Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1265, 116. löggjafarþing 231. mál: Lífeyrissjóður sjómanna (EES-reglur).
Lög nr. 58 19. maí 1993.

Lög um breyting á lögum nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað síðari málsliðar 18. gr. laga nr. 49/1974, sbr. 6. gr. laga nr. 48/1981, kemur: Þó má ákveða í reglugerð endurgreiðslur til erlendra ríkisborgara sem flytjast úr landi, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Sé það gert skal tilgreint til hvaða ríkisborgara bann við endurgreiðslum tekur. Þá er heimilt að ákveða í reglugerð endurgreiðslur á þeim iðgjöldum sem menn greiða til lífeyrissjóðsins eftir að þeir hafa náð 75 ára aldri, svo og þeim hluta iðgjalda sem kann að fara fram úr því sem skylt er að greiða samkvæmt lögum eða kjarasamningum.

2. gr.

     Við A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 6. mgr. þessa stafliðar má ákvarða barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi en eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis, enda starfi hann og sé skattskyldur skv. 1. gr. hér á landi. Skilyrði fyrir ákvörðun barnabóta samkvæmt þessari málsgrein eru þau að börnin séu heimilisföst í einhverju ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis og að fram séu lögð fullnægjandi gögn frá bæru stjórnvaldi í því landi þar sem börnin eru heimilisföst. Nánari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar skulu settar í reglugerð.

3. gr.

     4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 38/1954 orðast svo: Íslenskur ríkisborgararéttur. Þó getur ráðherra heimilað að ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins verði ráðnir til starfa með sömu kjörum og íslenskir ríkisborgarar. Einnig má víkja frá þessu ákvæði ef telja má sérstaklega eftirsóknarvert að fá erlendan ríkisborgara til að gegna starfi til bráðabirgða.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1993.