleg málefni hindra að greiðsluaðlögunarumleitanir nái fram að ganga,
 4. aðstæður benda til að skuldari hafi á óheiðarlegan hátt stofnað til skulda með það að markmiði að leita greiðsluaðlögunar vegna þeirra eða gert aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem teljast óhæfilegar,
 5. skuldari hefur stofnað til skulda eftir að hann sótti um aðstoð hjá umboðsmanni skuldara og ekki er um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar, til framfærslu eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis,
 6. skuldari hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu eða látið hjá líða að veita slíkar upplýsingar,
 7. skuldari hefur áður fengið samning um greiðsluaðlögun eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar,
 8. skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað,
 9. skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skattkrafna,
 10. skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar,
 11. skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
 12. bú skuldara hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði héraðsdómara og skiptameðferð er ekki lokið eða gjaldþrotaskiptum á búi skuldara hefur verið lokið en fyrningarfrestur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. er ekki liðinn,
 13. fyrri greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr.,
 14. umboðsmaður skuldara metur það svo að greiðsluaðlögun sé ekki fallin til að leysa greiðsluvanda umsækjanda vegna krafna sem falla utan greiðsluaðlögunar.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist: að mati umboðsmanns skuldara.
 2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsókninni skal fylgja yfirlýsing skuldara um að hann hafi kynnt sér áhrif frestunar greiðslna skv. 11. gr.
 3. Í stað tilvísunarinnar „e-lið 1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: g-lið.


6. gr.

     Í stað orðanna „og getur það orðið allt að þrír mánuðir“ í 8. gr. laganna kemur: og skal það að jafnaði ekki vera lengra en fjórir mánuðir nema sérstakar aðstæður krefji.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 1. Við 1. málsl. bætist: að undangengnu mati á hæfi skv. 2. mgr.
 2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum, um sérstakt hæfi gilda um hæfi umsjónarmanns til meðferðar máls. Áður en starfsmaður umboðsmanns skuldara eða lögmaður skv. 2. málsl. 1. mgr. er skipaður umsjónarmaður skal hann leggja mat á hvort hann sé hæfur til meðferðar viðkomandi máls. Viti hann um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans skal hann án tafar vekja athygli umboðsmanns skuldara á þeim. Umboðsmaður skuldara metur að fengnum athugasemdum frá viðkomandi hvort hann sé hæfur til meðferðar máls. Verði umsjónarmanni á síðari stigum máls kunnugt um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans skal hann án tafar vekja athygli umboðsmanns skuldara á þeim.
       Telji umboðsmaður skuldara umsjónarmann vanhæfan eða ekki geta annast meðferð máls af öðrum ástæðum skal hann afturkalla skipun umsjónarmanns. Áður en umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um afturköllun skipunar skal hann veita umsjónarmanni færi á að koma að athugasemdum sínum, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Umboðsmaður skuldara skal tilkynna skuldara um afturköllun skipunar umsjónarmanns. Við afturköllun skipunar skv. 1. mgr. skal umsjónarmaður án tafar afhenda umboðsmanni skuldara öll gögn er hann hefur undir höndum og málið varða. Umboðsmaður skuldara skal án tafar skipa nýjan umsjónarmann.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „fjögurra“ í 1. mgr. kemur: þriggja.
 2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef sérstakar ástæður mæla með því getur umboðsmaður skuldara ákveðið að framangreindur frestur skuli vera fjórar vikur.
 3. Á eftir 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 4.      Í innköllun skal koma fram nafn skuldarans, kennitala og heimilisfang, að honum hafi verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun umboðsmanns skuldara tiltekinn dag og áskorun til kröfuhafa um að lýsa kröfum sínum með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga, rafrænt eða í bréfpósti á tiltekinn stað, innan tilgreinds kröfulýsingarfrests.
       Kröfulýsing skal vera skrifleg þar sem tekið skal fram að um kröfulýsingu sé að ræða og í hvers þágu hún sé gerð, svo ekki verði um villst. Í henni skal tilgreina kröfu svo skýrt sem verða má, svo sem heildarfjárhæð kröfu, ásamt sundurliðun höfuðstóls, vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar, ásamt afborgunarfjárhæðum ef þær eru til staðar. Í kröfulýsingu skal tilgreint reikningsnúmer, komi til þess að greitt verði af kröfu á tímabili greiðsluaðlögunar. Þau gögn skulu fylgja kröfulýsingu sem kröfur eru studdar við. Ef kröfulýsing telst ekki fullnægja framangreindum kröfum skal umsjónarmaður skora á kröfuhafa að bæta úr, ella getur umsjónarmaður metið kröfuna vanlýsta.
       Umsjónarmaður skal staðfesta móttöku kröfulýsingar ef eftir því er leitað.
 5. Við 3. mgr. bætist: og er hann bundinn af niðurstöðu þeirra.
 6. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 7.      Sé kröfuhafi ósammála þeirri niðurstöðu umsjónarmanns að um vanlýsta kröfu sé að ræða er honum heimilt að beina ágreiningnum til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að honum var tilkynnt um niðurstöðuna. Úrskurðarnefndin skal taka afstöðu, innan fjögurra vikna, til þess hvort kröfulýsing teljist vanlýst á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
 8. 4. mgr. orðast svo:
 9.      Þeim kröfuhöfum sem vitað er um, auk ábyrgðarmanna og samskuldara skuldara, skal kunngert að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar með því að umsjónarmaður sendir þeim afrit af innkölluninni. Ásamt því að senda afrit af innköllun skal umsjónarmaður tilkynna kröfuhöfum um frestun greiðslna skv. 11. gr. Ábyrgðarmenn og samskuldarar skulu jafnframt upplýstir um frestun greiðslna og heimild sína til greiðslu krafna á meðan frestun greiðslna stendur yfir.
 10. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 11.      Fjárhagsupplýsingastofum er óheimilt að skrá upplýsingar um innkallanir, sem gefnar eru út á grundvelli þessa ákvæðis, í vanskilaskrá eða annars konar gagnasafn sem miðlað er. Þá er óheimilt að nýta upplýsingar um innkallanir í þágu skýrslu um lánshæfi að liðnu einu ári frá því að innköllun var gefin út í Lögbirtingablaði.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þann dag er umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um samþykki umsóknar skv. 7. gr. hefst tímabundin frestun greiðslna óháð því hvort greiðsluaðlögun tekur til viðkomandi krafna skv. 3. gr., sbr. þó 3. mgr.
 2. E-liður 1. mgr. orðast svo: neita skuldara vegna fyrri vanefnda um vörur og þjónustu, sem skuldari þarf á að halda og fellur undir framfærslukostnað í greiðsluaðlögunarumleitunum, gegn greiðslu sem a-liður tekur ekki til eða viðunandi tryggingum.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Á meðan á frestun greiðslna stendur falla almennir vextir á kröfur, sem þær hefðu borið samkvæmt samningsskilmálum, en ekki dráttarvextir. Vextirnir eru ekki gjaldkræfir á meðan á frestun stendur. Þá er óheimilt að leggja á kröfurnar vanskilagjöld eða annan innheimtukostnað. Framangreint gildir óháð niðurstöðu greiðsluaðlögunarumleitana.
 5. Í stað orðanna „heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt“ í 3. mgr. kemur: umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt skv. 7. gr.
 6. 4. mgr. orðast svo:
 7.      Sá tími sem frestun greiðslna er í gildi skal vera undanskilinn lögbundnum fyrningarfresti krafna sem 1. mgr. tekur til.
 8. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 9.      Taki kröfuhafi við greiðslu frá skuldara á kröfu í andstöðu við 1. mgr., á meðan á frestun stendur, ber honum að endurgreiða greidda fjárhæð án nokkurra tafa, nema um kröfur skv. f-lið 1. mgr. 3. gr. sé að ræða.
       Ábyrgðarmanni skuldarans og samskuldara er heimilt að greiða af kröfum á meðan á frestun greiðslna stendur.


10. gr.

     Við a-lið 1. mgr. 12. gr. laganna bætist: samkvæmt útreiknuðum framfærslukostnaði frá umboðsmanni skuldara.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ef um fasteign er að ræða skal umsjónarmaður fela löggiltum fasteignasala, sem skuldari velur, að annast söluna.
 2. Á eftir orðunum „hvernig sala fer fram“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: á öðrum eignum.
 3. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Umsjónarmaður skal leitast við að eign fari í sölu á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Seljist eign ekki á því tímabili getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli eign á tímabili greiðsluaðlögunar. Heimilt er að umboðsmaður skuldara taki við hlutverki umsjónarmanns skv. 4. og 5. mgr. á tímabili greiðsluaðlögunar, hafi eftirlit með sölunni sem og aðstoði skuldara vegna sölunnar samkvæmt nánari fyrirmælum samnings til greiðsluaðlögunar.
 5. Orðin „með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
 6. Á eftir orðinu „umsjónarmaður“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: að höfðu samráði við þann sem annast sölu eignar.
 7. 4. mgr. orðast svo:
 8.      Að sölu lokinni falla niður þau veðréttindi sem ekki fékkst greitt upp í af söluandvirðinu. Kröfuhafa er skylt að hlutast til um afmáningu veðréttinda af fasteigninni strax í kjölfar sölunnar. Sinni kröfuhafi ekki þeirri skyldu sinni skal sýslumaður afmá veðréttindin að beiðni umsjónarmanns eða umboðsmanns skuldara, gegn staðfestingu um greiðsluaðlögun skuldara og afriti samnings um söluna.
 9. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsjónarmaður skal jafnframt óska eftir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skv. 15. gr. ef sameigandi eignar neitar sölu eða kemur á einhvern hátt í veg fyrir fyrirhugaða sölu.


12. gr.

     Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist: og ber þá umboðsmaður skuldara kostnað sem hlýst af slíku verðmati.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sýni skuldari ekki samstarfsvilja eða samþykki hann ekki tillögur umsjónarmanns sem eru í samræmi við lög þessi skal umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður skv. 15. gr.
 2. Á eftir 2. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í frumvarpi er jafnframt heimilt að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar, m.a. um heilsufar og félagslegar aðstæður, hafi þær þýðingu fyrir greiðsluaðlögunarumleitanir.
 3. 5. mgr. orðast svo:
 4.      Afborgunarfjárhæð skv. 4. mgr. skal vera föst krónutala.


14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Umsjónarmaður sendir frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun á sannanlegan hátt til allra kröfuhafa sem lýst hafa kröfu skv. 10. gr. og málið varðar. Umsjónarmaður sendir samhliða kröfuhöfum sem ekki lýstu kröfu tilkynningu um að greiðsluaðlögunarumleitanir gagnvart kröfuhöfum séu hafnar. Kröfuhöfum skal gefinn tveggja vikna frestur til að taka afstöðu til frumvarpsins frá því að það er sent og skal skýrlega koma fram í frumvarpi hvenær fresturinn er á enda. Ef sérstakar ástæður mæla með því getur umsjónarmaður ákveðið að framangreindur frestur skuli vera þrjár vikur.
 3. 3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
 4. Í stað orðsins „senda tilkynningu“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: sent frumvarpið.
 5. Í stað orðanna „þriggja vikna fresturinn“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: fresturinn skv. 1. mgr.
 6. Í stað orðanna „þekktum lánardrottnum skuldarans“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: kröfuhöfum sem lýst hafa kröfu skv. 10. gr. og málið varðar.
 7. Við 5. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þeir kröfuhafar sem lýstu ekki kröfu skv. 10. gr. fá senda samantekt um niðurstöðu samnings. Ábyrgðarmenn og samskuldarar fá senda tilkynningu um að samningur hafi tekið gildi og hver niðurstaða samnings er gagnvart kröfum er þá varðar.
 8. Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 9.      Ef skuldari undirritar ekki samning innan tveggja vikna frá því að samningur er sendur honum til undirritunar og veitir ekki fullnægjandi skýringar á ástæðum þess skal umsjónarmaður óska eftir niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skv. 15. gr.
       Þrátt fyrir h-lið 1. mgr. 3. gr. getur skuldari óskað eftir því við umsjónarmann að hann upplýsi þekkta erlenda kröfuhafa um niðurstöðu samnings um greiðsluaðlögun.
       Umboðsmanni skuldara er heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í frumvarpi eða gera nauðsynlegar óverulegar breytingar á greiðsluáætlun, eftir að frumvarp telst samþykkt skv. 4. mgr., enda tilkynni hann kröfuhöfum og skuldara um þær breytingar án ástæðulauss dráttar.


15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
 1. Orðin „hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
 2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í greinargerð er heimilt að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar, m.a. um heilsufar og félagslegar aðstæður, hafi þær þýðingu við framangreint mat umsjónarmanns.


16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
 1. Orðin „en í frumvarpinu skal eftirfarandi koma fram“ í 1. mgr. falla brott.
 2. A–c-liðir 1. mgr. falla brott.
 3. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í frumvarpinu skal tiltaka, eftir því sem við á, sömu upplýsingar og komu fram í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr.


17. gr.

     21. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Skipting greiðslna milli kröfuhafa.
     Afborgunarfjárhæð sem skipta skal milli kröfuhafa á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun skiptist á eftirfarandi hátt:
 1. Ef skuldari heldur eftir fasteign sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skal hann gera full skil á kröfum sem lögveðs- eða lögtaksréttur er fyrir og gjaldfallnar voru áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt. Þegar full skil hafa verið gerð á þeim kröfum skal skuldari greiða mánaðarlegar raunafborganir af veðkröfum, sem eru innan verðmætis fasteignar skv. 14. gr., eftir veðröð. Falli veðkrafa að hluta til innan verðmætis fasteignar skv. 14. gr. skal skuldari greiða samsvarandi hlutfall af raunafborgun veðkröfunnar.
 2. Ef skuldari heldur eftir lausafjármunum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á skal hann gera full skil á kröfum sem lögveðs- eða lögtaksréttur er fyrir og gjaldfallnar voru áður en umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt. Þegar full skil hafa verið gerð á þeim kröfum skal skuldari greiða mánaðarlegar raunafborganir af veðkröfum, sem eru innan verðmætis lausafjármunar skv. 14. gr., eftir veðröð. Falli veðkrafa að hluta til innan verðmætis lausafjármunar skv. 14. gr. skal skuldari greiða samsvarandi hlutfall af raunafborgun veðkröfunnar.
 3. Kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til skv. 1. mgr. 3. gr. skulu greiddar að fullu, annaðhvort strax í upphafi greiðsluaðlögunar eða í samræmi við samkomulag við hlutaðeigandi kröfuhafa. Þó má ákveða að kröfur skv. f- og i-lið 1. mgr. 3. gr. skuli greiddar skv. d-lið þessa ákvæðis, þjóni það hagsmunum skuldara.
 4. Óveðtryggðar kröfur og sá hluti veðkrafna sem er yfir verðmæti eignar skv. 14. gr. skulu greiddar hlutfallslega eftir fjárhæð krafna.

     Kröfuhafar sem eiga kröfur sem falla undir a–c-lið 1. mgr. hafa forgang til greiðslna skv. 1. mgr. Umsjónarmanni er jafnframt heimilt að leggja til að óverulegar óveðtryggðar kröfur skuli greiddar að fullu komi til greiðslna skv. d-lið 1. mgr.
     Hafi skuldari lagt til hliðar fjármuni skv. a-lið 1. mgr. 12. gr., eða ráðstafa þarf annars konar eingreiðslu, skal umsjónarmaður ákveða skiptingu þeirra milli kröfuhafa með hliðsjón af reglum 1. mgr. og 2. mgr. sem og hagsmunum skuldara, með einni greiðslu í upphafi tímabils greiðsluaðlögunar.
     Umboðsmaður skuldara skal sjá til þess í tæka tíð áður en komið er að fyrsta gjalddaga samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun að fjármálafyrirtæki miðli greiðslum samkvæmt honum.
     Umboðsmaður skuldara hefur heimild til að óska eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki sem annast greiðslumiðlun um hvort skuldari hafi staðið við greiðslur samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun.

18. gr.

     22. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Gjaldfrestur eða lægri afborganir veðlána.
     Þrátt fyrir ákvæði a- og b-liðar 1. mgr. 21. gr. er umsjónarmanni heimilt að leggja til í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun að greiddar séu tímabundið lægri mánaðargreiðslur af veðkröfum eða að veittur sé gjaldfrestur á þeim ef óveruleg eða engin greiðslugeta er til staðar, ef uppi eru sérstakar eða tímabundnar aðstæður. Skal tímabil breytts greiðslufyrirkomulags samkvæmt þessu ákvæði alla jafna ekki vera lengra en eitt ár.

19. gr.

     Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Greiðsla til kröfuhafa.

20. gr.

     Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Afmáning veðbanda og meðferð krafna í greiðsluaðlögun, með þremur nýjum greinum, 23. gr. a, 23. gr. b og 23. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (23. gr. a.)
Afmáning veðbanda.
     Áður en frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er sent til kröfuhafa skv. 17. gr. getur skuldari óskað eftir því við umsjónarmann að veðréttindi sem standa til tryggingar uppreiknuðum eftirstöðvum veðkrafna á fasteign og nema hærri fjárhæð en svarar til verðmætis fasteignarinnar, sbr. 3. og 4. mgr., verði afmáð af eigninni. Til þess að umsjónarmaður fallist á beiðnina þarf að vera ljóst á grundvelli greiðslumats að skuldari verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í fullum skilum með greiðslu allra veðskulda, en geti þó staðið í fullum skilum með þær veðskuldir sem hvíla á eigninni í kjölfar afmáningar veðréttinda.
     Afmáning veðréttinda skv. 1. mgr. getur eingöngu varðað fasteign þar sem skuldari heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Ekki er heimilt að víkja frá þessu skilyrði nema með samþykki þeirra veðhafa sem hafa hagsmuna að gæta og þegar skuldari hefur lýst því yfir að hann hyggist hefja búsetu að nýju í fasteign. Ef skuldari á fasteign í óskiptri sameign með öðrum sem hefur ekki leitað greiðsluaðlögunar er ekki hægt að leita afmáningar veðréttinda á fasteigninni.
     Í kjölfar beiðni skv. 1. mgr. skal umsjónarmaður óska eftir að löggiltur fasteignasali meti verðmæti fasteignar og ber þá umboðsmaður skuldara kostnað sem hlýst af slíku verðmati. Verðmatið skal lagt til grundvallar nema skuldari og veðhafar sem hafa hagsmuna að gæta af niðurstöðu þess vilji afla á sinn kostnað annars verðmats. Skal þá meðaltal allra verðmata lagt til grundvallar.
     Veðhafar sem hafa hagsmuna að gæta geta, innan viku frá því að niðurstaða um verðmat fasteignar skv. 3. mgr. lá fyrir, lýst því yfir við umsjónarmann að þeir hyggist á sinn kostnað afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna á verðmæti fasteignarinnar. Sé aflað slíkrar matsgerðar gildir niðurstaða hennar um verðmæti fasteignar.
     Ef umsjónarmaður telur að skilyrði 1. mgr. séu ekki uppfyllt ber honum að tilkynna skuldara um þá ákvörðun. Skuldari getur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðunin barst honum og skal nefndin taka afstöðu til kærunnar innan fjögurra vikna. Ef umsjónarmaður telur að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt ber honum að tilkynna það skuldara og veðhöfum sem hafa hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun. Hlutaðeigandi veðhafar geta kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðunin barst þeim og skal nefndin taka afstöðu til kærunnar innan fjögurra vikna.
     Ef það er niðurstaða umsjónarmanns og eftir atvikum úrskurðarnefndar velferðarmála að skuldari uppfylli skilyrði til að fá veðréttindi afmáð af eigninni, sbr. 1. mgr., skal umsjónarmaður óska eftir að sýslumaður hlutist til um afmáninguna, fáist frumvarp skuldara til greiðsluaðlögunar samþykkt og að því gefnu að skuldari hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt samningi. Beiðni um afmáningu veðréttinda skal send til sýslumanns að loknu greiðsluaðlögunartímabili. Með beiðni umsjónarmanns til sýslumanns skulu fylgja gögn um mat á verðmæti fasteignar skv. 3. eða 4. mgr., ákvörðun umsjónarmanns um að skuldari uppfylli skilyrði ákvæðis þessa og eftir atvikum úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála skv. 5. mgr. Sýslumaður skal þá afmá af fasteigninni veðréttindi sem standa utan þeirra marka í veðröð sem greinir í 1. mgr. Standi veðkrafa að hluta innan þeirra marka og að hluta utan skal eftirstöðvum hennar skipt að tiltölu því til samræmis og ákveður þá sýslumaður nýjan höfuðstól skuldarinnar sem veðréttindi eru fyrir. Skal sýslumaður gera yfirlýsingu sem þinglýst skal á eignina en fyrir hana greiðist ekkert gjald.
     Að lokinni afmáningu veðréttinda verða þær veðkröfur sem aflétt er af fasteign að óveðtryggðum kröfum og fer um þær eins og aðrar óveðtryggðar kröfur samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun.
     
     b. (23. gr. b.)
Meðferð óveðtryggðra krafna.
     Heimilt er með greiðsluaðlögun að kveða á um algera eftirgjöf óveðtryggðra krafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, skilmálabreytingar, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð sem greiðist með ákveðnu millibili á tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu óveðtryggðra krafna eða allt framangreint í senn.
     
     c. (23. gr. c.)
Efndir krafna.
     Kröfur teljast vera efndar á tímabili greiðsluaðlögunar hvort sem skuldari greiðir af þeim í samræmi við greiðsluáætlun samnings eða veittur er gjaldfrestur á þeim.

21. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Skuldari getur óskað eftir því við umboðsmann skuldara að hann samþykki að veittur sé gjaldfrestur á allt að þremur gjalddögum samkvæmt samningi, án þess að breytingin sé borin undir kröfuhafa, ef upp koma sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi. Skal þá tímabil greiðsluaðlögunar lengjast sem nemur þeim gjalddögum sem veittur er frestur á. Beiðni um slíka breytingu skal berast umboðsmanni skuldara áður en tímabil greiðsluaðlögunar er á enda. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um breytinguna innan tveggja vikna frá því að beiðni berst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun á beiðninni getur skuldari kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst honum.
     Sé þörf á annars konar breytingu en 1. mgr. heimilar getur skuldari óskað eftir því við umboðsmann skuldara, áður en tímabil greiðsluaðlögunar er á enda, að hann hafi milligöngu um breytingu á samningi gagnvart kröfuhöfum, ef upp koma sérstakar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur samkvæmt samningi eða sem leiða til þess að breyta þurfi að öðru leyti skilmálum samnings.
     Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um hvort hefja skuli milligöngu um samningaviðræður við kröfuhafa innan mánaðar frá því að beiðni berst skv. 2. mgr. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun á beiðninni getur skuldari kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst honum.
     Fallist umboðsmaður skuldara á að hefja milligöngu um samningaviðræður skal tillaga um breytingu samin í samráði við skuldara og í samræmi við ákvæði þessara laga. Tillaga um breytingu á samningi skal send til allra kröfuhafa sem lýstu kröfu skv. 10. gr. Í tillögu um breytingu á samningi er umboðsmanni skuldara heimilt að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar hafi þær þýðingu í samningaviðræðum. Kröfuhöfum skal gefinn tveggja vikna frestur til að taka afstöðu til tillögunnar frá því að hún var send. Hafi kröfuhafi athugasemdir við tillöguna eða leggist hann gegn henni skal hann láta umboðsmanni skuldara í té skriflegan rökstuðning fyrir afstöðu sinni innan frestsins sem hann nýtur til að taka afstöðu til tillögunnar. Kröfuhafi sem hefur fengið senda tillöguna og hefur ekki lýst yfir við umboðsmann skuldara að hann leggist gegn tillögunni áður en tveggja vikna fresturinn rann út telst hafa samþykkt hana. Ef tillagan telst samþykkt tekur hún þá þegar gildi. Skal tilkynning um breytingu samnings send til allra kröfuhafa.
     Ef tillagan telst ekki samþykkt getur skuldari lagt fram kröfu til umboðsmanns skuldara að skilmálum samnings verði breytt í samræmi við tillöguna sem send var til kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um kröfuna innan tveggja vikna frá því að hún barst. Við mat á því hvort samþykkja beri kröfu skuldara skal umboðsmaður skuldara líta til þess hvort komið hafi fram upplýsingar sem leiða til þess að hafna beri breytingunni og hvert sé viðhorf þeirra kröfuhafa sem hafa andmælt tillögunni. Umboðsmanni skuldara er heimilt að tilgreina nauðsynlegar viðkvæmar persónuupplýsingar í ákvörðun hafi þær haft þýðingu við matið. Ákvörðun umboðsmanns skuldara geta skuldari eða kröfuhafar sem lýstu kröfu skv. 10. gr. kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst þeim. Að fengnum úrskurði nefndarinnar er heimilt að höfða einkamál til ógildingar á ákvörðuninni.
     Verði skuldara á tímabili greiðsluaðlögunar gert kunnugt um kröfu sem stofnaðist áður en umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt verður krafan felld undir greiðsluaðlögunina, ef umboðsmaður skuldara telur það hafa óveruleg áhrif gagnvart öðrum kröfuhöfum. Sé greiðslum miðlað samkvæmt samningi skal einungis greiða af kröfunni frá þeim tíma sem krafan var kynnt skuldara og þá í samræmi við það sem greitt er af samsvarandi kröfum. Umboðsmaður skuldara skal senda tilkynningu til kröfuhafa um breytinguna. Ef það er mat umboðsmanns skuldara að það sé íþyngjandi gagnvart kröfuhöfum að fella slíka kröfu undir greiðsluaðlögunina án samþykkis kröfuhafa getur skuldari lagt fram beiðni í samræmi við 2. mgr.
     Hafi fjárhagsstaða skuldara batnað á þann veg að skuldari hefur tök á að greiða að fullu allar kröfur sem greiðsluaðlögunarsamningur tekur til er honum heimilt að óska eftir því við umboðsmann skuldara að samningi verði breytt því til samræmis. Skal umboðsmaður skuldara senda ákvörðun um breytingu samnings til allra kröfuhafa að fenginni staðfestingu frá skuldara um bættan fjárhag.
     Skuldara er heimilt, án milligöngu umboðsmanns skuldara, að ná fram breytingum á samningi um greiðsluaðlögun með samningum við alla kröfuhafa, hvort sem þeir lýstu kröfu skv. 10. gr. eða ekki. Ef kröfuhafar fallast á breytingu samnings skal skuldari veita umboðsmanni skuldara staðfestingu á að samkomulag hafi náðst við alla kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara skal svo í kjölfarið senda tilkynningu um breytingu samnings til allra kröfuhafa og tekur hún þá þegar gildi.

22. gr.

     25. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Breyting á samningi um greiðsluaðlögun að kröfu kröfuhafa.
     Kröfuhafi, sem greiðsluaðlögun tekur til, getur krafist þess að gerð verði breyting á samningi um greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á greiðsluaðlögunartímabilinu. Hafi fjárhagsstaðan batnað vegna þess að skuldari hefur fengið í hendur háa fjárhæð getur kröfuhafi krafist þess að samningnum verði breytt á þann veg að skuldara sé skylt að skipta fénu að hluta eða að fullu milli kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um kröfuna innan mánaðar frá því að hún berst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara geta skuldari og kröfuhafar kært til úrskurðarnefndar velferðarmála innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst þeim.
     Ef upp koma aðstæður sem veita kröfuhöfum rétt til að krefjast breytinga á samningi um greiðsluaðlögun skv. 1. mgr. skal skuldari innan eins mánaðar og á tryggan hátt upplýsa kröfuhafa um þær aðstæður.

23. gr.

     26. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Ógilding samnings um greiðsluaðlögun.
     Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef vanskil hafa verið á samningi í sex mánuði og ekki liggur fyrir að skuldari hafi óskað eftir breytingu á samningi. Umboðsmaður skuldara skal tilkynna kröfuhöfum um ógildingu samnings að fengnum upplýsingum um vanskil skuldara frá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki sem annast miðlun greiðslna.
     Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fellur frá á tímabili greiðsluaðlögunar. Ef samningur er ógiltur af þeim sökum er óheimilt að leggja dráttarvexti eða annan innheimtukostnað á kröfur sem samningur tekur til vegna þess tímabils sem greiðsluaðlögun stóð yfir hafi skuldari staðið við greiðslur samkvæmt samningnum.
     Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta.
     Kröfuhöfum er heimilt að hafa uppi kröfu um riftun eða ógildingu samnings um greiðsluaðlögun fyrir dómi í einkamáli á hendur skuldaranum. Sé fallist á slíka kröfu ber kröfuhafa að tilkynna umboðsmanni skuldara um það. Umboðsmanni skuldara er heimilt að tilkynna öðrum kröfuhöfum um niðurstöðuna.

24. gr.

     27. gr. laganna fellur brott, ásamt fyrirsögn.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. fellur niður skal umboðsmaður skuldara óska eftir aflýsingu athugasemdarinnar.
 2. 3. og 4. mgr. falla brott.


26. gr.

     29. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Brottfall tímabundinnar frestunar greiðslna.
     Tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. fellur niður þegar:
 1. Skuldari dregur umsókn sína um greiðsluaðlögun til baka skv. 5. mgr. 7. gr.
 2. Umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana skv. 15. gr. Hafi skuldari kært ákvörðunina haldast áhrif 11. gr. þar til niðurstaða úrskurðarnefndar liggur fyrir.
 3. Samningur um greiðsluaðlögun hefur ekki komist á og skuldari hefur lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji ekki leita nauðasamnings eða eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
 4. Samningur um greiðsluaðlögun tekur gildi skv. 5. mgr. 17. gr.
 5. Umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skv. 2. mgr. 18. gr. Hafi skuldari kært ákvörðunina haldast áhrif 11. gr. þar til niðurstaða úrskurðarnefndar liggur fyrir.
 6. Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar eða tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna tekur gildi.
 7. Skuldari fellur frá.

     Umboðsmaður skuldara skal tilkynna kröfuhöfum þegar tímabundin frestun greiðslna fellur niður skv. 1. mgr., að undanskildum tilfellum skv. d- og f-lið. Þá skal umboðsmaður skuldara tilkynna ábyrgðarmönnum og samskuldurum þegar tímabundin frestun greiðslna fellur niður skv. 1. mgr.

27. gr.

     Við 2. málsl. 30. gr. laganna bætist: m.a. af endurútreikningi krafna við lok greiðsluaðlögunar.

28. gr.

     34. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Meðferð persónuupplýsinga.
     Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal embætti umboðsmanns skuldara gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Embættið skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra.

29. gr.

     Á eftir 34. gr. laganna kemur ný grein, 34. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Heimild innheimtuaðila sekta.
     Samningur um greiðsluaðlögun takmarkar ekki heimildir innheimtuaðila sekta samkvæmt ákvæðum laga um fullnustu refsinga, þ.m.t. til að beita innheimtuúrræðum og taka ákvörðun um að vararefsing sektar skuli afplánuð.

30. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

31. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2024 og eiga við um umsóknir sem eru til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara við gildistökuna. Hafi umsókn verið samþykkt fyrir gildistöku laga þessara fer um framhald greiðsluaðlögunarumleitana eftir ákvæðum laganna fyrir breytingu. Ákvæði 21. og 22. gr. laga þessara eiga þó við um umsóknir sem samþykktar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara.

32. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014:
  1. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
  2.      Fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum þessum verður ekki veitt, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, ef:
   1. fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af því hvernig fjárhagur skuldara hefur verið, hver fjárhagur skuldara er við vinnslu umsóknar eða hver er væntanleg þróun fjárhags hans,
   2. aðstæður benda til að skuldari hafi á óheiðarlegan hátt stofnað til skulda með það að markmiði að leita gjaldþrotaskipta vegna þeirra eða gert aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem teljast óhæfilegar,
   3. skuldari hefur stofnað til skulda eftir að hann sótti um aðstoð hjá umboðsmanni skuldara og ekki er um að ræða eðlilega lántöku til endurfjármögnunar, til framfærslu eða öflunar nauðsynlegs íbúðarhúsnæðis,
   4. skuldari hefur veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu eða látið hjá líða að veita slíkar upplýsingar,
   5. skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað,
   6. umtalsverðar kröfur á hendur skuldara eru fésektir, kröfur vegna skaðabótaskyldu eða skattkröfur,
   7. skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar,
   8. skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
   9. greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga,
   10. skuldari hefur áður fengið umsókn um fjárhagsaðstoð samþykkta á grundvelli laga þessara.

  3. Á eftir 2. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Yfirlýsingu um veitta fjárhagsaðstoð skv. 2. mgr. skal afhenda héraðsdómi innan þriggja mánaða frá því að umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um hana, ella fellur fjárhagsaðstoðin niður.
  5. Í stað orðanna „ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga“ í 6. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála.
  6. 8. gr. laganna og ákvæði til bráðabirgða í lögunum falla brott.
 2. Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991:
  1. Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. a laganna:
   1. Við a-lið 1. mgr. bætist: að öðru leyti en því að ákveða má að greitt verði af þeim kröfum í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010; þá má ákveða að veittur sé gjaldfrestur á þeim á tímabili greiðsluaðlögunar, að undanskildum fésektum.
   2. B-liður 1. mgr. orðast svo: krafna Menntasjóðs námsmanna vegna námslána að öðru leyti en því að ákveða má við greiðsluaðlögun að afborganir af þeim og vextir falli niður á greiðsluaðlögunartíma; þeim greiðslum sem falla niður á greiðsluaðlögunartíma ásamt vanskilaþætti kröfunnar sem var tilkominn við gildistöku samnings skal bæta við höfuðstól kröfunnar; virkar kröfur vegna ábyrgðarskuldbindinga á námslánum sem og almenn skuldabréf sem stofnuð eru vegna vanskila, ofgreiðslu námslána eða markaðskjaralána teljast ekki kröfur vegna námslána.
   3. Við d-lið 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: þó má ákveða að greitt verði af þeim kröfum í samræmi við d-lið 1. mgr. 21. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, eða að veittur sé gjaldfrestur á þeim á tímabili greiðsluaðlögunar.
  2. Við 63. gr. b laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar takmarkar ekki heimildir innheimtuaðila sekta samkvæmt ákvæðum laga um fullnustu refsinga, þ.m.t. til að beita innheimtuúrræðum og taka ákvörðun um að vararefsing sektar skuli afplánuð.


Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 2024.