Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 403, 115. löggjafarþing 167. mál: ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992 (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 1 24. janúar 1992.

Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992.


I. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 49/1991, um grunnskóla.

1. gr.

     Eftirtalin ákvæði laganna skulu ekki koma til framkvæmda á árinu 1992:
  1. 3. mgr. 4. gr.
  2. 1. og 6. mgr. 46. gr.


2. gr.

     Við 72. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., er orðast svo:
     Þar sem að mati sveitarstjórna er nauðsynlegt að ætla sérstakt húsnæði í skóla fyrir heilsugæslu og/eða tannlækningar telst byggingarkostnaður húsnæðis til stofnkostnaðar viðkomandi skóla. Um stærð þessa húsnæðis fer samkvæmt reglum (normum) er menntamálaráðuneytið setur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

3. gr.

     Í stað 1.–6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða koma þrjár nýjar málsgreinar svohljóðandi:
     Greiðslur ríkissjóðs, sbr. 75. gr., skulu miðast við 22 nemendur í 1. og 2. bekk og 28 nemendur í 3.–10. bekk skólaárið 1992–1993. Þegar sérstaklega stendur á getur fræðslustjóri ákveðið fjölgun um allt að tvo nemendur í bekkjardeild.
     Til viðbótar því sem kveðið er á um í 78. og 79. gr. skulu þeir grunnskólar, sem ríkið rekur fyrir fötluð börn (sérskólar), vera reknir áfram á vegum þess þar til grunnskólar geta veitt fötluðum nemendum sambærilega eða betri þjónustu.
     Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með taldar valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.

Um breytingu á jarðræktarlögum, nr. 56/1987.

4. gr.

     Við 12. gr. laganna, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 65/1989, bætist ný málsgrein, 3. mgr., sem orðast svo:
     Allur réttur til framlaga samkvæmt lögum þessum er háður fjárveitingu Alþingis.

Um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.

5. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 18. gr. laganna:
     Orðin „að hálfu“ í lok 2. málsl. 1. mgr. falla niður.
     Í stað hlutfallsins „0,2%“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 0,4%.
     Í stað fjárhæðarinnar „1.000 kr.“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: 2.000 kr.
     Í stað fjárhæðarinnar „5.000 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 10.000 kr.

Um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.

6. gr.

     Setja skal á fót ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota sem ábyrgist greiðslu vinnulaunakröfu launþega á hendur vinnuveitanda við gjaldþrot.

7. gr.

     Sjóðurinn skal fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum, þóknun og reiknuðu endurgjaldi hvaða nafni sem nefnist sem skattskylt er skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.
     Ábyrgðargjaldið skal vera allt að 0,2% af gjaldstofni. Hlutfallið skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðherra setur fyrir eitt ár í senn að fengnum tillögum þriggja manna stjórnar sem skipuð er af félagsmálaráðherra til fjögurra ára samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og sá þriðji án tilnefningar. Ákvæði laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, eiga við um gjaldstofn, gjaldskyldu, greiðslutímabil, álagningu og innheimtu.
     Ábyrgðargjald telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því leyti sem það er ákvarðað af launum sem teljast rekstrarkostnaður samkvæmt sömu grein.

8. gr.

     Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða vinnulaunakröfur og hversu háar, sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum, njóta ábyrgðar sjóðsins.
     Reglugerðin skal sett að fengnum tillögum stjórnar ábyrgðasjóðs. Með henni skal tryggja að launþegar njóti bóta að minnsta kosti vegna:
  1. vinnulaunakröfu fyrir síðustu þrjá starfsmánuði,
  2. orlofslauna sem áttu að koma til útborgunar á síðustu þremur starfsmánuðum,
  3. riftunar eða uppsagnar vinnusamnings í allt að þrjá mánuði enda skal sá sem krefst bóta samkvæmt þessum lið sýna fram á að hann hafi leitað eftir annarri vinnu með vottorði vinnumiðlunar,
  4. greiðslna sem vinnuveitanda ber að inna af hendi til launþega vegna tjóns af völdum vinnuslyss eða til þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launþega enda fylgi bótakröfunni forgangsréttur í bú vinnuveitanda.

     Skorti ábyrgðasjóðinn reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum og reglugerð skal stjórn sjóðsins þegar í stað tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal útvega það fé sem sjóðinn vantar og skal það gert með láni eftir nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Lánið skal endurgreitt með álagningu sérstaks aukagjalds á næsta almanaksári.

Um breytingu á lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.

9. gr.

     Á eftir 3. mgr. 34. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
     Auk þess að leggja fé til framkvæmda, sbr. 2. og 3. mgr., er heimilt að verja allt að þriðjungi af ráðstöfunarfé sjóðsins til meiri háttar viðhalds á stofnunum fatlaðra, sbr. 3.–14. tölul. 7. gr., enda séu þær stofnanir eingöngu ætlaðar fötluðum.

Um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum.

10. gr.

     Við 58. gr. laganna, eins og henni var breytt með h-lið 3. gr. laga nr. 70/1990, bætist ný málsgrein, 2. mgr., sem orðast svo:
     Sveitarfélag skal auk þess leggja fram, sem sérstakt óafturkræft framlag, 3,5% af kostnaðarverði eða kaupverði hverrar félagslegrar íbúðar í sveitarfélaginu.

11. gr.

     1. mgr. 68. gr. laganna, eins og henni var breytt með s-lið 3. gr. laga nr. 70/1990 og 1. gr. laga nr. 24/1991, orðast svo:
     Lán til félagslegra íbúða veitir húsnæðismálastjórn úr Byggingarsjóði verkamanna. Lánshlutfall má nema allt að 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði, þó aldrei meira en 90% af þeim kostnaðargrundvelli að lánveitingu sem húsnæðismálastjórn hefur samþykkt, að frádregnu 3,5% sérstöku framlagi sveitarfélaga til hverrar félagslegrar íbúðar, sbr. 2. mgr. 58. gr. Heimilt er húsnæðismálastjórn að veita sérstök lán til allt að þriggja ára til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum með útborgun við kaup á íbúð ef um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæður, enda sýni umsækjandi fram á greiðslugetu skv. c-lið 1. mgr. 80. gr.

12. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 47/1991 orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. og 5.–7. gr. laga þessara skulu 1.–2. tölul. 11. gr. og 12., 13. og 14. gr. laga nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989 og nr. 70/1990, halda gildi sínu gagnvart þeim umsækjendum sem fengið höfðu lánsloforð á þeim tíma er lög nr. 47 27. mars 1991 öðluðust gildi.

Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

13. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. 1. og 2. mgr. orðast svo:
  2.      Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og átt hafa lögheimili hér á landi a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir, 145.476 kr., greiðist þeim einstaklingum sem átt hafa lögheimili hér á landi a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við lögheimilistímann.
         Ellilífeyri skal skerða ef árstekjur einstaklinga eða hjóna hvors um sig eru hærri en 790.160 kr. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skal skerða ellilífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður. Til tekna í þessu sambandi teljast hvorki bætur almannatrygginga né tekjur úr lífeyrissjóðum. Skerðing samkvæmt þessari málsgrein skal þó aldrei ná til þess hluta ellilífeyris sem einstaklingur á rétt á vegna frestunar á töku ellilífeyris sem ákveðin var fyrir 1. janúar 1992.
  3. 3. og 5. mgr. falla brott.


14. gr.

     Á 12. gr. laganna verða eftirtaldar breytingar:
  1. 5. mgr. orðast svo:
  2.      Fullur árlegur örorkulífeyrir skal vera 145.476 kr. og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 6. mgr. Við ákvörðun lögheimilistíma, sbr. 1. mgr. 11. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.
  3. Ný málsgrein, sem verður 6. mgr., bætist við og orðast svo:
  4.      Örorkulífeyri skal skerða ef árstekjur örorkulífeyrisþega eða hjóna, hvors um sig, sem bæði eru örorkulífeyrisþegar, eru hærri en 806.827 kr. Ef tekjur eru umfram umrædd mörk skal skerða örorkulífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram eru uns hann fellur niður. Til tekna í þessu sambandi teljast hvorki bætur almannatrygginga né tekjur úr lífeyrissjóðum.


15. gr.

     Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hvorki skerðingarákvæði 2. mgr. 11. gr. né 6. mgr. 12. gr. takmarka rétt til barnalífeyris.

16. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 19. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Ef aðrar tekjur ellilífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga fara ekki fram úr 195.360 kr. á ári skal greiða uppbót á lífeyri hans að upphæð 267.660 kr. á ári. Hafi bótaþegi hins vegar tekjur umfram 195.360 kr. á ári skal skerða uppbótina um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Sama gildir um hjónalífeyri eftir því sem við á.
  3. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, 2. mgr., sem orðast svo:
  4.       Ef aðrar tekjur örorkulífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga fara ekki fram úr 195.360 kr. á ári skal greiða uppbót á lífeyri hans að upphæð 275.160 kr. á ári. Hafi bótaþegi hins vegar tekjur umfram 195.360 kr. skal skerða uppbótina um 45% þeirra tekna sem umfram eru. Sama gildir um hjónalífeyri eftir því sem við á.
  5. Í stað orðanna „1. mgr.“ í 2. mgr. (sem verður 3. mgr.) kemur: 1. og 2. mgr.
  6. Í stað orðanna „1.–4. mgr.“ í 1. málsl. 5. mgr. (sem verður 6. mgr.) kemur: 1.–5. mgr.
  7. Í stað orðanna „3. og 4. mgr.“ í 1. málsl. 6. mgr. (sem verður 7. mgr.) kemur: 4. og 5. mgr.
  8. Í stað orðanna „1. mgr.“ í 2. málsl. 6. mgr. (sem verður 7. mgr.) kemur: 1. og 2. mgr.
  9. Í stað orðanna „1. mgr.“ í 7. mgr. (sem verður 8. mgr.) kemur: 1. og 2. mgr.


17. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 34. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „síðustu málsgr.“ í 1. mgr. kemur: 5. mgr.
  2. Við 1. mgr. bætist: Skerðingarákvæði 6. mgr. 12. gr. skulu ekki taka til örorkulífeyris samkvæmt þessari grein.


18. gr.

     C-liður 1. mgr. 39. gr. laganna, eins og honum var breytt með 11. gr. laga nr. 87/1989 og 1. gr. laga nr. 122/1989, orðast svo:
  1. Að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 44. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum tryggingaráðs.


19. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 43. gr. laganna eins og henni var breytt með 14. og 15. gr. laga nr. 87/1989 og 3. gr. laga nr. 122/1989:
  1. A-liður 1. mgr. orðast svo:
  2.      Almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa hjá lækni sjúklings sem Tryggingastofnunin hefur gert samning við. Með reglugerð má ákveða gjald sem hinn sjúkratryggði greiði fyrir hvert viðtal á læknastofu og hverja vitjun til sjúklings. Sjúkratryggingar hafa heimild til að ákveða að sjúklingur greiði læknisreikninga að fullu og endurgreiða sjúkratryggingar þá sjúklingi sinn hluta.
  3. Lokamálsliður b-liðar 1. mgr. orðast svo: Fyrir hverja komu til sérfræðings greiði sjúklingur gjald sem ákveðið skal með reglugerð.
  4. Annar málsliður c-liðar 1. mgr. orðast svo: Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður gjald sem ákveðið skal með reglugerð.
  5. 2. mgr. orðast svo:
  6.      Ráðherra er með reglugerð heimilt að breyta greiðslum sjúkratryggðra samkvæmt þessari grein, svo og að ákveða með reglugerð hámark eininga í lyfjaávísunum. Ráðherra er með reglugerð heimilt að ákveða að gjald skv. a-, b-, c- og d-lið skuli vera hlutfallsgjald og tiltaka hámark þess gjalds sem sjúklingi ber að greiða. Þá er ráðherra og heimilt með reglugerð að ákveða greiðsluþátttöku sjúkratryggðra fyrir sérhæfða göngudeildarþjónustu skv. b-lið.


20. gr.

     44. gr. laganna, sem síðast var breytt með 15. gr. laga nr. 87/1989 og 4. gr. laga nr. 122/1989, orðast svo:
     Fyrir tannlæknaþjónustu, aðra en tannréttingar, greiða sjúkratryggingar sem hér segir:
  1. Um þátttöku í kostnaði við tannlækningar barna og unglinga 15 ára og yngri, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð, fer eftir því sem hér segir:
    1. Sjúkratryggingar greiða að fullu skoðun og fyrirbyggjandi tannlækningar, svo sem tannfræðslu, tannhreinsun, flúorvernd tanna og skorufyllur.
    2. Fyrir aðrar tannlækningar en þær sem tilgreindar eru í a-lið greiða sjúkratryggingar 85% kostnaðar.
    3. Ráðherra skal setja gjaldskrá fyrir skólatannlækningar. Skal gjaldskráin miðuð við raunverulegan kostnað við þær. Með skólatannlækningum er jafnt átt við tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera eða samkvæmt útboði.
    4. Sé leitað til annarra tannlækna en skólatannlækna skal því aðeins greiða fyrir tannlækningar skv. a-lið að um það hafi verið samið. Hlutdeild sjúkratrygginga skv. b-lið fer eftir gjaldskrá sem ráðherra setur með hliðsjón af gjaldskrá fyrir skólatannlækningar eða raunverulegum kostnaði sé hann lægri.
    5. Sé þjónusta skólatannlækna ekki fyrir hendi fer um greiðslur sjúkratrygginga samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur og tekur mið af raunverulegum kostnaði.
  2. Fyrir 16 ára unglinga skal greiða 50% kostnaðar í samræmi við ákvæði 1. tölul.
  3. Heimilt er að greiða allt að 50% kostnaðar við gullfyllingar, krónu- og brúargerð hjá börnum og unglingum, 16 ára og yngri, samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessum tölulið að fyrir liggi sérstök umsókn og samþykki sjúkratrygginga.
  4. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, 75% kostnaðar, en fyrir aðra elli- og örorkulífeyrisþega 50% kostnaðar, þó ekki fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100% eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs.

     Tryggingaráð ræður tannlækni sem hefur eftirlit með framkvæmd ákvæða laga þessara er lúta að tannlækningum.
     Greiðslur sjúkratrygginga samkvæmt þessari grein skulu vera í samræmi við samninga sem Tryggingastofnun gerir eða samkvæmt samningum sem leiða af útboði. Séu samningar ekki fyrir hendi skal greitt samkvæmt gjaldskrá sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur.
     Ætíð skal framvísa reikningi á því reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.

21. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 46. gr. laganna eins og henni var síðast breytt með 12. gr. laga nr. 112/1972 og 18. og 19. gr. laga nr. 87/1989:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Tryggingastofnun ríkisins gerir samninga um greiðslur samkvæmt þessum kafla.
  3. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Náist ekki samningar skal gerðardómur ákveða samningskjörin.
  4. 3. mgr. orðast svo:
  5.      Daggjöld sjúkrahúsa, sem ekki eru á föstum fjárlögum, svo og gjaldskrár fyrir slysa- og röntgendeildir, skulu ákveðin af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að höfðu nánu samráði við viðkomandi stofnanir. Daggjöld og gjaldskrár skulu ákveðin þannig að samanlagðar tekjur stofnunar standi undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu er heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að stofnunin veiti.
  6. 4. mgr. orðast svo:
  7.      Sé um sjálfseignarstofnun eða einkaaðila að ræða jafngildir það samningi ef hlítt er ákvörðun ráðherra um daggjöld er vera skulu í einu lagi fyrir vist og þjónustu. Að öðrum kosti getur Tryggingastofnun ákveðið, þrátt fyrir ákvæði 41. gr., að sjúklingum skuli greidd tiltekin upphæð fyrir hvern legudag upp í kostnaðinn.
  8. Hvarvetna þar sem í öðrum greinum laganna stendur „daggjaldanefnd“ kemur: heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.


22. gr.

     48. gr. laganna orðast svo:
     Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilt að leita útboða um þá þjónustu sem henni ber að veita samkvæmt lögum þessum.

23. gr.

     1. málsl. 57. gr. laganna orðast svo: Bætur skal greiða þriðja virkan dag hvers mánaðar.

24. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 79. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „1. mgr. 19. gr.“ í 2. málsl. kemur: 1. og 2. mgr. 19. gr.
  2. Nýr málsliður bætist við greinina, svohljóðandi: Heimilt er að breyta fjárhæðum samkvæmt 2. mgr. 11. gr., svo og 6. mgr. 12. gr., þó þannig að aldrei komi til skerðingar lífeyris samkvæmt þessum málsgreinum hjá þeim sem rétt eiga á tekjutryggingu, skertri eða óskertri, samkvæmt ákvæðum 19. gr.

Um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu.

25. gr.

     Við 42. gr. laga nr. 97/1990, sbr. lög nr. 128/1990, bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:

        42.2    Ráðherra er heimilt að leita útboða um rekstur heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum þessum.


Um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni.

26. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á lögum nr. 52/1988, sbr. lög nr. 103/1988:
  1. 2. gr. laganna orðast svo:
  2.      Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins skal vera ráðherra til ráðuneytis um framkvæmd laga þessara.
         Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins gerir tillögur um röðun efna á lista yfir eiturefni og hættuleg efni í samræmi við skaðleg áhrif og notkunarsvið þeirra. Ráðherra staðfestir tillögur eiturefnaeftirlitsins með reglugerð.
         Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins skal veita stjórnvöldum, einstaklingum eða fyrirtækjum upplýsingar um meðferð eiturefna og hættulegra efna svo sem eftir er leitað og kostur er á. Eftirlitið skal enn fremur gera tillögur um viðbrögð við slysum af völdum eiturefna og hættulegra efna eða við vá af þeirra völdum vegna hernaðar eða náttúruhamfara.
  3. Fyrirsögn 2. gr. verður: Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.
  4. 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
  5.      Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins setur, að fengnu áliti samtaka hlutaðeigandi seljenda, reglur um varðveislu hættulegra efna í matvöruverslunum. Sams konar reglur má og setja um varðveislu hættulegra efna í öðrum almennum verslunum.
  6. Í stað „Hollustuverndar ríkisins og eiturefnanefndar“ í síðasta málslið 16. gr. og í síðasta málslið 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins.
  7. Í stað „Eiturefnanefnd og Hollustuvernd ríkisins“ í 20. og 21. gr. laganna kemur: Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.
  8. Í stað „eiturefnanefndar, Hollustuverndar ríkisins“ í 2. mgr. 22. gr. laganna kemur: eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins.
  9. Í stað „Hollustuvernd ríkisins“ í a-lið 3. mgr. 23. gr. laganna kemur: Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.
  10. Í 1. málsl. 6. mgr. 23. gr. laganna fellur niður orðið „eiturefnanefndar“.
  11. 1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Eiturefnaeftirliti Hollustuverndar ríkisins er heimilt, ef skjótra aðgerða er þörf, að setja á lista tiltekin efni og efnasamsetningar og kveða á um notkun eða bann við notkun þeirra í allt að því eitt ár.
  12. 1. málsl. 1. mgr. 27. gr. laganna orðast svo: Ráðherra skipar samstarfsnefnd þeirra aðila sem tilgreindir eru í a–c-liðum 3. mgr. 23. gr.
  13. 2. mgr. 28. gr. laganna fellur niður.
  14. Hvarvetna þar sem í öðrum greinum laganna stendur „eiturefnanefnd“ kemur í viðeigandi beygingarfalli: eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.


Um breytingu á lögum nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna.

27. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Fasteignamat ríkisins aflar og lætur í té upplýsingar og veitir þjónustu við úrvinnslu á þeim gegn gjaldi.
     Gjaldskrá skv. 1. mgr. skal taka mið af því umfangi upplýsinga sem keyptar eru og þeim tekjum sem notendur hafa af þeim. Fjármálaráðherra staðfestir gjaldskrána.

Um breytingu á lögum nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð.

28. gr.

     Úr lögunum falla brott:
  1. 2. tölul. 5. gr.
  2. b. tölul. 9. gr.


Um breytingu á hafnalögum, nr. 69/1984.

29. gr.

     Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, 6. tölul., er orðast svo: Sérstakt vörugjald.

30. gr.

     Á eftir 5. mgr. 12. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Sérstakt vörugjald skv. 6. tölul. 1. mgr. 11. gr. skal renna í sérstaka deild við Hafnabótasjóð. Gjaldið skal vera sem svarar 25% álagi á vörugjöld, önnur en aflagjald, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 11. gr.
     Innheimtuaðilar vörugjalds, skv. 2. tölul. 1. mgr. 11. gr., skulu innheimta og standa skil á sérstöku vörugjaldi skv. 6. tölul. 1. mgr. 11. gr.
     Uppgjörstímabil vegna skila hafnarsjóðs á sérstöku vörugjaldi skv. 6. tölul. 1. mgr. 11. gr. skulu vera sex á ári og taka yfir tvo mánuði hvert, janúar–febrúar, mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember. Skiladagur skal vera 5. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Ráðherra getur kveðið nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu og ákveðið hvernig skuli fara með vörslu og daglega afgreiðslu sérstaks vörugjalds samkvæmt lögum þessum.

31. gr.

     1. málsl. 26. gr. laganna orðast svo: Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um greiðsluþátttöku ríkissjóðs, að meðtöldu framlagi úr Hafnabótasjóði, skv. 38. gr., í hafnargerðum.

32. gr.

     Á eftir 37. gr. laganna kemur ný grein, 38. gr., og breytist greinatala samkvæmt því. Greinin orðast svo:
      Tekjur af sérstöku vörugjaldi skulu renna í sérstaka deild við Hafnabótasjóð. Fé úr deildinni skal varið til að standa straum af framkvæmdum við almennar hafnargerðir eftir því sem nánar segir í lögum þessum og ákveðið er í fjárlögum ár hvert.

Um breytingu á lögum nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka

33. gr.

     13. gr. laganna, sbr. 24. gr. laga nr. 108/1988 og 7. gr. laga nr. 47/1990, orðast svo:
     Stjórnir sveitarfélaga eða aðrir, sem annast eyðingu refa og minka samkvæmt lögum þessum, skulu ár hvert fyrir septemberlok skila umhverfisráðuneyti reikningum og sundurliðuðu reikningsyfirliti um kostnað við starfsemi þessa. Veiðistjóri úrskurðar um reikningana. Nú úrskurðar veiðistjóri reikninga rétta og hóflega og endurgreiðir ríkissjóður þá sveitarfélögum helming útlagðs kostnaðar við framkvæmd laga þessara. Í sveitarfélagi, þar sem heildarkostnaður við refa- og minkaveiðar verður hærri en 3.000 kr. á hvern íbúa miðað við íbúafjölda 1. desember árið á undan, greiðir ríkissjóður þó allt að þremur fjórðu hlutum af kostnaði við framkvæmdina.

Um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.

34. gr.

     Á eftir VIII. kafla laganna kemur nýr kafli sem verður IX. kafli með fyrirsögninni Afgreiðslugjald skipa, með einni grein sem verður 15. gr. laganna, og breytist töluröð kafla og greina í lögunum til samræmis við það. Greinin orðast svo:
     Fyrir að afgreiða útlend fiskiskip sem koma hingað einvörðungu vegna fiskveiða og vöru- og flutningaskip sem koma frá útlöndum og fyrir að láta af hendi þau skilríki er skipið á að fá hér á landi skal greiða 30 kr. af hverri nettórúmlest skipsins. Hálf rúmlest eða þar yfir telst heil. Af farþegaskipum skal greiða helmingi lægra gjald.
     Gjald þetta skal greiða í fyrstu höfn er skipið tekur hér á landi, þó eigi oftar en sex sinnum á almanaksári.
     Undanþegin afgreiðslugjaldi eru herskip, spítalaskip og skip sem leita hafnar í neyð.

35. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Ákvæði þessara laga, sem fjalla um fjárnám, gilda með sama hætti um lögtök til 1. júlí 1992.

Um breytingu á lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana.

36. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málgrein, 2. mgr., er orðast svo:
     Hlutaðeigandi ráðherra er þó heimilt að setja mann eða nefnd manna, um tiltekinn tíma, til að vera tilsjónarmenn stofnana, einnar eða fleiri í senn, ef sýnt þykir að kostnaður við rekstur þeirra fari fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög ákveða. Starfssvið tilsjónarmanna er að skipuleggja og hafa eftirlit með reikningshaldi og gerð fjárhagsáætlana stofnana og taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar, þar á meðal um umfang starfsmannahalds, í samráði við ráðherra, eftir því sem nánar er lýst í erindisbréfi hverju sinni. Ráðherra skal enn fremur í erindisbréfi tilsjónarmanna kveða skýrt á um ábyrgðarsvið þeirra. Kostnaður við starf tilsjónarmanna greiðist af viðkomandi stofnun.

II. KAFLI

37. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur á árinu 1992 vegna aðflutningsgjalda af innfluttum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renna í ríkissjóð.

38. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 3. gr. laga nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð ríkisins, skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins eigi vera hærra en 12.000 þús. kr. á árinu 1992.

39. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 46. gr. laga nr. 88/1989, þjóðminjalaga, skal framlag ríkissjóðs í Húsafriðunarsjóð eigi nema hærri fjárhæð en 10.500 þús. kr. á árinu 1992.

40. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1984, um kvikmyndamál, skal framlag ríkissjóðs til Kvikmyndasjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 91.500 þús. kr. á árinu 1992. Þar af skulu 14.000 þús. kr. renna til norræns kvikmyndaverkefnis.

41. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 50/1957, um Menningarsjóð, skal framlag ríkissjóðs til sjóðsins eigi nema hærri fjárhæð en 6.000 þús. kr. á árinu 1992.

42. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, skal á árinu 1992 heimilt að ráðstafa fé af sérstökum eignarskatti samkvæmt lögunum til framkvæmda við Bessastaði.

43. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 5. tölul. 4. gr. laga nr. 45/1971, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1982, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, skal framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildar landbúnaðarins eigi nema hærri fjárhæð en 60.000 þús. kr. á árinu 1992 og er framlagið vegna Lífeyrissjóðs bænda.

44. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 32/1979 um framlög ríkissjóðs til greiðslu kostnaðar af forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum falla þær greiðslur niður á árinu 1992.

45. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, og 7. gr. laga nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, er landbúnaðarráðherra heimilt að innheimta gjald af sláturleyfum til greiðslu kostnaðar sem af yfirmati samkvæmt lögunum leiðir.

46. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. breytingu með 2. gr. laga nr. 29/1987, skal framlag ríkissjóðs til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á árinu 1992 vera 340.000 þús. kr.

47. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði d-liðar 3. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, skal framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs falla niður á árinu 1992.

48. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 26. gr. laga nr. 21/1963, um kirkjugarða, sbr. lög nr. 89/1987, skal hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti lækka um 20% á árinu 1992.

49. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 21/1981, um kirkjubyggingasjóð, skal framlag ríkissjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 1.000 þús. kr. á árinu 1992.

50. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, sbr. lög nr. 57/1980, skal framlag ríkissjóðs falla niður á árinu 1992.

51. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 36. gr. laga nr. 67/1971, almannatryggingalaga, skal framlag ríkissjóðs til varasjóðs slysatrygginga falla niður á árinu 1992.

52. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga nr. 39/1965, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, skal framlag ríkissjóðs til Gæsluvistarsjóðs falla niður.

53. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 49/1978, lyfjalaga, skal framlag ríkissjóðs til Lyfsölusjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 900 þús. kr. á árinu 1992.

54. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 31. gr. laga nr. 69/1984, um Hafnabótasjóð, skal framlag ríkissjóðs ekki nema hærri fjárhæð en 90.000 þús. kr. á árinu 1992.

55. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 8. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, skal framlag ríkissjóðs til Ferðamálasjóðs og til sérstakra verkefna Ferðamálaráðs samkvæmt fyrrnefndum lögum ekki nema hærri upphæð en 68.000 þús. kr. á árinu 1992.

56. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 35. gr. laga nr. 19/1964, skipulagslaga, sbr. lög nr. 42/1974, skal mótframlag ríkissjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 4.500 þús. kr. á árinu 1992.

57. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, skulu 265 m.kr. af innheimtum mörkuðum tekjum samkvæmt lögunum renna í ríkissjóð á árinu 1992 en ekki vera varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun.

58. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 33. gr. laga þessara ( 13. gr. laga nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka) er umhverfisráðherra heimilt, að fengnum tillögum veiðistjóra, að ákveða að ríkissjóður taki ekki þátt í kostnaði við minkaveiðar, grenjaleit og grenjavinnslu á tilteknum svæðum á árinu 1992. Umhverfisráðuneytið skal auglýsa fyrir 1. maí 1992 til hvaða landsvæða ákvörðunin tekur og hver séu mörk þeirra.
     Þrátt fyrir ákvæði 3., 4. og 5. gr. laga nr. 52/1957 er sveitarstjórnum og stjórnum upprekstrarfélaga heimilt að fella niður grenja- og minkaleitir á árinu 1992 á svæðum þar sem ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við veiðarnar.

59. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 12. og 13. gr. laga nr. 56/1972, um lögreglumenn, skulu sveitarfélög greiða hluta kostnaðar við löggæslu á árinu 1992 sem hér segir:
     Sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 2.370 kr. á hvern íbúa, sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.420 kr. á hvern íbúa. Miða skal við íbúafjölda 1. desember 1991.
     Framlög sveitarfélaga skulu greidd með jöfnum mánaðarlegum greiðslum samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.

60. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 12. og 13. gr. laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, skal því 100 millj. kr. aukaframlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem ákveðið var við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992, einungis varið til jöfnunarframlaga, sbr. 14. gr.

III. KAFLI

61. gr.

     Upphafsmálsliður 1. gr. laga nr. 80/1991, um breyting á lögum um eftirlaun til aldraðra, nr. 2 14. febrúar 1985, sbr. lög nr. 130/1989, orðast svo: Í stað lokamálsliðar 1. mgr. 6. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir er orðast svo.

62. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 13.–17. og 24. gr. öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. febrúar 1992.
     Ákvæði 8. gr. laga þessara, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, taka þó eigi gildi fyrr en 1. mars 1992. Frá þeim tíma falla úr gildi 1.– 4. gr. laga nr. 88/1990, um ríkisábyrgð á launum. Þá verða eftirfarandi breytingar á lögum nr. 88/1990:
  1. Í stað orðsins „ríkissjóður“ í 5.–7. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 8. gr., 9. gr., 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 11. gr., 12.–13. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 14. gr. þeirra laga kemur (í viðeigandi beygingarföllum): ábyrgðasjóður.
  2. Í stað orðsins „ríkisábyrgð“ í 8. gr. og „ríkisábyrgðar“ í 10. gr. kemur: ábyrgð og ábyrgðar.
  3. Í stað orðsins „fjármálaráðherra“ í 13. gr. kemur: stjórn sjóðsins og í stað orðanna „fjármálaráðherra“ og „hann“ í 2. mgr. 14. gr. kemur: stjórn sjóðsins og stjórnin.
  4. Orðin „skv. a- til d-liðum 1. mgr. 4. gr.“ í 5. gr. falla brott.

     Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu er heimilt að fella ákvæði I. kafla inn í meginmál þeirra laga sem þau breyta og gefa þau lög út svo breytt. Jafnframt skal eftir 1. mars 1992 gefa út að nýju ákvæði 6.–8. gr. laga þessara, að viðbættum ákvæðum 5.– 15. gr. laga nr. 88/1990, með áorðnum breytingum, með fyrirsögninni: Lög um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Á meðan vextir, verðbætur og gengishagnaður eru frádráttarbærar tekjur við ákvörðun tekjuskattsstofns skulu þessar tekjur hvorki hafa áhrif á tekjur til skerðingar elli- og örorkulífeyris, sbr. 11. og 12. gr., né tekjutryggingar, sbr. 19. gr. laga um almannatryggingar.

II.
     Þeir sem ákveðið hafa frestun ellilífeyris fyrir 1. janúar 1992, sbr. 11. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, skulu halda rétti sínum. Tryggingastofnun ríkisins skal breyta fjárhæðum vegna frestunarinnar til samræmis við breytingar sem verða á fjárhæðum bóta almannatrygginga hverju sinni. Nú andast maður sem frestað hefur töku lífeyris fram yfir 67 ára aldur fyrir 1. janúar 1992 og lætur eftir sig maka á lífi og skal þá hinn eftirlifandi maki til viðbótar eigin lífeyri eiga rétt á þeirri hækkun sem hinn látni átti rétt á vegna frestunar.

III.
     Þrátt fyrir ákvæði 62. gr. laga þessara öðlast c-, d- og e-liður 1. tölul. 20. gr. gildi 1. mars 1992. Fram til 1. mars 1992 skal hlutdeild sjúkratrygginga miðast við gildandi gjaldskrá tannlækna. Ráðherra er þó heimilt að fresta gildistöku c-, d- og e-liðar 20. gr. fram til 1. september 1992.

IV.
     Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. laga þessara ( 44. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum) skulu þeir sem njóta eiga endurgreiðslna á árinu 1991 samkvæmt reglum nr. 63/1991 um endurgreiðslur sjúkratrygginga af tannréttingakostnaði samkvæmt lögum um almannatryggingar njóta þess réttar áfram, enda teljist sannað að þeir hafi átt þennan rétt. Tryggingastofnun ríkisins skal fyrir 15. febrúar 1992 auglýsa með áberandi hætti eftir þeim aðilum sem telja sig eiga rétt samkvæmt framansögðu og ber þeim sem ekki hafa þegar sent inn umsóknir að gera það fyrir 15. mars 1992 á eyðublöðum sem stofnunin lætur í té. Að öðrum kosti fellur rétturinn niður. Greiðslum samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu skal ljúka 31. desember 1993.

V.
     Teljist nauðsynlegt til þess að tryggja endurgreiðslur skv. II er ráðherra heimilt að setja sérstaka gjaldskrá.

VI.
     Ákvæði 8. gr. laga þessara gilda um kröfur sem hlotið hafa umsögn skiptaráðanda 1. mars 1992 eða síðar.

Samþykkt á Alþingi 23. janúar 1992.