Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 376, 112. löggjafarþing 180. mál: Fiskveiðasjóður Íslands (þróunardeild og Fiskimálasjóður).
Lög nr. 135 30. desember 1989.

Lög um viðauka við lög nr. 44 25. maí 1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.


1. gr.

     Við Fiskveiðasjóð Íslands skal starfa sérstök þróunardeild er hefur það hlutverk að veita lán til markaðsmála, rannsókna og þróunarverkefna á öllum sviðum sjávarútvegs. Deildinni er heimilt að veita styrki í sama tilgangi. Í því skyni er stjórn Fiskveiðasjóðs heimilt að leggja deildinni árlega til allt að 1% af eigin fé sjóðsins.

2. gr.

     Lán úr þróunardeild skulu veitt gegn þeim tryggingum sem stjórn Fiskveiðasjóðs metur fullnægjandi og er hún í þeim efnum óbundin af ákvæðum 11. og 12. gr. laga nr. 44/1976.

3. gr.

     Sjávarútvegsráðherra setur reglur um lán- og styrkveitingar úr deildinni.

4. gr.

     Deildin tekur yfir eignir og skuldir Fiskimálasjóðs. Skal yfirtakan miðast við stöðu eigna og skulda þann 31. desember 1989.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Með lögum þessum eru numin úr gildi lög nr. 89 5. júní 1947, um Fiskimálasjóð, sbr. 5. gr. laga nr. 27 17. maí 1976, lög nr. 10 11. mars 1971 og lög nr. 104 29. des. 1980.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1989.