Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 683, 121. löggjafarþing 172. mál: vinnumarkaðsaðgerðir.
Lög nr. 13 13. mars 1997.

Lög um vinnumarkaðsaðgerðir.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Markmið þessara laga er að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu.

2. gr.

     Vinnumarkaðsaðgerðir eru samkvæmt lögum þessum aðgerðir sem eru gerðar að tilhlutan hins opinbera til þess að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu og sjá atvinnulífinu fyrir hæfu starfsfólki.

II. KAFLI
Vinnumálastofnun.

3. gr.

     Vinnumálastofnun, sem heyrir undir félagsmálaráðherra, fer með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu.
     Ráðherra skipar forstjóra Vinnumálastofnunar til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar.
     Forstjóri annast daglega stjórn stofnunarinnar og ræður starfsfólk hennar.

4. gr.

     Verkefni Vinnumálastofnunar eru:
 1. Að hafa eftirlit með svæðisvinnumiðlunum og samræma starfsemi þeirra.
 2. Að veita starfsfólki svæðisvinnumiðlana faglega aðstoð og fræðslu.
 3. Að afla upplýsinga frá svæðisvinnumiðlunum um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur.
 4. Að vinna úr upplýsingum frá svæðisvinnumiðlunum og koma niðurstöðum, ábendingum og tillögum um vinnumarkaðsaðgerðir á framfæri við stjórn stofnunarinnar.
 5. Að fylgjast með þróun erlendis í vinnumarkaðsmálum og miðla upplýsingum um hana til hlutaðeigandi aðila.
 6. Að miðla í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar upplýsingum um vinnumarkaðsmál hér á landi til erlendra aðila.

     Ráðherra getur með reglugerð falið stofnuninni fleiri verkefni en kveðið er á um í 1. mgr.

III. KAFLI
Stjórn Vinnumálastofnunar.

5. gr.

     Félagsmálaráðherra skipar stjórn Vinnumálastofnunar til fjögurra ára í senn.
     Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasamband Íslands, Vinnumálasambandið, Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs tilnefna einn aðalmann og einn varamann hvert í stjórnina.
     Ráðherra skipar án tilnefningar tvo aðalmenn í stjórnina, formann og varaformann, svo og varamenn þeirra.
     Láti stjórnarmaður af störfum áður en fjögurra ára tímabilið rennur út skal nýr aðili einungis skipaður til loka tímabilsins.
     Forstjóri Vinnumálastofnunar skal sitja fundi stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétti.

6. gr.

     Stjórn Vinnumálastofnunar skal funda eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði.
     Stjórnin skal reglulega halda samráðsfundi með fulltrúum aðila sem eiga sérhagsmuna að gæta á vinnumarkaðinum og ekki eiga fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Enn fremur skulu haldnir reglulegir samráðsfundir með aðilum sem hafa yfir að ráða sérþekkingu á vinnumarkaðinum.

7. gr.

     Stjórn Vinnumálastofnunar skal fylgjast með þróun vinnumarkaðarins á hverjum tíma og gera tillögur til félagsmálaráðherra um vinnumarkaðsaðgerðir.
     Stjórnin skal vera umsagnaraðili um lagafrumvörp og stjórnvaldsreglur sem snerta vinnumarkaðinn.
     Stjórnin skal árlega, eða oftar eftir því sem tilefni er til, gefa ráðherra skýrslu um þróun vinnumarkaðarins og árangur vinnumarkaðsaðgerða. Ráðherra skal á grundvelli skýrslna stjórnarinnar gera Alþingi árlega grein fyrir þróun mála á vinnumarkaðinum.
     Stjórnin hefur umsjón og eftirlit með rekstri og starfsemi Vinnumálastofnunar. Árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir forstjóra Vinnumálastofnunar skulu lagðar fyrir stjórnina til samþykktar áður en þær eru lagðar fyrir félagsmálaráðherra.

IV. KAFLI
Svæðisvinnumiðlanir.

8. gr.

     Landið er eitt vinnusvæði en svæðisvinnumiðlanir starfa á ákveðnum svæðum. Félagsmálaráðherra ákveður umdæmi þeirra og staðsetningu að fengnum tillögum stjórnar Vinnumálastofnunar. Staðarval skal miðast við að sem flestir íbúar umdæmisins eigi greiðan aðgang að þjónustu svæðisvinnumiðlunar. Svæðisráð svæðisvinnumiðlunar ákvarðar nánara fyrirkomulag skráningar atvinnulausra innan svæðis.
     Vinnumálastofnun er heimilt, að fenginni umsögn svæðisráðs og stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að semja við sveitarfélög eða aðra aðila um að annast verkefni svæðisvinnumiðlunar, sbr. 10. gr. Slíkir samningar skulu staðfestir af félagsmálaráðherra.

9. gr.

     Forstjóri Vinnumálastofnunar ræður forstöðumann svæðisvinnumiðlunar að fenginni umsögn svæðisráðs.
     Forstöðumaður annast daglega stjórn svæðisvinnumiðlunar í samræmi við starfsáætlun samþykkta af svæðisráði.

10. gr.

     Verkefni svæðisvinnumiðlunar eru:
 1. Að aðstoða atvinnuumsækjendur við atvinnuleit og atvinnurekendur við að útvega hæft starfsfólk.
 2. Að taka saman og miðla upplýsingum um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur til svæðisráðs og Vinnumálastofnunar.
 3. Að veita upplýsingar og ráðgjöf um starfsval og starfsmenntun.
 4. Að miðla upplýsingum um laus störf og umsóknum um störf til annarra svæðisvinnumiðlana.
 5. Að sjá til þess að atvinnulausir eigi kost á ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi eða starfsþjálfun, sem miðast við þarfir og aðstæður hvers og eins og hafa það að markmiði að auka starfsgetu og starfsmöguleika hins atvinnulausa.
 6. Að annast skráningu atvinnulausra, gefa út vottorð um atvinnuleysi og miðla upplýsingum og gögnum til úthlutunarnefnda.
 7. Að hafa eftirlit með því að umsækjendur um atvinnuleysisbætur fullnægi skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar og tilkynna úthlutunarnefnd ef rökstudd ástæða er til þess að ætla að svo sé ekki.

     Stjórn Vinnumálastofnunar og svæðisráð geta falið svæðisvinnumiðlunum fleiri verkefni en kveðið er á um í 1. mgr.

V. KAFLI
Svæðisráð.

11. gr.

     Félagsmálaráðherra skipar á hverju svæði, að afloknum reglubundnum sveitarstjórnarkosningum, níu manna ráðgjafarnefnd svæðisvinnumiðlunar sem í lögum þessum er nefnd svæðisráð.
     Svæðisráð skal skipað þremur fulltrúum tilnefndum af samtökum vinnuveitenda og þremur fulltrúum tilnefndum af samtökum launþega á svæðinu. Tveir fulltrúar skulu tilnefndir af sveitarfélögum og einn af framhaldsskólum á svæðinu. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Náist ekki samkomulag um tilnefningu úrskurðar ráðherra um hver skuli tilnefna fulltrúa í ráðið með hliðsjón af því hversu fjölmenn viðkomandi samtök eða sveitarfélög eru á svæðinu og að fenginni umsögn viðkomandi heildarsamtaka. Ráðherra skipar formann og varaformann svæðisráðs úr hópi þeirra sem tilnefndir hafa verið sem aðalmenn.
     Forstöðumaður svæðisvinnumiðlunar skal sitja fundi svæðisráðs með málfrelsi og tillögurétti.
     Svæðisráði er heimilt að skipa úr sínum hópi þriggja manna framkvæmdaráð til að fara með verkefni svæðisráðs eftir nánara umboði ráðsins.

12. gr.

     Svæðisráð skal funda að jafnaði einu sinni í mánuði.

13. gr.

     Svæðisráð skal fylgjast með framvindu atvinnumála á svæðinu og gera tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir. Tillögum sínum skal ráðið beina til stjórnar Vinnumálastofnunar, sveitarfélaga, atvinnuráðgjafa, félagasamtaka og fyrirtækja á svæðinu eftir því sem við á.
     Svæðisráð skal aðstoða svæðisvinnumiðlun við að hrinda í framkvæmd úrræðum fyrir atvinnulausa, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr., m.a. með því að fá þá aðila, sem tilgreindir eru í 1. mgr., til samstarfs um slík úrræði.
     Svæðisráð skal árlega, og oftar eftir því sem tilefni er til, gefa stjórn Vinnumálastofnunar skýrslu um atvinnuástand og árangur vinnumarkaðsaðgerða á svæðinu.

VI. KAFLI
Réttindi og skyldur þeirra sem leita eftir atvinnu og atvinnurekenda sem leita eftir vinnuafli.

14. gr.

     Svæðisvinnumiðlun er skylt að aðstoða alla þá sem hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi við atvinnuleit og val á starfsnámi. Henni er enn fremur skylt að aðstoða atvinnurekendur sem leita eftir almennum upplýsingum um framboð á vinnuafli eða aðstoð við ráðningu starfsfólks. Þjónusta svæðisvinnumiðlunar skal miðast við þarfir hvers og eins.
     Svæðisvinnumiðlun getur synjað þeim um þjónustu sem ítrekað hefur hafnað úrræðum svæðisvinnumiðlunar um aðstoð eða ekki sinnt skyldum sínum gagnvart henni.

15. gr.

     Svæðisvinnumiðlun skal með samkomulagi við hvern einstakan atvinnuleitanda gera starfsleitaráætlun innan tíu vikna frá skráningu. Sé starfsleitaráætlun gerð skulu þar koma fram hugmyndir atvinnuleitanda og fulltrúa svæðisvinnumiðlunar um atvinnumöguleika viðkomandi og hvaða tilboð og aðstoð vinnumiðlun getur veitt, sbr. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga þessara. Áætlunin skal miðast við persónulegar forsendur atvinnuleitandans og atvinnuhorfur í landinu. Enn fremur skulu svæðisvinnumiðlun og hinn atvinnulausi semja um hvernig háttað skuli sambandi þeirra og eftirliti fulltrúa vinnumiðlunar meðan atvinnuleysi viðkomandi varir.
     Ef ágreiningur rís vegna samkomulags um starfsleitaráætlun eða um hvort starfsleitaráætlun skuli gerð getur hvor aðili fyrir sig vísað honum til úthlutunarnefndar, sbr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

16. gr.

     Sá sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum eða sætir missi bóta skal eiga rétt á aðstoð svæðisvinnumiðlunar við að kanna rétt sinn til annarrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélagi.

17. gr.

     Þjónusta svæðisvinnumiðlana skal vera þeim sem leita eftir atvinnu og atvinnurekendum að kostnaðarlausu.

18. gr.

     Allar upplýsingar, sem svæðisvinnumiðlun fær í starfi sínu, hvort sem þær snerta einkamál eða viðskiptahagsmuni, skulu vera trúnaðarmál vinnumiðlunar og þess er upplýsingar veitir að öðru leyti en því sem snertir bein tengsl við miðlun vinnu og starfsráðningar.
     Stjórn Vinnumálastofnunar setur nánari reglur um meðferð upplýsinga varðandi þá sem leita eftir aðstoð svæðisvinnumiðlunar. Reglur þessar skulu staðfestar af ráðherra.

19. gr.

     Atvinnuleitanda er skylt að tilkynna svæðisvinnumiðlun sem hann hefur leitað til ef hann er ráðinn til starfa. Atvinnurekanda er á sama hátt skylt að tilkynna svæðisvinnumiðlun ef einhver þeirra atvinnuleitenda, sem hún hefur vísað á, er ráðinn til starfa.

20. gr.

     Ákvörðun svæðisvinnumiðlunar er unnt að skjóta til stjórnar Vinnumálastofnunar eftir að svæðisráð hefur fjallað um málið.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

21. gr.

     Fyrirtækjum, einstaklingum og félagasamtökum er heimilt að annast milligöngu um ráðningar, enda sé það gert á kostnað atvinnurekenda. Mál vegna brota á þessu skulu varða sektum sem renna skulu í ríkissjóð. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

22. gr.

     Kostnaður af rekstri Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana greiðist af ríkinu.

23. gr.

     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um störf Vinnumálastofnunar og stjórnar hennar og svæðisvinnumiðlana og svæðisráða.

24. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. júlí 1997. Jafnframt falla úr gildi lög um vinnumiðlun, nr. 18/1985, með síðari breytingum, og IX. kafli laga um stjórn efnahagsmála o. fl., nr. 13/1979.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þegar eftir gildistöku laga þessara skal skipa svæðisráð, sbr. 11. gr. laga þessara, sem starfa skulu þar til skipuð hafa verið ný svæðisráð að afloknum næstu reglulegu sveitarstjórnarkosningum.

II.
     Ákvæði laga þessara hagga ekki samþykktum reynslusveitarfélaga um framkvæmd vinnumiðlunar. Ákvæði þetta gildir til 31. desember 1999.

Samþykkt á Alþingi 3. mars 1997.