Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1035, 112. löggjafarþing 167. mál: Námsgagnastofnun (heildarlög).
Lög nr. 23 8. maí 1990.

Lög um Námsgagnastofnun.


1. gr.

     Hlutverk Námsgagnastofnunar er að sjá grunnskólum fyrir sem bestum náms- og kennslugögnum sem eru í samræmi við uppeldis- og kennslufræðileg markmið laga um grunnskóla og aðalnámsskrár.
     Heimilt er að fela Námsgagnastofnun að annast verkefni, hliðstæð þeim sem tilgreind eru í lögum þessum, fyrir tónlistarskóla og framhaldsskóla.
     Stofnunin skal hafa samstarf við þá aðila sem vinna að stefnumörkun, rannsóknum og þróunarverkefnum í skólastarfi og menntun kennara.
     Námsgagnastofnun heyrir undir menntamálaráðuneytið.

2. gr.

     Menntamálaráðherra skipar til þriggja ára í senn sjö manna námsgagnastjórn og jafnmarga til vara:
  1. einn fulltrúa tilnefndan af Félagi skólastjóra og yfirkennara,
  2. tvo fulltrúa tilnefnda af Kennarasambandi Íslands og skulu þeir starfa á grunnskólastigi,
  3. einn fulltrúa tilnefndan af Hinu íslenska kennarafélagi og skal hann starfa á framhaldsskólastigi,
  4. einn fulltrúa tilnefndan af Kennaraháskóla Íslands,
  5. einn fulltrúa tilnefndan af fræðslustjórum,
  6. einn fulltrúa tilnefndan af menntamálaráðherra.

     Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna og ákveður laun stjórnarinnar.
     Landssamtökum foreldrafélaga er heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétti í námsgagnastjórn.

3. gr.

     Námsgagnastofnun gerir fjárhags- og framkvæmdaáætlanir til allt að fimm ára. Námsgagnastjórn staðfestir áætlanir og fylgist með framkvæmd þeirra. Námsgagnastjórn ber ábyrgð á starfsemi og fjárreiðum stofnunarinnar og ræður starfslið hennar að fengnum tillögum forstjóra, sbr. 4. gr. laga þessara.

4. gr.

     Menntamálaráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum námsgagnastjórnar. Hann á sæti á fundum stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétti og sér um framkvæmd á ákvörðunum hennar. Forstjóri annast daglega stjórn og fjárreiður stofnunarinnar.

5. gr.

     Starfsemi Námsgagnastofnunar skiptist í deildir í samræmi við verkefni hennar, sbr. ákvæði í reglugerð.
     Verkefni stofnunarinnar eru í megindráttum þessi:
     Stofnunin annast gerð, útgáfu, framleiðslu og dreifingu á náms- og kennslugögnum miðað við íslenskar þarfir og aðstæður. Hún kaupir og framleiðir fræðslumyndir eða er aðili að gerð þeirra.
     Stofnunin annast kynningar- og fræðslustarfsemi fyrir skóla um námsgögn og kennslutæki.
     Hún kaupir, selur og dreifir náms- og kennslugögnum frá öðrum aðilum.
     Stofnunin hefur með höndum þróun námsgagna og hefur frumkvæði að könnunum og rannsóknum á gerð þeirra og notkun.
     Námsgagnastofnun er heimilt að hafa þau náms- og kennslugögn, sem hún framleiðir, til sölu á frjálsum markaði.

6. gr.

     Nemendur í skyldunámi skulu fá ókeypis námsgögn til eignar eða afnota samkvæmt ákvörðun námsgagnastjórnar.
     Námsgagnastofnun sér um að námsgögn berist skólum á tilskildum tíma samkvæmt gildandi úthlutunarreglum sem námsgagnastjórn setur.
     Afgreiðsla og uppgjör miðast við fjölda nemenda í hverjum aldursflokki samkvæmt opinberum skýrslum.

7. gr.

     Kostnaður við starfsemi Námsgagnastofnunar greiðist úr ríkissjóði og af eigin tekjum stofnunarinnar sem eingöngu má verja í þágu þeirra verkefna sem þessi lög mæla fyrir um.

8. gr.

     Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um lög þessi og framkvæmd þeirra.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Jafnframt falla úr gildi lög nr. 45/1979, um Námsgagnastofnun.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Meðan ekki eru starfandi landssamtök skal tilnefningu skv. 3. mgr. 2. gr. hagað þannig að samtök foreldrafélaga í hverju fræðsluumdæmi skiptast á um að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til eins árs í senn. Ef ekki eru starfandi foreldrasamtök í fræðsluumdæmi skulu fræðsluráðin hafa tilnefningarréttinn.

Samþykkt á Alþingi 25. apríl 1990.