Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 571, 143. löggjafarþing 233. mál: fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta (skiptakostnaður).
Lög nr. 9 30. janúar 2014.

Lög um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að gera einstaklingum, sem eiga í verulegum greiðsluörðugleikum og hafa leitað annarra greiðsluvandaúrræða án árangurs eða ekki er talið að önnur greiðsluvandaúrræði séu til þess fallin að leysa greiðsluvandann, kleift að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu skv. 1. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um fjárhagsaðstoð sem veitt er til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta sem dómstólar ákveða skv. 2. mgr. 67. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

3. gr.

Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð.
     Fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum þessum skal aðeins veitt að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
 1. umsækjandi á í verulegum greiðsluörðugleikum og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma,
 2. umsækjandi getur ekki staðið skil á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr. 67. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., að teknu tilliti til eigna- og skuldastöðu, sem og ráðstöfunartekna hans og framfærslubyrði,
 3. önnur greiðsluvandaúrræði hafa verið reynd eða umboðsmaður skuldara metur það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda.

     Fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum þessum verður ekki veitt ef:
 1. aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér óheiðarlega til þess að geta leitað fjárhagsaðstoðar,
 2. skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu,
 3. skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu,
 4. skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar,
 5. skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt,
 6. greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. c- og d-lið 1. mgr. og d–g-lið 2. mgr. 6. gr. og 12. gr. sömu laga.


4. gr.

Umsókn.
     Umsækjandi skal beina skriflegri umsókn til umboðsmanns skuldara þar sem fram kemur fullt nafn umsækjanda, kennitala og lögheimili, auk þess sem greint skal nákvæmlega frá efnahag hans, tekjum og fjölskylduaðstæðum. Í greinargerð umsækjanda um efnahag skulu koma fram upplýsingar um eignir hans og andvirði þeirra annars vegar og skuldir hins vegar þannig að greint sé frá höfuðstól hverrar skuldar ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, gjalddaga og hvort trygging hafi verið sett fyrir greiðslu skuldar. Þá skal gera grein fyrir ástæðum greiðsluörðugleika umsækjanda.
     Umsókn skulu fylgja gögn um efnahag umsækjanda, þar á meðal síðustu fjögur skattframtöl hans og önnur nauðsynleg gögn til að unnt sé að leggja mat á hvort veita skuli fjárhagsaðstoð skv. 5. gr.
     Umboðsmanni skuldara er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra gagna frá opinberum aðilum, sem og þekktum lánardrottnum. Skylt er þeim aðilum að veita umboðsmanni skuldara umbeðin gögn.

5. gr.

Ákvörðun um veitingu fjárhagsaðstoðar.
     Umboðsmaður skuldara tekur ákvörðun um hvort veita skuli fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum þessum.
     Telji umboðsmaður skuldara að umsækjandi uppfylli skilyrði 3. gr. um fjárhagsaðstoð skal hann gefa út yfirlýsingu um veitingu fjárhagsaðstoðar sem skal fylgja kröfu viðkomandi um gjaldþrotaskipti til héraðsdóms skv. 66. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
     Fjárhagsaðstoð skv. 1. mgr. skal aldrei vera hærri en sem nemur fjárhæð þeirrar lágmarkstryggingar vegna skiptakostnaðar á búi einstaklings sem dómari ákveður hverju sinni. Reynist vera eignir í búi skuldara ganga þær upp í kostnað af skiptunum eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og koma þá til frádráttar fjárhæð fjárhagsaðstoðarinnar.

6. gr.

Kæruheimild.
     Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun fjárhagsaðstoðar samkvæmt lögum þessum má kæra til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

7. gr.

Fjármögnun fjárhagsaðstoðar.
     Fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum þessum skal fjármögnuð með gjaldi samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

8. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, svo sem um form umsóknar, tímafresti, málsmeðferð umboðsmanns skuldara og mat á fjárhagsstöðu umsækjanda.

9. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2014.

10. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, með síðari breytingum: Við 2. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: taka ákvörðun um hvort veita skuli fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.
 2. Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum: Við 3. tölul. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Lög þessi skulu endurskoðuð fyrir árslok 2014.

Samþykkt á Alþingi 29. janúar 2014.