Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1278, 111. löggjafarþing 247. mál: lögbókandagerðir.
Lög nr. 86 1. júní 1989.

Lög um lögbókandagerðir.


1. gr.

     Lögbókandagerðir (notarialgerðir) eru valdsmannsathafnir sem sýslumenn framkvæma hver í sínu umdæmi. Nefnist sýslumaður lögbókandi (notarius publicus) við þær gerðir.
     Starfsmenn utanríkisþjónustu Íslands, sem veita sendiráðum erlendis forstöðu, og sendiræðismenn eru hver í sínu umdæmi lögbókendur varðandi athafnir og löggerninga sem íslenskir ríkisborgarar standa að einhverju eða öllu leyti að. Utanríkisráðherra getur veitt kjörræðismönnum Íslands erlendis sömu heimild.
     Um hæfi lögbókanda til að annast lögbókandagerð fer eftir almennum reglum um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði, eftir því sem við á.
     Ekki er þörf votta við lögbókandagerðir, nema þar sem slíkt er sérstaklega áskilið í lögum.

2. gr.

     Lögbókandagerð telst opinber staðfesting á því sem efni hennar kveður á um. Jafngildir hún vottun tveggja manna um þá athöfn eða staðreynd sem hún tekur til.
     Að því leyti, sem reglur annarra laga kveða á um sérstakar gerðir lögbókanda eða framkvæmd þeirra, halda þær gildi sínu, en beita skal ákvæðum þessara laga að öðru leyti um þær gerðir, eftir því sem við verður komið.

3. gr.

     Lögbókandagerð fer fram á starfsstöð lögbókanda, nema nauðsyn beri til annars vegna aðstæðna eða eðlis málefnisins.
     Þeim, sem fara með lögbókandagerðir, skulu lagðar til á kostnað ríkissjóðs tölusettar, gegnumdregnar og innsiglaðar gerðabækur. Slíkar bækur skulu löggiltar af því ráðuneyti sem hlutaðeigandi embættismaður heyrir undir.

4. gr.

     Óski maður eftir að lögbókandi staðfesti undirskrift hans á skjali skal hann sanna á sér deili og undirrita skjalið eða kannast við undirskrift sína að lögbókanda viðstöddum.
     Nú er ástæða til að ætla að endurtekið verði óskað staðfestingar lögbókanda á undirskrift sama manns. Getur sá, sem svo er ástatt um, á eigin ábyrgð látið lögbókanda í té í eitt skipti fyrir öll sýnishorn undirskriftar sinnar. Áður skal hann sanna á sér deili og rita undir yfirlýsingu í gerðabók lögbókanda um að framvegis megi í skjóli hennar staðfesta samkvæmt bréflegri beiðni undirskrift hans undir skjöl sem lögbókanda berast í því skyni.

5. gr.

     Nú lýsir maður því yfir í viðurvist lögbókanda að efni skjals sé í samræmi við ætlun sína, en hann sé ófær vegna líkamlegs heilsubrests um að undirrita það. Getur þá lögbókandi ritað vottorð um þetta á skjalið. Telst það vottorð hafa sömu þýðingu og ef sá, sem skjalið stafar frá, hefði sjálfur undirritað skjalið að lögbókanda viðstöddum.

6. gr.

     Ef maður óskar eftir staðfestingu lögbókanda á hæfi sínu eða heimild til að standa að efni skjals skulu lögbókanda látin í té þau sönnunargögn um málefnið sem hann telur þörf. Lögbókandi verður að öðru leyti ekki krafinn um að meta hæfi eða heimild útgefanda skjals eða að afla gagna um þau efni, nema lög mæli á annan veg.

7. gr.

     Lögbókandi ritar vottorð á skjöl sem hann staðfestir skv. 4., 5. eða 6. gr. Í vottorði hans skal tekið nákvæmlega fram til hvers eða hverra atriða staðfestingin tekur. Eftir því sem lögbókanda þykir ástæða til má hann geta í vottorði sínu með hverjum hætti þau atriði hafa verið sönnuð sem vottorðið fjallar um. Þá skal hann einnig geta annarra atriða ef hann telur þau geta haft þýðingu við mat á hæfi þess, sem stendur að löggerningnum, eða við mat á gildi löggerningsins að öðru leyti. Við undirskrift sína undir vottorð skal lögbókandi tiltaka nákvæmlega hvar og hvenær staðfesting á sér stað.

8. gr.

     Nú er þess beiðst að lögbókandi staðfesti undirskrift undir skjal á erlendu tungumáli eða efni þess. Má lögbókandi þá krefja þann, sem um gerðina biður, um þýðingu löggilts skjalaþýðanda á skjalinu, nema lögbókandi telji sjálfum sér fært að þýða það. Ef óskað er eftir að vottorð lögbókanda á skjali verði á erlendu tungumáli skal sá, sem um það biður, leggja til þýðingu löggilts skjalaþýðanda á þeim texta vottorðs sem lögbókandi mælir fyrir um.

9. gr.

     Nú er skjal, sem óskað er staðfestingar lögbókanda á, ætlað til afnota erlendis, og reglur eða venjur í viðkomandi ríki leiða til að efni þess hafi ekki tilætlaða þýðingu nema það sé staðfest með eiði eða drengskaparheiti. Lögbókanda er þá heimilt að færa upplýsingar um meginefni skjalsins til bókar í gerðabók. Má sá, sem um staðfestingu lögbókanda biður, vinna eið eða drengskaparheit að sannleiksgildi efnis skjalsins, og skal það sérstaklega bókað.
     Um framkvæmd og skilyrði heitfestingar skv. 1. mgr. skal farið eftir réttarfarsreglum um eiðvinning vitnis í einkamáli, eftir því sem við á.

10. gr.

     Ef óskað er eftir að lögbókandi staðfesti að atburður hafi átt sér stað eða að athöfn hafi farið fram með tilteknum hætti skal hann kvaddur með hæfilegum fyrirvara til að vera viðstaddur.
     Lögbókandi færir í gerðabók frásögn sína af þeim atburðum eða athöfnum sem hann staðfestir. Um efni bókunar skal eftir atvikum gæta ákvæða 7. gr. Bókun sína undirritar lögbókandi ásamt þeim sem hlut eiga að máli.
     Ef sérstakar aðstæður krefjast þess getur lögbókandi fært efni löggernings jafnharðan í gerðabók eftir fyrirsögn þess sem hann stafar frá. Um staðfestingu lögbókanda á undirritun og efnisatriðum slíkra löggerninga gilda fyrirmæli 4. til 9. gr., eftir því sem við á.

11. gr.

     Lögbókanda skulu afhent skjöl, sem honum er ætlað að staðfesta, í nægilegum fjölda samhljóða eintaka til að hann fái haldið einu eftir. Á því eintaki skulu vera undirritanir þeirra, sem hlut eiga að máli, auk vottorðs lögbókanda.
     Með samritum skjala skv. 1. mgr. skulu geymd eintök þeirra sönnunargagna, sem lögbókanda hafa verið afhent skv. 6. gr., auk þýðinga skjala á erlendum tungumálum ef þær hafa verið fengnar. Dómsmálaráðherra er heimilt að kveða á í reglugerð um varðveislu og umbúnað þessara skjala og sönnunargagna.

12. gr.

     Staðfest endurrit eða myndrit af öðrum skjölum en viðskiptabréfum, sem lögbókandi varðveitir skv. 11. gr., teljast jafngild frumriti þeirra að lögum.
     Að því leyti, sem bókun lögbókanda í gerðabók felur í sér löggerning manns, telst staðfest endurrit úr gerðabókinni samsvara skjalfestu eintaki löggerningsins.

13. gr.

     Lögbókanda er óheimilt að láta af hendi endurrit eða myndrit skjala sem hann varðveitir, eða endurrit úr gerðabók nema með samþykki þess sem um gerð hans hefur beðið. Nú er sá maður látinn og má lögbókandi þá láta af hendi endurrit eða myndrit til þeirra sem telja sig geta byggt rétt á efni skjalsins.
     Nú hefur staðfestingar lögbókanda verið leitað til að sanna atburð eða athöfn, sem varðar réttindi annars manns en þess, er um gerðina hefur beðið, eða ótiltekins fjölda manna. Er þá lögbókanda heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., að afhenda þeim, er telur málefnið sig varða, endurrit úr gerðabók varðandi viðkomandi atburð eða athöfn.
     Lögbókanda ber að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli málsins. Honum er óheimilt nema með samþykki þess, sem um gerð hans hefur beðið, að veita upplýsingar um hvort hún hafi farið fram eða um efni hennar, nema svo standi á að þeim, sem um upplýsingar biður, megi afhenda samrit eða endurrit löggernings eða gerðar samkvæmt reglum 1. eða 2. mgr.

14. gr.

     Nú er óskað lögbókandagerðar, en lögbókandi telur að gerðin muni engum tilgangi þjóna eða að skilyrðum þessara eða annarra laga fyrir gerð með því efni, sem um er beðið, sé ófullnægt, og má hann þá hafna beiðni um gerðina. Lögbókanda er skylt að afhenda þeim, sem hann synjar um gerð, skriflegan rökstuðning fyrir afstöðu sinni ef krafist er.
     Þótt svo standi á sem í 1. mgr. segir má lögbókandi framkvæma gerð ef hann telur eftir atvikum ekki ástæðu til að synja um hana, en í bókun sinni eða rituðu vottorði á skjali skal hann geta þeirra atriða sem hann telur áfátt.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Meðan lög nr. 74 27. apríl 1972, um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., eru enn í gildi skulu þeir embættismenn, sem þar er mælt fyrir, eftir sem áður fara með lögbókandagerðir (notarialgerðir) auk þeirra sem taldir eru í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga þessara.

16. gr.

     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi eftirfarandi lög og ákvæði laga:
  1. Opið bréf um testamenti og notarialgerðir 8. janúar 1823.
  2. Í 1. málsl. 2. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 23. júní 1936, orðin „auk nótaríalgerða“.
  3. 3. mgr. 41. gr. og 2. mgr. 43. gr. erfðalaga, nr. 8 14. mars 1962.
  4. 15. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39 16. apríl 1971.


Samþykkt á Alþingi 19. maí 1989.