Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1278, 116. löggjafarþing 276. mál: Húsnæðisstofnun ríkisins (stjórnsýsluleg staða, skyldusparnaður o.fl.).
Lög nr. 61 19. maí 1993.

Lög um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989, 70/1990, 124/1990, 130/1990, 24/1991, 47/1991 og 1012. gr. laga nr. 1/1992.


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Húsnæðisstofnun ríkisins er ríkisstofnun er lýtur sérstakri stjórn og heyrir undir félagsmálaráðherra sem fer með yfirstjórn húsnæðismála.
     Húsnæðisstofnun ríkisins skal annast stjórn og framkvæmd opinberra afskipta af húsnæðismálum samkvæmt lögum þessum. Húsnæðisstofnun skal vera ráðgefandi fyrir félagsmálaráðuneytið og önnur stjórnvöld í húsnæðismálum og fara með þau verkefni sem ráðherra felur henni á sviði húsnæðismála.
     Húsnæðisstofnun skal koma á framfæri við almenning upplýsingum um hlutverk og þjónustu stofnunarinnar. Stofnunin skal leitast við að veita landsmönnum sömu þjónustu óháð búsetu.

2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra ákveður með reglugerð, að fenginni tillögu húsnæðismálastjórnar, skipulag stofnunarinnar, þar á meðal skiptingu hennar í svið eða deildir að því leyti sem ekki er kveðið á um það í lögum þessum. Heimilt er að sameina yfirstjórn, rekstur og starfsmannahald tveggja eða fleiri sviða, deilda og sjóða sem kveðið er á um í lögum þessum.
     Kostnaði við rekstur Húsnæðisstofnunar ríkisins skal skipt milli þeirra sjóða sem stofnunin rekur, að teknu tilliti til umfangs í rekstri þeirra og útistandandi eigna í lok reikningsárs. Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessarar greinar.

3. gr.

     4. gr. laganna, húsnæðismálastjórn, orðast svo:
     Stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, húsnæðismálastjórn, skipa sjö menn, kosnir hlutbundinni kosningu af Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Varamenn skulu kosnir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Skipunartími formanns og varaformanns skal vera takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði þá.
     Ráðherra ákveður þóknun stjórnarinnar og greiðist hún á sama hátt og annar kostnaður við stofnunina, sbr. 7. gr.

4. gr.

     5. gr. laganna, hlutverk húsnæðismálastjórnar, orðast svo:
     Hlutverk húsnæðismálastjórnar er:
  1. Að hafa umsjón með fjárhag, rekstri og annarri starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og gæta þess að starfað sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.
  2. Að gera tillögur til félagsmálaráðherra að fjárhagsáætlun þar sem fram komi sundurliðaður áætlaður rekstrarkostnaður og fyrirhuguð skipting ráðstöfunarfjár milli útlánaflokka byggingarsjóðanna og meginsjónarmið um ráðstöfun þess.
  3. Að úthluta framkvæmdaraðilum lánum til félagslegra íbúða og skera úr vafa- og ágreiningsmálum varðandi einstakar lánveitingar.
  4. Að fjalla um önnur mál sem ráðherra eða framkvæmdastjóri leggur fyrir hana eða henni eru falin samkvæmt lögum þessum.


5. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Félagsmálaráðherra skipar framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins, að fenginni tillögu húsnæðismálastjórnar, til sex ára í senn og setur honum erindisbréf.
     Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn stofnunarinnar og ræður starfsfólk til hennar.
     Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á fjárreiðum og starfsmannahaldi stofnunarinnar og á því að þessir þættir séu innan þess ramma sem fjárlög setja.
     Framkvæmdastjóri vinnur tillögur að starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar.
     Framkvæmdastjóri situr fundi húsnæðismálastjórnar með tillögurétti en án atkvæðisréttar.

6. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Félagsmálaráðherra ákvarðar með reglugerð, að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar, lántökugjöld, gjöld fyrir tæknilega þjónustu, svo og gjöld vegna innheimtu af lánum stofnunarinnar sem eru í vanskilum. Heimilt er að jafna síðastgreindum kostnaði niður á skuldara þannig að búseta hafi ekki áhrif á kostnaðinn.

7. gr.

     4. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Húsnæðismálastjórn skal, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, semja við viðskiptabanka og aðrar fjármálastofnanir um afgreiðslu og innheimtu lána.

9. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Við Byggingarsjóð ríkisins er heimilt að starfrækja sérstaka húsbréfadeild. Um hlutverk hennar fer eins og greinir í lögum þessum. Fjárhagur húsbréfadeildar skal aðskilinn frá öðrum þáttum í starfsemi Byggingarsjóðs ríkisins.

10. gr.

     19. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

     20. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

     3. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
     Húsnæðismálastjórn skal, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, semja við viðskiptabanka og aðrar fjármálastofnanir um að annast mat skv. b- og c-liðum þessarar greinar og hafa með höndum samskipti skuldara fasteignabréfa við húsbréfadeild. Jafnframt má ákveða í reglugerð að mat skv. a-lið megi fela sérstökum trúnaðarmönnum.

13. gr.

     3. málsl. 9. mgr. 54. gr. laganna fellur brott.

14. gr.

     4. mgr. 56. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

     1. mgr. 76. gr. laganna orðast svo:
     Tilkynni leigutaki innan tilskilins frests, sbr. 73. gr., að hann hyggist neyta kaupréttar síns skal gerður skriflegur kaupsamningur milli aðila.

16. gr.

     VII. kafli laganna, Tækni- og þjónustudeild Húsnæðisstofnunar, fellur brott.

17. gr.

     VIII. kafli laganna, Skyldusparnaður ungs fólks til íbúðabygginga, fellur brott.

18. gr.

     B-liður 105. gr. laganna fellur brott.

19. gr.

     1. mgr. 109. gr. laganna orðast svo:
     Húsnæðisstofnun ríkisins skal vera stjórnum byggingarsamvinnufélaga til aðstoðar og leiðbeiningar við byggingarframkvæmdir og undirbúning þeirra enda komi gjald fyrir.

20. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Ákvæði 1. mgr. 6. gr. laganna um starfstíma framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins á ekki við um þann sem gegnir störfum við gildistöku laga þessara.

II.
     Ráðherra er heimilt að selja eigur hönnunardeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins.

III.
     Um útgreiðslur á innstæðum á skyldusparnaðarreikningum gilda eftirfarandi reglur:
  1. Innstæður, sem eru 30.000 kr. eða lægri, skulu greiddar eigendum án umsóknar innan sex mánaða frá gildistöku laganna.
  2. Eigandi innstæðu, sem nemur hærri fjárhæð en 30.000 kr., á kost á að fá innstæðu sína greidda þegar hann hefur náð 26 ára aldri, byggt eða keypt íbúð til eigin nota eða hefur barn á framfæri. Sama á við um 75% öryrkja samkvæmt örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins. Sá sem stundað hefur nám í sex mánuði samfellt samkvæmt vottorði skóla á rétt á endurgreiðslu skyldusparnaðar út árið 1993.
  3.      Húsnæðisstofnun skal kynna réttindi samkvæmt þessum lið sérstaklega.
  4. Aðrar innstæður en þær sem fram koma í a- og b-liðum skulu greiddar eigendum 1. janúar árið 2000.
  5. Ákvæði laga um skyldusparnað, sbr. VIII. kafla laga nr. 86/1988, með síðari breytingum, um skattalega stöðu innstæðna, vaxtaákvarðanir, vísitöluútreikning og innheimtu skulu, eftir því sem við á, gilda til 1. janúar 2000.
  6. Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari reglur um innstæður á skyldusparnaðarreikningum.


IV.
     Ný húsnæðismálastjórn, sbr. 4. gr. laganna, skal kosin strax eftir gildistöku laganna og skal hún sitja til næstu alþingiskosninga.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 1993.