Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 280, 121. löggjafarþing 71. mál: íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins (leiga, sala embættisbústaða).
Lög nr. 134 13. desember 1996.

Lög um breyting á lögum nr. 27/1968, um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein:
     Þar sem ákveðið er að leggja starfsmanni til húsnæði skal gera skriflegan húsaleigusamning á þar til gerðu eyðublaði, útgefnu af fjármálaráðuneyti. Slíkur leigumáli fellur niður án sérstakrar uppsagnar ef um leigjanda eiga við einhver þau atvik sem upp eru talin í 25. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt fellur leigumáli niður án sérstakrar uppsagnar ef leigjandi segir starfinu upp eða er sagt upp á grundvelli gagnkvæms uppsagnarfrests í ráðningarsamningi eða vegna þess að fyrir fram umsömdum ráðningartíma er lokið. Ákvæði gildandi húsaleigulaga um uppsögn ótímabundins leigumála eiga við að öðru leyti.

2. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Þeim starfsmönnum ríkisins, er hafa afnot íbúðarhúsnæðis samkvæmt lögum þessum, ber að greiða ríkissjóði leigu fyrir húsnæðið. Húsaleigugjaldið skal ákveðið með reglugerð og miðast við markaðsleigu. Þar sem eðlilegur húsaleigumarkaður er ekki fyrir hendi skal þó miða húsaleigu við brunabótamat, staðsetningu og notagildi. Heimilt er að setja í reglugerð viðmiðunarreglur um lágmark og hámark leigu sem taki breytingum eftir vísitölu.

3. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins innan þeirra svæða þar sem eðlilegur markaður hefur skapast fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu, sbr. reglugerð er sett verður skv. 11. gr., skal selja þegar í stað er núverandi leigutakar þess hverfa úr því eða láta af störfum. Heimilt er þó að fresta sölu ef slík frestun er bersýnilega hagkvæm fyrir ríkissjóð.
     Sala fasteigna skv. 1. mgr. þessarar greinar skal fara eftir ákvæðum laga nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum, og reglum settum samkvæmt þeim.

4. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Fjármálaráðherra er heimilt án auglýsingar að selja ríkisstarfsmönnum með sérstökum kjörum það húsnæði sem þeir hafa nú á leigu og búa í, enda sé húseignin staðsett í byggðarkjarna með fleiri en 1.000 íbúum. Í þeim sérstöku kjörum felst að ríkissjóður láni allt að 30% kaupverðs. Lánin séu verðtryggð, með sömu vöxtum og húsbréf Húsnæðisstofnunar ríkisins, og til allt að 15 ára. Innlausnarskylda hvíli á eignunum í allt að fimm ár. Í reglugerð, sem sett verður skv. 11. gr., skal nánar kveðið á um framkvæmd þessa. Með sama hætti er ráðherra heimilt að selja slíkt húsnæði í byggðarkjörnum með færri en 1.000 íbúum ef þeir sem í húsnæðinu búa óska eftir kaupum.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu er heimilt að fella meginmál þeirra inn í lög nr. 27/1968, um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, og gefa þau út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 1996.