Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1120, 113. löggjafarþing 406. mál: Húsnæðisstofnun ríkisins (lánveitingar Byggingasjóðs ríkisins).
Lög nr. 47 27. mars 1991.

Lög um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989, 70/1990, 124/1990 og 130/1990.


1. gr.

     8. gr. laganna orðist þannig:
     Hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins er að annast lánveitingar og að sinna húsbréfaviðskiptum í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða á grundvelli þeirra. Sjóðurinn annast einnig um lántökur og lánveitingar sem átt hafa sér stað úr sjóðnum eða ákveðið kann að verða að taka upp.

2. gr.

     2. mgr. 9. gr. laganna falli niður.

3. gr.

     11. gr. laganna orðist svo:
     Úr Byggingarsjóði ríkisins er heimilt að veita lán skv. 1.–3. tölul. enda hafi verið gert ráð fyrir þessum lánaflokkum í fjárhagsáætlun sjóðsins fyrir það ár sem veiting láns fer fram:
  1. Lán til bygginga heimila fyrir aldraða og dagvistarstofnana fyrir börn og aldraða.
  2. Sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir.
  3. Lán eða styrk til tækninýjunga og annarra umbóta í byggingariðnaði.

     Húsnæðismálastjórn er heimilt að ákveða nýja lánaflokka að fengnu samþykki félagsmálaráðherra.

4. gr.

     Á eftir 11. gr. laganna komi nýr undirkafli með fjórum nýjum greinum, 12.–15. gr. Fyrirsögn kaflans verði: Um lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins. Hinn nýi undirkafli orðist svo:
     
     a. (12. gr.)
     Lán skv. 1. tölul. 11. gr. er heimilt að veita þeim sem byggja hjúkrunarheimili eða dagvistarstofnanir handa börnum eða öldruðum.
     Sá sem hyggst hefjast handa um byggingu dvalarheimilis skal fyrst láta fara fram athugun á þörf fyrir slíkt heimili í samvinnu við sveitarstjórn.
     Skilyrði lánveitingar er að umsókn um lán til byggingar dagvistarstofnunar eða dvalarheimilis fylgi umsögn heilbrigðisráðuneytis.
     
     b. (13. gr.)
     Lán skv. 2. tölul. 11. gr. er aðeins heimilt að veita ellilífeyrisþegum og öryrkjum sem búa við skerta starfsorku eða eru hreyfihamlaðir. Lánin eru veitt til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði vegna aukins kostnaðar af völdum sérþarfa umsækjanda og geta komið til viðbótar fasteignaveðlánum sem húsbréfadeild gefur út vegna byggingar eða kaupa á íbúð.
     Lán þessi má enn fremur veita til endurbóta á húsnæði.
     Lán samkvæmt þessari grein má einnig veita þeim sem hafa orðið fyrir meiri háttar röskun á högum og hafa vegna fráfalls maka eða af öðrum ástæðum lækkað svo í tekjum að þeir geta ekki haldið íbúðum sínum. Umsóknum um lán samkvæmt þessari málsgrein skal fylgja umsögn félagsmálastofnunar eða viðkomandi sveitarstjórnar.
     
     c. (14. gr.)
     Lán skv. 3. tölul. 11. gr. er heimilt að veita til þess að gera tilraunir með tækninýjungar eða aðrar umbætur sem leitt geta til lækkunar byggingarkostnaðar enda fylgi staðfesting á því að umsóknin sé ekki lánshæf hjá sérsjóðum iðnaðarins. Heimilt er að hafa fyrirgreiðsluna í formi styrks.
     
     d. (15. gr.)
     Húsnæðismálastjórn skal við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni ákveða hámarkshlutfall af byggingarkostnaði fyrir lán skv. 1. tölul. 11. gr.
     Fjárhæð láns skv. 2. tölul. 11. gr. má nema allt að 80% af viðbótarkostnaði eða endurbótakostnaði enda séu framkvæmdir nauðsynlegar að mati húsnæðismálastjórnar.
     Fjárhæð láns eða styrks skv. 3. tölul. 11. gr. svo og lánstíma skal ákveða hverju sinni af húsnæðismálastjórn með hliðsjón af kostnaði við að koma nýjungum í notkun, svo og mikilvægi þeirra fyrir byggingariðnaðinn.
     Lánstími skv. 1.–2. tölul. 11. gr. skal vera allt að 25 árum.
     Að öðru leyti gilda ákvæði 30. gr. laganna um lán skv. 1.–3. tölul. 11. gr.
     Í reglugerð skal kveðið nánar á um lánaflokka skv. 1.–3. tölul. 11. gr.

5. gr.

     12. gr. laganna falli brott.

6. gr.

     13. gr. laganna falli brott.

7. gr.

     14. gr. laganna falli brott.

8. gr.

     15.–17. gr. laganna falli brott.

9. gr.

     18.–19. gr. lagann falli brott.

10. gr.

     23.–24. gr. laganna falli brott.

11. gr.

     25.–26. gr. laganna falli brott.

12. gr.

     27.–28. gr. laganna falli brott.

13. gr.

     29. gr. laganna falli brott.

14. gr.

     30. gr. laganna (verður 16. gr.) orðist þannig:
     Öll lán Byggingarsjóðs ríkisins skulu vera að fullu verðtryggð og miðast höfuðstóll lánsins við lánskjaravísitölu eins og hún er á hverjum tíma, sbr. 39. gr. laga nr. 13 frá 10. apríl 1979.
     Hvert lán skal að jafnaði tryggt með 1. eða 2. veðrétti í þeirri íbúð sem lánað er til eins og nánar greinir í lögum þessum. Jafnframt má ákveða að veitt lán og áhvílandi megi ekki fara fram úr tilteknu hlutfalli af kaupverði, fasteignamati eða brunabótamati.
     Vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins frá og með 1. júlí 1984 skulu vera breytilegir. Ríkisstjórnin tekur ákvörðun um vexti af hverjum lánaflokki á hverjum tíma að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og umsögn Seðlabankans. Selji lántakandi (skuldari) íbúð sína ber honum skylda til að tilkynna aðilaskipti að láni til Húsnæðisstofnunar ríkisins án tafar. Kaupanda og seljanda ber báðum að undirrita yfirlýsingu um þetta efni. Sé tilkynningarskylda vanrækt er húsnæðismálastjórn heimilt að gjaldfella þau lán er hvíla á fasteign frá Byggingarsjóði ríkisins.
     Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða breytt vaxtakjör á láni við aðilaskipti til samræmis við almenn vaxtakjör samkvæmt nánari ákvörðun hennar.
     Lán skulu vera afborgunarlaus fyrstu tvö árin en endurgreiðast síðan að fullu með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana (annuitet) að viðbættum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands á eftirstöðvum lánstímans. Heimilt skal þó lántakanda að greiða lán upp á skemmri tíma og skal þess getið í skuldabréfi.
     Gjalddagar lána skulu eigi vera færri en fjórir á ári.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. og 5.–7. gr. laga þessara skulu 1.–2. tölul. 11. gr. og 12.– 14. gr. laga nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989 og nr. 70/1990, halda gildi sínu fram til 1. mars 1994 gagnvart þeim umsækjendum sem:
  1. þegar hafa fengið lánsloforð, þ.e. endanlegt svar Húsnæðisstofnunar ríkisins um fjárhæð og lánstíma,
  2. eigi hafa fengið lánsloforð en fengið svar almenns eðlis frá Húsnæðisstofnun ríkisins um að þeir eigi rétt á láni.

     Skilyrði lánsréttar samkvæmt þessum töluliðum eru:
  1. Lífeyrissjóður, sem umsækjandi er félagi í, hafi fullnægt samningi við Húsnæðisstofnun ríkisins um ráðstöfunarfé til Byggingarsjóðs ríkisins.
  2. Umsækjandi hafi staðfest umsókn sína innan þriggja mánaða frá því að tilkynning barst honum frá Húsnæðisstofnun um nauðsyn staðfestingar hennar.

     Húsnæðisstofnun skal tilkynna umsækjendum, sem falla undir 2. tölul. þessa ákvæðis, eftirfarandi:

        —    Nauðsyn á staðfestingu umsóknar, sbr. b-lið þessa ákvæðis.

        —    Ekki sé hægt að nýta sér bæði húsbréfaviðskipti annars vegar og lánsrétt skv. 2. tölul. þessa ákvæðis hins vegar.


II.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga þessara skal 2. mgr. 9. gr. stofnlaganna, sbr. lög nr. 76/1989 og nr. 70/1990, halda gildi sínu um þá samninga Húsnæðisstofnunar við lífeyrissjóði um skuldabréfakaup sem gerðir eru vegna lána sem veitt eru samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I. Lánskjör af skuldabréfum skulu miðast við þau kjör sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði.

Samþykkt á Alþingi 20. mars 1991.