Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1322, 112. löggjafarþing 411. mál: öryggi á vinnustöðum (vinna barna og ungmenna).
Lög nr. 61 15. maí 1990.

Lög um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.


1. gr.

     59. gr. laganna orðist svo:
     Barn merkir í lögum þessum einstakling innan 16 ára aldurs.
     Ungmenni merkja í lögum þessum unglinga 16 og 17 ára.

2. gr.

     60. gr. orðist svo:
     Börn yngri en 14 ára má ekki ráða nema til léttra, hættulítilla starfa. Ekki má láta börn á aldrinum 14 og 15 ára, né heldur þau sem yngri eru, vinna við hættulegar vélar og við hættulegar aðstæður.
     Stjórn Vinnueftirlits ríkisins setur leiðbeinandi skilgreiningar um hvað teljast létt, hættulítil störf, hættulegar vélar og hættulegar aðstæður, sbr. lög nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, og að höfðu samráði við barnaverndarráð Íslands.

3. gr.

     Í stað orðsins „unglinga“ í fyrri málsgrein 61. gr. komi: barna. Í stað orðsins „unglingar“ í síðari málsgrein greinarinnar komi: unglingar 16 og 17 ára.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1990.