Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1130, 154. löggjafarþing 675. mál: tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.
Lög nr. 15 28. febrúar 2024.

Lög um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.


1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunduðu tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og voru með fasta starfsstöð í Grindavíkurbæ 10. nóvember 2023.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að stuðla að því að rekstraraðilar skv. 1. gr. sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi, varðveitt viðskiptasambönd og hafið starfsemi á ný með stuttum fyrirvara.

3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
 1. Atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi: Starfsemi aðila sem greiðir laun skv. 1. eða 2. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og er skráður á launagreiðendaskrá eða gerði grein fyrir reiknuðu endurgjaldi í síðasta skattframtali, svo og á virðisaukaskattsskrá þegar það á við.
 2. Föst starfsstöð: Föst atvinnustöð þar sem tekjuaflandi starfsemi aðila fer að nokkru eða öllu leyti fram.
 3. Launamaður: Launamaður skv. 1. eða 2. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
 4. Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem fellur undir gildissvið laga þessara skv. 1. gr.
 5. Rekstrarkostnaður: Rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna og stuðningi til greiðslu launa samkvæmt lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
 6. Stöðugildi: Starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns skv. 1. eða 2. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, í einn mánuð.
 7. Tekjur: Skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna.


4. gr.

Skilyrði fyrir rekstrarstuðningi.
     Aðili sem fellur undir gildissvið laga þessara og uppfyllir öll eftirtalin skilyrði á rétt á tímabundnum rekstrarstuðningi úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá nóvember 2023 til og með júní 2024:
 1. Hann ber ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
 2. Tekjur hans í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar voru a.m.k. 40% lægri en í sama almanaksmánuði ári áður og tekjufallið má rekja til náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Hafi hann hafið starfsemi eftir upphaf sama almanaksmánaðar ári fyrr skal miðað við meðaltekjur hans á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar frá því að hann hóf starfsemi til og með 9. nóvember 2023. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil skv. 1.–2. málsl. Að jafnaði skal þá miðað við tekjur í sama almanaksmánuði tveimur árum áður. Hafi rekstraraðila verið ákvarðaður rekstrarstuðningur samkvæmt lögum þessum og/eða stuðningur til greiðslu á launakostnaði samkvæmt lögum um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ, nr. 87/2023, í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar skal hann ekki talinn til tekna í þeim mánuði við útreikning á tekjufalli samkvæmt þessu ákvæði.
 3. Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga fyrir 10. nóvember 2023 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum vegna vanskila á skattframtölum og skýrslum, þ.m.t. staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðustu þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum samkvæmt lögum um ársreikninga og upplýst um raunverulega eigendur samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda.
 4. Bú hans hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt skal hann ekki hafa verið tekinn til slita, nema ef slitin eru liður í samruna, skiptingu eða breytingu á rekstrarformi hans, og fyrirhugað er að lögaðili sem við tekur haldi rekstri sem umsókn varðar áfram.


5. gr.

Fjárhæð rekstrarstuðnings.
     Rekstrarstuðningur vegna hvers almanaksmánaðar jafngildir hvorri eftirtalinna fjárhæða sem er lægri:
 1. Rekstrarkostnaði umsækjanda þann almanaksmánuð sem umsókn varðar.
 2. Margfeldi eftirfarandi stærða:
  1. 600 þús. kr.
  2. Fjöldi stöðugilda hjá umsækjanda í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar, þó að hámarki tíu stöðugildi.
  3. Tekjufall skv. 2. tölul. 4. gr.

     Rekstrarstuðningur telst til skattskyldra tekna samkvæmt lögum um tekjuskatt.

6. gr.

Umsókn.
     Umsókn um rekstrarstuðning skal beint til Skattsins fyrir hvern almanaksmánuð og eigi síðar en 30. september 2024. Umsókn skal vera á því formi sem Skatturinn ákveður og henni skulu fylgja þau gögn sem Skatturinn áskilur.

7. gr.

Ákvörðun.
     Skatturinn skal afgreiða umsókn svo fljótt sem verða má og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn.
     Við afgreiðslu umsóknar og endurskoðun ákvörðunar um rekstrarstuðning getur Skatturinn farið fram á að rekstraraðili sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til stuðningsins.
     Skatturinn skal endurákvarða rekstrarstuðning komi í ljósi að rekstraraðili hafi ekki átt rétt á stuðningnum eða átt rétt á meiri eða minni stuðningi en honum var ákvarðaður.
     Að því leyti sem ekki er á annan veg kveðið á um í lögum þessum gilda ákvæði 94.– 97. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eftir því sem við getur átt um afgreiðslu umsókna og endurákvarðanir Skattsins.

8. gr.

Málskot.
     Stjórnvaldsákvarðanir Skattsins samkvæmt lögum þessum sæta kæru til yfirskattanefndar. Um kærufrest og málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

9. gr.

Endurgreiðslur.
     Hafi rekstraraðili fengið rekstrarstuðning umfram það sem hann átti rétt á ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.
     Ef aðili sem fengið hefur rekstrarstuðning samkvæmt lögum þessum greiðir út arð, kaupir eigin hlutabréf eða ráðstafar með öðrum hætti fé til eigenda sinna, öðruvísi en í formi launa eða til samræmis við skuldbindingu sem stofnað var til fyrir 7. febrúar 2024, fyrir 1. júlí 2025 skal hann endurgreiða þann rekstrarstuðning sem hann hefur fengið.
     Kröfur um endurgreiðslur samkvæmt grein þessari bera vexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi sem aðili fékk rekstrarstuðning. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu skv. 1. mgr. ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurákvörðunar Skattsins og á kröfu um endurgreiðslu skv. 2. mgr. ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá úthlutun fjár til eigenda.
     Ákvarðanir Skattsins og úrskurðir yfirskattanefndar um endurgreiðslur samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfir. Kæra til yfirskattanefndar eða málshöfðun fyrir dómstólum frestar aðför.

10. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

11. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 2024.