Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1181, 120. löggjafarþing 450. mál: meðferð opinberra mála (ákæruvald).
Lög nr. 84 12. júní 1996.

Lög um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum.


1. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     1. Með ákæruvald fara ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri.
     2. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Hann skal skipaður af forseta Íslands og fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti við Hæstarétt. Hann skal njóta sömu lögkjara og hæstaréttardómarar, eftir því sem við verður komið.
     3. Ríkissaksóknari hefur embættisskrifstofu í Reykjavík. Honum til aðstoðar eru vararíkissaksóknari og saksóknarar sem dómsmálaráðherra skipar. Skal vararíkissaksóknari fullnægja sömu lagaskilyrðum og ríkissaksóknari en aðrir saksóknarar skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara. Ríkissaksóknari ræður annað starfslið við embætti sitt.
     4. Dómsmálaráðherra er heimilt að skipa saksóknara við einstök embætti lögreglustjóra, þar á meðal embætti ríkislögreglustjóra, til að annast saksókn og málflutning samkvæmt lögum þessum í umboði þeirra. Saksóknarar skulu fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara.

2. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna orðast svo: Nú telur dómsmálaráðherra að ákvörðun um að fella niður mál, þar á meðal skv. 2. mgr. 114. gr., sé lögum andstæð eða fjarstæð að öðru leyti, og getur hann þá lagt til við forseta Íslands að ákvörðunin skuli felld úr gildi.

3. gr.

     27. gr. laganna orðast svo:
     1. Ríkissaksóknari skal, eftir því sem unnt er, fylgjast með því að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum.
     2. Ríkissaksóknari gefur út almenn fyrirmæli um meðferð ákæruvalds. Hann hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum.
     3. Ríkissaksóknari höfðar opinber mál ef um er að ræða eftirgreind brot á almennum hegningarlögum:
 1. brot á ákvæðum X.–XVI. kafla laganna,
 2. brot á ákvæðum XVII. kafla laganna, öðrum en 155.–158. gr.,
 3. brot á ákvæðum XVIII.–XXII. kafla laganna,
 4. brot á ákvæðum XXIII. kafla laganna, öðrum en 215. og 219. gr., ef brot tengist broti á umferðarlögum, og 217. gr.,
 5. brot á ákvæðum XXIV. og XXV. kafla laganna, öðrum en 231. og 232. gr.,
 6. brot á 251. og 252. gr. laganna.

     4. Ef háttsemi felur í sér annað eða önnur brot en tilgreind eru í 3. mgr., auk brots eða brota sem þar eru greind, tekur ríkissaksóknari ákvörðun um það hvort hann höfðar málið sjálfur eða hvort lögreglustjóri gerir það.
     5. Ríkissaksóknari getur gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta. Hann getur kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni.
     6. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um áfrýjun máls.

4. gr.

     28. gr. laganna orðast svo:
     1. Lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri, höfða önnur opinber mál en þau sem ríkissaksóknari höfðar skv. 3. mgr. 27. gr. Ríkissaksóknari getur þó tekið ákvörðun um saksókn í sínar hendur, þar á meðal gefið út ákæru, hvenær sem hann telur þess þörf.
     2. Lögreglustjóri vísar máli til ákvörðunar ríkissaksóknara ef hann telur að mál eigi að höfða í öðru umdæmi, ef hann telur sig vanhæfan eða ef mál er vandasamt, m.a. þegar vafi leikur á um hvort mál skuli höfða. Ef ríkissaksóknari telur, að athugun lokinni, ástæðu til að höfða mál gerir hann það sjálfur eða leggur fyrir lögreglustjóra að gera það.
     3. Nú hefur lögreglustjóri ákveðið að falla frá saksókn skv. 113. gr., og ber honum þá að tilkynna ríkissaksóknara það. Ef ríkissaksóknari telur að ekki hafi verið efni til að falla frá saksókn getur hann, innan tveggja mánaða frá því að sú ákvörðun var tekin, ákveðið að höfða mál sjálfur eða lagt fyrir lögreglustjóra að gera það.
     4. Lögreglustjóri, þar á meðal ríkislögreglustjóri, sem stýrt hefur rannsókn brots höfðar að jafnaði opinbert mál vegna brotsins, nema ríkissaksóknari höfði mál samkvæmt lögum þessum.
     5. Dómsmálaráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um verkaskiptingu milli ríkislögreglustjóra og annarra lögreglustjóra skv. 1. mgr.

5. gr.

     Í stað orðanna „rannsóknarlögreglustjóra ríkisins“ í 1. mgr. 29. gr. laganna kemur: ríkislögreglustjóra.

6. gr.

     Í stað orðanna „Rannsóknarlögreglu ríkisins“ í 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: ríkislögreglustjóra.

7. gr.

     Í stað orðsins „Lögreglumönnum“ í 1. mgr. 97. gr. laganna kemur: Lögreglu.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 98. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Lögreglumönnum“ í upphafi greinarinnar kemur: Lögreglu.
 2. E- og f-liðir falla brott.


9. gr.

     4. mgr. 113. gr. laganna orðast svo:
     4. Í málum þar sem lögreglustjóri fer með ákæruvald getur hann fallið frá saksókn. Ef hann telur ástæðu til að falla frá saksókn skv. 2. mgr. en vafa leika á heimild til þess skal hann senda ríkissaksóknara málið með tillögum sínum.

10. gr.

     114. gr. laganna orðast svo:
     1. Nú er mál fellt niður skv. 112. gr. eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr. og skal ákærandi sem þá ákvörðun tók tilkynna sakborningi hana og ef því er að skipta þeim sem misgert hefur verið við. Í tilkynningu skal tiltekið við hvaða lagaheimild ákvörðunin styðst.
     2. Sá sem ekki vill una við ákvörðun lögreglustjóra skv. 1. mgr. getur kært hana til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana. Skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún berst honum, nema svo standi á sem í 3. mgr. 28. gr. segir.

11. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.

12. gr.

     Við gildistöku laga þessara breytast eftirtalin ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 17/1962 og nr. 20/1981:
 1. Í stað orðanna „saksóknara ríkisins“ í 1. mgr. 56. gr. laganna kemur: ákæranda.
 2. Í stað orðsins „saksóknari“ í 2., 5. og 6. mgr. 56. gr., 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 58. gr. og 1.–3. mgr. 59. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarfalli): ákærandi.
 3. Í stað orðanna „(rannsóknarlögreglustjóra ríkisins)“ í 1. mgr. 59. gr. laganna kemur: (ríkislögreglustjóra).


Samþykkt á Alþingi 4. júní 1996.