Kolbrún Halldórsdóttir

Kolbrún Halldórsdóttir

Þingseta

Alþingismaður Reykvíkinga 1999–2003, alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2007, alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður 2007–2009 (Vinstrihreyfingin – grænt framboð).

Varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður október–nóvember 2010 (Vinstrihreyfingin – grænt framboð).

Umhverfisráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála 2009.

Raddsýnishorn

Æviágrip

Fædd í Reykjavík 31. júlí 1955. Foreldrar: Halldór Viðar Pétursson (fæddur 29. september 1928, dáinn 22. mars 2009) matsveinn og kona hans Halldóra Sigrún Ólafsdóttir (fædd 14. maí 1926, dáin 6. febrúar 2007) kennari og húsmóðir, systir Magnúsar Torfa Ólafssonar alþingismanns og ráðherra. Maki (1. maí 1980): Ágúst Pétursson (fæddur 12. maí 1953) kennari. Foreldrar: Pétur Ágústsson og kona hans Guðrún Kristjánsdóttir. Börn: Orri Huginn (1980), Alma (1995).

Verslunarpróf VÍ 1973. Burtfararpróf frá Leiklistarskóla Íslands 1978.

Leikari og hvíslari hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1978–1979, leikari og bókhaldari í Alþýðuleikhúsinu 1979–1983. Fulltrúastörf á skrifstofu Listahátíðar Reykjavíkur, störf hjá Kvikmyndafélaginu Óðni og Kvikmynd og fulltrúastörf hjá Leiklistarskóla Íslands 1979–1983. Framkvæmdastjóri Kramhússins 1984–1985. Leikstjóri og leikari hjá Svörtu og sykurlausu 1983–1986. Dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið, hljóðvarp og sjónvarp 1980–1990. Framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra leikfélaga 1988–1993. Fastráðinn leikstjóri við Þjóðleikhúsið 1995–1998. Lausráðinn leikstjóri hjá Leikfélagi Akureyrar og hjá sjálfstætt starfandi atvinnuleikhópum 1980–1999, auk þess að hafa leikstýrt fjölda leiksýninga hjá skólaleikfélögum og áhugamannaleikfélögum um land allt. Kennsla á leiklistarnámskeiðum víða um land, í Færeyjum og á Írlandi. Stjórnandi stórra menningarviðburða, m.a. Þjóðleiks á Þingvöllum á Lýðveldishátíðinni 1994, dagskrárstjóri á Kristnihátíð á Þingvöllum 2000. Skipuð umhverfisráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála 1. febrúar 2009, lausn 10. maí 2009.

Fulltrúi í skólanefnd Leiklistarskóla Íslands 1977–1978 og 1988–1993. Ritari IV. deildar Félags íslenskra leikara 1980–1981. Formaður IV. deildar Félags íslenskra leikara 1981–1982. Fulltrúi í Leiklistarsambandi Íslands 1988–1993. Í NAR, norrænu samstarfi áhugaleikfélaga, 1988–1993. Í nefnd á vegum menntamálaráðuneytis um menntastefnu til 2000 (listgreinar) 1990 og nefnd á vegum menntamálaráðuneytis um endurskoðun leiklistarlaga 1994. Formaður framkvæmdastjórnar Leiklistarráðs 1990–1994. Varamaður í stjórn TDN, Teater og dans i Norden, norrænu leiklistar- og dansnefndarinnar, 1997–2001. Gjaldkeri í stjórn Félags leikstjóra á Íslandi 1998–1999. Fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Sorpu 2002–2004. Í fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra 2004–2005. Í starfshópi dómsmálaráðherra um starfsumhverfi vændis 2004–2006. Í stjórn Ísland – Panorama síðan 2006. Í auðlindanefnd iðnaðarráðherra 2006. Í umhverfisnefnd Norðurlandaráðs 2007–2008. Í Þjóðleikhúsráði síðan 2007. Í Þingvallanefnd 2007–2009. Í vatnalaganefnd iðnaðarráðherra 2008. Í starfshópi menntamálaráðherra um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði 2008. Í menningarnefnd Norðurlandaráðs síðan 2008.

Alþingismaður Reykvíkinga 1999–2003, alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2007, alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður 2007–2009 (Vinstrihreyfingin – grænt framboð).

Varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður október–nóvember 2010 (Vinstrihreyfingin – grænt framboð).

Umhverfisráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála 2009.

Menntamálanefnd 1999–2009, umhverfisnefnd 1999–2009.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2007–2009.

Hefur samið leikgerðir og handrit ýmissa leiksýninga.

Ritstjóri: Leiklistarblaðið (1988–1993).

Æviágripi síðast breytt 19. febrúar 2020.

Áskriftir