Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1226, 116. löggjafarþing 305. mál: útvarpslög (EES-reglur).
Lög nr. 82 18. maí 1993.

Lög um breyting á útvarpslögum, nr. 68/1985.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Lög þessi eru sett með hliðsjón af lögum um fjarskipti, nr. 73/1984, hvað varðar tæknilega eiginleika.
     Með útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi, er í lögum þessum átt við hvers konar útsendingu dagskárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum hvort heldur í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst.
     Ákvæði þessara laga ná ekki til dreifingar útvarpsdagskrár eða útsendinga sem eingöngu eru ætlaðar þröngum hóp og takmarkast við byggingar eða húsakynni á samfelldri lóð, svo sem einstök íbúðarhús, sjúkrahús, gistihús, skóla og verksmiðju.
      Útvarpsstöð er sá aðili sem leyfi hefur til útvarps samkvæmt lögum þessum.
      Útvarpsdagskrá í skilningi laga þessara er heildarsamsetning dagskárliða í útvarpi.
      Auglýsing er hvers konar tilkynning sem útvarpað er gegn endurgjaldi og felur í sér kynningu vöru eða þjónustu.
      Dulin auglýsing er sýning eða önnur kynning í máli eða myndum á vöru, þjónustu, vörumerki eða starfsemi aðila er framleiðir vöru eða veitir þjónustu í útvarpsdagskrám utan afmarkaðra auglýsingatíma sé slík sýning til þess ætluð af hálfu útvarpsstöðvar að þjóna auglýsingamarkmiðum og villa um fyrir notendum.
      Kostun er hvers konar framlag lögaðila eða einstaklinga til framleiðslu eða sýningar dagskrárliða í útvarpi, með það fyrir augum að vekja athygli á nafni sínu, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum.

2. gr.

     2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Öðrum aðilum má veita leyfi til útvarps. Skal starfa sérstök nefnd, útvarpsréttarnefnd, sem veitir slík leyfi skv. 3.–6. gr. laga þessara og fylgist með að reglum þeirra sé fylgt. Útvarpsréttarnefnd veitir einnig leyfi til starfrækslu útvarps þar sem einvörðungu er dreift viðstöðulaust óstyttri og óbreyttri heildardagskrá útvarpsstöðva. Slík leyfi eru einvörðungu háð ákvæðum 5. og 6. gr. eftir því sem við á.

3. gr.

     1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Fjarskiptaeftirlit ríkisins úthlutar senditíðnum í samræmi við alþjóðasamþykktir og gefur út leyfisbréf til þeirra sem fengið hafa leyfi til útvarps. Í leyfisbréfi skal kveðið á um tæknilega eiginleika í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl. Viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva skal einvörðungu heimilað um þráð og/eða þráðlaust um örbylgju. Í síðara tilfellinu skal hafa samráð við samgönguráðuneytið.

4. gr.

     3. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna skiptist í tvo stafliði og orðast svo:
     
     (3. a.)
     Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Þær skulu kosta kapps um að meiri hluti útsendrar dagskrár sé íslenskt dagskrárefni og dagskrárefni frá Evrópu.
     Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.
     Ákvæði lagagreinar þessarar eiga ekki við þegar um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva.
     
     (3. b.)
     Útvarpsstöðvar, sem leyfi fá til útvarps, skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum.
     Þeir aðilar, einstaklingar, félög eða stofnanir, sem telja að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá, hafa rétt til andsvara í viðkomandi útvarpsstöð eða til annarra jafngildra úrræða.
     Telji þessir aðilar að útvarpsstöð hafi ekki uppfyllt framangreind skilyrði gagnvart þeim og þeim er synjað um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í dagskrá með þeim hætti sem þeir vilja við una geta þeir lagt málið fyrir útvarpsréttarnefnd. Nefndin skal þá, eins fljótt og við verður komið, fella úrskurð um kæruefni og er sá úrskurður bindandi fyrir aðila.

5. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Útvarpsstöðvum er heimilt að afla tekna með auglýsingum, afnotagjaldi eða sérstöku gjaldi vegna framleiðslu fræðslu- og skýringarefnis.
     Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki og skulu þær fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða.
     Heimilt er að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma, enda leiði það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi eða skerði rétt rétthafa svo sem hér segir:
  1. Útsendingu dagskrárliða sem samsettir eru úr sjálfstæðum þáttum, íþróttadagskrár eða sambærilega dagskrárliði, sem svipaðir eru að uppbyggingu, er heimilt að rjúfa með auglýsingatíma á þann veg að auglýsingum sé aðeins skotið inn á milli þátta eða í hléum.
  2. Útsendingu kvikmynda, þar með talinna kvikmynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp og eru lengri en 45 mínútur í dagskrá, má rjúfa einu sinni fyrir hvert 45 mínútna tímaskeið með auglýsingatíma. Heimilt er að rjúfa útsendingu öðru sinni ef sýningartími er meira en 20 mínútum lengri en tvö eða fleiri full 45 mínútna tímaskeið.
  3. Ef dagskrárliðir, aðrir en þeir sem fjallað er um í a-lið, eru rofnir með auglýsingum skulu líða a.m.k. 20 mínútur milli auglýsingahléa í sama dagskrárlið.

     Óheimilt er að skjóta auglýsingum inn í útsendingu á guðsþjónustu eða trúarlegri dagskrá, fréttum eða fréttatengdum dagskrárliðum eða dagskrá fyrir börn.
     Í sjónvarpsdagskrám skal hlutfall auglýsingatíma ekki fara yfir 15% daglegs útsendingartíma. Þó má auka þetta hlutfall í 20% ef með eru talin bein tilboð til almennings um sölu, kaup eða leigu á vörum eða veitingu þjónustu. Hlutfall auglýsinga innan tiltekins klukkutímaskeiðs má ekki fara yfir 20%. Auglýsingar á borð við bein tilboð til almennings um sölu, kaup eða leigu á vörum eða þjónustu skulu ekki fara fram yfir eina klukkustund á dag, án þess þó að skerða ákvæði þessarar málsgreinar.
     Duldar auglýsingar eru bannaðar.
     Í auglýsingum skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.

6. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, er orðast svo:
     Heimilt er útvarpsstöð að afla kostunar við gerð einstakra dagskrárliða, þó aldrei frétta eða fréttatengdra þátta, svo framarlega sem kostunaraðili hefur ekki áhrif á innihald eða efnistök við gerð kostaðs dagskrárliðar og raskar ábyrgð og ritstjórnarlegu sjálfstæði útvarpsstöðvar. Nú er dagskrárliður kostaður og má þá efni hans ekki fela í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostunaraðila. Heimilt er að ákveða með reglugerð að sérstakar reglur skuli gilda um dagskrárliði sem kostaðir eru af góðgerðar- eða líknarfélögum.
     Kostaðar sjónvarpsdagskrár skulu vera ljóslega auðkenndar sem slíkar með nafni og/ eða vörumerki kostunaraðila í upphafi og/eða lok dagskrár.

7. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Fyrir útvarp um þráð gilda eftirtaldar reglur sérstaklega:
  1. Leyfi til útvarps um þráð er háð því að sveitarstjórnir heimili lagningu þráðar um lönd sín.
  2. Lagning og not þráðar í því skyni eingöngu að dreifa viðstöðulaust dagskrárefni útvarpsstöðva óbreyttu og óstyttu er aðeins háð skilyrðum 1. tölul. þessarar greinar, sjá þó 2. mgr. 2. gr. Samgönguráðuneytið setur reglur um gerð og notkun slíkra kerfa og eftirlit með þeim. Áskilja má að notkun þessara kerfa sé háð leyfi Fjarskiptaeftirlits ríkisins.


8. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Heimil er öllum móttaka útvarpsdagskrár sem send er um gervitungl og ætluð almenningi til beinnar móttöku, enda verði henni ekki endurvarpað. Samgönguráðuneytið setur reglur um móttöku frá fjarskiptatunglum.
     Um flutning útvarpsefnis um fjarskiptatungl milli fastra stöðva, þegar ekki er um tilbúna dagskrá að ræða sem ætluð er almenningi, gilda eingöngu ákvæði fjarskiptalaga.
     Viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp um þráð og/eða þráðlaust á dagskrá, sem komin er til móttökustöðvar um gervitungl, er háð samþykki útvarpsstöðvarinnar sem dagskrána sendir og samþykki samgönguráðuneytisins ef um fjarskiptatungl er að ræða.

9. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Ákvæði 2.–7. mgr. 4. gr. og 4. gr. a eiga einnig við um starfsemi Ríkisútvarpsins.

10. gr.

     Við 15. gr. laganna bætist svohljóðandi málsgrein:
     Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal Ríkisútvarpið – sjónvarp, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem gerst hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1993.