Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1033, 115. löggjafarþing 436. mál: höfundalög (tölvuforrit, ljósritun o.fl.).
Lög nr. 57 2. júní 1992.

Lög um breytingu á höfundalögum, nr. 73 29. maí 1972, sbr. lög nr. 78 30. maí 1984.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 4. mgr., svohljóðandi:
     Ákvæði 3. mgr. skulu einnig gilda um tölvuforrit.

2. gr.

     Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist: Þá skal einnig í þeim tilvikum, þegar verulegur og samfelldur flutningur verka eða umfangsmikil fjölföldun eða útleiga hefur átt sér stað, talið að flutt hafi verið, leigð út eða fjölfjölduð verk sem vernduð eru að höfundalögum nema annað verði í ljós leitt.

3. gr.

     2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði 1. mgr. veita ekki rétt til:
  1. mannvirkjagerðar eftir verki sem verndar nýtur eftir reglum um byggingarlist,
  2. eftirgerðar verka sem verndar njóta eftir reglum um höggmyndalist, nytjalist eða dráttlist ef leitað er til hennar aðstoðar annarra manna,
  3. eftirgerðar verndaðra tónverka og bókmenntaverka sé leitað til hennar aðstoðar aðila sem taka slíka eftirgerð að sér í atvinnuskyni,
  4. eftirgerðar verndaðra tölvuforrita.


4. gr.

     Eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:
     Eiganda eintaks af tölvuforriti, sem út hefur verið gefið, er, þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 11. gr., heimil gerð eintaka eftir forritinu, þar á meðal til gerðar vara- og öryggiseintaka, sem honum er nauðsynleg vegna nýtingar þess. Slík eintök má ekki nota á annan hátt og réttur til nýtingar þeirra fellur niður ef eigandi ráðstafar frumeintaki sínu til annarra.

5. gr.

     Eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, svohljóðandi:
     Þeim sem aflað hefur sér heimildar til ljósritunar eða hliðstæðrar eftirgerðar verka til afnota í starfsemi sinni með samningum við samtök höfundaréttarfélaga sem annast hagsmunagæslu fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda á því sviði og hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins skal einnig heimilt, án sérstaks leyfis höfundar hverju sinni, að fjölfalda verk hans með sama hætti þótt höfundur sé ekki félagi í samtökunum. Hver einstakur höfundur getur lagt skriflegt bann við fjölföldun verka sinna samkvæmt þessari málsgrein.
     Höfundaréttarsamtökum skv. 1. mgr. skulu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og þær vera háðar staðfestingu þess. Samtökin skulu auk samningsaðildar hafa rétt til almennrar innheimtu gjalda fyrir fjölföldun, einnig fyrir þá íslenska höfunda sem standa utan þeirra. Skal í samþykktum samtakanna kveðið á um ráðstöfun tekna vegna fjölföldunar og skulu höfundar, er standa utan þeirra, njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn.
     Höfundaréttarsamtök skv. 1. mgr. ábyrgjast allar kröfur sem fram kunna að koma frá handhöfum höfundaréttar sem ekki eru félagar í samtökunum og réttmætt tilkall eiga til greiðslu fyrir fjölföldun og verða slíkar kröfur aðeins gerðar á hendur samtökunum. Kröfur samkvæmt þessari málsgrein fyrnast á fjórum árum eftir að fjölföldun með réttri heimild var framkvæmd. Ágreiningi um kröfur skal ráðið til lykta af úrskurðarnefnd skv. 57. gr.
     Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar. Í reglum þessum má m.a. mæla fyrir um að ákvæði greinarinnar skuli, eftir því sem við á, einnig taka til gerðar véllæsilegra eintaka af útgefnum verkum til afnota í tölvubönkum.

6. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Þegar útvarpsstöð hefur aflað sér heimilda til útsendinga verka með samningum við höfundaréttarsamtök sem annast samningsgerð um flutningsrétt á bókmenntaverkum eða tónverkum eða sérstökum greinum þeirra fyrir verulegan hluta íslenskra höfunda og hlotið til þeirrar hagsmunagæslu lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins skal einnig heimilt án sérstaks leyfis höfunda hverju sinni að útvarpa verkum hliðstæðrar gerðar þótt höfundur sé ekki félagi í samtökunum. Aðeins einum félagssamtökum í hverri grein bókmennta eða tónlistar verður veitt slík réttargæsluaðild. Höfundar, er standa utan samtakanna, skulu njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn.
     Flutningsheimild útvarpsstöðva skv. 1. mgr. tekur þó einungis til smærri verka, svo sem einstakra kvæða, smásagna, ritgerða, kafla úr stærri verkum, einstakra laga og tónverka ef smá eru, svo og kafla úr stærri verkum. Þá gilda framangreindar reglur um samningsgerð ekki um leiksviðsverk né heldur um verk er höfundur hefur lagt skriflegt bann við flutningi þeirra í útvarpi.
     Höfundaréttarsamtök, sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu skv. 1. mgr., skulu hafa rétt til almennrar innheimtu gjalda fyrir flutningsrétt, einnig fyrir þá höfunda sem standa utan samtakanna, enda hafi þau áður aflað sér umtalsverðra innheimtuumboða frá slíkum höfundum.
     Höfundaréttarsamtökum skv. 1. mgr. skal einnig heimilt að setja gjaldskrá um flutning verka utan útvarps. Slíkar gjaldskrár skulu háðar samþykki menntamálaráðuneytisins.
     Þegar útvarpsstofnun er heimilt að útvarpa verki er henni frjáls bráðabirgðaupptaka þeirra á hljóðrit eða myndrit til sjálfs sín nota, en ekki í öðru skyni. Til varanlegrar geymdar og endurtekinna nota skal afla heimilda frá viðkomandi höfundasamtökum. Nánari reglur um upptöku verka, geymd þeirra og not skal setja í reglugerð og skal við setningu hennar höfð hliðsjón af samningum þeim sem tíðkast hefur að gera við höfundaréttarsamtökin um þessi atriði og venjur sem skapast hafa hér að lútandi.
     Menntamálaráðherra getur sett frekari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

7. gr.

     Eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, svohljóðandi:
     Verki, sem útvarpað er beint eða um gervihnött, má án sérstaks leyfis höfundaréttarhafa endurvarpa til almennings um kapalkerfi, að því tilskildu að verkinu sé dreift óbreyttu og samtímis hinni upphaflegu sendingu.
     Höfundar og aðrir rétthafar hafa ætíð rétt til þóknunar fyrir endurdreifingu skv. 1. mgr. Dreifing um kapalkerfi, sem tekur til færri samtengdra íbúða en 25 í fjölbýlishúsi eða nærlægum húsum, er þó ekki greiðsluskyld.
     Krafa til endurgjalds skv. 2. mgr. verður aðeins gerð af sameiginlegri innheimtustofnun samtaka höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa. Stofnunin innheimtir gjöldin og ráðstafar þeim. Hún getur þó falið öðrum innheimtusamtökum höfunda að annast innheimtuna. Stofnuninni skulu settar samþykktir í samráði við menntamálaráðuneytið og þær háðar staðfestingu þess. Skal í samþykktunum m.a. kveðið á um hvernig tekjum skuli skipt meðal aðildarfélaga.
     Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

8. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Heimil er sala, lán, leiga og önnur dreifing til almennings á eintökum bókmenntaverks eða tónverks sem út hefur verið gefið. Útleiga og lán á eintökum tónverka er þó óheimil án samþykkis rétthafa.
     Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar taka einnig til kvikmyndaverka, þar á meðal myndbanda, en útleiga og lán þeirra til almennings er þó óheimil án samþykkis rétthafa. Sama gildir um útleigu tölvuforrita.

9. gr.

     25. gr. laganna breytist þannig:
     1. mgr. orðast svo:
     Nú hefur eintak af myndlistarverki verið afhent til eignar og er eiganda þá heimilt, nema annað sé áskilið, að láta eintakið af hendi og sýna það almenningi. Opinber kynning þess á listsýningum og með öðrum hliðstæðum hætti er þó óheimil án samþykkis höfundar, nema á opinberum listasöfnum sé sem almenningur hefur aðgang að. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig um eintök sem gerð hafa verið eftir listaverki og gefin út.
     Við 2. mgr. bætist: Einnig skal heimilt án leyfis myndhöfundar hverju sinni að sýna í sjónvarpi áður birt verk hans þegar sjónvarpsstöð hefur gert samning um það efni við samtök myndlistarmanna sem annast hagsmunagæslu fyrir verulegan hluta íslenskra myndhöfunda og hefur hlotið til þess lögformlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins. Höfundar, sem standa utan samtakanna, skulu njóta sama réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna og félagsmenn. Hver einstakur höfundur getur þó lagt skriflegt bann við sýningu verka sinna samkvæmt þessari málsgrein. Samtökunum skal heimilt að setja gjaldskrár um sýningar verka á listsýningum eða með hliðstæðum hætti, sbr. 1. mgr. Þá skal samtökunum heimilt að setja gjaldskrár vegna annarrar birtingar myndverka. Slíkar gjaldskrár skulu háðar staðfestingu menntamálaráðuneytisins. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar.

10. gr.

     Eftir 25. gr. laganna koma:
     25. gr. a.
     Vörslumanni myndlistarverks er skylt að veita höfundi aðgang að verkinu til fjölföldunar þess eða útgáfu eða annarrar hliðstæðrar notkunar, enda sé hún höfundi mikilvæg. Réttur höfundar samkvæmt ákvæði þessu er persónulegur, óframseljanlegur og erfist ekki.
     Vörslumanni er þó ekki skylt að veita höfundi aðgang að verki eða afhenda það í þessu skyni nema tryggt sé að verkið verði ekki fyrir skemmdum eða glatist.
     Sé beiðni höfundar um aðgang að myndlistarverki skv. 1. mgr. hafnað getur hann sett kröfur sínar fram í dómi og getur dómari þá m.a. sett skilyrði fyrir því að aðgangsréttur verði veittur.
     Vörslumaður á ætíð rétt til gjafvarnar í slíkum málum.
     
     25. gr. b.
     Við endursölu á listaverkum í atvinnuskyni skal leggja 10% gjald á söluverð verkanna er renni til höfundar listaverks.
     Gjald þetta nær ekki til mannvirkja sem lúta reglum um byggingarlist né heldur til verka er teljast til nytjalistar og geta vegna framleiðslu fyrir almennan markað ekki talist frumverk.
     Réttur höfundar skv. 1. mgr. er óframseljanlegur og helst meðan höfundaréttur hans er í gildi, sbr. 43. gr. höfundalaga. Höfundaréttarsjóður myndlistarmanna eða annar sjóður, sem kæmi í hans stað, annast innheimtu gjalda skv. 1. gr., svo og skil á þeim til höfunda. Að höfundi látnum fellur rétturinn til skylduerfingja, en sé þeim ekki til að dreifa rennur gjaldið til Höfundaréttarsjóðs myndlistarmanna.
     Ákvæði þessarar greinar taka ekki til listaverka sem seld eru á listmunauppboðum, en um gjaldtöku í þeim tilvikum gilda sérákvæði í 3. gr. laga nr. 36/1987.
     Nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar skulu sett í reglugerð.

11. gr.

     Eftir 42. gr. laganna koma:
Sérstök ákvæði um tölvuforrit.
     42. gr. a.
     Sé annað ekki umsamið felur samkomulag um rétt til nýtingar tölvuforrits í sér rétt til að gera þær breytingar á forritinu sem nauðsyn ber til vegna nýtingar þeirrar sem samið er um, sbr. þó 4. gr.
     
     42. gr. b.
     Nú er gerð tölvuforrita liður í ráðningarskilmálum og eignast þá atvinnurekandi höfundaréttinn að forritinu nema áskilnaður sé gerður á annan veg.

12. gr.

     Við 45. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Standi fleiri en 12 listflytjendur saman að listflutningi nægir samþykki stéttarfélags viðkomandi flytjenda til eftirgerðar og endurnota, enda komi þóknun fyrir afnotin.

13. gr.

     Í stað orðanna: „25 ár“ í 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 46. gr. koma: 50 ár.

14. gr.

     57. gr. laganna orðast svo:
     Takist ekki samningur um fjárhæð þóknunar skv. 14., 15. a, 16., 17., 20., 21., 23., 23. a, 25. og 47. gr. getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð þriggja manna nefndar sem menntamálaráðherra skipar úr hópi fimm manna sem höfundaréttarnefnd skv. 58. gr. tilnefnir. Áður en til úrskurðar kemur skal nefndin leita sátta með aðilum. Úrskurður nefndarinnar er stjórnarfarsleg fullnaðarúrlausn um ágreiningsefnið. Laun nefndarmanna skulu greidd úr ríkissjóði. Nánari ákvæði um störf nefndarinnar skulu sett í reglugerð.

15. gr.

     58. gr. laganna orðast svo:
     Til ráðuneytis menntamálaráðherra um höfundaréttarmál skal vera nefnd fimm sérfróðra manna á sviði höfundaréttar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Við skipun nefndarinnar skal haft samráð við helstu höfundaréttarsamtök landsins. Enn fremur skal koma á fót höfundaréttarráði. Í ráðinu skulu kynnt og rædd höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma. Í ráðinu skulu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af þeim samtökum sem hlotið hafa lögformlega viðurkenningu ráðuneytisins til meðferðar höfundaréttar, svo og annarra helstu höfundaréttarsamtaka í landinu. Enn fremur fulltrúar útvarpsstofnana og annarra hagsmunaaðila. Menn, sem skipa höfundaréttarnefnd, skulu og eiga sæti í ráðinu, svo og þeir aðilar sem ráðherra skipar sérstaklega í ráðið. Menntamálaráðherra eða sá sem hann nefnir í sinn stað skal vera í forsæti á fundum ráðsins. Ráðherra setur nánari reglur um höfundaréttarnefnd og höfundaréttarráð.

16. gr.

     2. setning 1. mgr. 59. gr. laganna fellur niður.

17. gr.

     Á eftir 6. tölul. 1. mgr. 60. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði 25. gr. b taka til verka íslenskra ríkisborgara og erlendra manna sem búsettir eru hér á landi. Enn fremur til verka erlendra ríkisborgara þeirra ríkja sem veita íslenskum verkum hliðstæða vernd.

18. gr.

     Á eftir 61. gr. laganna kemur ný grein, 61. gr. a, svohljóðandi:
     Víkka má gildissvið laganna þannig að ákvæði þeirra taki til erlendra ríkisborgara að fullnægðum skilyrðum um gagnkvæmni. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt að staðfesta milliríkjasáttmála um gagnkvæma vernd án eða með fyrirvörum sem ríkisstjórninni þykir við eiga og heimilt er að gera. Með gagnkvæmni samkvæmt þessari grein er átt við að rétthafar hvers aðildarlands njóti sama réttar í öðrum aðildarlöndum og innlendir ríkisborgarar. Ákvæði greinar þessarar hrófla í engu við gildi alþjóðlegra sáttmála á sviði höfundaréttar sem þegar hafa verið fullgiltir af Íslands hálfu.

19. gr.

     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella ákvæði þeirra inn í meginmál höfundalaga, nr. 73 29. maí 1972.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1992.