Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 436, 112. löggjafarþing 179. mál: uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla (heildarlög).
Lög nr. 123 28. desember 1989.

Lög um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla.


1. gr.

     Sjávarútvegsráðherra veitir leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla. Við veitingu leyfa skal ráðherra m.a. meta hvort skilyrði frjálsrar verðmyndunar á uppboðsmarkaði séu fyrir hendi með hliðsjón af líklegu fiskframboði, fjölda fiskvinnslustöðva á markaðssvæði og starfsemi annarra uppboðsmarkaða.
     Leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar skal veitt til eins árs í senn. Ráðherra er heimilt að svipta aðila leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fullnægi hann ekki skilyrðum settum í lögum þessum eða reglum um starfsemi markaðarins, sbr. 4. gr.

2. gr.

     Leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar má einungis veita aðilum sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
  1. Hafi íslenskan ríkisborgararétt og haft fasta búsetu á Íslandi sl. tvö ár.
  2. Séu fjárráða.
  3. Hafi forræði á búi sínu.

     Enn fremur má veita hlutafélögum leyfi til reksturs, enda sé allt hlutaféð í eign íslenskra ríkisborgara, sbr. 11. gr. laga nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi.

3. gr.

      Lög nr. 53 30. maí 1984, um Ríkismat sjávarafurða, og reglur settar með stoð í þeim lögum, gilda um húsnæði og búnað uppboðsmarkaðar og meðferð afla eftir því sem við getur átt.

4. gr.

     Áður en rekstur uppboðsmarkaðar hefst skal leyfishafi leita samþykkis ráðherra á reglum um starfsemi markaðarins. Aðeins er heimilt að breyta reglum um starfsemi uppboðsmarkaðar með samþykki ráðherra.

5. gr.

     Þeim aðilum, sem leyfi hafa til reksturs uppboðsmarkaðar, er skylt að láta liggja frammi yfirlit yfir selt aflamagn hvers dags, kaupendur þess og verð. Skulu þeir daglega senda Fiskifélagi Íslands afrit af þessu yfirliti.
     Þá er skylt að senda opinberum aðilum, sem þess óska, skýrslu um seljendur afla, aflamagn, kaupendur og verð.

6. gr.

     Leyfishafar skulu standa skil á uppboðsandvirði hins selda afla til seljenda og sjá um skil á greiðslum samkvæmt ákvæðum II. kafla laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
     Leyfishafi skal krefjast greiðslutrygginga af kaupanda sé ekki um staðgreiðslu að ræða.
     Við skiptingu greiðslna samkvæmt þessari grein skal miða við uppboðsandvirði að frádregnum beinum kostnaði af uppboðinu.

7. gr.

     Um sjávarafla, sem seldur er á uppboðsmarkaði, gilda ekki ákvæði um lágmarksverð samkvæmt lögum nr. 43/1985, um Verðlagsráð sjávarútvegsins.

8. gr.

     Leyfishafi skal hafa í þjónustu sinni a.m.k. einn starfsmann sem sér um framkvæmd uppboðs og skal hann hafa löggildingu til starfans.
     Sjávarútvegsráðherra veitir löggildingu.

9. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 1989.