Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1176, 120. löggjafarþing 442. mál: fjáröflun til vegagerðar (álagning, eftirlit o.fl.).
Lög nr. 68 5. júní 1996.

Lög um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Greiða skal í ríkissjóð sérstakan skatt, þungaskatt, af eftirtöldum ökutækjum:
 1. bifreiðum sem skráðar eru hér á landi og nota annan orkugjafa en bensín,
 2. eftirvögnum sem skráðir eru hér á landi og eru 6.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd,
 3. bifreiðum sem skráðar eru erlendis og nota annan orkugjafa en bensín og fluttar eru hingað til lands til notkunar,
 4. eftirvögnum sem skráðir eru erlendis og eru 6.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd og fluttir eru hingað til lands til notkunar.

     Við ákvörðun á því hvort greiða eigi þungaskatt af ökutæki, sem skráð er hér á landi, skal líta til skráningar þess í ökutækjaskrá.
     Bifreiðar erlendra sendisveita og bifreiðar erlendra ræðismanna sem eigi eru íslenskir ríkisborgarar eru undanþegnar skattskyldu.

2. gr.

     Á eftir orðinu „vegáætlun“ í 2. gr. laganna kemur: að frádregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Ríkisskattstjóri annast álagningu þungaskatts og aðra framkvæmd laganna. Ríkisskattstjóra er heimilt að fela skattstjórum og Vegagerðinni framkvæmd einstakra verkefna sem honum eru falin í lögunum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 4. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „frá og með árinu 1986 greiða árlega þungaskatt“ í 1. mgr. kemur: greiða fast gjald þungaskatts.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      94.273 kr. af fólksbifreiðum að eigin þyngd allt að 999 kg, 113.163 kr. af fólksbifreiðum að eigin þyngd 1.000–1.499 kg og 132.053 kr. af fólksbifreiðum að eigin þyngd 1.500–1.999 kg. Af bifreiðum þyngri en 2.000 kg skal gjaldið hækka um 7.555 kr. fyrir hver 200 kg.
 4. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Skráning ökutækis samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi á næsta gjaldtímabili eftir að heimild hefur verið veitt og gildir í a.m.k. tólf mánuði.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á B-lið 4. gr. laganna:
 1. 2. mgr. orðast svo:
 2.      Kílómetragjald skv. 1. mgr. þessa stafliðar skal vera sem hér segir:
       
  Leyfð heildarþyngd Kílómetragjald, Leyfð heildarþyngd Kílómetragjald,
  ökutækis, kg kr. ökutækis, kg kr.
  4.000–4.999 7,09 18.000–18.999 18,50
  5.000–5.999 7,54 19.000–19.999 19,92
  6.000–6.999 8,15 20.000–20.999 20,98
  7.000–7.999 8,56 21.000–21.999 22,19
  8.000–8.999 8,93 22.000–22.999 23,59
  9.000–9.999 9,33 23.000–23.999 24,71
  10.000–10.999 9,90 24.000–24.999 25,83
  11.000–11.999 10,27 25.000–25.999 27,09
  12.000–12.999 11,57 26.000–26.999 28,29
  13.000–13.999 12,65 27.000–27.999 29,55
  14.000–14.999 14,00 28.000–28.999 30,81
  15.000–15.999 15,07 29.000–29.999 32,06
  16.000–16.999 16,27 30.000–30.999 33,32
  17.000–17.999 17,45 31.000 og yfir 34,58

       
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Nú er ökutæki eingöngu notað vegna flutninga þar sem leyfð heildarþyngd nýtist ekki til fulls og getur eigandi eða umráðamaður þá fengið gjaldþyngd ökutækisins skráða lægri en leyfð heildarþyngd þess er. Þó skal gjaldþyngd ekki vera lægri en eigin þyngd ökutækis. Ríkisskattstjóri veitir heimild samkvæmt þessari grein og getur bundið hana tilteknum tímamörkum. Ef í ljós kemur við eftirlit að heildarþyngd ökutækis með farmi er meiri en skráð gjaldþyngd þess skv. 1. mgr. skal heimild til að skrá gjaldþyngd niður afturkölluð og ekki veitt á ný fyrr en að liðnum fullum tveimur árum. Þungaskattur skal vera 70% lægri af akstri almenningsvagna í áætlunarferðum. Enn fremur skal endurgreiða 70% þungaskatts sem greiddur hefur verið af akstri ökutækja í eigu sérleyfishafa á leiðum sem sérleyfi þeirra nær til.
 5. Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr.:
  1. Í stað orðanna „Ráðherra er heimilt að ákveða að veittur skuli allt að 10% afsláttur“ kemur: Veita skal 10% afslátt.
  2. Orðin „allt að“ þar sem þau koma fyrir í málsgreininni falla brott.
  3. Í stað orðsins „má“ kemur: skal.

 6. Við bætist ný málsgrein sem verður 5. mgr. og orðast svo:
 7.      Samanlögð gjaldþyngd samtengdra ökutækja skal vera að hámarki 40.000 kg fyrir fimm ása samtengd ökutæki og 44.000 kg fyrir sex ása samtengd ökutæki.
 8. Við bætist ný málsgrein sem verður 7. mgr. og orðast svo:
 9.      Ef skylt er að búa ökutæki ökurita til eftirlits með aksturs- og hvíldartíma ökumanna samkvæmt reglugerð nr. 136/1995 skal ökuritinn notaður sem ökumælir. Nú er ökuriti notaður sem ökumælir og er ökumanni þá skylt að hafa skráningarblað (skífu) í ökuritanum.
 10. Í stað orðsins „Ráðherra“ í 6. mgr., er verður 8. mgr., kemur: Ríkisskattstjóri.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á C-lið 4. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra í reglugerð“ í 1. mgr. kemur: skv. 3. mgr.
 2. Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
 3.      Af öðrum ökutækjum skráðum erlendis skal greiða þungaskatt fyrir hverja byrjaða viku sem ökutækið er hér á landi sem hér segir:
       
  Eigin þyngd Þungaskattur Eigin þyngd Þungaskattur
  bifreiðar, kg fyrir hverja bifreiðar, kg fyrir hverja
  byrjaða viku, kr. byrjaða viku, kr.
  Allt að 1.000 3.246 2.800–2.999 5.336
  1.000–1.999 4.035 3.000–3.199 5.556
  2.000–2.199 4.386 3.200–3.399 5.807
  2.200–2.399 4.623 3.400–3.599 6.029
  2.400–2.599 4.863 3.600–3.799 6.285
  2.600–2.799 5.096 3.800–3.999 6.519

       
 4. Sé eigin þyngd ökutækis meiri en 4.000 kg skal þungaskattur fyrir hverja byrjaða viku hækka um 1.000 kr. fyrir hver byrjuð 1.000 kg sem eigin þyngd er umfram 4.000 kg. Við ákvörðun þungaskatts samkvæmt þessari málsgrein reiknast brot úr viku sem heil vika.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „bifreiðaskrá“ í 1. mgr. kemur: ökutækjaskrá.
 2. Í stað orðanna „lögreglustjóra (bifreiðaeftirliti)“ í 1. og 2. mgr. kemur: skráningaraðila.
 3. 4. mgr. orðast svo:
 4.      Þungaskattur af ökutækjum sem nota innlenda orkugjafa í tilraunaskyni skal vera 50% lægri en þungaskattur skv. 4. gr.
 5. 5. mgr. fellur brott.


8. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Ökumaður ökutækis sem þungaskattur er greiddur af skv. B-lið 4. gr. skal við lok hvers dags, sem ökutæki er ekið, lesa kílómetrastöðu af ökumæli og skrá hana í sérstaka akstursbók sem ríkisskattstjóri gefur út. Ef annars konar ökumælir en ökuriti er notaður skal ökumaður skrá kílómetrastöðu hraðamælis daglega í akstursbókina, hins vegar er honum einungis skylt að skrá kílómetrastöðu ökumælis einu sinni í viku. Ökumaður skal athuga hvort ökuriti eða ökumælir og hraðamælir hafi talið rétt og að kílómetrastöðu beri saman við akstur dagsins. Ökumaður skal staðfesta skráningu með nafnritun sinni.
     Eiganda eða umráðamanni fólksbifreiðar sem er undir 4.000 kg að leyfðri heildarþyngd og ekki er nýtt til atvinnurekstrar er ekki skylt að skrá kílómetrastöðu ökumælis og hraðamælis oftar en einu sinni í mánuði.
     Eigandi og umráðamaður ökutækis bera ábyrgð á að ökumælir telji rétt og að akstur sé skráður í akstursbók við lok hvers dags sem ökutæki er ekið.
     Eiganda eða umráðamanni ökutækis ber að varðveita skráningarblöð ökurita og akstursbók í sjö ár frá lokum gjaldárs.
     Fjármálaráðherra getur með reglugerð ákveðið að aðrar reglur gildi um skráningu í akstursbók vegna notkunar eftirvagna sem skráðir eru hér á landi og eru 6.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd.

9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 7. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „næsta mánaðar eftir gjalddaga“ í 1. mgr. kemur: sama mánaðar.
 2. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Sama gildir ef framvísað hefur verið útflutnings- og innflutningsskýrslum til sönnunar á tímabundnum útflutningi í jafnlangan tíma. Þá er ríkisskattstjóra heimilt að lækka eða endurgreiða fast gjald að réttri tiltölu ef sýnt er fram á það með fullnægjandi hætti að bifreið hafi ekki verið í notkun hér á landi í a.m.k. þrjátíu daga samfellt vegna viðgerðar á viðurkenndu verkstæði, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur gjaldi í þrjátíu daga.


10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á B-lið 7. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „næsta mánaðar eftir gjalddaga“ í 1. mgr. kemur: sama mánaðar.
 2. Í stað orðanna „eftirlitsmanns fjármálaráðuneytis eða bifreiðaeftirlits“ í 2. mgr. kemur: álestraraðila.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Nú kemur í ljós við skráningu á kílómetrastöðu ökurita eða ökumælis og hraðamælis, sbr. 6. gr., eða við skoðun á skráningarblöðum ökurita að einhver fyrrgreindra mæla telur rangt eða telur ekki og skal ökumaður þá svo fljótt sem honum er unnt tilkynna um bilun mælis til Vegagerðarinnar. Jafnframt skal hann, innan tveggja virkra daga frá því er bilun í mæli kom fram, fara með hann á löggilt verkstæði til viðgerðar.
 5. 4. mgr. orðast svo:
 6.      Ef taka þarf ökumæli úr ökutæki til viðgerðar skal lesið af ökumælinum áður en hann er tekinn úr og annar settur í stað hins bilaða. Tilkynna skal þegar í stað til Vegagerðarinnar ef nýr ökumælir er settur í ökutæki. Jafnframt skal lesið af ökumæli sem settur er í ökutækið. Nú verður því ekki við komið að setja annan ökumæli í ökutæki og er þá heimilt að aka án ökumælis gegn greiðslu daggjalds, enda sé það tilkynnt til Vegagerðarinnar á eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Heimild skal ekki veitt til lengri tíma en fimm virkra daga. Greiða skal daggjald fyrir þann tíma sem ekið er án ökumælis og skal gjaldið nema sem svarar til a.m.k. 200 km aksturs fyrir hvern dag sem heimildin nær til. Heimilt skal við ákvörðun gjaldsins að miða við raunverulegan akstur verði því komið við samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.


11. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu þungaskatts.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „taka af henni skráningarmerki og afhenda þau lögreglustjóra, en lögreglustjóri skal ekki afhenda þau aftur fyrr en færðar hafa verið sönnur á greiðslu skattsins“ í 1. mgr. kemur: og tilkynna lögreglu um það þegar í stað.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Óheimilt er að skrá eigendaskipti að ökutæki, nema greiddur hafi verið gjaldfallinn þungaskattur. Sé þungaskattur greiddur eftir akstri er óheimilt að skrá eigendaskipti, nema lesið hafi verið af ökumæli og þungaskattur vegna þess álestrar greiddur. Verði eigendaskipti að ökutæki skal lækkun þungaskatts skv. 4. mgr. B-liðar 4. gr. ákvarðast til þess dags sem eigendaskipti eru skráð í ökutækjaskrá.
 4. 5. mgr. fellur brott.


13. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Ríkisskattstjóri annast eftirlit með því að gjaldskyld ökutæki, skráning þeirra og búnaður, svo og skráning ökumanna á akstri, sé í samræmi við fyrirmæli laga þessara, reglur um ökumæla og skráningu ökutækisins í ökutækjaskrá.
     Eftirlitsmönnum er heimilt að stöðva ökutæki og gera þær athuganir á ökutækinu sem taldar eru nauðsynlegar til að staðreyna að ökutæki, mælabúnaður þess og skráning ökumanns á akstri sé í samræmi við skráningu ökutækisins í álestrarskrá ökumæla, lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Þannig er heimilt að mæla heildarþyngd ökutækis, athuga ökurita eða ökumæli og hraðamæli og kanna skráningarskírteini, skráningarblöð ökurita og akstursbók ökutækis. Jafnframt er eftirlitsmönnum heimilt að leggja hald á skráningarblöð ökurita og akstursbók. Að öðru leyti fer um eftirlit samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eftir því sem þau geta átt við.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir vaxtalögum, nr. 25/1987, með síðari breytingum.
 2. 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 3. 2. mgr. orðast svo:
 4.      Þungaskatti, álagi og viðurlögum fylgir lögtaksréttur. Jafnframt fylgir þungaskatti og álagi lögveð í viðkomandi ökutæki.
 5. 3. mgr. fellur brott.


15. gr.

     Við lögin bætast níu nýjar greinar er orðast svo:
     
     a. (12. gr.)
     Komi í ljós að ökutæki hafi verið í röngum gjaldflokki, ranglega skráð í ökutækjaskrá eða að fast gjald þungaskatts hafi að öðru leyti ekki verið réttilega á lagt skal ríkisskattstjóri tilkynna eiganda eða umráðamanni ökutækisins skriflega um fyrirhugaða endurákvörðun fasts gjalds og skora á hann að láta í té skýringar og gögn innan a.m.k. fimmtán daga. Berist ríkisskattstjóra ekki fullnægjandi skýringar eða gögn eiganda eða umráðamanns innan frests endurákvarðar ríkisskattstjóri fast gjald.
     
     b. (13. gr.)
     Ríkisskattstjóri annast á gjalddaga álagningu kílómetragjalds vegna ökutækja sem færð hafa verið til álestrar á álestrartímabili, sbr. 3. gr. Ríkisskattstjóri skal jafnframt, sé lesið af ökumæli ökutækis utan álestrartímabils, annast álagningu kílómetragjalds vegna aksturs frá síðasta álestri til álestrardags.
     Ef eigandi eða umráðamaður ökutækis lætur ekki lesa af ökumæli þess á álestrartímabili skal ríkisskattstjóri áætla þungaskatt. Áætlun skal svara til þess að ökutækinu hafi verið ekið 8.000 km á mánuði, nema fyrirliggjandi gögn bendi til þess að akstur kunni að hafa verið meiri. Þó skal áætlun vegna fólksbifreiða sem falla undir 2. mgr. 6. gr. nema sem svarar til þess að bifreiðinni hafi verið ekið 2.000 km á mánuði. Ríkisskattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og skattgreiðanda um áætlanir sem gerðar hafa verið. Komi eigandi eða umráðamaður með ökutæki til álestrar utan álestrartímabils skal álestur tekinn sem kæra og sendur ríkisskattstjóra til ákvörðunar. Komi eigandi eða umráðamaður, sem sætt hefur áætlun á fyrri gjaldtímabilum, með ökutæki til álestrar á álestrartímabili gjaldtímabils sem ekki hefur verið áætlað fyrir skal álagning miðast við að allur aksturinn hafi átt sér stað á því.
     Til viðbótar áætlun og álagningu skv. 2. mgr. skal bætt við álagi sem skal vera 1% af fjárhæð þungaskatts fyrir hvern dag sem dregið hefur verið að koma með ökutækið tilálestrar fram yfir lok álestrartímabils. Álag skal vera að hámarki 10% af fjárhæð þungaskatts. Gjalddagi álags skal vera sá sami og gjalddagi þungaskatts. Fella má niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og getur ríkisskattstjóri metið það í hverju tilviki hvað teljist gildar ástæður í þessu sambandi.
     
     c. (14. gr.)
     Berist ríkisskattstjóra, fyrir eða eftir álagningu, tilkynning um að ökutæki hafi heimildarlaust verið í umferð án þess að vera búið ökumæli, akstur hafi verið ranglega færður eða ekki færður í akstursbók, ökumælir hafi verið óvirkur, innsigli verið rofið eða mælir talið of lítið eða telji ríkisskattstjóri að öðru leyti að akstur ökutækis hafi verið meiri en álestur af ökumæli gefur til kynna skal hann tilkynna eiganda eða umráðamanni ökutækisins skriflega um fyrirhugaða endurákvörðun vegna vantalins aksturs og skora á hann að láta í té skýringar og gögn innan a.m.k. fimmtán daga. Berist ríkisskattstjóra fullnægjandi skýringar eða gögn innan frests endurákvarðar hann skatt á grundvelli fyrirliggjandi gagna, en að öðrum kosti endurákvarðar hann skatt skv. 2. mgr.
     Endurákvörðun vegna vantalins aksturs skal nema sem svarar til 2.000 km aksturs fyrir hverja byrjaða viku sem talið verður að akstur hafi verið vantalinn, nema fyrirliggjandi gögn bendi til þess að akstur kunni að hafa verið meiri. Þó skal endurákvörðun vegna vantalins aksturs bifreiða sem falla undir 2. mgr. 6. gr. nema sem svarar til 500 km aksturs fyrir hverja byrjaða viku sem talið verður að akstur hafi verið vantalinn. Ríkisskattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og skattgreiðanda um endurákvörðun.
     Verði talið að akstur á því tímabili sem endurákvörðun nær til hafi að einhverju leyti komið fram á kílómetrastöðu ökumælis skal sá akstur koma til frádráttar við endurákvörðun.
     
     d. (15. gr.)
     Berist ríkisskattstjóra tilkynning eftirlitsmanna um að heildarþyngd ökutækis með farmi hafi mælst vera meiri en sem nemur gjaldþyngd þess skal hann tilkynna eiganda eða umráðamanni ökutækisins skriflega um fyrirhugaða endurákvörðun vegna vanreiknaðrar gjaldþyngdar og skora á hann að láta í té skýringar og gögn innan a.m.k. fimmtán daga. Berist ríkisskattstjóra ekki fullnægjandi skýringar eða gögn eiganda eða umráðamanns innan frests endurákvarðar ríkisskattstjóri skatt vegna vanreiknaðrar gjaldþyngdar.
     Endurákvörðun vegna of lágrar gjaldþyngdar, sbr. 1. mgr., skal nema sem svarar til mismunar á kílómetragjaldi gjaldþyngdar og þeirrar þyngdar er mælist við eftirlit. Endurákvörðun skal ná til alls aksturs ökutækisins á síðustu sextíu dögum áður en mæling fer fram.
     Hafi gjaldþyngd ökutækis verið rangt skráð í álestrarskrá ökutækja er heimilt að endurákvarða þungaskatt miðað við rétta gjaldþyngd vegna aksturs ökutækisins frá því er gjaldþyngd var skráð.
     
     e. (16. gr.)
     Heimild til endurákvörðunar skatts skv. 12., 14. og 15. gr. nær til þungaskatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári er endurákvörðun fer fram. Verði skattskyldum aðila eigi um það kennt að þungaskattur var vanálagður er þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á.
     
     f. (17. gr.)
     Eiganda og/eða umráðamanni ökutækis er heimilt að kæra til ríkisskattstjóra álagningu þungaskatts skv. 3. og 13. gr. innan þrjátíu daga frá því að skatturinn var ákvarðaður.
     Heimilt er að kæra endurákvörðun skv. 12., 14. og 15. gr. og úrskurð ríkisskattstjóra um kæru skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar. Kærufrestur er þrjátíu dagar frá póstlagningu endurákvörðunar eða úrskurðar ríkisskattstjóra. Yfirskattanefnd kveður upp fullnaðarúrskurð.
     
     g. (18. gr.)
     Brjóti eigandi eða umráðamaður ökutækis af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gegn ákvæðum laga þessara, svo sem með því að ökutæki hafi heimildarlaust verið í umferð án þess að vera búið ökumæli, skráning þess í ökutækjaskrá hafi verið röng, ökumælir hafi verið óvirkur, innsigli verið rofið, mælir talið of lítið, ekki hafi verið komið með ökutæki til álestrar innan þrjátíu daga frá lokum álestrartímabils, akstur verið ranglega færður eða ekki færður í akstursbók eða heildarþyngd ökutækis með farmi hafi verið meiri en gjaldþyngd þess, skal hann greiða sekt allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem ætla má að hann hafi dregið undan eða ofendurgreidd hafi verið. Sekt samkvæmt þessari grein skal nema að lágmarki tvöfaldri þeirri fjárhæð sem ætla má að dregin hafi verið undan eða ofendurgreidd hafi verið. Séu brot stórfelld eða ítrekuð gegn lögum þessum má auk sektar beita varðhaldi eða fangelsi. Tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
     Ef skattrannsóknarstjóri ríkisins telur að brot skv. 1. mgr. varði ekki þyngri refsingu en sekt er honum heimilt að ljúka máli með því að gefa eiganda eða umráðamanni ökutækis kost á að greiða sekt, sem greiðist innan tveggja mánaða, í stað sektarmeðferðar skv. 19. gr. Sé sekt greidd innan þess tíma telst máli vera lokið af hálfu skattyfirvalda. Greiðist sekt ekki fer um sektarmeðferð skv. 19. gr.
     Hafi eigandi eða umráðamaður ökutækis brotið gegn 1. mgr. án þess að talið verði að akstur hafi verið vantalinn skal ríkisskattstjóri ákvarða honum sekt að lágmarki 5.000 kr. en að hámarki 50.000 kr. Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er kæranleg til yfirskattanefndar innan þrjátíu daga frá póstlagningu ákvörðunar. Sektarfjárhæð, sem ríkisskattstjóri ákvarðar, dregst frá sektarfjárhæð skv. 1. og 2. mgr.
     Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.
     
     h. (19. gr.)
     Yfirskattanefnd úrskurðar sektir skv. 1. mgr. 18. gr., nema máli sé vísað til opinberrar rannsóknar og dómsmeðferðar skv. 2. mgr. Úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður. Vararefsing fylgir ekki sektarúrskurðum nefndarinnar.
     Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur eftir kröfu sökunauts eða af sjálfsdáðum vísað máli til opinberrar rannsóknar.
     Sök skv. 18. gr. fyrnist á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins eða rannsóknarlögreglustjóra ríkisins gegn skattaðila sem sökunaut, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.
     
     i. (20. gr.)
     Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
     Um þau atriði, sem ekki er kveðið sérstaklega á um í lögum þessum, fer samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á.

16. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Ákvæði laga þessara um álagningu þungaskatts, svo og um áætlun á þungaskatti og álag á skattinn ef mætt er of seint eða ekki er mætt í álestur, skulu gilda við álagningu þungaskatts vegna aksturs á öðru gjaldtímabili ársins 1996. Ákvæði laganna um skyldu til skráningar í akstursbók, eftirgjöf þungaskatts, endurákvörðun og refsingu skulu gilda um akstur frá upphafi þriðja gjaldtímabils ársins 1996, 11. júní 1996. Ákvæði laganna um málsmeðferð vegna brota á lögum nr. 3/1987 skulu gilda um brot sem framin voru fyrir gildistöku laga þessara.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal ákvæðum þessara laga frá gildistöku þeirra ætíð beitt við ákvörðun þungaskatts vegna aksturs á fyrri gjaldtímabilum, að því leyti sem þau eru ívilnandi fyrir greiðendur skattsins.

II.
     Frá og með 1. ágúst 1996 falla úr gildi heimildir sem verkstæðum hafa verið veittar til ísetningar og úrtöku ökumæla og mælabúnaðar. Verkstæði, sem óska eftir að fá slíka heimild, skulu sækja um það til ríkisskattstjóra.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1996.