Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1236, 112. löggjafarþing 572. mál: grunnskóli (skólaskylda 6 ára barna).
Lög nr. 52 16. maí 1990.

Lög um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 63/1974, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. mgr. 1. gr. laganna orðist þannig:
     Ríki og sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára, eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Skóli þessi nefnist grunnskóli. Öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri er skylt að sækja skóla en frá því má þó veita undanþágu, sbr. 5., 7. og 8. gr.

2. gr.

     Fyrri málsgrein 3. gr. laganna orðist þannig:
     Grunnskóli er tíu ára skóli.

3. gr.

     Síðari málsliður 4. gr. laganna orðist þannig: Heimilt er ráðuneytinu, að fenginni tillögu hlutaðeigandi fræðsluráðs, að koma á fót útibúum frá aðalskóla skólahverfis fyrir 6–10 ára börn þar sem heimanakstri til aðalskóla verður ekki við komið.

4. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 22. gr. laganna orðist þannig: Heimilt er nemendum 8.–10. bekkjar grunnskóla að stofna nemendaráð er sé skólastjóra og kennararáði til aðstoðar og ráðuneytis um málefni nemenda.

5. gr.

     B-liður 2. mgr. 41. gr. laganna orðist þannig:
  1. í 4.–10. bekk í 7 1/2 mánuð.


6. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 42. gr. laganna orðist svo: Í 8.–10. bekk verði val námsgreina frjálst að hluta og skal þar við það miðað að verklegt skyldu- og valnám geti samanlagt numið helmingi námstímans að hámarki en fimmtungi hans að lágmarki.

7. gr.

     2. mgr. 44. gr. laganna orðist þannig:
     Vikulegur kennslutími á hvern nemanda í grunnskóla skal vera sem næst þessi:
  1. í 1. bekk, 880 mínútur,
  2. í 2. bekk, 880 mínútur,
  3. í 3. bekk, 960 mínútur,
  4. í 4. bekk, 1080 mínútur,
  5. í 5. bekk, 1280 mínútur,
  6. í 6. bekk, 1360 mínútur,
  7. í 7. bekk, 1400 mínútur,
  8. í 8. bekk, 1140–1480 mínútur,
  9. í 9. bekk, 1440–1480 mínútur,
  10. í 10. bekk, 1440–1480 mínútur.


8. gr.

     48. gr. laganna, sbr. 17. gr. laga nr. 43/1984, orðist þannig:
     Í 8.–10. bekk grunnskóla skulu deildir eigi vera færri en aldursflokkar þeir sem sækja þessa bekki skólans, nema menntamálaráðuneytið heimili annað í samráði við viðkomandi skólayfirvöld.
     Til þess að 9.–10. bekk grunnskóla verði haldið uppi í skólahverfi má meðalfjöldi nemenda í deild ekki vera minni en 12, nema að fenginni heimild menntamálaráðuneytisins.

9. gr.

     49. gr. laganna orðist þannig:
     Börnum og unglingum er bæði rétt og skylt að sækja grunnskóla fái þau ekki hliðstæða kennslu annars staðar, sbr. 7., 51., 52. og 75. gr. þessara laga.
     Skólaskylda barns hefst við byrjun skólaárs á því almanaksári sem það verður sex ára. Skólaganga má þó hefjast fyrr á almanaksárinu ef skólahverfi heldur vorskóla. Sæki foreldrar eða forráðamaður um eða samþykki að barn, sem náð hefur fimm ára aldri fyrir 1. júlí, hefji nám á því ári eða að barn, sem ekki verður sex ára fyrr en 1. júlí, fresti námi um eitt ár getur skólastjóri, að fengnum meðmælum hlutaðeigandi sálfræðideildar, haft þann hátt á. Nú sækja foreldrar eða forráðamaður um að barn, sem nær fimm ára aldri á síðari hluta almanaksársins, fái að hefja skólagöngu í grunnskóla og getur þá skólastjóri heimilað þetta ef sálfræðideild og skólalæknir mæla með því hvor um sig.
     Nú lýkur nemandi öllu námi grunnskóla á níu árum með góðum árangri og telst hann þá hafa lokið skyldunámi. Nemandi getur og á sama hátt lokið grunnskólanámi enn fyrr og þá flust á framhaldsskólastig telji skólastjóri, skólasálfræðingur og aðalkennari nemandann hafa til þess nægan þroska, enda komi til samþykki forráðamanna.
     Fræðslustjóri getur, að höfðu samráði við foreldra eða forráðamenn auk skólastjóra, heimilað nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 9. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífi og lýkur nemandi þá grunnskólanámi þeim mun síðar. Heimilt skal að meta þessa þátttöku nemandans í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum valgreinum 10. bekkjar.

10. gr.

     2. málsl. 59. gr. laganna orðist svo:
     Í skírteinið skal skrá námsbraut nemandans og valgreinar hans í 9.–10. bekk, svo og úrslit prófa, þar á meðal samræmdra lokaprófa.

11. gr.

     1. mgr. 60. gr. laganna orðist þannig:
     Til þess hluta námsmats, sem framkvæmt er með prófum lögðum fyrir heila árganga skv. 57. eða 58. gr., er heimilt að hafa prófdaga sem hér segir: Í 1.–3. bekk þrjá daga, í 4. bekk fimm daga, í 5., 6. og 7. bekk sex daga, í 8., 9. og 10. bekk allt að tólf daga að meðaltali.

12. gr.

     1. og 2. mgr. 61. gr. laganna orðist þannig:
     Menntamálaráðuneytið í samráði við fræðslustjóra skipar skólunum trúnaðarmenn til aðstoðar við framkvæmd samræmdra könnunarprófa, svo og prófdómara til starfa við námsmat í 10. bekk grunnskóla, og setur starfsmönnum þessum erindisbréf.
     Æski skólastjóri og skólanefnd grunnskóla, þar sem kennslu lýkur í 8. bekk eða fyrr, sbr. 3. gr., að sérstakt eftirlit verði með námsmati í lokabekk skólans er ráðuneytinu heimilt að skipa skólanum eftirlitsmann. Greiðist kostnaður við störf hans þá að jöfnu úr ríkissjóði.

13. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 74. gr. laganna orðist þannig: Heimilt er sveitarfélögum að setja á stofn við grunnskóla og undir sömu stjórn forskóla fyrir 5 ára börn enda samþykki menntamálaráðuneytið starfsáætlun, húsnæði og annan búnað skólans.

14. gr.

     Eftirtaldar breytingar verði á 76. gr. laganna:
  1. 5. mgr. orðist svo:
  2.      Til kennslutíma skal hvorki telja kennslustundir utan námsskrár né kennslustundir umfram þann tíma sem ákveðinn er í 44. gr., nema hvað verja má allt að einni stund á viku á hverja 30 nemendur í 6.–10. bekk grunnskóla til reglubundins hópnáms í bókasafni undir leiðsögn kennara.
  3. 7. mgr. orðist svo:
  4.      Leiði skipting bekkja vegna verklegrar kennslu að jafnaði til fleiri en þeirra þriggja stunda á viku í 4.–10. bekk sem reiknað er með hér að framan eykst kennslustundafjöldinn í samræmi við það, enda séu þá að jafnaði eigi færri en 12 nemendur saman í námshópi.


15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 4. maí 1990.