Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1045, 120. löggjafarþing 487. mál: Iðnþróunarsjóður (gildistími o.fl.).
Lög nr. 63 3. júní 1996.

Lög um breytingu á lögum nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Fyrir verkefni skv. 1.–4. tölul. 2. mgr. skal Iðnþróunarsjóður halda sérstakan afskriftareikning. Samhliða ákvörðunum um lánveitingar, ábyrgðir og hlutafjárþátttöku skal ákveða samsvarandi framlög á afskriftareikninginn. Fjárhæðirnar, sem bætt er við afskriftareikninginn, skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er og vera í samræmi við reglur sem ráðherra staðfestir.
  3. Við bætist ný málsgrein, 4. mgr., sem orðast svo:
  4.      Stjórn sjóðsins skal gera rekstraráætlun fyrir hvert almanaksár. Skal hún miðast við að ekki sé gengið á eigið fé sjóðsins. Til verkefna skv. 1.–4. tölul. 2. mgr. má ekki verja hærri upphæð en svo að afskriftir vegna þeirra, sbr. 3. mgr., rúmist innan ramma rekstraráætlunar.

2. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Eigið fé Iðnþróunarsjóðs við gildistöku laga nr. 20/1995, um breytingu á lögum nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð, telst vera stofnframlag ríkissjóðs til hans.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
      Lög nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð, með síðari breytingum, falla úr gildi 31. desember 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara skal stjórn sjóðsins gera rekstraráætlun sem miðast við eiginfjárstöðu sjóðsins við síðustu áramót.

Samþykkt á Alþingi 22. maí 1996.