Eysteinn Jónsson

Eysteinn Jónsson

Þingseta

Alþingismaður Suður-Múlasýslu 1933–1946 og 1947–1959, alþingismaður Austurlands 1959–1974 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Suður-Múlasýslu september–október 1946 og allt þingið 1946–1947.

Fjármálaráðherra 1934–1939, viðskiptamálaráðherra 1939–1942, menntamálaráðherra 1947–1949, fjármálaráðherra 1950– 1958.

Forseti sameinaðs þings 1971–1974.

Formaður þingflokks framsóknarmanna 1934 og 1943–1969.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur á Djúpavogi 13. nóvember 1906, dáinn 11. ágúst 1993. Foreldrar: Jón Finnsson (fæddur 17. ágúst 1865, dáinn 25. apríl 1940) prestur í Hofsþingum í Álftafirði og kona hans Sigríður Hansína Hansdóttir, fædd Beck (fædd 2. maí 1872, dáin 25. september 1949) húsmóðir. Föðurbróðir Svövu Jakobsdóttur alþingismanns og afabróðir Hrafns Jökulssonar varaþingmanns. Maki (20. febrúar 1932): Solveig Eyjólfsdóttir (fædd 2. nóvember 1911, dáin 29. júní 1995) húsmóðir. Foreldrar: Eyjólfur Jónsson og kona hans Þorbjörg Mensaldursdóttir. Börn: Sigríður (1933), Eyjólfur (1935), Jón (1937), Þorbergur (1940), Ólöf Steinunn (1947), Finnur (1952).

Samvinnuskólapróf 1927. Nám við Pitman College í Lundúnum sumarið 1929.

Stundaði verslunarstörf á Djúpavogi og ýmsa aðra vinnu ásamt heimanámi 1921–1923. Sjómaður 1924–1925. Starfsmaður í Stjórnarráði Íslands 1927–1930 og jafnframt endurskoðandi fyrir Skattstofu Reykjavíkur. Stundakennari við Samvinnuskólann 1927–1930. Skattstjóri í Reykjavík og jafnframt formaður niðurjöfnunarnefndar 1930–1934. Skipaður 28. júlí 1934 fjármálaráðherra, lausn 17. apríl 1939. Skipaður sama dag viðskiptamálaráðherra, lausn 7. nóvember 1941, en gegndi störfum til 18. nóvember. Skipaður sama dag viðskiptamálaráðherra að nýju, lausn 16. maí 1942. Framkvæmdastjóri Prentsmiðjunnar Eddu 1943–1947. Skipaður 4. febrúar 1947 menntamálaráðherra, lausn 2. nóvember 1949, en gegndi störfum til 6. desember Skipaður 14. mars 1950 fjármálaráðherra, lausn 11. september 1953. Skipaður sama dag fjármálaráðherra áfram, leystur frá störfum 14. apríl til 8. september 1954 vegna veikinda, lausn 27. mars 1956, en gegndi störfum til 24. júlí 1956, skipaður sama dag fjármálaráðherra enn á ný, lausn 4. desember 1958, en gegndi störfum til 23. desember.

Skipaður 1930 í nefnd til að koma nýrri skipan á ríkisbókhald, ríkisreikninga og fjárlög, 1931 í verðrannsóknarnefnd, 1933 í undirbúningsnefnd kosningalaga og 1938 í milliþinganefnd í gjaldeyrismálum. Kosinn 1940 í milliþinganefnd um gjaldeyrisverslun og innflutningshömlur. Formaður bankaráðs Búnaðarbankans 1941–1942. Skipaður 1943 í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum. Átti sæti í skilnaðarnefnd 1944 og í íslensk-danskri samninganefnd vegna sambandsslitanna 1945–1946. Í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins 1947–1973, en starfaði þar ekki þegar hann var ráðherra. Í landsbankanefnd 1950–1957 og í stjórn byggingarsjóðs kaupstaða og kauptúna, síðar byggingarsjóðs verkamanna 1950–1970. Í stjórn Framkvæmdabankans 1953–1966 og í stjórn Framkvæmdasjóðs 1966–1968. Kosinn 1959 í milliþinganefnd í öryrkjamálum. Fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1966–1971. Í Norðurlandaráði 1969–1971. Í Þingvallanefnd 1968–1975 og formaður hennar frá 1972. Skipaður 1968 í endurskoðunarnefnd laga um friðun Þingvalla og um náttúruvernd. Skipaður 1971 í nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipan verslunarmenntunar og nefnd til að semja frumvarp um stofnun og rekstur félagsmálaskóla verkalýðs- og samvinnuhreyfingar, ennfremur í landnýtingar- og landgræðslunefnd og jafnframt formaður hennar og í nefnd til að endurskoða rekstur Ríkisprentsmiðjunnar Gutenbergs. Formaður Náttúruverndarráðs 1972–1978. Kosinn 1973 í neyðarráðstafananefnd vegna eldgossins á Heimaey, formaður hennar. Formaður Framsóknarflokksins 1962–1968. Formaður stjórnar Sambands íslenskra samvinnufélaga 1975–1978. Í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs 1977–1988.

Alþingismaður Suður-Múlasýslu 1933–1946 og 1947–1959, alþingismaður Austurlands 1959–1974 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Suður-Múlasýslu september–október 1946 og allt þingið 1946–1947.

Fjármálaráðherra 1934–1939, viðskiptamálaráðherra 1939–1942, menntamálaráðherra 1947–1949, fjármálaráðherra 1950– 1958.

Forseti sameinaðs þings 1971–1974.

Formaður þingflokks framsóknarmanna 1934 og 1943–1969.

Samdi bæklinga og fjölda greina um stjórnmál og náttúruverndar- og útivistarmál. Úrval þeirra birtist í Sókn og vörn (1977). — Vilhjálmur Hjálmarsson ritaði Ævisögu Eysteins Jónssonar í þrem bindum (1983–1985).

Æviágripi síðast breytt 12. september 2019.

Áskriftir