Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1291, 117. löggjafarþing 614. mál: samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna.
Lög nr. 79 19. maí 1994.

Lög um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og um breytingu á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna.

1. gr.

     Setja skal á fót nefnd er hafi það hlutverk að fjalla um álitaefni og ágreining er tengist áhrifum viðskipta með veiðiheimildir á uppgjör á aflahlut sjómanna.
     Í nefndinni eiga sæti fimm menn, tveir tilnefndir sameiginlega af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og Vélstjórafélagi Íslands, tveir tilnefndir sameiginlega af Vinnuveitendasambandi Íslands og Landssambandi íslenskra útvegsmanna og formaður sem sjávarútvegsráðherra skipar að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna.
     Samstarfsnefnd ræður starfsfólk eða semur við aðra um að annast starfsemi fyrir nefndina eftir því sem hagkvæmt þykir.

2. gr.

     Samstarfsnefnd skal afla ítarlegra gagna um fiskverð, forsendur þess og önnur atriði sem kunna að hafa áhrif á aflahlut sjómanna. Hún skal vinna úr upplýsingunum með skipulegum hætti sundurliðað yfirlit um fiskverð á einstökum landsvæðum. Nefndin skal reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum og sjómönnum sem best.

3. gr.

     Þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna, sem standa að tilnefningu samstarfsnefndar skv. 1. gr., geta leitað álits nefndarinnar á ágreiningi og álitamálum er upp koma varðandi áhrif viðskipta með veiðiheimildir á uppgjör á aflahlut enda séu ekki liðnar meira en tólf vikur frá lokum uppgjörstímabils.
     Nefndin skal við umfjöllun sína m.a. taka mið af upplýsingum um fiskverð sem safnað hefur verið á hennar vegum, sbr. 2. gr.
     Nefndin skal leita upplýsinga hjá viðkomandi útgerð og áhöfn um öll þau atriði er máli kunna að skipta varðandi úrlausn í tilteknu máli. Er skylt að veita nefndinni aðgang að öllum gögnum varðandi uppgjör og forsendur þess, sem og öðrum gögnum er máli geta skipt við úrlausn nefndarinnar.

4. gr.

     Samstarfsnefndin skal taka rökstudda afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum eða samningum að því er varðar uppgjör á aflahlut í einstökum tilvikum. Þá skal hún láta í ljós afstöðu til þess hvort bersýnilega ósanngjörn viðmið séu fyrir ákvörðun fiskverðs í tengslum við viðskipti með veiðiheimildir.
     Takist ekki að ná sameiginlegri niðurstöðu ræður afl atkvæða en einstakir nefndarmenn geta gert grein fyrir áliti sínu.
     Nefndin skal kappkosta að hraða umfjöllun um einstök ágreiningsefni og leitast við að ljúka þeim eigi síðar en fjórum vikum eftir að álits var óskað.

5. gr.

     Nefndin skal gera aðilum grein fyrir niðurstöðum sínum og koma þeim tilmælum til hlutaðeigandi útgerðar og áhafnar að þeir leysi ágreining sinn í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar.
     Nefndin skal árlega gefa út útdrátt úr niðurstöðum sínum.

6. gr.

     Sé tilmælum nefndar skv. 5. gr. ekki fylgt eða vilji aðili ekki una niðurstöðu nefndarinnar geta þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna, er um ræðir í 1. gr., skotið málinu til gerðardóms skv. 72. gr. sjómannalaga, nr. 35 19. júní 1985, með síðari breytingum, og er samþykki gagnaðila ekki nauðsynlegt í þeim tilvikum.

7. gr.

     Nefndarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í störfum sínum.

8. gr.

     Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

9. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1994 og gilda til ársloka 1995.
     Samstarfsnefnd fjallar um ágreining við uppgjör á aflahlut sjómanna eftir gildistöku laganna.

II. KAFLI
Lög um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins,nr. 24 7. maí 1986, með síðari breytingum.

10. gr.

     Aftan við 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum.

11. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 18. gr., er orðast svo:
     Brot á 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með brot á þessu ákvæði skal fara að hætti opinberra mála.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 1994.