Gylfi Þ Gíslason

Gylfi Þ Gíslason

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1946–1949 og 1959–1978, landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1949–1959 (Alþýðuflokkur).

Mennta- og iðnaðarmálaráðherra 1956–1958, mennta-, iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra 1958–1959, mennta- og viðskiptamálaráðherra 1959–1971.

Forseti sameinaðs þings 1974.

Formaður þingflokks Alþýðuflokksins 1968–1978.

Minningarorð
Raddsýnishorn

Æviágrip

Fæddur í Reykjavík 7. febrúar 1917, dáinn 18. ágúst 2004. Foreldrar: Þorsteinn Vilhjálmur Gíslason (fæddur 26. janúar 1867, dáinn 20. október 1938) ritstjóri þar og skáld og kona hans Þórunn Pálsdóttir (fædd 26. október 1877, dáin 14. janúar 1966) húsmóðir. Faðir Vilmundar Gylfasonar alþingismanns og ráðherra. Maki (30. desember 1939): Guðrún Vilmundardóttir (fædd 7. desember 1918, dáin 15. ágúst 2010) húsmóðir. Foreldrar: Vilmundur Jónsson alþingismaður og kona hans Kristín Ólafsdóttir. Synir: Þorsteinn (1942), Vilmundur (1948), Þorvaldur (1951).

Stúdentspróf MR 1936. Kandídatspróf í rekstrarhagfræði frá háskólanum í Frankfurt am Main 1939. Doktorspróf sama háskóla 1954. Námsdvöl við háskóla í Danmörku, Sviss og Bretlandi 1946, í Bandaríkjunum 1952 og Þýskalandi 1954. Heiðursdoktor Háskóla Íslands 1971.

Starfsmaður í Landsbanka Íslands 1939–1940. Kennari við Viðskiptaháskóla Íslands 1939–1940, dósent 1940–1941. Stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík 1939–1946 og 1947–1956. Skipaður 1941 dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, skipaður 1946 prófessor í laga- og viðskiptadeild Háskóla Íslands, leyfi frá störfum 1956, lausn 1966. Skipaður 24. júlí 1956 mennta- og iðnaðarmálaráðherra, lausn 4. desember 1958, en gegndi störfum til 23. desember Skipaður 23. desember 1958 mennta-, iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra, lausn 19. nóvember 1959, en gegndi störfum til 20. nóvember. Skipaður 20. nóvember 1959 mennta- og viðskiptamálaráðherra, lausn 15. júní 1971, en gegndi störfum til 14. júlí 1971. Prófessor í viðskiptadeild Háskóla Íslands 1972–1987.

Í viðskiptaráði, þá er það fjallaði um verðlagsmál, 1943–1946. Í stjórn stúdentagarðanna 1945–1957. Skipaður 1947 í stjórnarskrárnefnd, 1948 í vísitölunefnd (formaður). Í stjórn Tjarnarbíós, síðar Háskólabíós, 1949–1970, formaður 1949–1963. Formaður Hagfræðingafélags Íslands 1951–1959. Í bankamálanefnd 1951–1954, í bankaráði Framkvæmdabanka Íslands 1953–1966, og í stjórn Framkvæmdasjóðs 1966–1971. Í þjóðleikhúsráði 1954–1987. Kosinn 1954 í kosningalaganefnd, 1955 í okurnefnd og 1956 í milliliðagróðanefnd. Fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1956–1965 og í stjórn Alþjóðabankans 1965–1971. Formaður Rannsóknaráðs ríkisins 1965–1971. Í Norðurlandaráði 1971–1978. Skipaður 1972 í þingmannanefnd til að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins. Kosinn 1973 í neyðarráðstafananefnd vegna eldgossins á Heimaey. Skipaður 1975 í nefnd um tekjuöflunarkerfi ríkisins. Formaður Alþýðuflokksins 1968–1974. Skipaður í stjórnarskrárnefnd 1978. Formaður Norræna félagsins 1984–1991. Í stjórn Norræna hússins síðan 1984.

Alþingismaður Reykvíkinga 1946–1949 og 1959–1978, landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1949–1959 (Alþýðuflokkur).

Mennta- og iðnaðarmálaráðherra 1956–1958, mennta-, iðnaðar- og viðskiptamálaráðherra 1958–1959, mennta- og viðskiptamálaráðherra 1959–1971.

Forseti sameinaðs þings 1974.

Formaður þingflokks Alþýðuflokksins 1968–1978.

Hefur samið kennslubækur um hagfræði og viðskiptafræði og bækur, bókarkafla og greinar um margvísleg þjóðmál o. fl. sem birst hafa innan lands, annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Hefur einnig samið sönglög sem gefin hafa verið út á hljómplötum í flutningi ýmissa listamanna.

Æviágripi síðast breytt 4. nóvember 2019.

Áskriftir